Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir nóv. 2009

    30. nóv. 2009

Sigrún og Halldóra Lísbet  Í kvöld var hér svo kölluð kremkynning. Það var Halldóra Lísbet á Skriðulandi sem var með kynningu með líku sniði og hún hefur haft hér af og til á undanförnum árum. Alls mættu 10 á kynninguna auk Halldóru og var ágæt sala hjá henni eins og jafnan hefur verið og seldust vörur fyrir tæplega sextíu þúsund. Þrátt  fyrir allt krepputal. Kvöldinu lauk svo að vanda með veislukaffi hjá Sigrúnu.
 



   26. nóv. 2009

Um veturnætur 2009

  Nú þegar búið er að gera upp sauðfjárbókhaldið fyrir Staðarbakkabúið hjá Bændasamtökum Íslands í hinu nýja miðlæga kerfi "fjarvis.is" má fá út ýmsar upplýsingar t.d. uppgjör haustsins yfir hrúta búsins.
  Hér má sjá niðurstöður fyrir hrúta á Staðarbakka sem lambafeður haustið 2009








   23. nóv. 2009

 Jólabók sauðfjárbóndans komin út!!!

Hrútaskráin komin út

 Í kvöld fór ég ásamt þeim hérna í norðurendanum á kynningarfund í Hlíðarbæ. Þar var dreift nýútkominni hrútaskrá yfir þá hrúta, sem eru nú á sæðingastöðvum. Jón Viðar Jónmundsson sauðfjáræktarráðunautur BÍ, hafði þar framsögu. Hann ræddi fyrst um sauðfjársæðingar almennt og þá einkum árangur af þeim, svo sem fanghlutfall og frjósemi áa, sem sæddar væru og taldi að þá þætti mætti bæta með vandaðri vinnubrögðum t.d. með því að hafa hrút viðstaddan þegar sætt er. Þá fór hann ítralega í gegnum hrútaskrána og lýsti öllum þeim kostagripum, sem þar er að finna og tíundaði helstu afrek þeirra hvers og eins í kynbótum til þessa. Á fundinum voru einnig afhent verðlaun fyrir þrjá hæst stiguðustu lambhrútana á svæði Búnaðarsambands Eyjafjarðar á nýliðnu hausti. Allir hlutu þeir 87,5 stig og var ómmæling látin skera úr um röðun þeirra. Hlutskarpasti hrúturinn varð lambhrútur á Hríshóli í Eyjafjarðarsveit, sá í öðru sæti er á Hálsi í Dalvíkurbyggð og þriðji er svo hér á bæ í eigu þeirra Sigurðar og Margrétar.

Hér má sjá hrútaskrána yfir hrúta á Sauðfjársæðingastöð Suðurlands 2009
Hér má sjá hrútaskrána yfir hrúta á Sauðfjársæðingastöð Vesturlands 2009

  Í gærkveldi voru allar ærnar sem verið hafa út í Flögu í haust hýstar þar. Þær voru svo sortéraðar í dag. 134 voru skildar eftir í Flögu til vetursetu þar, 106 sem ég á og 28 sem Gestur á. Hinar voru svo reknar hér heim og hýstar. Teknar voru svo úr 70 ær sem eiga að liggja við opið upp á Bergi í vetur. Þannig að nú má segja að allt fé sé komið í og við hús.

21. nóv. 2009

Tómas Leonard búinn að taka til kartöflurnar

  Í gær fórum við til Akureyrar, þar sem var dynjandi rigning. Tómas Leonard kom svo með okkur í sveitina, en hann nældi sér einhvers staðar í skarlatsótt og er hálf lasinn. En eins og sjá má er hann liðtækur við eldhúsverkin og er að hjálpa ömmu sinni að taka til kartöflunar í hádegismatinn.  

Annars var ýmislegt um að vera hér í dag. Upp úr hádeginu kom hér feikna stór björgunarsveitarbíll frá Akranesi. Voru þar á ferð vaskir björgunarsveitungar, sem hugðust klífa Dranga. Þeir komu ekki aftur fyrr en í brúna myrkri. Þeir komust upp í Dranga, en þar voru mjög erfiðar aðstæður vegna snjóa og hálku og þurftu þeir frá að hverfa án þess að komast á toppinn.

Um kaffileytið birtist hér svo lögregla í fullum skrúða, var hún að forvitnast hér um rjúpnaskyttur. Sem betur fer er lítið um þær hér og því allt með kyrrð og spekt.

Graðfolar sóttir  Í dag sóttu félagar í Framfara graðfolana sína, sem búnir eru að vera hér í hólfi á Nýjabæ síðan um miðjan júní. Þetta voru tæpir 20 folar, flestir ef ekki allir veturgamlir. Þetta var álitlegur floti jeppa með hinar veglegustu hestakerrur í eftirdragi, sem komið var á til að sækja folana og voru þeir lestaðir á farartækin út við rétt.






    14. nóv. 2009

Ólafur G og ég að skoða lambhr. í Sandfellshaga  Laust fyrir kl. 8 í morgun lögðum við öll hérna á bænum í ferð með Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps austur í Öxarfjörð. Alls voru 11 í ferðinni. Tilgangur ferðarinnar var að skoða fé, fjárhús og aðstöðu svo og að kynnast bændum þar. Fyrst komum við í Sandfellshaga 1 og skoðuðum hjá Sigþóri Þórarinssyni. Næst skoðuðum við hjá Gunnari og Önnu í Sandfelli og þáðum svo hjá þeim frábæran hádegisverð. Að því búnu var farið að Klifshaga og skoðað hjá þeim, Stefáni, Guðlaugu og Baldri (bónda). Þar hittum við einnig Grím Jónsson, sem segist vera elsti starfandi bóndi landsins og býr á hinum Klifshagabænum og er meðal annars þekktur fyrir langræktaðan stofn forustufjár. Áður en við ókum úr hlaði í Klifshaga buðu þau hjón Guðlaug og Stefán, uppá kaffi og snafs í gömlu fjósi, sem þau hafa nú innréttað og fengið nýtt hlutverk, sem verkstæði og vélageymsla. Þá var haldið að Hafrafellstungu og skoðað hjá þeim feðgum Karli og Bjarka, sem buðu upp á bjór á meðan gengið var um fjárhús og féð skoðað. Síðasti viðkomustaðurinn var svo Ærlækur, þar sem var skoðað hjá þeim hjónum Jóni Halldóri og Guðnýju, sem buðu svo uppá algjört veislukaffi, áður en við héldum heim, í því voru einnig allir þeir sem við heimsóttum í dag. Það er alveg óhætt að segja að þetta var mjög vel lukkuð ferð. Við sáum mjög fallegt fé og nutum í alla staði alveg frábærrar gestrisni heimamanna í Öxarfirðinum. Hafi þeir heila þökk fyrir.
Hér má sjá myndir úr ferðinni.


    13. nóv. 2009

  Við Sigrún brugðum okkur til Akureyrar og fórum fyrst í ,,svínaflensusprautu". Sigrún var svo hjá Sólveigu og Tómasi. Ég fór hins vegar á fyrsta fund nefndar á vegum Eyþings, sem á að endurskoða fjalllskilasamþykktir á starfssvæði Eyþings. Þetta er fimm manna nefnd sem í eiga sæti: Ólafur G Vagnsson frá Búgarði og bændurnir Ásta Fönn Flosadóttir Grýtubakkahreppi, Sólveig Erla Hinriksdóttir Skútustaðahreppi, Sigurður Þór Guðmundsson Svalbarðshreppi og ég sem kem frá Hörgárbyggð. Á þessum fyrsta fundi var Ólafur kjörinn formaður og Sigurður ritari nefndarinnar, einnig fórum við yfir hvernig starfi hennar verður háttað í byrjun

    12. nóv. 2009

Hrútarnir nýrúnir  Í dag voru gimbrarnar og fullorðnu hrútarnir tekin á hús og rúin. Áður var búið að taka lambhrútana inn og rýja þá. Ærnar eru nánast allar enn úti og hafa það bara gott, enda alautt og þokkalegasta tíð, þó nokkuð úrkomusamt hafi verið.
  Eins og sjá má voru hrútarnir settir undir plast þegar við Gestur vorum búnir að taka af þeim, svo þeim verði ekki kalt þangað til ærnar koma inn. Það er jú höfuðskylda bóndans að sjá um að skepnunum hans líði ætíð eins vel og nokkur kostur er, enda launa þær það með því að vera miklu fallegri þannig og gefa þá líka af sér betri afurðir.




    11. nóv. 2009


         Fagurt var á fjöllum í dag. Gimbrarnar voru hýstar í 1. skipti í kvöld
Flöguselshnjúkur, Geldingaskarð og Flögukerling








 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Gestur að smíða  Eitt af því sem þarf að gera á hverju hausti er að endurnýja einhvern hluta af gólfgrindunum í fjárhúsunum. Við Gestur erum að vinna við það núna. Eins og sjá má fer Gestur fagmannlega að þessu og gefur örugglega ekkert eftir lærðum smiðum.

 

 

 

 

ReykkofinnBjúgun komin í pottinn
  Fyrir nokkrum dögum var greint frá bjúgnagerðinni. Nú eru bjúgun búin að fá sína reykingu í reykkofanum og í pottinn fóru nokkur þeirra í dag og voru höfð til hádegisverðar. Það var samdóma álit okkar, sem gæddum okkur á þeim að þau væru hættulega góð, þannig að það gæti valdið ofáti.

    10. nóv. 2009

Fjarvis.is  Það er um ½ mánuður síðan við skiluðum fjárbókhaldinu okkar til Bændasamtaka Íslands, til uppgjörs þar. Við höfum nú um nokkuð langt árabil skilað því í "gamla fjárvís" eins og farið er að kalla það nú. Það er forrit sem BÍ hannaði á sínum tíma og gátu bændur keypt það til nota í sínum tölvum og sent svo kindabókhaldið til uppgjörs hjá BÍ, annað hvort á disklingi eða í tölvupósti. 
  Nú hafa Bændasamtökin þróað nýtt miðlægt skýrsluhaldskerfi fyrir sauðfjárbændur, sem þeir vinna í á netinu, þannig að nú fara allar skráningar bænda beint inn í það og kallast það "Fjarvis.is". Það eru að mig minnir tvö ár síðan byrjað var að nota þetta nýja forrit, en notkun þess hefur aukist fremur hægt, þar sem það krefst góðrar nettengingar, sem óvíða hefur verið til staðar í sveitum landsins. En það stendur nú til bóta, þar sem verkefni Fjarskiptasjóðs er nú í fullum gangi. Áform hans eru að allir landsmenn eigi kost á háhraða nettengingu fyrir árslok 2010.
  Í morgun hringdi ég í Jón Viðar, sem er sauðfjárræktarráðunautur hjá Bændasamtökunum og bað hann um að opna aðgang fyrir okkur á Staðarbakka, að Fjarvis.is, sem og hann gerði í dag. 

    9. nóv. 2009

Auður María, Ída Guðrún og Steini  Í dag á Auður María afmæli og hefur nú lagt að baki tæpan aldarþriðjung. Hún er glæsileg á myndinni, þar sem hún er að næra örverpið Ídu Guðrúnu, en kötturinn Steinríkur lætur sér fátt um finnast, en nýtur þægindanna.
  Við sendum henni okkar bestu hamingjuóskir í tilefni dagsins.

 

 

 

 

 

 

 
 7. nóv. 2009

Nýheimtir hrútar  Í dag heimtust þessir 3 stólpa lambhrútar. Þeir birtust bara framan við Landsgirðinguna. Ekki er gott að segja hvaðan þeir komu þangað, annað en þeir hafa vafalítið haldið sig hæst upp í fjöllum um göngur og því orðið eftir, trúlega fram á Grjótárdal og þar upp á Urðum.
  Við fórum fyrir þá og rákum hér heim í fjárhús. Reyndust tveir þeirra vera frá Djúpadal í Skagafirði, líklega samstæðir tvílembingar, en þann þriðja átti Sigurður bróðir. Allir voru þeir í allgóðum holdum, þrátt fyrir að trúlega séu þeir búnir að vera þar sem snjór hefur verið, í á annan mánuð.

    5. nóv. 2009

Sigrún, Gestur og ég sjálfur að úrbeina  Þau eru margbreytileg hauststörfin í sveitinni, þar er eitt meðal annars að vinna úr kjötinu og ganga frá því til geymslu, því helst eiga þessar kjötafurðir að endast til næstu sláturtíðar. Við tökum alltaf til eigin nota það kjöt, sem til fellur af ungum hrútum, þótt það sé nú ekki talin markaðsvara og sé verðlaust til innleggs í sláturhús. En þetta eru vöðvamiklar kindur og fæst af þeim úrvalskjöt að okkar mati og hreinn óþarfi og sóun að henda þessu kjöti.
 Við tókum að þessu sinni heim 4 hrúta, og vógu skrokkarnir af þeim samtals 155 kg.
  Hér er því búin að vera kjötvinnsla síðustu 3 dagana og hefur Gestur verið að hjálpa okkur Sigrúnu við hana.
  Fyrsta daginn vorum við að úrbeina eins og sést á myndinni, einnig voru 6 læri sett í saltpækil, sem á svo að reykja.

Við Gestur að hakka Í gær var svo hakkað, bæði í bjúgu og hakk sem gengið var frá og fryst




  











Við Gestur við bjúgnagerðina  Í dag var svo kjötið sett í langana (94 bjúgu) og  hengt út í reykkofa og Magga kveikti svo upp, en hún sér um reykinguna hér á bæ. Gestur lánaði hakkavélina, sem við notuðum við kjötvinnsluna þessa daga.  
  Það er mikið gott að kjötvinnslan er búin þetta árið.

  

 

 

  Í dag komu hér ekki færri en 3 ráðunautar: Sigurður Þór, Ólafur G og Þórður Sigurjóns. Þeir voru á yfirferð um héraðið að endurskoða þá lambhrúta, sem stiguðust hæst í haust og raða þeim í sæti. Þetta eru 6 hrútar sem stiguðust með 87,5 stig eða hærra og tveir af þeim eru hér á bæ.

  1. nóv. 2009

Sigrún að hekla  Teppið búið
Sigrún hefur haft þann sið að hekla teppi handa barnabörnum sínum,
þegar þau fæðast. Í dag var hún að leggja lokahönd á teppið handa Ídu Guðrúnu, kláraði að hekla það og þvo. Ég náði að mynda, þegar hún var að fara með það út til þerris.



Haustsólin baðar dalinn Nú er kominn sá tími að blessuð sólin fer að kveðja hér fyrir fullt og allt, þar til hún nær aftur að lyfta sér yfir fjöllin upp úr miðjum Þorra. Í dag var heiðskírt og stilla og því náði sólin að baða blessaðan dalinn geislum sínum. Hún kom þó ekki upp hér fyrr en upp úr kl.15 og var hnigin bak við Grjótárhnjúkinn um 20 mínútum síðar. Innan einnar viku nær hún ekki að skína hér heim, þannig að það fer að verða nokkuð dimmt í norðlenskum dal. Þá er bara að njóta þess sem náttúran hefur upp á að bjóða á þessum árstíma t.d. Mánann margbreytilegan, sem birtist allt frá því að vera smá hálfmánarönd upp í það Síðasti sólargeislinnað  vera fullur og mikilúðlegur. Ekki má gleyma norðurljósunum margbreytilegum og stjörnunum óteljandi. Allt þetta á vissulega sína töfra til að heillast af.

Flettingar í dag: 29
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 88
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 61783
Samtals gestir: 16819
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 21:04:28
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar