Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir okt. 2008

    28. okt. 2008

Stytta af Nonna við Zontahúsið á Akureyri 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Það er orðið ansi vetrarlegt í höfuðstað norðurlands, en þangað brugðum við okkur í dag í hefðbundna innkaupaferð fyrir heimilið og heimsókn til mæðginanna í Ránargötunni. Það var mjög fallegt veður í dag og ýmislegt sem bar fyrir augu. Þessi fallega mynd sýnir Jón Sveinsson (Nonna), sem hefur fengið sér hvítan koll á hattinn sinn, þar sem hann stendur fyrir dyrum úti við Zontahúsið á Akureyri og býður gesti og gangandi velkomna.


    26. okt. 2008

Vetrarljómi yfir Hörgárdalsheiði

  Á þessum öðrum degi vetrar birti til eftir rysjutíð undan genginna daga og nú síðdegis var engu líkara en hafið væri eldgos fram á Hörgárdalsheiði á bak við Grjótárhnjúkinn, eða þá að sprungið hefði þar einhver ægilegur eldhnöttur. Er ekki allavega líklegt að land sem býr yfir slíku töfrasjónarspili náttúrunnar geti áfram fóstrað sín börn? Þrátt fyrir þau áföll, sem siðblindir  forheimskaðir stjórnmálamenn og mammons dýrkandi ofurgráðugir fjármálamenn hafa nú leitt yfir þessa þjóð. Ég held það. Land og þjóð á allavega betra skilið. En til að svo megi verða þarf að klára að skúra út allan óhroðaskít og mála svo yfir hina helbláu hönd með sólroðanslit. Vonarlit um bjartari og betri framtíð. Ekkert él er jú endalaust og myndin sýnir okkur að meira að segja í hinu svartasta éli eigum við ekki bara von, heldur vissu um að aftur komi sól í dal.


    23. okt. 2008

Tryggur litli í snjónum  Þá virðist nú veturinn vera kominn ef marka má snjóinn sem kyngdi niður í nótt, eitthvað á milli 20 og 30 cm. Þetta er nú alltof snemmt ekki einu sinni kominn fyrsti vetrardagur samkvæmt almanakinu. Við settum allt féð inn í gærkveldi vegna slæmrar veðurspár, nema ærnar sem voru út í Flöguhólfum, þær settum við svo inn í dag. Þannig að nú er allt féð inni, enda spáð norðvestan stórhríð í fyrramálið. Eins og sjá má á myndinni var Tryggur litli alveg hissa í morgun að koma út í þennan snjó, enda aldrei upplifað þannig fyribæri fyrr.



    15. okt. 2008

Skrokkar O-1 og E-2  Í dag var slátrað síðustu lömbunum frá okkur á þessu hausti, hjá SAH Afurðum á Blönduósi. Meðalvigt haustsins var eins og fyrsta slátrun benti til heldur lakari en í fyrra haust, eða 16,39 kg. á móti 16,5 kg. 2007 og 16,43 kg haustið 2006. Eins var með gerðarflokkunina hún var nú 10,09, sem er 0,48 lægra en í fyrra, en nánast eins og haustið 2006. Fituflokkun var líka talsvert lægri eða 7,16 á móti 7,61 bæði haustin 2006 og 2007. 
  Ég fékk setta inn á sér rá skrokkana af hrútunum, sem voru skoðaðir í lambhrútaskoðuninni fyrir nokkrum dögum og ekki fengu að lifa. Við Sigrún skoðuðum þá nokkuð ítarlega og bárum saman við lifandi stigunina og tókum líka myndir af þeim til frekari skoðunar síðar. Í flestum tilfellum var ágætt samræmi á milli lifandi stigunar og kjötmatsins. Ég fékk svo lánaðan einn skrokk hjá Gísla sláturhússtjóra, úr næsta partíi á eftir okkur til að mynda með einum skrokknum okkar, sá skrokkur er til vinstri á myndinni og var 13,3 kg. og metinn í  O 1, en skrokkurinn okkar til hægri var 15 kg. og metinn í E 2. Í lifanda lífi fékk hann 85 stig og þar af t.d. 9 fyrir malir og 18,5 fyrir læri. Sem sagt frábær kynbótahrútur, hvort sem hann var metinn lifandi eða dauður. Að mínu mati er nú lítill vafi hver skrokkurinn nýtist betur til matar, því ansi er ég hræddur um að beinaprósentan sé mikið meiri í O skrokknum og hann sé sinaber á móti E skrokknum. Það er því ljóst að talsvert er enn óunnið í sauðfjárræktinni. 


    12. okt. 2008

Tómas Leonard á hestbaki í fyrsta sinn.  Meðfylgjandi mynd var tekin nú á haustdögum, þegar Tómas Leonard brá sér á hestbak í fyrsta sinn á ævinni, með dyggri aðstoð móður sinnar. Þau mæðginin eru búin að dvelja hérna hjá okkur síðan í byrjun sept. Það er búið að vera einstaklega gaman að hafa þau og fylgjast með auknum þroska og getu Tómasar frá degi til dags. Á þessum tíma tók hann t.d. fyrstu skrefin hikandi og valtur á fótunum, en er nú farinn að hlaupa um í eltingaleik við afa sinn.
  En allt á sinn endi og nú ætla Tómas og mamma hans að fara að búa í langömmuhúsi Ránargötu 2. Þau fóru í dag og ætla að vera sína fyrstu nótt þar. Við óskum þeim gæfu og góðs gengis þar og vonandi koma þau oft í heimsókn í sveitina til að sjá ömmu og afa og öll dýrin þeirra. 


    9. okt. 2008

  Lambhrútaskoðun var hér í dag. Alls voru skoðaðir 52 hrútar og af þeim áttum við Sigrún 33.
  Áður en skoðunin hófst vorum við Stefán Lárus á Ytri-Bægisá búnir að fara yfir alla hrútana og stiga þá til að geta borið saman við stigunina hjá nýja ráðunautnum Sigurði Þór Guðmundssyni, en nokkur  óánægja hefur verið með stigun hjá honum meðal bænda hér um slóðir í haust.
  Sigurður Þór stigaði svo lambhrútana aftur og bar saman við stigun okkar Stefáns Lárusar, í sumum tilfellum bar nokkuð á milli, en stundum var þó um samdóma álit að ræða. Endanlegur dómur varð svo Sigurðar Þórs. Ólafur G Vagnsson sá um ómmælinguna. 
  Útkoman má heita ágæt því þessir 33 hrútar okkar Sigrúnar stiguðust að meðaltali upp á 84,7 stig. Læt ég hér fylgja umsögn og myndir af þeim stigahæstu. 

Lambhrútur nr. 710  Lambhrútur númer 710 reyndist hæst stigaður, þegar upp var staðið. Hann er tvílembingur og vó 50 kg. Mældist með 110 mm legg. Ómtölur hans voru: 33 - 2,7 - 4,5. Stigunin var: 8,0 - 9,0 - 9,5 - 9,0 - 9,5 - 19,0 - 8,0 - 8,0 - 8,5, samtals 88,5 stig. Hann er undan Börk 07-175, sem er Krókssonur 05-150 og Dropu 06-674, en hún er undan Baggalút 04-244.
 

Lambhrútur nr. 738

 

  Í öðru sæti varð lambhrútur númer 738. Hann er einnig tvílembingur og vó 45 kg. Hann mældist með 99 mm legg. Ómtölurnar voru: 28 - 2,2 - 4,5. Stigun hans var þannig: 8,0 - 9,0 - 9,5 - 8,0 - 9,0 - 19,5 - 9,0 - 8,0 - 8,0, alls 88 stig. Þessi hrútur er undan Dverg 07-270 (sem var hér hæst stigaður í fyrrahaust með 88 stig) hann er eins og Börkur undan Krók 05-150 og Fésu 06-680, sem er einnig undan Krók 05-150. Þessi hrútur er því mjög skyldleika ræktaður.



  Í þriðja sæti varð svo annar hrútur undan Dverg 07-270, með 87,5 stig í heildina, en því miður er engin mynd til af honum.

Lambhrútur nr. 990  Sá fjórði í röðinni varð svo lambhrútur númer 990. Hann er einlembingur og var 58 kg. Leggur hans mældist 106 mm. Ómtölurnar voru: 36 - 2,4 - 5,0. Hann stigaðist svo: 8,0 - 9,0 - 9,0 - 9,5 - 9,0 - 18,0 - 8,0 - 8,0 - 8,5 samtals 87 stig. Hann er undan Grána 03-957 og Stórugul 05-570.








Lambhrútur nr. 529  Fimmti hrúturinn var númer 529. Sá er tvílembingur og vigtaði 52 kg. Hann mældist með 110 mm legg. Ómtölur voru: 28 - 0,8 - 4,5. Stigunin var þessi: 8,0 - 9,0 - 9,0 - 8,0 - 9,0 - 18,5 - 8,5 - 8,0 - 8,5, alls 86,5 stig.  Þessi hrútur er undan Krók 05-150 og Nóru 03-395, en hún er undan Trölla 02-117.








Lambhrútur nr. 521  Sjötti og síðasti hrúturinn sem gerð verður grein fyrir hér er númer 521. Hann er tvílembingur og vó 56 kg. Framfótarleggur hans mældist 109 mm. Ómtölur hans voru: 34 - 2,2 - 4,0. Og stigaðist svo: 8,0 - 9,0 - 9,0 - 9,0 - 9,0 - 18,5 - 7,5 - 8,0 - 8,0, samtals 86 stig. Lambhrútur þessi er undan Hring 07-170 Garðssyni 05-254, sem er undan Gára 02-904 og Ólínu 04-047, en faðir hennar er Grímur 01-928.





    5. okt. 2008


Allt þarf að færa til bókar  Í dag vorum við að velja lífgimbrarnar. Jósavin (Brói) og Anton voru að hálpa okkur við það. Við Brói stiguðum allar gimbrarnar. Gáfum stig fyrir frampart, bak, malir og læri, einnig mátum við síðufitu sem næst þeim stað, sem hún er mæld á skrokkunum á sláturhúsi. Endanlegt val byggir svo á þessari stigun og ætternismati, sem kemur fyrir hvert lamb á búinu í haustbókinni frá Bændasamtökunum. Margt framúrskarandi gimbra bar fyrir fingurgóma okkar, þannig að það var nóg til af mjög frambærilegum lífgimbrum. 
  Meðal ætternismat valinna lífgimbra, var 105 f. fitu, 123 f. gerð, 102 f. frjósemi og 105 f. mjólkurlagni. Meðal stigun þeirra var þannig að fyrir: Frampart fengu þær 8,5, bak 8,4, malir 8,8 og fyrir læri 18,0. Fitumatið var 2,9 sem myndi líklega þýða um 7,6 í einkunn í sláturhúsi, en gerðarmat á þessum lífgimbrum væri líklega einhvers staðar á bilinu 10,5 til 11.
  Eins og undanfarin ár verða settar á rúmar 100 gimbrar á búinu og eigum við Sigrún um helminginn af þeim.
 

    4. okt. 2008

Bókarar dagsins Helga og Sigrún  Í dag rákum við allar ærnar inn út í Flögu og fórum í gegnum þær. Skoðuð voru númer á öllum ánum og merkt við í bækurnar, að þær væru búnar að skila sér af fjalli. Skoðað var undir hverja á hvort væri í lagi með júgrin á þeim, því ef svo er ekki þarf að fella þær. Veturgamlar og sláturær voru svo teknar frá og reknar hingað heim, en hinar voru svo settar út í Flöguhólf fyrir utan Leyninginn og þar eiga þær að vera þar til farið verður að hýsa.





    1. okt. 2008

  Fyrsti snjór haustsins féll í nótt þannig að alhvít jörð var í morgun og hann tók ekki upp í dag hérna fremst í dalnum.

Sólveig Elín með nýja bílinn í Ránargötu 2

 

 













 




Í dag fórum við Sólveig Elín til Akureyrar. Hún var að fjárfesta í bíl að gerðinni Renault Megane, bláum að lit eins og sést hér á myndinni. Hún er hin ánægðasta með bílinn og vonandi að hann reynist henni vel.

Flettingar í dag: 126
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 61911
Samtals gestir: 16870
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 14:18:32
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar