Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir jan. 2010

    31. jan. 2010

Við hjónakornin á blótinu
















    Hér má sjá fleiri myndir frá blótinu í gærkveldi!
    Því miður varð myndavélin rafmagnslaus þannig að
    það eru engar myndir af dansinum.


    30. jan. 2010

    Þorrablót á Melum í kvöld!
    
    26. jan. 2010

Ída Guðrún  Hún Ída Guðrún á afmæli í dag, reyndar bara þriggja mánaða, en það er nú nokkur áfangi fyrir litla manneskju.
  Amma og afi fengu þessa fallegu jólamynd af henni, sem tekin var á aðfangadag og leynir sér ekki að hún er kát og hress og lítur björtum augum á heiminn.
  Amma og afi senda henni og fjölskyldunni allri í Slagelse bestu kveðjur.






Sér norður Hörgárdalinn  Ekki er nú gaddinum fyrir að fara nú í upphafi Þorra, þrátt fyrir að um jólin kyngdi niður heilmiklum snjó. Það er búið að vera þíðviðri að mestu undanfarna daga og rúmlega það tvo þá síðustu, því það hefur verið hávaða rok og 10 til 12° hiti. Þannig að eins og sjá má á myndinni er orðið nánast  alautt á láglendi, aðeins stöku skaflar undir holtum og hæðum. Vonandi að maður verði laus við snjó að mestu það sem lifir vetri. Draumfarir benda raunar til þess.




Tómas Leonard og afi  Tómas Leonard er búinn að vera í sveitinni hjá ömmu og afa síðan á föstudag, svo að mamma hans geti einbeitt sér að lögfræðináminu. 
  Það er nú búið að bralla ýmislegt t.d. að fara í Flögu á stóru dráttarvélinni, það er jú með því allra besta að fá að fara í hana, enda er Tómas einstakur áhugamaður um allar vélar, hefur nú minni áhuga á búsmalanum. 







    22. jan. 2010

Rögnvaldur Árnason  Það er nú svo að eftir því sem árin færast yfir mann, fjölgar kveðjustundunum við samferðafólkið á lífsins braut. Ein slík var í dag, þegar hinn aldni heiðursmaður Rögnvaldur Árnason var kvaddur í Akureyrarkirkju. Kynni mín af honum spanna nú bara hin síðustu ár, en Sigrún er búin að þekkja þau hjónin Rögnvald og Línu allt frá því að hún var um fermingu, eða síðan Rannveig dóttir þeirra og Ívar fósturbróðir hennar byrjuðu sína samferð á lífsleiðinni. Ég fann það fljótt að Sigrúnu fannst mjög vænt um Valda og Línu og þegar við hittum þau stundum í Hlíð, leyndi sér ekki að það var gagnkvæmt. 
  Rögnvaldur var húsgagnasmiður að mennt og starfaði við smíðar allan sinn starfsaldur. Hann var mjög vinnusamur auk þess að vera einstaklega vandvirkur. Hann var ekki sú manngerð, sem talar mikið um hlutina, en framkvæmir minna, þvert á móti lét hann verkin sín tala án þess að hafa um þau mörg orð.
  Við Sigrún þökkum Rögnvaldi góð og traust kynni og óskum honum  blessunar við handverkið í Guðs ríki.



    17. jan. 2010

Hjalti að spila á hljómborðið, en fiðlan bíður á meðan  Í dag lagði hann Hjalti okkar íann austur yfir fjöllin og mamma hans var óróleg að vita hann einan á ferð og hryllti við örnefnum eins og: Mývatnsöræfi, Biskupsháls, Háreksstaðaleið og Jökuldalur. En allt gekk þetta nú ágætlega hjá honum að komast austur í Egilsstaði á sínum 23 ára Fordara, þótt veruleg hálka væri með köflum. Hann var nú óvenju lengi hjá okkur í þessu jólafríi, vegna þess að þegar hann ætlaði að fara um síðustu helgi var hann orðinn lasinn. Okkur þótti það nú ekkert verra að hafa hann einni viku lengur hjá okkur. Það er búið að vera mikið um hljóðfæraleik hér síðan hann kom. Hann lærði á pianó í nokkur ár, þegar hann var í Þelamerkurskóla og núna í vetur er hann í fiðlunámi á Egilsstöðum. Við spiluðum nú saman á síðkvöldum, hann á fiðluna sína og ég af mínum afar takmörkuðu hæfileikum á hljómborðið mitt, sem ég fékk í afmælisgjöf þegar ég var fertugur. Svo var gott að hafa hann við gegningarnar og önnur verk um hátíðarnar. Hann hefur svo gaman af að kíkja á kindurnar og elskar hundana Trygg og Brussu.  


    15. jan. 2010

  Ég fór á fund í nefnd, sem ég var skipaður í af Eyþingi ásamt Ólafi G Vagnssyni og Ástu Fönn Flosadóttur, til að endurskoða fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Eyþings að Strandgötu 29 á Akureyri.
  Við vorum að leggja fyrstu hönd á þetta starf í dag og svo komu til okkar fulltrúar frá öllum sveitarfélögunum nema Akureyri, til að yfirfara núverandi fjallskilasamþykkt og koma með tillögur að úrbótum á henni. Þetta var mjög gagnlegt fyrir okkur í nefndinni að fá þessar ábendingar til að vinna útfrá í framhaldinu.

    14. jan. 2010

Sveinfríður Jóhannsdóttir
  Í dag fórum við í Akureyrarkirkju að kveðja hinstu kveðju, góðan sveitunga okkar Sveinfríði Jóhannsdóttur, sem lést langt um aldur fram á sjúkrahúsinu á Akureyri, þann 7. þ.m. 
  Kynnin við Sveinfríði á Barká, hófust fyrir röskum 20 árum eða þegar þau Hermann keyptu Barká 1986 og hófu þar búskap, sem þau stunduðu svo þar allt til ársins 2007, er þau fluttu til Akureyrar.
  Sveinfríður var ekki þeirrar gerðar að hún ryddi samferðafólki sínu um koll, eða træði því um tær. En hún var styrk stoð fyrir sitt samferðafólk á lífsins leið, ekki aðeins fyrir sína nánustu, heldur var hún og ávallt boðin og búin að rétta fram sína hjálparhönd hvenær sem til hennar var leitað. Hversu oft minnist maður ekki þess, þegar Kvenfélag Hörgdæla stóð fyrir veitingum, að Sveinfríður væri þar að leggja sína gjörvu hönd á plóg. 
  Já, hún Sveinfríður á Barká er horfin yfir hin stóru landamæri alltof fljótt, varð að lúta í lægra haldi fyrir þeim illvíga sjúkdómi sem spyr hvorki um aldur eður annað, þegar hann heggur sín skörð. 
  Við Sigrún þökkum samfylgd Sveinfríðar á lífsins braut og óskum henni Guðs blessunar í nýjum heimkynnum.   


10. jan. 2010


Vetrarroði yfir Hörgárdalnum
  Í dag hefur frændi minn Anton Berg, náð þeim merka áfanga að fylla þrjá tugi æviára sinna. Honum til heiðurs er þessi fallega mynd, sem ég tók í morgun sett hér inn um leið og við  óskum honum innilega til hamingju með þennan áfanga á lífsins leið.
   Það er búin að vera þó nokkur hláka núna í um tvo sólarhringa og eins og sjá má á myndinni hefur tekið ótrúlega mikið upp af þeim mikla snjó, sem setti hér niður um jólin. 


    5. jan. 2010

Dimmur dagur  Það var dimmur sorgardagur í sögu þjóðarinnar í dag. Forseti lýðveldisins tók þá óheilla ákvörðun að valda þjóðinni óbætanlegu tjóni, með því að undirrita ekki lög um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum að greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. 
  Þetta mun í besta falli valda tímabundnum skaða, svo sem seinkun á uppbyggingu efnahagslífsins hér á landi eftir hrunið mikla haustið 2008, en þetta gæti líka valdið langvarandi og verulegum fjárhags- og trúverðugleikaskaða fyrir Íslendinga. Forsetinn er raunar samkvæmur sjálfum sér, með því að halda sig áfram í hópi þeirra sem ollu hruninu mikla, en grunnurinn að því var lagður með langvarandi samstjórn sjálfstæðis- og framsóknarmanna, sem ásamt og með forsetanum dásömuðu útrásarvíkingina og auðvelduðu þeim með öllum tiltækum ráðum að stunda sín glæpaverk. Ég get ekki einu sinni sagt Guð fyrirgefi þeim, því þau vita ekki hvað þau gjöra. Slík forheimska getur ekki rúmast innan heilu stjórnmálaflokkanna og forsetans að það sé hægt að biðja þeim vægðar á þeirri forsemdu.

  Úr þessu er ekkert annað hægt að gera en vona að meirihluti þjóðarinnar sé svo skynsamur og beri gæfu til þess að samþykkja lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu og geti þannig komið í veg fyrir alvarlegan skaða, sem forsetinn og stjórnarandstaðan vilja valda þjóðinni. 


   3. jan. 2010

Farið með Háleit í Þúfnavelli  Í dag fórum við Hjalti, með hana Háleit niður í Þúfnavelli. Hún Háleit er forystuær og þurfti að komast í kynni við hrút af sama kynstofni til að ástunda ástarleik. Þess vegna fórum við með hana í Þúfnavelli, þar er hrúturinn Grímur, sem Guðmundur keypti í fyrrahaust, af hinum þekkta ræktanda forystufjár Grími í Klifshaga í Öxarfirði. Það ættu því að fæðast hér á vori komandi vænleg forystulömb.





Guðmundur og Hjalti  Í kvöld kom svo Guðmundur í jólaboð hingað og á myndinni má sjá þá vinina Guðmund og Hjalta sesta að kræsingum frúarinnar minnar.













    1. jan. 2010  Nýársdagur

            Guð gefi að árið 2010 verði Íslendingum gott og gjöfult!

Nýárssólin gyllir Flögukerlinguna

                                    Hvað boðar nýárs blessuð sól?
                                    Hún boðar náttúrunnar jól,
                                    hún flytur líf og líknarráð,
                                    hún ljómar heit af Drottins náð.

                                    Sem Guðs son forðum gekk um kring,
                                    hún gengur ársins fagra hring
                                    og leggur smyrsl á lífsins sár
                                    og læknar mein og þerrar tár.

                                    Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
                                    þú barn, sem kvíðir vetrarþraut,
                                    í sannleik hvar sem sólin skín
                                    er sjálfur Guð að leita þín.

                                    Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
                                    og heimsins yndi stutt og valt,
                                    og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
                                    í hendi Guðs er jörð og sól.

                                    Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
                                    hann heyrir barnsins andardrátt,
                                    hann heyrir sínum himni frá
                                    hvert hjartaslag þitt jörðu á.

                                    Í hendi Guðs er hver ein tíð,
                                    í hendi Guðs er allt vort stríð,
                                    hið minnsta happ, hið mesta fár,
                                    hið mikla djúp, hið litla tár.

                                    Í almáttugri hendi hans
                                    er hagur þessa kalda lands,
                                    vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
                                    þótt búum við hin ystu höf

                                    Vor sól og dagur, herra hár,
                                    sé heilög ásján þín í ár.
                                    Ó, Drottinn, heyr vort hjartans mál,
                                    í hendi þér er líf og sál.

        Svo orti presturinn og skáldið Matthías Jochumsson árið 1886.
        Er ekki merkilegt hvað þessi sálmur hans heldur gildi sínu og talar
        af mætti og orðsnilld til okkar enn í dag?

Flettingar í dag: 121
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 61906
Samtals gestir: 16868
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 11:35:49
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar