Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir des. 2006

 

30. des. 2006

 

Við settum loksins ásetningsmerkin í líflömbin í dag. Það hefur dregist fram úr hófi, ég pantaði þau í gegnum MARK 25. okt. Það á ekki að taka nema hálfan mánuð til þrjár vikur að fá þau, en pöntunin misfórst hjá bændasamtökunum, en það kom ekki upp fyrr en í lok nóvember. Pöntunin var þá send aftur til merkjaframleiðandans í Noregi og þau voru svo að koma til afgreiðslu í gær hjá Bjargi sem sér um dreifingu merkjanna

 

29. des. 2006

 

Í dag bættist dráttarvél í vélaflotann á búinu, það er New Holland TS110A, hún er með  á moksturstækjum og er árgerð 2004, keypt hjá Vélaver.

Við Hjalti fórum í bæinn að útrétta ýmislegt, konan fór ekki með af því að hún er með slæmt kvef.

Í kvöld kom Búðarnes fjölskyldan í heimsókn og dvaldi fram á nótt við spjall og góðgerðir hjá Möggu mágkonu.

 

 

 

28. des. 2006

 

Blíðskaparveður var í dag, lengst af hæg suðlæg átt og 8° til 10° hiti. FRÁBÆRT.

Guðmundur á Þúfnavöllum kom í jólaheimsókn í gærkveldi. Við spiluðum við hann hrútaspilið og var það bara nokkuð gaman þegar búið var að lagfæra reglurnar aðeins til að gera það meira spennandi.

Í dag sæddi ég 17 ær hér heima með djúpfrystu sæði, en 22. des voru sæddar 10 ær í Flögu. Þetta er í fyrsta skipti sem sætt er hér með djúpfrystu sæði þannig að þetta er nú hálfgerð tilraun. Það verður spennandi að sjá hver árangurinn verður af þessu, því þetta er að mörgu leyti miklu auðveldara en að vera með ferskt sæði, sem verður að vera komið á staðinn á ákveðnum degi og á réttum tíma.

 

 

  

 

Skriðan 

Skriðan sem féll að kvöldi 20. des. á milli Staðarbakka og Flögu (Af heimasíðu Hörgárbyggðar)

 

27. des. 2006

 

Nú er maður loksins kominn í samband aftur. Símalínan hingað rofnaði að kveldi 20. des. þagar skriða féll hér á milli Staðarbakka og Flögu og hún lokaði veginum líka. Vegagerðin opnaði veginn strax 21. En Síminn var fyrst núna rétt fyrir hádegið að koma línunni í lag. Þetta verða nú að teljast alveg óviðunandi vinnubrögð að hafa símann úti í viku og það á jólunum í ofanálag. Að sjálfsögðu var maður líka netsambandslaus þannig að engar fréttir hafa komið inn á heimasíðuna upp á síðkastið. Ég reyni e.t.v. að bæta úr því við tækifæri.

 

 

16. des. 2006

 

Í dag fórum við í bæinn það er til Akureyrar, það má segja að þetta hafi verið jólatúrinn þótt það sé nú farið svo oft nú til dags í bæinn að það sé erfitt að kalla einhverja eina ferð jólatúr, eins og gert var í gamla daga þegar farin var oftast bara ein ferð frá sláturtíð til jóla. Ég man vel eftir því að það var komið með stóran kassa af eplum, sem sáust ekki á öðrum árstímum, eplalyktin sem kom í bæinn var í minningunni fyrstu merkin um að jólin væru farin að nálgast verulega, þó annar undanfari jólanna sé líka í minningunni eins og hreingerningar og bakstur.

Við fórum nú ekki í margar búðir í gær, vorum að kaupa jólagjafir og í matinn. Ég fór þó í eina búð þar sem má kannski segja að ég hafi keypt jólagjöfina handa sjálfum mér, það var í Verkfæralagernum í Sunnuhlíð, þar keypti ég mér rafmagnstalíu með 800 kg. toggetu, til að nota við heyrúllurnar, hún verður vonandi til að létta störfin í framtíðinni, hún kostaði rétt tæpar 30 þús. kr.

Við fórum líka í Hlíð til tengdamömmu og enduðum svo á því að fara til Guðjóns og Þórhildar með hangikjötslæri, það var mjög gaman að koma til þeirra.

Við komum svo ekki heim fyrr en eftir miðnætti, vorum búin að gefa fénu báðar gjafirnar áður en við fórum.

 

 

 

13. des. 2006

 

Jólaundirbúningur var á fullu í dag, ég var að prenta hið árlega dagatal, myndirnar í því þetta árið eru nær eingöngu teknar í göngunum í haust, þær má sjá hér á heimasíðunni. Við vorum líka að skreyta efrihæðina og er það nú að mestu búið, en eftir er að skreyta niðri og setja upp jólaljósin úti, ég hef nú oft byrjað á útiljósunum en hef ekki treyst mér í það núna í kuldanum vegna þess að ég er með hið versta kvef.

Veður þokkalegt í dag en nokkurt frost.

 

 

 

12. des. 2006

 

Í nótt snjóaði enn ofan á allt sem fyrir var um 20 cm. þetta er nú alveg að verða komið nóg fyrir minn smekk og reyndar miklu meira en það.

Ullin var tekin í dag, við settum hana á sturtuvagninn og fórum með hana út fyrir ofan Flögu á móti flutningabílnum, vegna þess að varla var þorandi að hann færi lengra útaf snjó og hálku.

Gíma er ekki enn fundin, en það fréttist þó af ketti í dag sem gæti verið hún. Það gefur allavega góðar vonir um að hún fari að finnast.

Auður María kom heim til sín frá "Baununum" í gær, sæl og glöð með ferðina.

 

 

 

11. des. 2006

 

Því miður hefur ekkert spurst til hennar Gímu ennþá. Það var auglýst eftir henni í útvarpinu í dag, en það hefur ekki borið árangur enn. Ég set hér inn mynd af henni ef einhver hefur séð hana er hann vinsamlegast beðin um að láta vita af henni.

 

 

 

Gríma

 

9. des. 2006

 

Í dag kom Arnar með börnin með sér, en frúin er víst í djammferð í Kaupmannahöfn. Hann skrapp svo til Akureyrar með Ívar Franz með sér að versla, en Katrín og Gauti voru eftir hér, þau ætla svo öll að gista hér í nótt. Veður gott í dag en í kvöld hvessti með skafrenningi.

 

 

 

 

7. des. 2006

 

Í dag ætlaði Sólveig Elín að koma með kærastann í flugi og sýna okkur hann, en það fór nú á annan veg. Þau ætluðu að koma með Gímu til vetursetu hér, en þegar verið var að fara með hana út í flugvélina slapp hún út úr búrinu sínu og hljóp út í buskann og er ekki fundin enn þegar þetta er ritað kl. 22. Hryllilega sorglegt það, en vonandi finnst hún sem fyrst.

Við Sigrún vorum komin í bæinn að taka á móti þeim en það kom ekkert með vélinni nema dótið hennar Gímu í einum svörtum ruslapoka.  

 

5. des. 2006

 

Í dag fórum við Sigrún til Akureyrar. Ég fór á fund í Búgarði, þar var verið að skipuleggja sæðingar með djúpfrystu hrútasæði og útdeila þeim 205 skömmtum sem komu og eru til skiptanna. Ákveðið var að byrja fram í Eyjafirði 7. til 10. des.  í Gullbrekku og Hólsgerði, 10. til 15. Svertingsstaðir, Laufás og Bárðartjörn, 15. til 17. á Auðnum og svo á að enda hér hjá mér eftir það og fram á milli jóla og nýárs. Ágætlega gekk að skipta sæðinu þannig að það var hægt að fullnægja eftirspurn í hvern hrút fyrir sig.

Við vorum svo að versla og snúast ýmislegt og fórum svo í Hlíð að heimsækja tengda-mömmu, sem var bara nokkuð hress.

Veður var ágætt í dag og færðin eins og best verður ákosið á þessum árstíma.

 

3. des. 2006

 

Við settum svampa í Flöguærnar í dag, það gekk alveg ljómandi, vorum ekki nema 40 mín. að setja í þessar 105 ær.

Rjóma veður var í dag stillt og bjart og hiti um frostmark.

 

1. des. 2006

 

Fullveldisdagurinn upprunninn á þessu herrans ári. Hann var nú nokkuð langur að þessu sinni. Ég þurfti að fara út að gefa um kl. 7 í morgun til að vera kominn niður á Mela um 20 mín. yfir 9, en þar átti að taka mig uppí og fara á sauðfjársæðinganámskeið vestur að Gauksmýri í Húnavatnssýslu. Ég þurfti reyndar að bíða á Melum í einar 45 mín. eftir þeim hinum sem seinkaði þetta mikið. Þeir sem fóru voru Þórarinn í Laufási, Hákon ?, Birgir í Gullbrekku, Rafn Arnbjörns, og Aðalsteinn á Auðnum. Færð var ágæt auður vegur eftir að kom vestur á Öxnadalsheiði og eftir það.

Námskeiðið hófst upp úr kl. 13 og stóð fram að kaffi. Kennari var Þorsteinn Ólafsson og var þetta bóklegt nám, aðallega í að sæða með fersku sæði en einnig frystu og það var það sem við héðan úr Eyjafirðinum vorum að læra, því allir erum við gamalreyndir sæðingamenn með fersku sæði.

Heim kom ég ekki fyrr en kl. að verða 8 í kvöld og þurfti þá að fara að gefa og var ekki búinn að því fyrr en kl. að ganga 10. Orðinn þá nokkuð þreyttur eftir langan og erilsaman dag.

 

 

Flettingar í dag: 16
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 62
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 62188
Samtals gestir: 16915
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 06:28:54
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar