Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir mars og apríl 2008

    24. apríl 2008

  Gleðilegt sumar!

  Í   dag var sumarblíða, hægviðri, sól og hlýindi. Það skyggði þó aðeins á sumargleðina að ekki fraus saman sumar og vetur í nótt sem leið, sem ku jú víst eiga að vita á gott  sumar þegar það gerist. Við fórum í fermingarveislu Heiðu Aspar á Þúfnavöllum. Fermt var í Bægisárkirkju og svo var þessi fína veisla heima á Þúfnavöllum.

    23. apríl 2008 
 
  
Í dag fórum við til Akureyrar að útrétta ýmislegt. Við fórum líka í Búgarð þar sem Ólafur G Vagnsson ráðunautur, afhenti okkur viðukenningu Búnaðarsambands Eyjafjarðar "fyrir framúrskarandi árangur í sauðfjárrækt" eins og stendur ágrafið á platta sem fylgir verðlaunagripnum.
  Meðfylgjandi mynd var tekin við þetta tækifæri í dag.

    






    19. apríl 2008

  Það lagast lítið ástandið á fólkinu á þessum bæ. Allir  undirlagðir af pestinni ennþá aðeins með mismunandi sótthita, það verður nú að segjast eins og er að þetta er nú alveg að verða nóg af svo góðu. Að liggja í bælinu dag eftir dag í glaðasólskini og vorblíðu tekur þó nokkuð á og er síst til þess fallið að bæta sálartetrið. Vonandi að þessum ósköpum fari að linna og maður geti fari að sinna vorverkunum.


    17. apríl 2008

  Því miður er ekki mikið um færslur hér inni þessa dagana. Þannig er mál með vexti að þegar við komum að sunnan á mánudaginn vorum við komin með flensu, sem er nokkuð skæð og var ég til að mynda með upp undir 40 stiga hita í tvo daga, er reyndar heldur skárri í dag. Sigrún, Sólveig og Tómas Leonard eru líka lasin þó ekki með eins háan hita. Við fengum Gest okkar ágæta afleysingamann aftur til að gefa fyrir okkur núna, en hann var búinn að sjá um gjöfina frá fimmtudegi og fram á sunnudag meðan við vorum fyrir sunnan og svo Anton frændi á mánudag og þriðjudag. 
 Þetta er nú ljóta hremmingin! 
  Í gær áttum við að mæta á aðalfund Búnaðarsambands Eyjafjrðar og taka þar við viðurkenningu fyrir góðan árangur í sauðfjárrækt,sem sambandið ætlaði að úthluta okkur þar, en það verður að bíða betra tækifæris.


    10. apríl 2008

  Í dag var fyrri dagur aðalfundar Landssamtaka Sauðfjárbænda, sem haldinn er á Hótel Sögu. Við hjónakornin byrjuðum daginn á því að fá okkur morgunverð í veitingasalnum Skrúð á hótelinu. Sigrún fór svo að hitta Hildi frænku sína, en ég aðeins að undirbúa mig fyrir fundinn sem hófst svo kl. 13.
  Fulltrúar á fundinum voru 45 alls staðar að af landinu og einnig voru allmargir gestir við fundarsetninguna. Jóhannes Sigfússon formaður setti fundinn og síðan fluttu ávörp: Einar Kristinn Guðfinnsson landbúnaðarráðherra, Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands og Jón Bjarnason þingmaður VG. Auk venjubundinna aðalfundarstarfa svo sem skýrslu formanns og framlagningu reikninga, flutti Halldór Runólfsson yfirdýralæknir erindi er fjallaði um ýmsar breytingar í starfsumhverfi sauðfjárframleiðslunnar, sem heyra undir hans embætti. Þar bar einna hæst að hann taldi styttast mjög í að sauðfjárbændur yrðu leyfisskyldir matvælaframleiðendur.
  Síðast á dagskránni í dag var svo framlagning mála, sem voru aðallega tillögur og erindi frá aðildarfélögum LS og samhliða því voru almennar umræður um skýrslu formanns, reikninga sambandsins og annað sem mönnum lá á hjarta. Eftir kvöldverð voru svo nefndastörf fram á kvöldið.

     11. apríl 2008

   Þá er það síðari dagur landsfundarins. Fyrst í morgun voru nefndirnar að ljúka við að fínpússa þau erindi sem þær fengu til umfjöllunar. Klukkan 11 var fundi svo framhaldið og tekið til við afgreiðslu mála, sem nefndirnar lögðu fram hver af annarri. Það fór nánast allur dagurinn í að afgreiða þau því um mörg þeirra voru skiptar skoðanir og þurftu margir að tjá sig og koma með breytingartillögur. Síðast á dagskránni voru svo kosningar, en þar urðu engar breytingar á stjórn. Fundinum lauk svo rétt upp úr kl. 17.         
   Ég beitti mér nú ekki mikið nema í einu máli. Það varðaði tillögu um hve mikið þarf að hækka afurðirnar í haust svo ásættanlegt verði fyrir fjárbændur. Ég skammaði stjórn LS fyrir að vera ekki búin að vinna þá vinnu sem þarf til að átta sig á heildarhækkunum allra kostnaðarliða og launa, frá útgáfu viðmiðunarverðs fyrir haustið 2007, þannig að hægt sé að gefa út með rökum hve mikið þurfi að hækka viðmiðunarverðið nú, til að fjárbændur standi ekki verr að vígi á komandi hausti, en haustið 2007. Annað mál er svo, hvort skynsamlegt sé að setja þá hækkun alla í útgefið viðmiðunarverð LS. Það finnst mér eigi að vera sjálfstæð ákvörðun, þegar heildarpakkinn liggur ljós fyrir.
  Þessa heildarúttekt var stjórn LS því miður ekki búin að gera, heldur aðeins að skoða þrjá gjaldaliði sauðfjárbúanna. Það er áburð, olíu og fjármagnsgjöld, en öllum öðrum liðum var sleppt bæði öðrum gjaldaliðum svo og launalið. Frá kjaranefnd fundarins kom svo tillaga, þar sem aðeins þessir þrír liðir voru inni. Þeir eru taldir þýða í útgjaldaauka 98 kr. á kíló lambakjöts og samkvæmt því, lagði kjaranefnd til við fundinn að afurðaverð hækki um að 98 kr. á kíló dilkakjöts á innanlandsmarkaði þegar viðmiðunarverð verður gefið út fyrir haustið 2008. Kjöt af fullorðnu og útflutningur hækki í sama hlutfalli.
  Þetta var ég mjög ósáttur við og tel þetta mjög ófagleg vinnubrögð. Því flutti ég breytingartillögu um að stjórn LS léti vinna hver hækkunarþörfin væri fyrir alla liði svo sjá megi hve viðmiðunarverðið þurfi að hækka til að standa á sléttu miðað við haustið 2007, áður en gefið er út viðmiðunarverð fyrir haustið 2008.. Því miður var þessi breytingartillaga mín kolfelld, aðeins 7 studdu hana en 22 voru á móti, aðrir sátu hjá. Því munu fjárbændur sitja uppi með viðmiðunarverð í haust byggt á krónutölu sem er nánast út í loftið í besta falli gefur hún enga mynd af raunveruleikanum.
  Í kvöld fórum við svo á árshátíð sauðfjárbænda sem haldin var í Súlnasal Hótel Sögu. Það var hin ágætasta skemmtun, þar sem Jóhannes Kristjánsson var veislustjóri og auk hans voru skemmtiatriði, víðsvegar að af landinu. Að loknu borðhaldi var svo stiginn dans fram á rauða nótt undir hljómlist sem hljómsveitin Skógarpúkarnir framdi.

 

    9. apríl 2008

Baula í Borgarfirði   Í dag lögðum við íann til Reykjavíkur kl. 17 og vorum komin í Bændahöllinna kl. 23. Á morgun og föstudaginn verð ég svo á aðalfundi Landssamtaka Sauðfjárbænda þar. Ferðin gekk ágætlega. Við lögðum af stað í hríðaréljum, en eftir að kom vestur fyrir Öxnadalsheiði var bjart og fallegt veður og alls staðar snjólaust í byggð.







    
6. apríl 2008

Amma og Tómas Leonard sjást í fyrsta sinn


 



























!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
  5. apríl. Góðir gestir sem koma inn á þessa heimasíðu okkar.
  Síðan 28. mars hefur ekki verið hægt að setja neitt efni hér inn vegna uppfærslu hjá netþjónustunni "123.is" sem þessi síða er vistuð hjá. Nú er hins vegar aðeins að rofa til. Þannig að hægt er að setja nýtt efni inn á síður sem ég var búinn að búa til (þó ekki myndir), en ekki er hægt að búa til nýjar síður og því verður að halda áfram að setja fréttirnar inn á "Fréttir mars 2008" þótt hann sé liðinn. Það mun taka um mánuð til viðbótar fyrir þá hjá "123.is" að koma kerfinu í viðunandi horf. Því er líklegt að síðan okkar hökti eitthvað næstu vikurnar. Og ekki hægt annað, en biðjast velvirðingar á því og vona að þetta lagist sem fyrst.

   
 5. apríl 2008
 
  
  Við fengum hér góða gesti í dag. Þar voru á ferð um 50 sauðfjárbædnur úr Dalasýslu. Þau voru í helgarferð  í Eyjafjörðinn og byrjuðu hana á því að koma hingað, til að skoða búskapinn, þó einkum blessaða sauðkindina. Veður var hið ákjósanlegasta til skoðunarferðar, glaða sólskin en reyndar aðeins andkalt. Áður en þau héldu svo ferð sinni áfram var þeim boðið upp á kaffi og meðlæti í útihúsunum. Það var sameiginlega í boði okka ábúenda hér og Búnaðarsambands Eyjafjarðar og var Ólafur G Vagnsson hér sem fulltrúi búnaðarsambandsins.
  Það var einkar skemmtilegt að fá svona marga áhugasama fjárbændur í heimsókn.

    28. mars 2008

Hrútakóngurinn Unnar og Hákon Þór í öðru sæti  Í kvöld komu félagar í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps saman hér á Staðarbakka og spiluðu "Hrútaspilið" Þetta var með svipuðu sniði og fyrir ári síðan og sami fjöldi spilaði. Spilað var á fjórum 3ja manna borðum. Hrútakóngur kvöldsins varð Unnar Sturluson á Þúfnavöllum og fékk hann þar af leiðandi 1. verðlaun, sem var gjafabréf upp á krónur 10.000 og skal það nýtt á hausti komanda til að kaupa lamb innan félagsins. 2. verðlaun hlaut Hákon Þór Tómasson og 3. verðlaun Sturla Eiðsson. Aukaverðlaun voru svo veitt þeim sem tókst að næla sér í flesta hrúta í einu spili og hlaut Viðar Jóhannsson þau. 
  Að spilavistinni lokinni buðum við svo upp á kaffi og meðlæti, áður en hver hélt til síns heima eftir ánægjulegt spilakvöld.


    27. mars 2008

  Smári Helgason búfjáreftirlitsmaður kom hér í dag í hið hefðbundna búfjáreftirlit og skoðun á "Gæðahandbók". Þetta er árlegur viðburður sem framkvæmdur er á þessum árstíma. Gaf Smári hér öllu toppeinkunn bæði, fóðrun og aðbúnaði skepnanna svo og öllum færslum í "Gæðahandbókina".   


     26. mars 2008

  Í kvöld fór ég á aðalfund Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð, sem haldinn var í Hlíðarbæ. Fundurinn var þokkalega sóttur. Einkum rætt um kjaramál fjárbænda í ljósi gríðarlegra hækkanna á rekstrarvörum undanfarnar vikur. þar sem hæst ber hækkun á áburðarverði í kringum 70% og á ýmsu öðru um tugi prósenta eins og olíu, fóðri, plasti, fjármagnsgjöldum o.fl. 
  Framsögu á fundinum höfðu þeir Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Landssambands sauðfjárbænda og Sigmundur Ófeigsson forstjóri Norðlenska.
  Fram kom í máli Sigurðar að hækkunar þörf á sláturafurðum á komandi hausti gæti verið fast að 30% til fjárbænda, ættu þeir að standa nokkurn veginn á jöfnu miðað við haustið 2007. En þá væri þó eftir að taka inn launahækkanir til þeirra, sem þeir ættu ekki síður rétt á, en aðrir samanber nýgerða kjarasamninga.
  Í máli Sigmundar kom fram, að sláturhúsin stæðu frammi fyrir gífurlegum hækkunum eins og aðrir. Nefndi hann þar t.d. nýgerða kjarasamninga og svakalega hækkun fjármagnsliða. Bara hækkun þessara tveggja liða muni hafa í för með sér kostnaðar hækkun fyrir Norðlenska upp á hundruð milljóna króna. Hann sló á að ef Norðlenska hækkaði verð til bænda í haust eins og þeir teldu sig þurfa auk fyrr greindra liða þýddi það að útgjöld myndu aukast milli ára um 600 til 700 milljónir. 10% hækkun til bænda taldi hann eitthvað sem væri sæmilega viðráðanlegt.
  Brynjar Skúlason í Hólsgerði gaf ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn og var Birgir Arason í Gullberkku kjörinn í hans stað. Við Birgir vorum svo kosnir sem fulltrúar félagsins á aðalfund Landssamtaka sauðfjárbænda 10. og 11. apríl nk. sem haldinn verður í Bændahöllinni.
  Á fundinum veitti Ólafur G Vagnsson f.h. BSE, bikara í verðlaun  fyrir þrjá hæst stiguðu lambhrúta á félagssvæði þess haustið 2007. Í 1. sæti var Dvergur 07-270, sem er eign okkar Sigrúnar og hefur hans nýlega verið getið hér á síðunni, hann stigaðist upp á 88 stig. Annar var hrútur Guðrúnar á Búrfelli í Svarfaðardal með 87 stig. Og í þriðja sæti var svo hrútur Þórarins í Laufási einnig með 87 stig.

    25. mars 2008

Magga, Denni og Gunnar í Sandfellshaga  Í dag var Gunnar í Sandfellshaga að fósturtelja hér á bæ. Hann byrjaði kl. 14 og var búinn að skoða allt kl. 17. Eins og tvö undanfarin ár var talið í öllu nema Bergánum, alls í 423 ám og 86 gemlingum. Samtals fann Gunnar 865 lömb. Frjósemi ánna reyndist heldur með minna móti eða 1,83 lömb á á og sagði Gunnar það í samræmi við það sem víðast væri þetta árið að frjósemi væri með slakara móti. Gemlingarnir komu hins vegar með betra móti út og reyndist vera  1,07 lamb á gemling. Það var líka ánægjulegt að engin fóstur voru dauð. Það hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarið að um verulegan fósturdauða væri að ræða á þó nokkrum bæjum og þá einkum í gemlingum. Aðeins bar á þessu hérna í fyrra, en sem betur fer ekki núna. 
  Við fengum aðstoðarfólk til að hjálpa okkur við þetta, enda eins gott því þetta gengur mjög hratt fyrir sig og þarf að hafa sig allan við að reka að og frá tækinu. Beta og Denni komu ásamt Hákoni, Margréti og Guðrúnu Margréti og svo var Gunnar með son sinn með sér til aðstoðar.

Hjalti og vinir hans Lappi og Brussa  Í dag fór Hjalti austur á Egilsstaði, eftir að vera búinn að vera hérna heima hjá okkur síðan á miðvikudaginn í dimbilvikunni. Honum gekk bara vel austur yfir fjöllin, enda færðin ágæt og veður þokkalegt þótt það væri aðeins snjómugga annað slagið.










    21. mars 2008

Möðruvallakirkja  Í dag voru Passíusálmar Hallgríms Péturssonar lesnir í heild sinni í Möðruvallakirkju og eftir fimmta hvern sálm lék Helga Bryndís Magnúsdóttir á orgel kirkjunnar. Yfirleitt las hver upplesari 2 sálma og stóð lesturinn yfir frá kl. 13 og fram undir kl. 18.
  Meðan á upplestrinum stóð var heitt á könnunni í Leikhúsinu á Möðruvöllum og gátu upplesarar og gestir fengið sér þar kaffisopa.   Það að Passíusálmarnir skulu vera lesnir upp  í kirkjunni á Föstudaginn langa er mjög hátíðlegur og viðeigandi siður. Og ekki skemmdi fyrir í dag hið yndisfagra veður, glaða sólskin sem minnir mann á að upprisa vorsins er á næsta leyti, þegar líf náttúrunnar vaknar af vetrardvalanum.

Guðmundur SkúlasonSigrún Franzdóttir
Við hjónakornin tókum þátt í upplestrinum. Ég  las sálma 45 og 46, en Sigrún sálma 47 og 48. Það gefur manni mikið að taka þátt í að lesa upp úr Passíusálmunum í kirkjunni sinni á Föstudaginn langa. 
  Nokkrar fleiri myndir má sjá hér.

        
    17. mars 2008

Auðnir í Öxnadal og Hraundrangi í baksýn  Í dag fórum við á aðalfund Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps, sem haldinn var á Auðnum 2. Það var bjart og fallegt vetrarveður eins og sjá má á myndinni og hiti laust fyrir ofan frostmark.
  Þetta var óvenju fjölmennur fundur því auk þeirra 10 félaga sem voru á fundinum og tveggja barna þeim fylgjandi, sátu hann tveir ráðunautar þeir Ólafur G Vagnsson og Sigurður Þór Guðmundsson og svo öll börnin þeirra Erlu og Ara heitins á Auðnum. 
  Þetta var ágætur fundur þar sem ráðunautarnir miðluðu miklum fróðleik. Ólafur fór yfir niðurstöður skýrsluhalds síðasta árs, en Sigurður var með erindi um vinnu og vinnuhagræðingu á sauðfjárbúum.
  Erla og börn hennar voru svo með frábærar veitingar og í fundar lok voru henni svo færð blóm frá félaginu í þakklætisskyni fyrir samfylgdina í félaginu, nú þegar hún hefur hætt búskap. 
  Á fundinum var Ólafur G Vagnsson gerður að heiðursfélaga í félaginu í þakklætisskyni fyrir fjögurra áratuga farsælt starf í þágu félagsins og sauðfjárræktarinnar í heild. 

Farandbikar Sf. Skriðuhrepps veittur árlega fyrir hæst stigaða lambhrút í félaginuDvergur 07-270













 

  Á fundinum var okkur Sigrúnu afhentur farandbikar félagsins, sem veittur er árlega þeim sem eiga hæst stigaða lambhrútinn í félaginu ásamt verðlauna peningi til eignar.
  Við systkinin á Staðarbakka gáfum félaginu þennan bikar 2005 til minningar um foreldra okkar, sem hefðu orðið níræð það ár.
  Að þessu sinni fengum við bikarinn fyrir hrútinn Dverg 07-270, en hann stigaðist á síðastliðnu hausti upp á 88 stig, sem er með því allra hæsta sem lambhrútar hafa stigast hér á landi. Þess má og geta að Dvergur er undan Krók 05-150 sem hefur verið að koma fádæma vel út úr kjötmati fyrir vöðva tvö síðastliðin haust, var með 12,59 haustið 2006 og 12,29 á síðasta hausti.


    13. mars 2008

Ég, Birgir og Guðmundur  Eins og sést á myndinni var verið að snoða féð hjá mér í dag. Snoðaðar voru 175 ær og 15 gemlingar. Það var að venju Biggi frændi minn í Gullbrekku, sem handlék klippurnar og ég fékk hraustmennið Guðmund á Þúfnavöllum til að leggja féð. Byrjað var að klippa kl. 9:20 og var allt búið laust fyrir 15:30. Fanta afköst að vanda hjá Bigga.
  Fyrir þennan rúning var ég búinn að breyta aðeins skipulaginu í húsunum, þannig að hægt er að opna fyrir garðaendana og hleypa á milli króa. Þetta kom ágætlega út og er til verulegrar vinnu hagræðingar í húsunum, ekki aðeins við rúning heldur líka við alls konar fjárrag.


    10. mars 2008

Starfsmannahús SAH  Ég fór á stjórnarfund í SAH svf. í dag á Blönduósi. Þar var verið að fara yfir afkomu síðasta árs og rýna í starfsgrundvöll yfirstandandi árs og til lengri framtíðar. Afkoma  ársins 2007 verður að teljast viðunandi hjá SAH Afurðum ehf, vel réttu megin við hið marg umtalaða strik. Hvað nútíð og framtíðina varðar eru horfurnar öllu dekkri. Verulegar kostnaðar hækkanir vegna ný gerðra kjarasamninga. Og hækkunar þörf til bænda á komandi hausti gæti verið á bilinu 30 til 40% bara til þeir stæðu á sléttu miðað við síðasta haust. Það eru þó engar líkur til að slík hækkun geti gengið yfir og ekki ósennilegt að bændur verði að sætta sig við ekki meiri hækkun en ca. 10% ef það næst þá. Það er mjög erfitt núna að ná fram nokkrum hækkunum á kjötmarkaði og er ekki enn búið að ná viðunandi hækkunum til að standa undir þeirri 7 til 8% hækkun sem varð á verði til bænda í haust sem leið. Stóra vandamálið sem lambakjötsgeirinn stendur frammi fyrir núna um stundir eru tveir þursar á þessum markaði sem heita KS og Bónus. Þessi tvö fyrirtæki hafa gengið í hjónaband og hjúskapar sáttmálinn gengur aðeins út á eitt, að halda verðinu niðri um tíma og reyna þannig að drepa aðra af sér, sem eru í þessari grein. Háleitt markmið eða hvað? Og hvernig skyldi þá þessi markaður verða ef ætlunarverkið tækist? En það hefur nú löngum verið svo, að hjónabönd sem hafa verið stofnuð af litlum kærleika og í illum tilgangi hafa viljað enda með hrösun og síðan ósköpum. Hver veit nema KS og Bónus mönnum verði bumbult af samsoðinni græðgi sinni áður en yfir líkur. Spyr sá sem ekki veit. 
  Það fór illa fyrir mér í þessari ferð. Lenti í því hraksmánarlega, að halda framhjá konunni minni, reyndar með Fósturlandsins Freyju, þannig að það fyrirgefst nú kannski. Árangur af þessu framferði mínu má sjá undir: Myndaalbúm > Náttúrulífsmyndir > Blönduóssferð.


    9. mars 2008

  Í dag kl. 13 að sænskum tima er hann Tómas Leonard okkar skírður í Tuve kirkjunni í Gautaborg. Amma og afi eru víðs fjærri við þessa hátíðlegu athöfn, enda bændur í norðlenskum dal upp á Íslandi. Með rauðu rósinni sendum við honum okkar innilegustu hamingjuóskir með kristilega staðfestingu á fallega nafninu sínu. 
  Við sendum honum þennan ágrafna myndaramma, sem myndin er af hér að neðan og afi föndraði saman myndirnar í hann. Þær eiga að segja honum að amma og afi vaki yfir honum þótt langt sé á milli og svo er Háafjallið hans afa, sem er svo hátt að þegar horft er til þess er óhjákvæmilegt að lyfta augum til himins með góðar bænir og vonir til almættisins. Undir eru svo blóm jarðar, tákn þess hvað tilveran á jörðinni getur nú verið góð, ef þar er stigið til jarðar með varfærni og virðingu.
Guð gefi þér góða framtíð Tómas Leonard okkar.




    8. mars 2008

Sigrún, Guðm. og Ragna  Í dag kom Ragna Hugrún vinkona okkar í heimsókn og við borðuðum hina ljúffengustu lambasteik, sem átti uppruna sinn að rekja í okkar eigin fjárræktun. Áttum svo með Rögnu hið ágætasta kvöld áður en hún hélt útí kvöldhúm útmánaðarins og ók sem leið liggur til síns heima í höfuðstað norðurlands.




 




   7. mars 2008

  Í kvöld fór ég á stjórnarfund hjá Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps sem haldinn var á Þúfnavöllum. Við vorum að ákveða endanlega aðlafundinn. Hann verður haldinn mánudaginn 17. mars, að Auðnum 2 og hefst kl.13:30. Einnig var rætt um að koma á Hrútaspilskvöldi, líkt og haldið var í fyrra vetur og þótti takast með ágætum.


    5. mars 2008

Skyldi maður ekki geta orðið liðtækur knattspyrnumaður
  Þá er hann Tómas Leonard í Gautaborg orðinn hálfs árs og eins og sjá má á myndunum hinn myndarlegasti drengur og farinn að spá í tilveruna og framtíðar áformin. Greinilega orðinn nokkuð fimur að handleika knöttinn. Hver veit nema það eigi sér samsvörun í því gamla góða íslenska máltæki sem segir að: "Snemma beygist krókurinn að því sem verða vill"

Feðgar á sundnámskeiði  Tómas Leonard hefur líka hafið sinn námsferil og lokið fyrsta áfanganum á þeirri löngu braut. Hann hefur sem sagt lokið nokkurra vikna námskeiði í ungbarnasundi og er útskrifaður frá því, að ég held með 1. ágætis einkunn. Á myndinni má sjá þá feðga kampakáta með þessa fyrstu gráðu. Amma og afi í hinni fjarlægu íslensku sveit senda litla sundkappanum hamingjuóskir með þessa áfanga á lífsins braut og biðja honum Guðs blessunar um ókomnar stundir.




Steinríkur og kærastan í Köben komin í rúmið  Hann Steinríkur í Köben (nær á myndinni) á líka afmæli í dag. Fæddist á þessum drottins degi fyrir þremur árum í bæ norðursins Siglufirði. Í sumar sem leið flutti hann með fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar á vit ævintýranna. Honum hefur greinilega orðið nokkuð ágengt, því eins og sjá má á myndinni er hann búinn að lokka upp í rúm til sín hörundsdökka Hafnarsnót, seigur hann!!!

Flettingar í dag: 3
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 62
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 62175
Samtals gestir: 16912
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 02:25:25
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar