Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir júní 2013

30. júní 2013

Þá er alveg að taka upp síðasta snjóinn hér í nágrenni bæjarins, aðeins smá díll eftir hérna suður og niður í gilinu, um 200 metra frá íbúðarhúsinu. Þetta er nú alveg tímabært, en er þó rúmum tveimur mánuðum fyrr en hörmungarsumarið 1979.

 

27. júní 2013

Í dag fór ég á stjórnarfund hjá SAH á Blönduósi. Þar var meðal annars verið að ganga frá ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra. Hann heitir Gunnar Tryggvi Halldórsson og er 34 ára. Hann hefur verið búsettur á Blönduósi frá árinu 2007, en er ættaður frá Finnstungu í Blöndudal. Hann á að baki 10 ára háskólanám, auk þess sem hann er lærður bifvélavirki. Gunnar er kvæntur Þórdísi Hauksdóttur og er hún verkefnisstjóri sérkennslu við Blönduskóla á Blönduósi. Þau eiga 4 börn. Ég vil hér bjóða Gunnar Tryggva velkominn til starfa fyrir SAH og óska honum allra heilla í  starfi sínu þar. Á myndinni má sjá þá Gunnar Tryggva og Björn Magnússon formann SAH, undirrita ráðningarsamninginn í dag.

Í kvöld fór ég svo á fjallskilanefndarfund, sem haldinn var í Þelamerkurskóla, að þessu sinni. Við vorum einkum að tímasetja göngurnar á komandi hausti. Þær eru áformaðar hér 11. og 12. september og Staðarbakkarétt er þá þann 13.

 

25. júní 2013

Flögu-ærnar voru rúnar í gær og dag. Það gekk ljómandi vel, enda vorum við 13 í dag ef allir eru taldir, sumir reyndar full smáir til að taka þátt í rúningnum.
Öllum lömbunum er gefið ormalyf, áður en þeim ef sleppt til fjalla.
Svo er höfð nestisstund. Ekki amalegt í þeirri einstæðu veðurblíðu sem var þessa daga...
...og gott er að láta líða úr sér að henni lokinni..
...eða finna sér smá laut á milli þúfna og vera þar eins og fugl á hreiðri.
Kappið virðist vera meira en fæturnir orka, eða hvað? Já, það þarf að opna hliðið svo hægt sé að sleppa fénu.
Já, svo er bara að lofa ánum að lembga sig, áður en þeim er sleppt í unaðslegt frelsi sumarsins.
Að dagsverki loknu er svo bara eftir að keyra heim með ullina og ungu piltunum finnst nú ekki amalegt að hreiðra um sig í ullinni.
Allir komust heilir og hressir frá þessum rúningsdögum. Eða hvað? Skórnir hans Snæbjarnar, þeir verða tröðla notaðir oftar.

 

23. júní 2013

Við fórum með Sigrúnu í bíltúr aftur í dag, líkt og á 17. júní, nema hvað hann var helmingi lengri núna. Fórum aftur í Hörgárdalinn og það langt að hún sá alla leið heim. Hver veit nema næst geti hún farið alla leið?

 

22. júní 2013

Þá er ég búinn að snyrta blómagarðinn og setja niður sumarblómin og er bara líkt farið og Guði forðum, þegar hann var búinn að skapa jörðina og leit yfir hana með velþóknun.

 

17. júní 2013

Við Sólveig og Tómas Leonard vorum að mestu með Sigrúnu á þessum þjóðhátíðardegi, á Kristnesi. Við buðum henni líka í fyrsta bíltúrinn hennar síðan hún veiktist, þann 27. mars s.l. og hér má sjá allt að verða tilbúið til brottfarar frá Kristnesi, eftir að góðu starfskonurnar þar höfðu hjálpað Sigrúnu í bílinn.

 

Við keyrðum að Þelamerkurskóla til að lofa Sigrúnu aðeins að líta í dalinn sinn. Hún hafði mjög gaman af því, þótt ekki væri farið lengra að þessu sinni.  Vonandi getur hún fljótlega farið að skreppa aðeins heim.

 

Hér erum við svo komin aftur í Kristnes eftir rúmlega klukkutíma ferð og vorum við öll alsæl með þennan bíltúr í því yndislega veðri sem var í dag. Það er svo gott að finna að heilsa Sigrúnar þokast í rétta átt, þótt hægt fari. Hún er líka í svo góðum höndum hjá yndislegu starfsfólki á Kristnesi.

 

16. júní 2013

Sláttur hafinn! Hér gefur að líta þau Sólveigu og Tómas Leonard að slá blómagarðinn í blíðskaparveðrinu í dag. Ekki er nú komið að því að slá túnin og verður örugglega ekki fyrr en eftir 3 vikur að minnsta kosti.

 

Myndin hér að ofan var tekin 17. júní 1949. Það vor var með eindæmum kalt þannig að snjóa leysti seint. Til samanburðar tók ég myndina hér að neðan í dag, til að bera saman snjóalögin þessi tvö ár. Árið 2013 hefur það fram yfir 1949 að júní er búinn að vara mjög hlýr, þannig að það hefur gengið mjög hratt á snjóinn til fjalla.
 

 

9. júní 2013

Hér erum við Sólveig og Tómas að reka dekurkindurnar hennar Sigrúnar, þær mæðgur: Dorrit og Hörðu með flottu lömbin sín í Nýjabæ.

 

8. júní 2013

  Í dag var byrjað að dreifa áburði á kalskellótt túnin. Ráðunautar eru ekki búnir að taka þau út, þar sem núna fyrst er að taka síðustu skaflana af þeim og það líða væntanlega nokkrir dagar, þar til í ljós kemur hvort líf hefur verið undir þeim.

 

  Ég hef oft á vorin sett hér inn á heimasíðuna þegar skaflinn tekur upp úr Kinnini neðan við Berghúsin. Myndin hér að ofan var tekin 1. júní. Þar má sjá að það er talsverð fönn eftir, en það sem er óvenjulegt við legu hennar er að hún er eingöngu á flatanum undir brekkunni, en ekki upp í henni eins og venja er. Þetta stafar af því að venjulega tekur síðast upp hér skafla sem koma eftir suðvestan og vestan renning, en núna er, eins og ég hef nefnt hér áður á heimasíðunni, allar stærstu fannirnar eftir norðan og norðaustan stórhríðar í vetur. Myndin hér að neðan var hinsvegar tekin í dag þegar síðasti snjódíllinn hvarf. Snjó hefur tekið hér upp með undrahraða í hlýindunum síðustu daga og gróður tekið skarpt við sér.
 

 

7. júní 2013

Þessa fallegu mynd tók ég við Leirunesti rétt fyrir miðnættið í kvöld, þegar ég var að koma frá því að heimsækja Sigrúnu í Kristnes.

 

6. júní 2013

Nú þegar sauðburðurinn er að taka enda er nóg að gera við að koma fénu í frelsi útiverunnar. Hér er forustuféð komið í flutningskassann tilbúið til farar út á Flögutún.
Hér eru þau frelsinu fegin: Lipurtá með lambhrútinn sinn og Lippa litla dóttir hennar frá í fyrra og svo Öðlingur minn rólegur að átta sig á nýfengnu frelsi.

 

Flettingar í dag: 4
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 141
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 61930
Samtals gestir: 16879
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 01:40:53
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar