Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir nóv. 2012

24. nóv. 2012

Þrátt fyrir allt þokast verkin nú áfram. Aðalbjörg frá Dýrey kom og sprautaði lömbin með bóluefni til varnar garnaveiki þann 21. þ.m. þetta er nú eitt af því sem er lögboðið og verður að framkvæma um þetta leyti á hverju ári.

Annað sem er skylda að gera er að setja merki í allt fé. Á vorin eru sett lambamerki í öll lömb sem komast á legg, þau merki (númer) eru svo notuð við alla meðhöndlun lambanna á haustin. Að loknu fjárragi á haustin, þarf svo að setja fullorðinsmerki í öll ásett lömb. Best er að gera það í nóvember, alla vega er það bráð nauðsynlegt fyrir fengitíma. Þessi fullorðinsmerki eru svo eins konar kennitala kindarinnar til æviloka og raunar miklu lengur því númer hennar helst áfram í skýrsluhaldskerfinu Fjarvís, eftir að tilvist hennar í þessum heimi líkur. Fjárvís er öðrum þræði ættfræðiforrit, þar sem er hægt að skoða ættir, jafnt lifandi sem genginna gripa.

Við settum fullorðinsnúmerin í öll lömbin í dag. Á myndinni má sjá systurnar: Bá, sem fékk númerið 2261 og Byttu með númerið 2260. Þær eru flottar, eru fæddar fjórlemingar í Flögu. Þær misstu mömmu sína í vor og fengu enga fósturmömmu, þannig að þær urðu heimagangar og drukku mjólk úr pela fram í ágúst lok. Af því ég var að nefna ættfræði hér ofar má geta þess að þær systur eru sonardætur sæðingahrútsins Púka 08-807, frá Bergstöðum á Vatnsnesi.    

...og hér er forystugimbrin mín hún Lyppa búin að fá sitt merki. Alltaf jafn falleg blessunin, hún fékk að halda ullinni sinni, þegar hitt féð var rúið um daginn.

23. nóv. 2012

Það hafa nú öll verk riðlast á þessu hausti og síðan vetri vegna ótímabærra snjóa, fyrst í september og svo aftur um mánaðarmótin október og nóvember. Þá með þeim afleiðingum að það þurfti að taka allt fé inn og á fulla gjöf, sem var mjög óheppilegt eftir fremur uppskeru rýrt sumar vegna þurrka, en á móti kemur að hey eru með allra besta móti að gæðum.

Eitt af því sem er með seinna móti er bjúgnagerðin, en það tókst nú að ganga frá bjúgunum í dag og hengja þau upp í reykkofann.   

 

22. nóv. 2012

Við fórum til Akureyrar í dag. Vegurinn var ruddur í morgun þannig að það er hlemmifæri, enda þótt það sé nokkur hálka hérna fram í dalnum. Við enduðum daginn á að heimsækja mæðginin í Helgamagra og eins og sjá má var fagnaðarfundur hjá sumum og þeir létu fara vel um sig á dýnu á gólfinu (eða þannig) þeir Tómas og afi og má ekki á milli sjá hvor þeirra er meiri jólasveinn, enda farið að styttast til jóla. 

 

14. nóv. 2012

 
Halla að verki í Eyvindarstofu
Í dag fór ég á stjórnarfund hjá SAH Afurðum ehf., sem haldinn var í Eyvindarstofu á Blönduósi. Við vorum að fara yfir nýliðið haust og huga að framtíðinni.

Sláturtíðin í haust gekk ljómandi vel fyrir sig, enda var sláturhúsið mjög vel mannað af duglegu og hæfu starfsfólki. Slátrað var 103.226 kindum; 95.015 lömbum og 8.211 fullorðnum kindum. Þetta er fækkun um rúmar 3.600 kindur frá árinu 2011, sem var metár í sögu slátrunar á Blönduósi. Þessa fækkun milli ára má að mestu leyti rekja til tjóns, sem varð á fé í óveðrinu 10. september sl. Einnig varð smávegis fækkun í ásetningi haustið 2011 á því svæði sem SAH er að taka fé til slátrunar og það kemur að sjálfsögðu fram í færri fæddum lömbum á síðast liðnu vori.

Það hefur verið mikil ásókn í að fá slátrað stórgripum, bæði hrossum og nautgripum í haust og er enn þannig að það hafa myndast biðlistar.

Afsetning allra afurða gengur vel þannig að það eru á þessari  stundu engar horfur á birgðasöfnun sláturafurða. Verð mættu þó vera betri, en þau eru svona la la núna.

Horfur eru því þokkalegar og ætti rekstur SAH Afurða ehf. að geta verið í jafnvægi næstu mánuði í það minnsta.

Meðfylgjandi mynd var tekin í Eyvindarstofu á Blönduósi og má þar sjá Höllu í helli sínum og Eyvindar, vera að gera að svani sem Eyvindur hefur trúlega komið með í búið. Eyvindarstofa er mjög smekklega uppsett og er ástæða til að hvetja þá sem leið eiga um Blönduós að skoða hana. Hún er til húsa yfir veitingastaðnum, Potturinn og Pannan.

 

Það var nú svo að ég var á báðum áttum hvort ég ætti að hætta mér í fjárhúsin, þegar ég kom heim af fundinum. Þannig var að ég frétti að Gestur væri þar með tvær blómarósir, sem hann hafði fengið lánaðar hjá Ingólfi bónda í Þríhyrningi meðan ég væri fjarverandi. Ætti ég að fara að trufla? Ég lét mig hafa það. Og viti menn og þarna er þá Gestur, en vel varinn fyrir ásókn kvennanna með varðhund framan á sér! Ja hérna, hér hefði getað farið illa því enginn má nú við margnum, nema þá með svona útsjónarsemi.

 

En frómt frá sagt fékk Gestur þessar ágætu stúlkur, sér til aðstoðar við að klára rúninginn og gekk það ágætlega, önnur dró að honum ærnar en hin gekk frá ullinni. Með þessu er rúningi lokið þetta árið. Stúlkurnar eru vinnukonur í Þríhyrningi. Önnur er frá Þýskalandi en hin frá Belgíu. Þær höfðu bara gaman af þessari tilbreytingu frá fjósverkunum í Þríhyrningi. Sú þýska var komin með nýtt gælunafn á Gest og sagði í sínum blíðasta við hann ,,Gessi minn"

 

11. nóv. 2012

Það er aðeins farið að lagast kerfið hjá 123.is, þannig að það er rétt að reyna að setja hér aðeins inn.

Það er búinn að vera hörku vetur það sem af er þessum mánuði, hver norðangusan komið á eftir annari. Við höfum þó sloppið oft furðu vel hér þar sem þetta hefur oft verið hánorðanátt, sem nær sér heldur illa á strik hér sem betur fer. Það eru nú samt komnir stórir skaflar þar sem eitthvert afdrep er eins og í kringum hús. Það er búið að þurfa að skafa veginn nokkum sinnum og síðast núna eftir hádegið og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.

 

Graðhestarnir sem félagar í Framfara - hrossaræktarfélagi, hafa haft í hólfinu á Nýjabæ í sumar, voru farnir að hafa það heldur lélegt þar. Það komu því nokkrir félagar í dag og færðu þá út í Flöguhólf, en þar er miklu betri beit fyrir folana, þannig að þeir ættu að geta haft það nokkuð gott þar í einhvern tíma.

Ég tók nokkrar myndir af rekstrinum í dag sem má sjá hér.

3. nóv. 2012

Það eru mikil  vandræði á kerfinu hjá 123.is núna og því hefur verið erfitt að setja hér inn á heimasíðuna undanfarið.

Hér er búin að vera stórhríð undanfarna daga, þó ekkert ofsaveður. Allt fé er komið á hús og fulla gjöf og byrjað er að rýja.

 

 

Flettingar í dag: 118
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 61903
Samtals gestir: 16866
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 11:14:43
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar