Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir jan. 2008

    29. jan. 2008


  Ullin var sótt hingað í dag, rúm 1200 kíló. Við þurftum að setja hana á vagn og keyra hana á móti ullarflutningsbílnum út að rétt, vegna þess að þetta er svo stór bíll eða réttara sagt bíll með 40 feta gám í eftirdragi þannig að hann hefði ekki náð beygjunni hingað heim og þar að auki er vegurinn mjög svellaður hérna fremst í dalnum.







Þórður Steindórsson
  Í dag kom okkar ágæti vinur Doddi frá Þríhyrningi í heimsókn og áttum við með honum ágæta stund við spjall og kaffidrykkju.



















    27. jan. 2008

Margrét Tómasdóttir
  Í dag er hún Margrét Tómasdóttir sjö ára. Hún bauð okkur í fína afmælisveislu sem hún  hélt reyndar í gær kl. 18.
  Á eftir fórum við svo í Borgarbíó ásamt Jóni Birgi og sáum myndina Brúðgumann. Þetta er ágæt mynd og getum við alveg mælt með henni. 










    



    25. jan. 2008


  Eins og sjá má á myndinni tók þorri skarplega við sér, þannig að á sjálfan bóndadaginn var vestanbylur. Ekki var þó mikil ofankoma og það er fremur lítill snjór á jörð nú í byrjun þorra.







  


 
  22. jan. 2008

Guðrún og Jónas
  Þá er nú farið að fækka í kotinu aftur. Í dag fór Hjalti til Egilsstaða og þær mæðgur Auður og Katrín tóku fyrsta áfangann til Kaupmannahafnar með flugi til Reykjavíkur. Í kvöld fórum við í heimsókn til Jónasar og Guðrúnar, en þau eru enn á Akureyri í flottri íbúð, sem Skipstjóra- og stýrimannafélagið Vísir á að Strandgötu 3.


    








    18. jan. 2008

  Elsku besta mamma mín í öllum heiminum! Þessi ástarorð sagði ég við þig oft og mörgum sinnum, þegar ég var lítil stelpa heima í Ránargötunni. Mér fannst þau orð að sönnu, besta og fallegasta mamman. En núna sit ég ein í stólnum þínum í stofunni þinni og minnist þín, því núna ertu mér horfin í bili. Góði Jesú okkar er núna búinn að taka þig í sinn líknandi faðm og losa þig undan öllum þjáningunum, sem þú hefur þurft að þola svo lengi og verið í myrkrinu síðustu mánuði, vegna blindu þinnar. Ég veit líka að þú ert glöð að vera komin til pabba, mannssins þíns góða, sem fór af þessari jörð alltof fljótt og litlu stúlkunnar ykkar, sem fæddist andvana. Ég var einungis 9 ára gömul hnáta og bræður mínir 16 og 21 árs, þegar pabbi okkar lést. Elsku mamma mín, alla tíð hefur þú staðið þig eins og hetja gegnum allt lífið, sem oft var erfitt og áföllin mikil. Alltaf svo fín og falleg og vönd af virðingu þinni, sannkölluð hefðarkona. En lund þín var létt og oft hlógum við okkur máttlausar af litlu tilefni. Minningarnar eru óendanlega margar, sem ég get rifjað upp , en læt þær geymast í hjarta mér um alla eilífð, því margs er að minnast. Ég veit að þú verður hjá mér alltaf, þegar þú hefur hvílt þig vel frá þrautunum. Ég er þakklát Guði fyrir, að ég var hjá þér síðustu andartökin í lífi þínu, elsku mamma mín. Ég hélt í hendurnar þínar þrotnar af kröftum og reyndi að fara með bænirnar okkar við eyrað þitt, milli táranna sem hrundu niður vanga mína. Þó sorgin og söknuðurinn sé mikill, þá verður gleðin yfirsterkari að hafa fengið að njóta þín svona lengi og minnast alls, sem þú kenndir mér í lífinu fram á síðustu stundu. Kletturinn í lífi mínu er eiginmaðurinn minn og saman munum við takast á við allt og styrkja hvort annað á lífsins vegum. Manstu mamma mín, þú sagðir alltaf ,,hann er góður bílstjóri hann Guðmundur´´. Börnin mín þrjú nutu líka elsku þinnar og umhyggju. Margt varstu búin að kenna þeim og fræða, bænirnar, sönglögin öll, því þú elskaðir alla tónlist og söngst svo fallega. Mér þykir svo erfitt að kveðja þig elsku mamma mín og finnst núna að ég geti varla hætt að skrifa til þín, en ég verð víst að láta staðar numið núna með þeirri trú um endurfundi í faðmi Guðs og Jesú. Jesú hefur alltaf verið þitt leiðarljós í lífinu og það kenndir þú mér. Í þeirri góðu trú kveð ég þig og bið Guð að blessa þig að eilífu elsku besta mamma mín í öllum heiminum.

Þín elskandi dóttir, Sigrún.
(Birt í Morgunblaðinu)

Hér má sjá myndir frá deginum.

    17. jan. 2008

Í Höfðakapellu  Í dag  kl. 14 var kistulagning í Höfðakapellu, öll umgjörð um þessa athöfn var einstaklega falleg, kapellan blómum skreytt og  úti glampaði miðsvetrarsólin á snæviþakta jörð.
  Í dag komu Hjalti frá Egilsstöðum og Auður og Katrín frá Kaupmannahöfn, þær komu reyndar til landsins í gær. 









    16. jan. 2008

Guðlaug Sigurjónsdóttir Okkar ástkæra móðir og tengdamóðir, Guðlaug Sigurjónsdóttir, verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju föstudag 18. janúar kl. 14:30




  








 

    11. jan. 2008

Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

                           Valdimar Briem 


  Í dag lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri okkar ástkæra móðir og tengdamóðir,
  Guðlaug Jóhanna Sigurjónsdóttir á 97 aldursári.
  Hafi hún okkar dýpstu þökk fyrir allt sem hún var okkur og Guð blessi minningu hennar og Guði sé hún falin á nýju tilverustigi.

  
     7. jan. 2008

Hjalti með vinum sínum Lappa og Brussu
  Í dag lagði Hjalti í hann og fór á sínum fjallabíl austur yfir fjöllin blá og byrjar svo í ME á morgun. Það er búið að vera alveg óskaplega gaman fyrir okkur að hafa hann í jólafríinu og svo hefur hann verið svo duglegur að hjálpa okkur í verkunum, sem er ómetanlegt því það er alltaf meira að gera á þessum árstíma vegna tilhleypinganna.
  Á myndinni er hann að kveðja vinina sína kæru þau Lappa og Brussu.





    5. jan. 2008


  Það bar við núna annan janúar að Guðmundur geitabóndi á Þúfnavöllum fór upp á Barkárdal ásamt þeim Reyni frá Baugaseli og Gunnari og Doris í Búðarnesi að smala heim sinni geitahjörð. Smölunin gekk ágætlega þótt geiturnar væru nokkuð sprækar í upphafi og væru ekki alveg búnar til heimferðar, enda færð eins og best gerist á þessum árstíma og jörð nánast alauð, aðeins stöku skaflar. 
  Þegar heim var komið með geiturnar kom í ljós að af fjalli kom einni geit fleira en sleppt var í vor sem leið. Við nánari skoðun uppgötvaðist að við hafði bæst veturgömul huðna, sem ekki kom af fjalli í fyrrahaust. Ljóst er því að hún hefur gengið úti í allan fyrra vetur. Þetta verður að teljast nokkurt afrek og er mér ekki kunnugt um að geitur hafi gengið úti allan veturinn hér um slóðir áður. Ekki verður annað séð en að hún hafi haft það gott á útiganginum og náð eðlilegum þroska, en  hún er áberandi varari um sig og styggari en hinar geiturnar.
  Ég brá mér í Þúfnavelli í dag til að mynda þessa merkilegu geit og Guðmund bónda sem heldur í hana á myndinni.

Útigengna huðnan. Fleiri myndir af geitunum á Þúfnavöllum má sjá hér


    4. jan. 2008


  Það var fyrst í kvöld sem viðraði hér til að brenna út gamla árið og sprengja fyrir því nýja. Ásamt fleiru flaug hér upp í himinhvolfið fornt mikilmenni á borð við Ara fróða og kosta-kvenskörunginn Auði djúpúðgu. 










   3. jan. 2008


  Í haust sem leið vantaði mig fleiri lömb af fjalli en ég hef átt að venjast á undangengnum árum, eða 16 lömb. Í þessum hópi voru samstæðir tvílembingshrútar undan henni Loðinni 98-898, sem var eins og númerið gefur til kynna orðin 9 vetra gömul. Þótti mér alltaf nokkuð grunsamlegt að þessa fjölskyldu skyldi vanta í heilu lagi. Það gerðist svo í gær að það hafði fjölgað fénu sem liggur við opið á Berginu. Þar voru þá komnir heim hrútarnir hennar Loðinnar, en hún  hefur að öllum líkindum sjálf farið á vit forfeðra og -mæðra sinna síðsumars. Hrútunum hefur hinsvegar tekist að leynast í allt haust fyrir haukfránum augum gangnamanna og viljað njóta síns frelsis lengur og þar með komast hjá nauðungarflutningum allt vestur á Blönduós. En nú hefur eðlið verið farið að segja til sín og því hafa þeir lagt land undir fót til að reyna að finna fyrir tilkippilegar snótir af sínum kynstofni.
  Eins og sjá má á myndinni eru þetta myndarlegustu hrútar og hafa greinilega haft það bara ágætt og eru í ágætum holdum, þótt þeir séu aðeins farnir að þorna í átaki.

    1. jan. 2008

  Guðrún Margrét Steingrímsdóttir
  Í dag fórum við í þessa fínu 7 ára afmælisveislu til Guðrúnar Margrétar Steingrímsdóttur. Myndin gæti heitið álfkonan á nýársnótt!












Guðm., Ívar, Sigríður, Sigrún og Hjalti
  Nýársdagskvöldið enduðum við svo á því að fara í notalegt kvöldkaffi til heiðurshjónanna Íbba og Sirrýar í hreiðrið þeirra að Geislatúni 10.













    Frá flugeldasýningu á Akureyri 1. janúar 2008

  Nýársnóttin var stormasöm hér á Staðarbakka. Hávaðarok var alla nóttina og fram á dag. Varð því lítill svefnfriður á þessari fyrstu nótt ársins. Ekki var hægt að skjóta upp þeim skoteldum, sem búið var að höndla með fyrir áramótin, vegna veðurofsans. 


    Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna.

  Þá hefur enn eitt árið runnið sitt skeið á enda. Árið 2007 hefur horfið til baka eins og segir í þekktu ljóði og árið 2008 er upp runnið. Hvað hið nýhafna ár ber í sínu skauti er enn öllum hulið, þótt við höfum væntanlega hvert og eitt okkar væntingar til þess, væntingar um að það verði okkur gott og gjöfult og að maður sleppi sem mest við krankleika, eða í sem stystu máli megi lifa hamingjusömu og friðsælu lífi.
  Já, allt er árið 2008 enn á huldu, því eins og máltækið segir þá ræður enginn sínum næturstað.
  En árið 2007 liggur til baka eins og opin bók fullskráð þar sem engum staf verður hnikað úr þessu, þar verður ekkert betur eða verr gert, þar er allt að eilífu til meitlað.
  Hvað okkur varðar munum við hjónakornin í því Staðarbakkahúsi, sem nær liggur óbyggðum minnast ársins 2007 fyrir það: Að það var árið, sem við þann 29. júlí létum pússa okkur saman í heilagt hjónaband eftir hæfilegan sambúðarreynslutíma, sem okkur finnst vera um það bil sami tími og sá sem það tekur barn að vaxa frá vöggu til fermingar. Að þetta var árið, sem Auður María notaði nánast okkar hjartkæra þjóðhátíðardag til að flytja með alla sína fjölskyldu til gömlu herraþjóðarinnar. Að þetta var árið, sem Sólveigu Elínu tókst sá merki áfangi að fjölga mannkyninu og fæða sinn frumburð, hann Tómas Leonard.
  Að öðru leyti var þetta ár nokkuð hefðbundið hér á Staðarbakka. Búskapurinn gekk að mestu án áfalla eða stórra sigra, helst má þar til tína að holdfyllingarflokkun sláturlamba var haustið 2007 verulega betri en áður hefur verið. Tölugildi flokkunarinnar var 10,7 sem verður að teljast allgóður árangur sem ber þess vitni að það miðar fram í sauðfjárræktinni.
  Í stuttu mál má lýsa veðurfari ársins 2007 þannig: Veturinn var fremur mildur og snjóléttur. Vorið kalt og úrkomu lítið. Sumarið þurrt og sólríkt. Frá því um miðjan ágúst og haustið var harla úrkomusamt en nokkuð milt. Veturinn fram að áramótum snjóléttur en leiðinlega vindasamur á stundum. 
  Í landsmálapólitíkinni hefur fátt breyst þrátt fyrir kosningar og stjórnarskipti. Þar er enn dansinn í kringum GULLKÁLFINN stiginn af jötunmóð og þeim hampað mest sem best kunna þann djöfladans og eru fimastir í því að færa pappírssnepla (öðru nafni verðbréf og eða hlutabréf) á milli sinna eigin skúffuafkima, sjálfum sér til auðsöfnunar. Á meðan þeir sem minna mega sín í þessu þjóðfélagi búa við kjör og aðstæður sem eru engum bjóðandi. Má þar t.d. nefna aldraða, en kjör þeirra eru mér nokkuð kunn síðustu árin, eftir að hafa fylgst fyrst með móður minni og nú tengdamóður á öldrunarheimilum. Þar sem þær hafa mátt sæta því að búa inná herbergi með alókunnugum konum og starfsliðið er svo fámennt að það getur aðeins sinnt brýnustu þörfum vistfólksins. Og ellilífeyririnn sem vistfólkið hefur, ekki er hann til að hrópa húrra fyrir rétt um kvart hundrað þúsund krónur á mánuði. Allt þetta er þjóðinni til skammar. Skyldi auðfólk nútímans láta bjóða sér þetta á sínu ævikvöldi. Nei, örugglega ekki þá verður komið upp lúxus-heimilum fyrir aldna auðmenn, þar sem ekkert verður til sparað, þannig að þeir geti haldið sínum standard allt þar til þeir snúa tánum upp í loft. Hvað sem þá verður. Hvernig var nú annars sagan um úlfaldann og nálaraugað?
  Eitt enn um þetta burtkallaða ár. Það er fyrsta heila ár þessarar heimasíðu okkar, sem er fyrst og fremst okkur sjálfum til gamans gjörð og til að geyma þar minningar í máli og myndum. En hafi hún orðið þeim fjölmörgu sem heimsótt hafa hana til nokkurrar ánægju og eða fróðleiks gleður það okkur og viljum við þakka allar þessar heimsóknir.
  Megi Guð færa landi og þjóð, betra og sanngjarnara þjóðfélag á árinu 2008. Þar sem manngildi er sett ofar auðgildi og mannkostir framar prófgráðum.
    GTS

    Áramótabrenna á Akureyri 1. janúar 2008

Flettingar í dag: 58
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 34
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 58501
Samtals gestir: 15962
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 21:30:57
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar