Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir júlí 2009

    25. júlí 2009

Fjölskyldan í Bárðardal 
   Í dag fórum við systkinin á Staðarbakka ásamt skylduliði, austur í Bárðardal og drukkum síðdegiskaffið í Hótel Kiðagili. Þetta er búinn að vera árviss viðburður um langt árabil að fara eitthvað um það leyti, sem mamma átti afmæli, en það er 29. júlí. Hún tók sjálf upp þennan sið, að bjóða okkur í afmæliskaffi, meðal annars var hún búin að bjóða okkur oftar en einu sinni í Bárðardalinn. Við höfum svo reynt að halda þessari venju við. Það var nokkuð vel mætt að þessu sinni. Veður var bjart, en norðan sveljandi.
Fleiri myndir frá deginum má sjá  hér

    21. júlí 2009

Auður María Þórhallsdóttir  Þá eru Auður María og börnin hennar þrjú búin að yfirgefa sveitina að þessu sinni. Já eða börnin fjögur, því eins og sjá má á myndinni ber hún nú barn (dóttur) undir belti og væntir sín laust fyrir veturnætur að íslensku tímatali. Þau eru búin að vera á landinu í 3 vikur og það er búið að vera líf og fjör eins og gengur þar sem tápmikil börn eru annars vegar. Þau ætla svo að vera nokkra daga í Reykjavík, áður en þau fljúga af landi brott til Kaupmannahafnar og þaðan halda þau svo til Slagelse, en þangað eru þau að flytja frá Kaupmannahöfn. Á myndinni er Auður í nýrri lopapeysu já eða lopakjól, kann varla að skilgreina þetta í flóru flíkanna. Birgitta Sigurðardóttir prjónaði hana fyrir Auði. 









   20, júlí 2009

Verið að hirða af síðasta stykkinu  Í dag var klárað að rúlla það síðasta af fyrrislættinum og það var líkt og með það sem búið var að ná áður, það ringdi ekki dropa í þetta hey og var það nánast orðið full þurrt. Það er nú gott að geta hvílt sig ögn á heyskaparstressi, ekki síst fyrir það að það verður heldur ágengara þegar árin færast yfir mann. En það verður nú að segjast eins og er að þessi heyskapur núna hefur verið óvenju afslappaður, það er sjaldgæft að maður fái jafn mikla einstaka blíðu við allan fyrrislátt og til eru þau ár, sem rignir meira og minna í hverja einustu tuggu.



    17. júlí 2009

Fyrrislætti að ljúka  Klárað var í dag, að slá það sem eftir var af fyrrislætti  og nú er bara að vona að viðri vel í svo sem tvo daga þannig að takist að koma þessu vel verkuðu í plast.
  Í dag lögðu íslensk stjórnvöld inn aðildar umsókn hjá ESB. Ég held að það hafi í raun verið fyllilega tímabært og rétt sé að þau einhendi sér (orðalag Ingibjargar Sól...)í að semja við ESB um hvað býðst við inngöngu um það "riðgaða" hlið.
  Það er trú mín að verulegum meirihluta íslensku þjóðarinnar finnist það ekki kræsilegt, sem mun þar glitta í um dyragættina og kolfelli inngöngu. Það sem vinnst við þetta ferli er að hið rósrauða ský sem ýmsir hafa svifið á um árabil og látið sig dreyma um inngöngu mun leysast upp og vonandi ekki láta kræla á sér næstu árin og þá verður vonandi hægt að fara að snúa sér að einhverju vitlegra t.d. að stjórna hinu íslenska lýðveldi og standa vörð um fullveldi þess.


   16. júli 2009

Búið að stafla rúllunum  Eins og sjá má ef myndin hér og sú næsta fyrir neðan eru bornar saman, hefur orðið sú breyting á að búið er að taka allar rúllurnar af túnunum og ganga frá þeim, annað hvort inn í hlöðu eða í stæður úti. Þetta gekk bæði fljótt og vel, þannig að nú fer maður að huga að því að slá það sem eftir er.








    11. júlí 2009

Sér norður Hörgárdalinn   Nú er vika síðan sláttur hófst hér á bæ og hefur heyskapurinn gengið einstaklega vel, enda sól og blíða upp á hvern einasta dag. Það er búið að slá og koma í rúllur öllu nema um 9 ha. fyrir sunnan Stóraskurð, sem við ætlum að lofa að spretta aðeins betur. Uppskeran er ívið meiri en í fyrra að magni til og gæðin ættu að vera með besta móti, þar sem allt hefur náðst með mjög góðri verkun.

 



Sigrún og afkomendur
   Eftir að við kláruðum að rúlla um hádegið í dag brugðum við okkur aðeins af bæ og var þá meðfylgjandi mynd tekin af Sigrúnu og öllum hennar afkomendum, sem eru nú aldrei þessu vant allir staddir hér um slóðir um þessar mundir.













  4. júlí 2009

Gauti og Katrín að heilsa upp á lömbin  Í dag komu Kaupmannahafnarbúarnir Katrín Valdís og Gauti Heimir, amma þeirra sótti þau til Akureyrar. Auður María og Ívar Franz komu líka en urðu eftir hjá Sólveigu og Tómasi í Helgamagrastrætinu.
  Á myndinni eru þau að líta á lömbin sem eru hálfgerðir heimagangar.








Hjalti að leika á fiðlu  Hjalti kom í heimsókn núna í nokkra daga, kom á þriðjudagskvöldið og fór svo aftur í dag. Hann hafði með sér fiðluna, sem hann er búinn að fá sér og spilaði fyrir okkur.

















Sláttur hafinn  Þá er nú heyskapurinn hafinn þetta sumarið, það var aðeins byrjað í gærkveldi en svo í morgun var farið að slá af fullum krafti. Sprettan er orðin allgóð, enda hefur verið ljómandi sprettutíð undanfarna daga. Það spáir vel fyrir næstu daga, þannig að heyskapurinn ætti að geta gengið skafið.








    3. júlí 2009

Tryggur   Tryggur varð fyrir því óláni í vikunni að lenda undir dráttarvél og hefur ekki stígið í annan afturfótinn síðan. Við fórum því með hann til dýralæknis í dag, þar var hann myndaður og kom þá í ljós að hann var úr mjaðmarlið. Það þurfti því að gera á honum skurðaðgerð til að koma honum í lið og sauma saman liðbandið. Myndin var tekin þegar við komum með hann heim, kragann hefur hann um hálsinn til að hann nagi ekki úr sér saumana og það sést í rakaða blettinn rétt fyrir framan rófuna þar sem hann var skorinn.  Það er svo bara vonandi að aðgerðin hafi heppnast og hann nái fullum bata.

    1. júlí 2009


Sigrún að læsa  Í dag var Ránargötu 2 (norður enda) skilað til nýrra eiganda, sem hafa nú keypt íbúðina. Myndin var tekin í gærkveldi þegar Sigrún var að læsa á eftir sér útihurðinni í síðasta sinn. Fjölskylda hennar flutti í Ránargötuna 16. júní 1956, íbúðin hefur því verið í hennar eigu í rúm 53 ár. Eins og gefur að skilja hafa öll þessi ár margt að geyma, bæði gleði og sorgir svo og hinn venjulega kvunndag. Það er eðlilega bæði söknuður og tregi sem fylgir því að ganga út í síðasta sinn, en það eru líka margar góðar minningar. Sigrún minnist þess t.d. með mikilli gleði þegar flutt var inn daginn fyrir þjóðhátíðardaginn, að henni fannst hún vera komin í höll og jafnvel að hún væri sjálf prinsessan.  Sjálfur á ég margs að minnast þótt þær minningar spanni nú ekki nema síðustu 16 árin. En það er erfitt að skilja á milli minninga tengdar húsinu og/eða þær sem eru tengdar tengdamömmu minni Guðlaugu Jóhönnu Sigurjónsdóttur, enda saga hennar og hússins svo samofin um áratuga skeið. Teinrétt gekk hún um fram yfir nírætt og einatt fannst manni hún líta út eins og hefðarkona og gjarnan vildi hún vita af því ef við Sigrún vorum í bænum, þannig að hún gæti verið búin að gera pönnukökur og dekka borðið. Blessuð sé minning hennar.

Flettingar í dag: 166
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 141
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 62092
Samtals gestir: 16892
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 22:13:36
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar