Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir okt. 2010

    31. okt. 2010

Við Hákon að sækja gimbrahóp  
Það bætir heldur á snjóinn, en var þó allgott  veður og sólin skein þann stutta tíma í dag, sem hún gægist yfir fjöllin, kom ekki upp fyrr en kl. 15.
  Á myndinni erum við Hákon Þór að sækja nokkrar gimbrar suður á tún til að hýsa þær. Á undan hópnum fer forustugimbrin sem ég keypti austur í Sandfellshaga í haust. Hún er mjög efnileg, fer ávallt á undan þegar er verið að reka gimbrarnar og er fljót að læra leiðirnar sem á að fara, hún er afar róleg í rekstri er ekki að hlaupa langt á undan eins og sumu forustufé hættir til.
  Það  er búið að taka lömbin inn og rýja þau, nema þessar gimbrar sem eru á myndinni. Gimbrarnar voru rúnar í dag og gær en hrútarnir í fyrra dag. 


    29. okt. 2010

Féð á leið til húsa  
Veturinn virðist ætla að láta það vera að draga það nokkuð að sýna klærnar. Alla vega er veðurspáin fyrir komandi nótt afleit, hvassviðri og snjókoma. Okkur fannst því öruggara að láta allt féð inn svo það hrektist ekki í skurð eða færi sér á annan hátt að voða. Maður forðar jú ekki slysum eftir á.


 






    26. okt. 2010

  emoticon                                                                                                      emoticon
Ída Guðrún Arnarsdóttir Þessi litla snót hún Ída Guðrún hefur í dag lokið 1. árinu af sinni lífsins göngu. Já og er svo sannanrlega farin að leggja gólf undir fót eða þannig. Farin að ganga.
  Á myndinni skartar hún heklaða kjólnum og hekluðu húfunni, sem amma hennar gerði og sendi henni til Slagelse. 
  Hún Ída Guðrún hefur eitt sínu 1. ári á danskri grundu, en er nú farin ásamt með fjölskyldunni að plana Íslands ferð um næstu jól og áramót.
  Amma og afi í sveitinni á gamla fróni, senda sínar innilegustu afmæliskveðjur um leið og þau biðja Ídu Guðrúnu, Guðs blessunar um ókomin ár.










    25. okt. 2010

emoticon  
 
Í dag eru liðin fjögur ár síðan við Sigrún gerðumst áskrifendur að þessari heimasíðu hjá 123.is. Það hefur verið gaman að halda henni úti, en óneitanlega tekur það talsverðan tíma. Þessi síða var og er fyrst og fremst ætluð til einkanota, það er til að geyma á henni ýmislegt er varðar bústörfin og annað er á daga manns drífur, sem gaman getur verið að eiga geymt á góðum stað til að glugga í síðar á lífsleiðinni. 
  Það sem fór öðruvísi en ætlað var í fyrstu, er hvað margir virðast hafa ánægju af að fylgjast með þessari heimasíðu okkar Sigrúnar. Það hefur nú ef til vill aldrei komði fram hér á síðunni hver verkaskipting okkar er við gerð síðunnar, en hún er nær undantekningarlaust sú að ég framleiði efnið, það er textann og myndirnar, en Sigrún sér um prófarkarlesturinn. 
  Í dag eru orðnar rúmlega 33.700 gestakomur á síðuna frá upphafi, sem  gerir um 23 heimsóknir að meðaltali dag hvern þessi fjögur ár og þeim virðist stöðugt fara fjölgandi því nú um þessar mundir er algengt að það séu um 50 gestakomur á síðuna daglega. 
  Við viljum núna á þessum tímamótum heimasíðunnar okkar, þakka öllum þeim sem hafa haft góð og vinsamleg orð um hana við okkur. 

    23 okt. 2010

  emoticon Eftir að hafa verið að moka skít í allan dag út úr síðasta fjárhúsinu þetta haustið, drifum við Sigrún okkur á árshátíð í Hlíðarbæ. Þetta er í tíunda skiptið sem fimm félög í sveitarfélaginu halda 1. vetrardag árshátíð sína sameiginlega í Hlíðarbæ. 
  Samkoman hófst með borðhaldi þar sem boðið var upp á veislumat og undir borðhaldi var fjöldasöngur og framin ýmiss skemmtiatriði framreidd af nefnd þeirri sem undirbjó árshátíðina.  Að lokum var svo stiginn dans fram eftir nóttu, en ég veit ekki hvað lengi þar sem ég var heldur slappur eftir skítmokstur dagsins og við fórum því fremur snemma heim. 
  Vinir okkar Maja og Tommi voru með okkur til borðs.   

    22. okt. 2010

Hrútar að kroppa 
Mér finnst alltaf eitthvað heillandi við að sjá kindur krafsa og kroppa í fyrtsu snjóum og ekki skemmir ef það eru fullorðnir hrútar.













   21. okt. 2010.

Haustlitir garðsins  Þetta haust, sem nú er senn á enda runnið er búið að vera einstaklega milt og veðra gott en það hefur heldur verið að kólna síðustu dagana. Það hefur í örfá skipti um nætur gránað í allra hæstu fjallatoppa en það hefur vanalega verið horfið þegar næsti dagur hefur liðið að kveldi.
  Það hefur verið óvenju gaman að fylgjast með blómagarðinum færast í haustskrúðann hægt og hægt án þess að þar hafi hausthret sett sitt mark á og raunar var fyrsta frostnótt haustsins aðfaranótt 18. okt.sl. 
  Á myndinni sem tekin var fyrir örfáum dögum má sjá trén í sínum haustlitum og þau hafa fellt mikið af laufunum þannig að grassvörðurinn er allur skreyttur og stjúpurnar eru enn í fullum skrúða. Algjört augnayndi...






Ásýnd haustsins horfin.... en það byrjaði að snjóa í morgun reyndar mjög hóflega en nóg til þess að stúpurnar gleðja ekki augað lengur nema í minningunni. 
  Það er nú einu sinni þannig að allt sem er verður minning og því best að njóta þess sem fagurt er og blítt í núinu og orna sér svo við minninguna.





  


    20. okt. 2010

Ég með haugsugubarkann  Við höfum undanfarna daga verið að taka út úr fjárhúsunum með haugsugunni, byrjuðum þann 15. og kláruðum í dag. Þetta er erfið sannkölluð skítavinna. Það þarf að lyfta upp öllum gólfgrindum, sækja vatn út í skurð, hræra svo upp í krónni og loks ausa svo samblönduðu vatni og skít út á tún. Á myndinni er undirritaður að stjórna barkanum sem notaður er til að hræra upp í krónni og það getur tekið þó nokkuð  á að stjórna honum í marga daga.





Tómas Leonard og Sigurður Birgir  Tómas Leonard var hjá afa og ömmu í nokkra daga og hér er hann hjá Sigga afabróður og Trygg hjá haugsugunni.













   12. okt. 2010

Úr myndasafni E skrokkur  Við fórum á Blönduós í dag að láta slátra og er þar með búið að slátra nánast öllu sem slátrað verður á þessu hausti, aðeins eftir að fara með nokkrar fullorðnar kindur.
  Útkoma haustsins er með því besta, sem hér hefur verið og breyttist sára lítið núna frá fyrri slátrun í haust. Þess má geta að í fyrri slátrun þann 15. sept. voru lömbin að koma nánast beint af fjalli og þau sem nú fóru hafa verið á góðri háarbeit. Hér tíðkast ekki að skekkja fjárræktina með kálbeit.
  Meðalþungi dilkanna var 16,96 kg. sem er 730 gr. þyngra en í fyrra haust. Vöðvaflokkunin var nú 10,83 á móti 10,11 í fyrra. Fituflokkun 7,61 en var 7,24 á síðasta hausti. 
  Þessa betri útkomu má að mestum hluta rekja til hagstæðs sumars en þó einkum frábærs tíðarfars í haust. 
  Þá getur maður leyft sér þann munað að gæla við þá hugsun að eitthvað sé manni að miða í fjárræktinni.

Spónn 09-290 haustið 2009  Hrútur sá sem er að koma best út á þessu hausti heitir Spónn 09-290 (mynd fá því í fyrra haust) Sláturlömbin undan honum vógu að meðaltali 17,2 kg. vöðvaflokkun þeirra var 12,5 og fitu flokkun 7,33. Spónn er því með skýra yfirburði á öllum sviðum, bæði hvað varðar þunga og kjötmat. Útkoma hans úr stigun í fyrra haust gaf líka góð fyrirheit um hvers mætti  af honum vænta, þar sem t.d. stigun hans fyrir malir var 9,5 og 19 fyrir læri.
  Spónn er undan Prjóni 07-812 frá Hesti og Spjálk 07-764 en faðir hennar var Krókur 05-803.


Guðm., Sæmundur og Gestur við róðukross  Á heimleiðinni í dag hittum við í Varmahlíð, Sæmund bónda á Syðstu-Grund í Akrahrppi og bauð hann okkur heim í seinnipartskaffi, sem við þáðum með þökkum. Að afloknum veitingum bauð Sæmundur okkur að fara með okkur á slóðir Haugsnesbardaga, sem eru í hans landareign. Þar hefur verið unnið að gerð minnistákna um þennan bardaga á undanförnum árum og meðal annars reystur róðukross  til minningar um foringja Ásbirninga Brand Kolbeinsson.
Á myndinni sitjum við Gestur með Sæmund bónda á milli okkar við róðukrossinn og Glóðafeykir gnæfir yfir í baksýn.
  Ég set hér inn nokkurn fróðleik um  Haugsnesbardaga sem ég fann á heimasíðu þeirra á Syðstu-Grund.

 

 

 

 

Haugsnesbardagi

 

 

19. apríl 1246, var ein af stórorrustum Sturlungaaldar og mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi. Þar börðust Sturlungar (aðallega Eyfirðingar) undir forystu Þórðar kakala Sighvatssonar og Ásbirningar (Skagfirðingar), sem Brandur Kolbeinsson stýrði. Hann hafði á sjötta hundrað manna í sínu liði en Þórður kakali nærri fimm hundruð og voru það því yfir þúsund manns sem þarna börðust og tíundi hver féll, eða yfir eitt hundrað manns.

Bardaginn var háður á Dalsáreyrum í Blönduhlíð, í landi sem nú tilheyrir jörðunum Djúpadal og Syðstu-Grund. Skagfirðingar höfðu gist á Víðimýri nóttina fyrir bardagann en komu austur yfir Héraðsvötn og tóku sér stöðu utan við Haugsnes, sem er nes sem skagar til norðurs út í Dalsáreyrar. Lið Eyfirðinga hafði verið um nóttina á bæjum frammi í Blönduhlíð og bjuggust Skagfirðingar við að þeir kæmu ríðandi út með brekkunum en Eyfirðingar komu fyrir ofan Haugsnesið og gátu komið Skagfirðingum að óvörum, svo að þeir voru illa viðbúnir. Þórður kakali hafði líka komið flugumanni í lið Skagfirðinga, sem flýði manna fyrstur og fékk marga til að leggja á flótta með sér.

Róðukross

Róðugrund er örnefni á grundunum vestan Haugsness, í landi Syðstu-Grundar í Blönduhlíð. Þar var reistur róðukross til minningar um Brand og er talið að krossinn hafi staðið fram undir siðaskipti. Tók staðurinn nafn af krossinum. Sumarið 2009 var reistur annar róðukross á Róðugrund, til að minnast atburðanna þegar Ásbirningar hurfu af sjónarsviðinu sem ein mesta valdaætt landsins

 
    8. okt. 2010

María Svanþrúður og Stefán Lárus  Í dag voru ómskoðaðir og stigaðir hér 54 lambhrútar. Ólafur G Vagnsson sá um ómmælinguna og María Svanþrúður Jónsdóttir stigaði, það er í fyrsta skipti sem hún kemur hér í lambhrútaskoðun. Ekki var ég nú alltaf sammála dómum hennar, einkum var það stigun fyrir frampart sem okkur greindi á um, en í heildina tókst stigunin bærilega hjá henni.
  Að meðaltali stiguðust þessir 54 hrútar upp á 84,4 stig bestu kostir þeirra birtast í 8,9 meðal stigun fyrir malir og 18,1 fyrir læri. Meðal einkunn þeirra sem "Fjárvís" reiknar að lokinni stiguninni er 142,8. 
  Hér verður gerð nokkur grein fyrir þeim 6 stiga hæstu.

Lambhrútur númer 562  Hér má sjá hrút númer 562, annan þeirra sem hæst stiguðust. Hann er í fjárbók okkar Sigrúnar en Hjalti á hann.
Hann er tvílembingur og vó 55 kg.
Ómtölur hans eru: 33mm ómv. 1,9mm ómf. og 4.5 óml.
Fótleggur mældist 110mm.
Stigun hans er eftirfarandi: Haus 8,0 - h/h 9,0 - b/útl 9,0 - bak 9,0 - malir 9,5 - læri 19,5 - ull 7,5 - fætur 8,0 og samræmi 8,5 = 88,0 stig alls. Heildar "Fjárvís" einkunn hans er 201,3.
Faðir er Kveikur 05-965 og móðir Lóló 06-699 en hún er undan Þrótti 04-991. 
  
    

Lambhrútur númer 489  Hér má svo sjá hinn hæst stigaðasta lambhrútinn og er hann númer 489. Hann tilheyrir fjárbók Sigurðar og Margrétar en Hákon Þór á hann.
Hann er einlembingur og vó 60 kg.
Ómtölur hann eru: 34mm ómv. 3,8mm ómf og 4,5 óml.
Fótleggur er 114mm.
Hann stigaðist eftirfarandi: Haus 8,0 - h/h 9,0 - b/útl. 9,0 - bak 9,0 - malir 9,5 - læri 19,0 - ull 8,0 - fætur 8,0 og samræmi 8,5 = 88,0 stig. Heildar "Fjárvís" einkunn hans er 158,3.
Faðir Botna er Grábotni 06-833 og móðir er Botna 08-820 og aftur í ættir móður má finna t.d. sæðingahrúta eins og Læk 97-843, Hörva 92-972, Svaða 94-998 og Kokk 85-870.

Lambhrútur númer 510  Lambhrútur númer 510, hann er í eigu okkar Sigrúnar.
Hann er tvílembingur og vó 49 kg.
Ómtölur hans eru: 32mm ómv. 1,7mm ómf og 4,5 óml.
Fótleggur er 107mm.
Hann stigaðist svo: Haus 8,0 - h/h 9,0 - b/útl. 8,5 - bak 9,0 - malir 9,5 - læri 19,0 - ull 8,0 - fætur 8,0 og samræmi 8,5 = 87,5 stig.
Heildar "Fjárvís" einkunn hans er 169,0.
Faðir þessa hrúts er Borði 08-838 og móðir Gemsa 05-596.



Lambhrútur númer 211  Þá er lambhrútur númer 211, sem er eign Sigurðar og Margrétar.
Hann er fæddur þrílembingur og vó 48 kg.
Ómtölur hans eru: 31mm ómv. 3,5mm ómf. og 3,5 óml.
Fótleggur mældist 111mm.
Hann stigaðist á eftirfarandi hátt: Haus 8,0 - h/h 8,5 - b/útl. 9,0 - bak 8,5 - malir 9,5 - læri 19,5 - ull 8,0 - fætur 8,0 og samræmi 8,5 = 87,5 stig. "Fjárvís einkunn hans er 143,1.
Þessi hrútur er undan Álfi 08-286 og Ljót 03-337. F.f. er Kveikur 05-965. F.m.f. er Þróttur 94-991. M.f. er Sjóður 97-846. Ýmsa fleiri eldri sæðingahrúta má finna hér í framætt en þeir verða ekki tíundaðir hér.

Lambhrútur númer 998 Fimmti hrúturinn er númer 998 og hann eigum við Sigrún.
Hann er einlembingur og vó 52 kg.
Ómtölur hans eru þessar: 30mm ómv. 3,0mm ómf. og 4,0 óml.
Fótleggur er 108mm.
Stigun hans var: Haus 8,0 - h/h 9,0 - b/útl. 9,5 - bak 8,5 - malir 9,5 - læri 18,5, ull 8,5 - fætur 8,0 og samræmi 8,0 = 87,5 stig.
"Fjarvís einkunn hans er 160,0.
Þessi gripur er undan Sokka 07-835 og Báru 08-874. M.f. er Garður 05-802. M.m.f. er Bessi 99-851. M.f.m.f. er Stapi 98-866.

Lambhrútur númer 183  Þá er komið að sjötta og síðasta lambhrútnum, sem gerð verður grein fyrir hér. Hann er eign Sigurðar og Margrétar.
Hann er tvílembingur og vó 50 kg.
Ómtölur eru: 27mm ómv. 2,7mm ómf. og 4,5 óml.
Fótleggur mældist 107mm.
Hann stigaðist svo: Haus 8,0 - h/h 9,0 - b/útl. 9,0 - bak 9,0 - malir 9,5 læri 19,0 - ull 8,0 - fætur 8,0 og samræmi 8,0 = 87,5 stig.
Einkunn hans í "Fjarvis" er 113,3.
Golti þessi er undan Dúlla 06-151 á Ytri-Bægisá 2 og Kló 02-228. Foreldrarnir eru bæði goltótt að lit. F.f. er Mímir 04-951. F.m.f. er Prúður 94-834.
  Er þá búið að gera grein fyrir þeim 6 lambhrútum sem stiguðust upp á 88,0 og 87,5 stig.
24 hrútar stiguðust með 85 stig eða meira, sem má teljast nokkuð gott en það er nú reyndar bara eftir þörfum, því af hrútunum sem skoðaðir voru í dag verða á milli 25 og 30 hrútar settir á heima eða seldir til lífs.

  Hér má sjá lambhrútaskoðunarblöðin í heild


3. okt. 2010

Hluti lífgimbranna  Dagurinn í dag fór í að velja lífgimbrarnar. Þetta er að sjálfsögðu mikið vanda verk og ekki vert að kasta að því höndunum, enda verið að leggja grunn að framtíðarfjárstofni. Það er nú sjálfsagt jafn misjafnt og bændurnir eru margir hvernig er að þessu vali staðið. Allt frá því að láta sjónmat eitt ráða för og í að notfæra sér allar þær tölulegu upplýsingar, sem má fá út úr fjárræktarskýrslunum og bæta við þær mælingum og stigun á gimbrunum.
  Hjá okkur er ferlið í stórum dráttum þannig: Fyrst eru valdar í haustbókinni 30 - 40% fleiri gimbrar en settar verða á og þær svo merktar sérstaklega um leið og öll lömbin eru vigtuð eftir 1. göngur. Við þetta val er einkum stuðst við svokallað BLUP mat, sem er byggt á reynslu af foreldrum lambsins og náins skylduliðs þeirra. Þarna eru metnir 4 mikilvægir þættir, sem eru líkleg fitusöfnun, vöðvasöfnun, frjósemi og mjólkurlagni og á meðallambið að fá sem næst tölunni 100 fyrir hvern þessara eiginleika. Við þetta bætist svo yfirferðin eins og í dag, þar sem ég gef hverri gimbur stig fyrir 5 eiginleika sem eru: Frampartur, fita, bak-, mala- og lærahold. Meðalstig fyrir frampart, bak og malir á að vera um 8, en fyrir læri 16 og gott mat fyrir fitu liggur á bilinu 2 - 3. (Ekki er fenginn ráðunautur til að ómskoða eða stiga gimbrarnar hér) Að öllu þessu skoðuðu eru svo lífgimbrarnar endanlega valdar.
  Þegar valinu lauk og ljóst var hvaða gimbrar yrðu þess heiðurs aðnjótandi að fá að kallast lífgimbrar var meðaltal þeirra úr BLUP mati: 108 fyrir fitu, 116 fyrir vöðva, 104 fyrir frjósemi og 105 fyrir mjólkurlagni og meðaltal allra þessara þátta 108, sem er mjög gott. Úr stiguninni var útkoman þessi: 8,6 fyrir frampart, 2,4 fyrir fitu, 8,6 fyrir bak, 8,9 fyrir malir og 18,2 fyrir læri. Þetta eru ágætar niðurstöður og í góðu samræmi við kjötmatið í haust, sem var 10,9 fyrir gerð og 7,6 fyrir fitu.
Að meðaltali vóu lífgimbrarnar 38,7 kg. þegar þær komu af fjalli, en samkvæmt stikkprufu sem tekin var af þeim í dag hafa þær þyngst um 6 til 8 kíló síðan.

Hluti af gimbrunum hans Gests  Gestur valdi sínar gimbrar líka í dag og má sjá hluta þeirra á myndinni.














Ritari dagsins Sólveig Elín  Ritari dagsins Sólveig Elín staðin upp frá ritaraborðinu kát með afrakstur dagsins.













  
    1. okt. 2010

Í Langadal  Í dag var enn einn blíðviðrisdagur haustsins. Ég fór á stjórnarfund hjá SAH á Blönduósi, þar sem við vorum að fara yfir stöðuna og framtíðarhorfur, sem eru bara nokkuð bjartar. Það var ekki amalegt að keyra í þessu glampandi fallega haustveðri og myndavélin var að vanda með í för og var meðfylgjandi mynd tekin í Bólstaðarhlíðarbrekkunni.

Flettingar í dag: 19
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 62
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 62191
Samtals gestir: 16916
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 07:17:59
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar