Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir jan. 2011

    29. jan. 2011

  Eftir að hafa gist hjá Rögnu í nótt og átt hjá henni góðan dag fram yfir hádegi, fórum við öll þrjú í bíó að sjá myndina Rokland.
  Þetta er áhugaverð mynd og alveg óhætt að hvetja fólk til að sjá hana. Allavega þá sem ekki eru mjög viðkvæmir fyrir mannlegum sora og breyskleika.
  Það má að mínu mati gefa þessari mynd slatta af stjörnum.







Hinn íslenski þorramatur  Í kvöld blóta Hörgdælingar Þorra á Melum. Að vanda er mikil aðsókn, raunar meiri en nokkru sinni fyrr. Það voru víst pantaðir hátt í 200 miðar, en húsið tekur nú ekki þann fjölda þannig að þar þurfti eitthvað að bregða niðurskurðarhnífnum á loft. 
  Við Sigrún erum bara heima ásamt Hákoni Þór. Það er líka eins gott að við slepptum því að fara þegar allt varð svona yfirfullt.
  Vonum bara að núverandi- og fyrrverandi sveitungar skemmti sér konunglega á blótinu.

    28. jan. 2011

Tómas, Guðm.,Ragna, Sigrún og Erna María  Í kvöld var okkur boðið í mat til Rögnu vinkonu okkar, ásamt heiðurshjónunum Tómasi og Ernu Maríu. Þetta var frábært kvöld. þar sem ásamt því að kýla vömbina var mikið spajallað og mikið hlegið.
  Við Sigrún ætlum svo að gista hjá Rögnu í nótt, þar sem Gestur ætlar að sjá um gegningar á morgun.  








    26. jan. 2011

Þorramynd
  Það er ekki mikið þorra yfirbragð á þessari mynd, sem ég tók í Flögu þegar ég fór til að gefa ánum þar i dag. Það eru búin að vera talsverð hlýindi undanfarna daga, þannig að snjó og svell hefur að mestu tekið upp af láglendi og eins og sjá má er fremur lítill snjór til fjalla. Það sem vekur þó mesta athygli er hvað tún eru græn enn, þótt sé komið fram á þorra.
  Pálsmessan var í gær og lofaði góðu með framhaldið. Það var "Heiðskírt veður og himinn klár" eins og segir í veðurfars vísu Pálsmessu, sem á að vísa til góðs árs framundan. Draumfarir benda einnig til þess að snjólétt verði það sem eftir er vetrar.

Drangi flottur frá Flögu séður  Smelli hér með nærmynd af Dranga séðum frá Flögu. Það er nokkuð annað sjónarhorn en frá Staðarbakka.
  Alltaf jafn flottur sá gamli, ekki satt?








 



    22. jan. 2011

Hreinn og Gréta við veisluborðið  Í dag bauð Gréta frænka mín á Auðnum, fjölskyldu sinni og vinum til afmælisfagnaðar á Melum, en hún varð áttræð þann 19. þ.m.
  Þatta var glæsileg veisla og ánægjuleg dagstund á Melum.
  Gréta fæddist og ólst upp hér í Hörgárdalnum, en fulltíða flutti hún sig yfir Auðnahálsinn að Auðnum í Öxnadal, þar sem þau Hreinn hafa svo búið síðan og verið samhent við að gera að myndarbýli.  Eitt er víst að hún Gréta frænka mín hefur ekki setið auðum höndum um dagana enda mörgu að sinna á stóru heimili, t.d. kom fram að eitt haustið hafi hún gert 70 slátur. 
  Um leið og ég óska Grétu enn og aftur til hamingju með afmælið, sendi ég henni og Hreini mínar bestu óskir um að Guð gefi þeim góða heilsu til að njóta komandi ára saman.  
 Hér má sjá nokkrar myndir frá Melum í dag.

 
    21. jan. 2011 Bóndadagur

Tómas Leonard
  Þá er Þorri karlinn genginn í garð enn einu sinn. Ekki verður nú sagt með sanni að hann heilsi með vetrarhörku þennan veturinn, því það var suðlæg átt og hlýindi í dag, sem eru ágætur viðsnúningur frá þeirri vetrartíð, sem búin er að vera nánast frá áramótum.  
  Spurning hvort þetta er bóndi framtíðarinnar sem er á myndinni, eða hvort þetta er bara hrekkjalómur að reyna að hrekkja afa sinn á bóndadaginn?

Ásta Fönn, undirritaður og Ólafur G  Ég fór til Akureyrar í dag á fund í nefnd þeirri, sem var að endurskoða fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð í fyrra vetur. Það höfðu borist ábendingar um smávægileg atriði sem gætu ef til vill farið betur, frá Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu, sem og Bændasamtökum Íslands. Við vorum að fara yfir þetta. Niðurstaða okkar var sú að taka þessar gagnlegu ábengingar að mestu til greina og fella þær inn í fjallskilasamþykktina. Við skiluðum þessu svo af okkur til framkvæmdastjóra Eyþings. 

    18. jan. 2011

Sólin gyllir fjöllin  Það er nokkuð hvítt yfir að líta. Langt er þó frá að það sé mikill snjór og ekkert í líkingu við það sem var 1995, eins og sums staðar er verið að jafna snjónum nú við.
  Í dag var bjart yfir, einkum framan af degi og sólinni tókst að gylla fjallatoppana. En hún náði ekki að skína niður í norðlenskan dal staðsettan inn í miðjum Tröllaskaga.






Flögukerling (endi hennar)  Það er nokkuð sérstakt að sjá hvað snjóinn hefur lamið í fjöllin undanfarna daga, þannig að eins og sjá má sést varla í dökkt bergið, þótt það sé sums staðar standbratt.











Tómas Leonard og afi  Tómas Leonard kom í sveitina í fyrradag og að sjálfsögðu hjálpar hann afa sínum við gegningarnar. Hér eru þeir kumpánar að koma frá því að gefa ánum í Flögu. Bara nokkuð maskaralegir með sig að sjá.











    15. jan. 2011

Guðmundur, Sigurður og Margrét  Það er búið að vera leiðinda skak í veðrinu undanfarið, austan og norðaustan átt með éljagangi og tilheyrandi skafrenningi. Færð var tekin að spillast verulega, en seinnipartinn í gær kom hefill og ruddi veginn. Þá tók líka að lægja og létta til og er búið að vera hið skaplegasta veður í dag.
  Við voru því með nokkuð síðbúið jólaboð í kvöld, þar sem við buðum Guðmundi vini okkar á Þúfnavöllum og þeim hérna í norður endanum. Það var margt spjallað á meðan við gæddum okkur á ilmandi súkkulaði og bakkelsi. Kærkomin tilbreyting eftir heldur leiðinlega daga undanfarið.


    8. jan. 2011

Háleit ferðbúin  Einhverjir minnast þess kannski að fyrir um það bil ári síðan var pistill um það, þegar forustuærin mín hún Háleit fór að finna elskhuga sinn á Þúfnavöllum. Afrakstur þeirra ástafunda voru tveir forustuhrútar, sem Háleit ól í vor sem leið. Annar þeirra var hann Öðlingur minn sem ég hef um rætt hér á síðunni. En meiningin var að yngja hana Háleit upp, eins og það er kallað, þar sem hún er nú á tíunda vetri. Því var aftur farið í ferðalag í Þúfnavelli í dag og á myndinni er Háleit spennt og ferðbúin á bílnum hans Gests og sat ég hjá henni á leiðinni til að hún hefði einhvern félagsskap.

Grímur á Þúfnavöllum  Og hér er svo hinn fyrirheitni sjarmör, hann Grímur á Þúfnavöllum. Myndarlegur forustuhrútur ekki satt?
  Hann er í eigu Guðmundar á þúfnavöllum, en hann keypti hann úr hinni landsþekktu ræktun forustufjár, Gríms í Klifshaga í Öxarfirði.









Oddur 09-518 á Þúfnavöllum  Guðmundur nafni minn á Þúfnavöllum ræktar flest afbrigði af hinni íslensku sauðkind. Þökk sé honum fyrir að standa í því. Eitt af þessu er að hann er með nokkrar kindur af ferhyrndum stofni, sem er ekki mikið til af í landinu.
  Meðfylgjandi mynd tók ég í dag af þessum myndarlega hrút hans Guðmundar.





  

    6. jan. 2011
 Hundarnir í hríðinni
  Nú gengur vonskuveður yfir landið, um  austan og norðanvert hvöss stórhríð með talsverðu frosti. En eins og sést á meðfylgjandi mynd er skaplegt veður hérna, enda stendur vindurinn af hánorðri og þá má nánast bóka hér fremur hægt veður og litla úrkomu. Það hafa verið smá él hér í dag og kóf meðan þau hafa gengið yfir. 
  Það er nú gott að vera stundum laus við mestu grimmd stórhríðanna.





Magga, Gestur, Sigurður, Guðm. og Sigrún  Þrátt fyrir að spáð væri vonskuveðri, drifum við okkur til næsta bæjar í kvöld, eða þannig! Reyndar er nú innangengt þangað, þannig að veður hafði nú lítil áhrif á þetta ferðalag. Veður er ennþá skaplegt  hér lengst fram í Hörgárdal. 
  Okkur var sem sé boðið hérna í norðurendann í gæsaveislu, svona um leið og jólin voru kvödd. Gæsin var afurð frá Helga "ref" sem er mikill veiðimaður og veiðir allt sem hreyfist hvort heldur það er í lofti, á landi eða í legi. Tekið skal fram að þetta er hinn vænsti drengur þrátt fyrir viðurnefnið, sem er tilkomið vegna þess að hann er refaskytta hér í sveit og víðar. 
 
    1. jan. 2011
 

  Það var óvenju kyrrt hér þegar nýja árið gekk í garð. Engir skoteldar fóru hér á loft, ekki var einu sinni blys í hendi eða borinn eldur að spýtu.

  Það ríkti hér algjör þögn og friður í dalnum, eins og áramótin stæðu á öndinni af eftirvæntingu til hins nýja árs, þegar það kvaddi dyra og varð samofið tilveru okkar, um leið og hið gamla hvarf á braut, svo aldrei það kemur til baka. Með öllu óbreytanlegt úr þessu.

  Já, þannig staflast árin að baki okkar eitt og eitt. Og staflinn stækkar eftir því sem árin færast yfir okkur. Verður eiginlega bara að safni minninga, sem úr verður eins konar áramótabálköstur þegar kemur að skilum okkar milli tveggja heima.

  En þangað til að þar kemur, nýtist reynslan okkur til þroska og við erum betur búin undir að mæta hinum ókomnu árum, hvað sem þau kunna yfir okkur að leiða.

 

 
  Megi Guð gefa okkur öllum gott ár 2011.

Flettingar í dag: 92
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 57
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 61529
Samtals gestir: 16781
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 16:02:29
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar