Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir nóv. 2006

26. nóv. 2006

 

Í dag var ég að klára að ganga frá ullinni. Vigta hana, merkja pokana og flytja hana svo úr fjárhúsunum út í vélageymslu. Heildar magnið sem var rúið í húsunum hjá mér var 483 kg. eða rúmlega 2,2 kg. af kind. Af þessu flokkuðum við Biggi 220 kg. 1. fl.  256 kg. 2. fl. og 7 kg. mislitt.

Öll ull sem er nú til á bænum eru 1.185 kg. í 34 pokum, þar af eru tæp 200 kg. sumarull sem rúin var í sumar.  

GS

 

24. nóv. 2006

 

Fjárræktarfélagsuppgjör og fjárbækur komu í dag með póstinum, fyrir búið hérna og Brakanda. Hvenar heildar uppgjörið kemur er ekki gott að segja, bækurnar frá hinum fálagsmönnunum fóru ekki suður í vinnslu fyrr en síðasta mánudag 20. nóv.

Við skötuhjúin fórum í bæinn í dag að útrétta ýmislegt og svo í heimsókn til tengdamömmu í Hlíð, hún er sæmilega hress núna, en ekkert mjög ánægð með að það á að fara að flytja hana til vegna breytinga á elliheimilinu og svo eiga líka allir að fá einbýli núna á næstunni sem hafa orðið að sætta sig við tvíbýli fram að þessu. En þetta gengur vonandi allt vel fyrir sig.

GS

 

23. nóv. 2006

 

Í kvöld var hér fjallskilanefndarfundur. Meðnefndarmenn mínir þeir Aðalsteinn Heiðmann á Auðnum og Stefán Lárus á Ytri Bægisá 2 mættu hér kl. 20 en klukkutíma síðar mættu svo á fundinn þeir Helgi Steinsson oddviti og Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri. Á fundinum var farið yfir framkvæmd fjallskila í haust sem leið og hugað að því sem þarf að gera fyrir næsta haust. Til framtíðar horft má nefna að það þarf að fara að huga að endurbyggingu Þórustaðaréttar og svo Staðarbakkaréttar, setja erindisbréf fyrir fjallskilanefndina, koma á samstarfshópi um varnir gegn riðu- og garnaveiki og taka til endurskoðunar reglur um álagningu gangnadagsverka t.d. hvernig stofn til álagningar landdagsverka verður til.

Eins og vanalega á þessum fundum var svo Sigrún mín með veislukaffi handa okkur.

GS

 

22. nóv. 2006

 

Ekki skorti nú verkefnin í dag, fyrir hádegi kom Helga Ragnarsdóttir dýralæknir til að sprauta öll lömbin við garnaveiki 117 stykki, svo hreinsaði hún líka hunda og köttinn og sprautaði líka Brussu svo hún verði ekki þunguð. Um hádegið kom svo Biggi að klára að rýja, við byrjuðum kl. 13 og vorum búnir kl. 15:30 með þessar 63 ær sem eftir voru í gær. Alls rúði hann því 218 kindur og tekur 180 kr. á kindina, samtals gerir þetta því 39.240 kr.

Þegar rúningi var lokið sýndi ég Bigga lambhrútana og gimbarnar og leist honum bara vel á sköpulagið á þeim.

Fyrir utan þetta sem upp er talið þurfti svo að sjálfsögðu að gefa fénu bæði mál, reyndar fór ég ekkert í Flögu lét bara nægja, að ærnar þar hafa aðgang að rúllum í grindum úti.

Veður var stillt og gott og vægt frost.  

 

 

21. nóv. 2006

 

Birgir í Gullbrekku var að rýja hjá mér í dag, kom kl. 9 í morgun og var að þangað til um kl. 17:30. Anton kom líka í morgun og var að leggja fyrir mig til kl. 13 en þá þurfti hann að fara. Rúnar voru 146 ær og 9 hrútar. Það eru eftir 63 ær og er stefnt að því að klára þær á morgun.

Veður var bjart og stillt þar til í kvöld að fór að mugga, og frostið rokkaði þetta frá 4 og upp í 8 gráður.

 

 

18. nóv. 2006

 

Jæja þá er loksins komin stilla og bjart veður, en þá herti frostið náttúrlega og var svona 14 til 17 stig í dag. Vegurinn var loksins ruddur í gær, en upphaflega var óskað eftir því á mánudaginn, betra er reyndar seint en aldrei.

Auður, Arnar og Ívar Franz komu um hádegið í dag, að sækja Katrínu og Gauta, sem eru búin að vera hér í 11 daga og hefur það gengið ágætlega, þau þurftu að vesenast með okkur úti í illviðrinu til að ná fénu inn, fara með okkur í húsin að gefa og svo voru þau að reyna að halda áfram við lærdóminn til að þau drægjust ekki aftur úr í skólanum.

Gestur í Þríhyrningi kom í dag að sækja lambhrút sem hann keypti af mér í haust.

 

 

15. nóv. 2006

 

Veður var heldur skárra framan af degi en verið hefur undanfarið, en síðdegis fór að hríða og skafa af norðaustri. Við Sigrún og Gauti fórum til Akureyrar um hádegið, færð var orðin mjög þung út fyrir Myrkána en slarkfært þar fyrir neðan. Áður en við fórum á stað hringdi Sigrún í sveitarstjórann til að grennslast fyrir um mokstur á veginum, hún fékk þau svör að búið væri að biðja um mokstur og hann yrði væntanlega framkvæmdur í dag. Með þessar upplýsingar fórum við í bæinn og treystum á að komast heim með góðu móti. Þetta leit nú allt þokkalega út þegar við komum til baka fram í dalinn greinilega búið að moka þó það væri nú heldur illa gert. En þegar við komum fram að Myrkárbakka kom  í ljós að hefillinn hafði snúið þar við, einmitt þegar færðin fór að versna. Við þræluðumst þó heim við illan leik, ég hringdi strax í Pálma hjá Vegagerðinni og spurði hvað þetta ætti að þýða, hann svaraði því til að Vegagerðin sæi ekki um mokstur lengra en að þeim stað sem minnst ábúendur þriggja eldhúsa notuðu veginn. Þetta er gömul tugga hjá honum, en engu að síður brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Vegagerðin heldur því fram að þar sem svona háttar til geti annaðhvort sveitarfélögin séð um moksturinn eða þá bara verið ófært og fólk búið við að ekki sé stundaður skólaakstur, ekki póstflutningur, ekki sorpflutningur, ekki sé hægt að njóta læknisþjónustu í bráðatilfellum og þaðan af síður að sjúkra- og/eða slökkvibílar komist um veginn þegar neyð steðjar að.

Þetta er glæpsamleg afstaða þeirra sem bera ábyrgð á þessu og óviðunandi aðstæður fyrir þá sem verða að búa við þetta.

 

 

13. nóv. 2006

 

Nú er þessi illviðrisdagur að kveldi kominn. Það var snörp norðaustanátt og éljagangur í dag, það skóf talsvert og var nokkurt dimmviðri þó ekki væri nú alveg blind stórhríð, eins og víða var á norðanverðu landinu í dag. Við fórum öll á bænum það er við Sigrún, Katrín, Gauti, Brósi og Magga út í Flögu eftir morgunverðinn til að sækja þær ær sem ekki eiga að vera þar í vetur, við tókum Flöguærnar úr 105 og skildum þær eftir í húsunum en rákum hinar hér heim og settum þær inn. Ég fór svo aftur út í Flögu til að gefa ánum, vegna veðurs hleypti ég þeim ekki út heldur gaf þeim inni og brynnti. Á meðan tóku Brósi og Magga ærnar úr sem eiga að vera upp á Bergi í vetur 77 ær, þær voru svo reknar upp á Berg. Það er þá allt fé komið á hús og fulla gjöf, sem er í rauninni alltof snemmt, en það er ekki gott við því að gera þegar kominn er hörku vetur, því er nú verr og miður. Það er dálítið annað en hjá þeim Arnari og Auði sem flatmaga í sólinni á Spáni þessa dagana, þau verða aldeilis hress og endurnærð eftir þetta og geta leyst okkur gömlu hjúin af við búskapinn, að minnstakosti eins og eina langa helgi í vetur.

  

12. nóv. 2006

 

Þá er nú aldeilis komið vetrarríki, snjóaði án afláts seinnipartinn í nótt og alveg fram um nónbil þá stytti loksins upp. Snjódýptin er orðin um 40 cm, sem er að sjálfsögðu alltof mikill snjór á þessum árstíma. Það var spáð hvassviðri líka, sem reyndar kom ekki sem betur fer. Ég dreif mig út í Flögu í morgun þegar ég var búinn að gefa fénu sem er komið inn, til að fara að ná saman ánum sem voru úti í hólfum, það gekk ágætlega að koma þeim heim og inn í hús. Ég fór svo út í Flögu aftur þegar stytti upp og opnaði húsin til að ærnar gætu farið út til að bíta, en snjódýptin er svo mikil að þær gátu verla krafsað og náð niður, þó jörð sé loðin í kringum húsin. Það er nokkuð ljóst að það verður að sækja ærnar út í Flögu á morgun sem eiga að vera hér heima og upp á Berg í vetur, það er að segja ef það verður hægt vegna veðurs, það er nefnilega spáð brjálaðri stórhríð á morgun þegar á daginn líður. Katrín og Gauti kunnu hinsvegar vel að meta snjóinn og voru lengi úti í  kvöld að moka snjó og reyna að gera snjóhús. Við bræður fórum út í Flögu kl. að ganga 11 í kvöld og settum ærnar inn aftur og lokuðum fyrir þeim.

 

10. nóv. 2006

 

Jæja þá er þessi erfiði dagur að kveldi kominn. Það var þýtt og stormur í nótt og alveg fram undir hádegi, þá fór að kólna og koma él og síðan hríð þannig svona að ganga 4 var komin glórulaus stórhríð, hvassviðri og ofankoma. Ég, Sigrún, Katrín og Gauti fórum eftir hádegismatinn að smala ánum sem voru út í Flögu-hólfum, það gekk nú sæmilega til að byrja með en þegar veðrið versnaði svona mikið fór að verða mjög erfitt að berjast með féð á móti illviðrinu, bæði voru þær tregar að fara á móti þessu og svo týndi maður þeim hreinlega í sortann annað slagið. Á endanum hafðist þetta nú samt og tókst að koma öllum ánum heim í Flögufjárhúsin 354 stk. (fann 1 dauða þær áttu að vera 355) Brósi og Magga komu að hjálpa okkur í restina, en þau höfðu farið suður í Sel að sækja veturgömlu ærnar og settu þær inn fyrst. Komum heim kl. 17:30.  Nú eru því allar kindur inni þannig að maður þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim í nótt úti í stórhríðinni.  

 

 

9. nóv. 2006

 

Þá er Auður María orðin 30 ára, til hamingju með það. Hún dvelur nú með sínum heitt elskaða á Spáni í sól og blíðu. Hér spáir hins vega ofsaveðri í nótt og á morgun ekki efnilegt það. Við fórum til Akureyrar í dag að versla fyrir heimilið, ég keypti líka 2 gjafagrindur í Þór og fjárhúsmottur og timbur í Byko. Fékk lánaða kerru hjá Tomma til að flytja þetta heim. Brósi og Magga voru að rýja lömbin hjá sér í gær og dag, þau eru að ég held búin með gimbrarnar.

 

8. nóv. 2006

 

Nokkurt frost var framan af degi, en dró úr því þegar á daginn leið. Börnin hafa verið þæg og góð í dag, fóru út með mér í morgun til að gefa kindunum og aftur seinnipartinn að láta kindurnar inn og gefa þeim. Ég er að endurnýja grindur í fjárhúsunum það sem er farið að gefa sig mest.

 

7. nóv. 2006

 

Katrín og Gauti komu í kvöld, en foreldrarnir héldu áfram til Reykjavíkur. Guðmundur á Þúfnavöllum kom í kvöld til að ganga frá hrútaskránni fyrir Sauðfjárræktarfélagið og fleiru í sambandi við það.

 

6. nóv. 2006

 

  Veðrið er nú gengið niður og orðið bjart og stillt. Jörð er mjög brynjuð og slæmt á jörð nema helst þar sem er loðið undir. Flest féð sem var inni í gær látið út.

  Settum sperðlamatinn í langana og gengum frá til reykingar, alls 64 bjúgu. Féð látið aftur inn síðdegis og gefin heytugga. Frúin bakaði kanelsnúða góða, en húsbóndanum finnst þeir afspyrnu vondir. En hún bætti þetta upp með súkkulaðikornflakes kökum. Svo er von á börnunum á morgun Gauta og Katrínu, þegar foreldrarnir leggja land undir fót og flippa ærlega út, þegar frúin verður 30 ára.

 

 

Flettingar í dag: 4
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 141
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 61930
Samtals gestir: 16879
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 01:40:53
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar