Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir sept. 2014

 

28. sept. 2014

Það var mun betra veður í dag en í gær, þannig að ég bauð frúnni minni í bíltúr í fæðingarbæ hennar, Dalvík. Á leiðinni tók ég þessar haustmyndir.   

Sér að Möðruvöllum.

Þessi mynd er líka tekin neðan við Möðruvelli. Hér er horft til Öxnadals og er Þverbrekkuhnjúkur mest áberandi fyrir miðri mynd.

27. sept. 2014

Það var mikið úrfelli í nótt og dag, ýmist rigning eða slydda þannig að það gránaði alveg niður að girðingum og raunar alveg hér heim eins og glöggt má sjá á bílunum. Þetta er nú í fyrsta skipti í haust sem gránar, þannig að það þarf nú ekki eð kvarta svo mikið yfir haustinu það sem af er. 

24. sept. 2014

Mynd frá því í sumar.

Ég sótti Sigrúnu í  dag, þar sem hún hefur nú lokið sinni þriggja vikna dvöl í Hlíð. Hún er bara ánægð með dvölina þar. Fannst líkt og í Kristnesi starfsstúlkurnar alveg frábærar. Nú tekur aftur við venjuleg rútína hér heima, þar sem Áslaug á Myrká kemur til Sigrúnar virku dagana og Ingimar sjúkraþjálfari kemur tvisvar í viku. Sigrún er ósköp glöð að vera komin heim aftur enda er hún ánægð bæði með aðstoð Áslaugar og þjálfun Ingimars.  

21. sept. 2014

Aðrar göngur voru gengnar í gær og dag í ágætis veðri, en nokkurri mengun frá Holuhraunsgosinu. Við höfðum nokkrar kindur í gær, þegar smalað var hér framan við. Sumar þeirra voru mjög erfiðar viðureignar, en höfðust þó með miklu harðfylgi harðsnúinna gangnamanna og hundsins Tryggs hans Stefáns Lárusar. Aftur á móti sást engin kind í dag þegar Flögudalurinn var genginn. Á myndinni eru þeir Anton og Örn að leggja á Flögudalinn. Ég keyrði þá fram á Háaleiti þar sem þeir hefja svo gönguna, fara þar á ská upp í Sandárdalinn og ganga í gegnum hann og koma svo í botn Flögudals nokkuð í hæfilegri hæð til að taka efstu göngur út hann. Sigrún kom heim úr Hlíð yfir helgina, Sólveig og Tómas Leddi voru líka og hugsuðu um eldamennskuna.

17. sept. 2014

Við fórum á Blönduós í dag í ljómandi veðri, að fylgja sláturfénu eftir. Útkoman var alveg bærileg: Meðalvigt var 17,52 kg á móti 17,60 kg úr 1. slátrun í fyrra. Holdfyllingarflokkun var 10,56 á móti 10,17 á síðasta ári. Fituflokkun reyndist vera 7,32 en var 7,53 í fyrra. Þetta er því aðeins léttara en var í fyrra haust, eins og lifandi þyngdin var búin að gefa til kynna. En holdfyllingar- og fituflokkun kemur verulega betur út.  

13. sept. 2014

Allt féð var rekið inn í dag og lömbin vigtuð. Meðalvigt varð 39,6 kg, sem er örlítið lægra en í fyrra. Lömbin sem eiga að fara í 1. slátrun voru tekin frá og sett út fyrir merki, en allt annað fé var sett fram í stóra-hólf, eins og venja hefur verið að aflokinni vigtun. Á myndinni má sjá hluta af vigtarliðinu.

12. sept. 2014

Mynd úr myndasafni

Í dag var réttað í heldur leiðinlegu veðri, blautt og hryssnigslegt. Réttarstörfin gengu þó vel, en stóðu um tveimur tímum lengur en undanfarin ár. Ástæða þess er að ekki var réttað eftir göngurnar á miðvikudaginn eins og venja hefur verið, vegna þess að bæði menn og kindur voru holdvot eftir daginn. Önnur ástæða fyrir lengri rétt í dag var talsvert fleira fé. Þar kemur til að Stefá Lárus á Ytri Bægisá flutti hér til afréttar í sumar um 250 ær og svo var fleira úr Skagafirði en verið hefur undan farin ár um 280 fjár. Fé sýnist mér koma heldur vænt af fjalli þótt erfitt sé að meta það þegar féð er svona blautt.

11. sept. 2014

Í dag var gengið hér að vestanverðu og Flögudalurinn í blíðskaparveðri, sem var góð uppbót fyrir daginn í gær. Það gekk vel en seint þannig að það var ekki komið að fyrr en um sjöleytið í kvöld. Á myndinni er verið að reka restina inn í réttarhólfið. Áslaug sá aftur um svanga maga fyrir mig í dag og kann ég henni bestu þakkir fyrir dagana báða. Í kvöld komu svo Sigrún og Ragna, þær ætla að sjá um matseldina á réttardaginn á morgun og vigtunardaginn, sem er á laugardaginn. 

10. sept. 2014

  • Kveður í runni, kvakar í mó
  • kvikur þrastasöngur;
  • eins mig fýsir alltaf þó:
  • aftur að fara’ í göngur.

Svo kvað Jónas Hallgrímsson skáld frá Hrauni í Öxnadal. Það er því stutt frá okkar gangnasvæði í dag, aðeins eitt fjall sem að skilur og það fjallið sem Jónas sá í hillingu Ástarstjörnu yfir Hraundranga. 

Það voru já, gengnar 1. göngur hér að austanverðu í dag. Alltaf fylgir göngunum viss spenningur og tilhlökkun, en það er nú ekki laust við að kvíðinn geri líka vart við sig þegar árin færast yfir mann. Myndin var tekin þegar hestafólkið var að leggja af stað í morgun, undir traustri forystu Stefáns á Ytri Bægisá. Eins og sjá má var súld þegar lagt var af stað, sem átti svo eftir að breytast í úrhellisrigningu um miðjan daginn, þannig að þeir gangnamenn sem ekki voru í hlífðarfötum komu alveg bjórvotir úr göngunum. Það stytti reyndar upp síðdegis og fór að skína sól. Það gekk ágætlega í göngunum,ef frá er talin rigningin. Áslaug á Myrká sá um matseldina fyrir mig og sá um að allir fengu hressingu áður en lagt var á stað í morgun og nóg var svo til við heimkomuna til saðningar fyrir þreytta og svanga gangnamenn. Hér má sjá fleiri myndir frá daginum: http://2110.123.is/photoalbums/266889/

3. sept. 2014

Skaparinn skreytir Flögukerlinguna. Í dag fór Sigrún í þriggja vikna hvíldarinnlögn á Hlíð.
Flettingar í dag: 42
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 184
Gestir í gær: 15
Samtals flettingar: 62152
Samtals gestir: 16901
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 11:06:55
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar