Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir apríl 2010

    23. apríl 2010

Ásta Fönn, Guðm. Trausti og Ólafur Geir  Í dag lauk nefnd sú störfum, sem unnið hefur að endurskoðun á fjallskilasamþykkt, á vegum Eyþings, fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð.
  Alls hélt nefndin 7 bókaða fundi, þar af tvo með fulltrúum sveitarfélaganna, þar sem þeim gafst kostur á að koma hugmyndum sínum á framfæri við nefndina. 
  Nefndin skilaði svo í dag fullbúinni fjallskilasamþykkt til framkvæmdastjóra Eyþings, Péturs Þórs Jónassonar.
  Fjallskilasamþykktin á svo eftir að fara fyrir aðalfund Eyþings nk. haust og svo að hljóta staðfestingu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, áður en hún öðlast gildi. Það er því ljóst að í fyrsta lagi haustið 2011 verður hægt að vinna eftir henni.
Hér má sjá drögin að nýrri fjallskilasamþykkt.  


22. apríl 2010, sumardagurinn fyrsti


Við sendum öllum innilegar óskir um gæfu og gengi á nýbyrjuðu sumri ! 
Morgunsólin skín yfir Dranga
Sérstakar kveðjur sendum við þeim, sem nú í sumarbyrjun búa í skugga öskufalls
og óvissu um hvort móðir jörð getur á þessu sumri gefið af sér gróður jarðar.
Að þessu sinni frusu saman vetur og sumar með hörkugaddi, þannig að vorið og
sumarið ættu að verða með besta móti samkvæmt þjóðtrúnni

Denni, Beta, Bjarki og Sigurður  Það hefur tíðkast hér, um árabil að stórfjölskyldan safnist saman við þá athöfn að brennimerkja ær á sumardaginn fyrsta og var eigi brugðið út af þeirri venju í dag. 
  Almennt var fé brennimerkt fyrr á árum, en nú hefur mjög dregið úr því hin síðari ár. Algengast var að brennimerkja gemlingana, en hér hefur tíðkast í seinni tíð að við brennimerkjum tvævetlunar.
  Á myndinni hér til hliðar er verið að undirbúa verkið, með því að hita bernnijárnin. Það eru sérstök járn með stöfum eða táknum á endanum, sem eru brennd í horn kindanna.
  Tekið skal fram að þetta á ekki að valda sársauka fyrir kindina þar sem hvorki er brennimerkt í skinn eður hold. 

Sigurður og Margrét að brennimerkja  Þegar brennijárnin eru orðin glóandi heit er hafist handa við að brennimerkja. Á hægra horn er brennimark eiganda sett, sem oft er fangamark (upphafsstafir)eigandans, en getur þó verið hvaða tákn sem er. Það þarf þó að hafa fengið samþykki markavarðar og vera skráð í markaskrá til þess að heimilt sé að nota það.
  Hér eru Sigurður og Margrét að brennimerkja SS á hægra hornið.




  

Hreppstáknið E6 komið á vinstra horn   Hér er hreppstáknið E6 komið á vinstra horn. E stendur fyrir Eyjafjarðarsýsla og 6 fyrir Skriðuhrepp, sem reyndar hefur verið lagður niður með sameiningu 3 hreppa, sem nú mynda Hörgárbyggð, en eftir standa þrjár fjallskiladeildir og nú stendur 6 fyrir Skriðudeild.









    17. apríl 2010

Sigrún og Erna María  Í kvöld var okkur boðið til kvöldverðar hjá Maju og Tomma í Eyrarveginn. Margt var nú spjallað, allt frá skýrslunni stóru og landsmálanna til bókmennta og sveitalífsins. Það er alltaf jafn gaman að heimsækja þau og eiga við þau spjall og ekki svíkja veitingarnar.






 


    15. apríl 2010

Gestur að klaufsnyrta  Við vorum í Flögu í mest allan dag. Við byrjuðum á því að sprauta allar ærnar með þrívirku bóluefni, sem á að efla mótefni gegn lambablóðsótt, garnapest og bráðapest. 
  Að bólusetningunni lokinni klaufsnyrtum við svo allar ærnar. Á fé sem liggur við opið geta klaufir verið mjög illa vaxnar á þessum tíma, einkum ef ærnar eru búnar að ganga á mjúku allan veturinn og þar að auki hreyfa sig fremur lítið.





Ég að klaufsnyrta og hundarnir fylgjast með af áhuga  Þetta var heilmikið verk og taldist okkur Gesti svo til að við værum búnir að lyfta á tíunda tonni af ám, þegar allar voru snyrtar og Sigrún var grindarvörður.
  Það sem okkur yfirsást, var að þetta tók miklu lengri tíma en við héldum og vorum við því orðin bæði þreytt og illa haldin af hungri, þar sem ekkert nesti var með í för.








    12. apríl 2010

Flöguánum gefið  Í dag var hér á ferð Ólafur G Vagnsson búfjáreftirlitsmaður og ráðunautur í árlegri eftirlitsferð. Búfjáreftirlitsmaður á að skoða aðbúnað og fóðrun búfjár, athuga hvort nægur heyfengur er til að framfleyta búpeningnum fram á græn grös, einnig á hann að yfirfara ,,Gæðahandbók" er varðar sauðfjárrækt, hvort hún er færð eins og mælt er fyrir um.
  Eins og ætíð hefur verið hér á bæ, reyndust allir þessir hlutir í góðu lagi og fengu bestu umsögn.




    11. apríl 2010

Í Mývatnssveit  Þá er nú þessi langa helgi á enda runnin. Um hádegið kvöddum við þau Kristbjörgu og Halldór, með kæru þakklæti fyrir frábærar móttökur. Einnig fórum við og kvöddum Hjalta í ME og þökkuðum honum fyrir samfylgdina þessa daga.
  Var þá kominn tími til að halda heim yfir Fjöllin. Ferðin gekk ágætlega, við komum við í Helgamagrastrætinu til að líta á hjúin þar.
  Að vanda var myndavélin mikið á lofti á leiðinni og myndað út um bílgluggana að mestu leyti. Umhverfið hafði nú talsvert breyst frá því að við fórum austur. Mikinn snjó hefur sem sé tekið upp og sums staðar orðið nánast autt, þar sem ekki sá á dökkan díl.
  Við mættum Gesti hérna rétt utan við, hann var að fara á sinn hefðbundna sunnudagskvölds fótbolta.
  Gott er að vera kominn heim eftir vel heppnaða ferð.
   Hér má sjá myndir frá heimferðinni.

    10. apríl 2010

Sumarhús þeirra Kristbjargar og Halldórs að Gagnstöð  Í dag buðu þau Kristbjörg og Halldór okkur í sumarhús sitt, sem þau hafa reist sér á eyðibýlinu Gagnstöð, jörðin fór í eyði 1974 og voru Halldór og fyrri kona hans Halldóra Guðmundsdóttir, þar síðustu ábúendur. 
 








 Halldór, Kristbjörg, Hjalti, Sigrún og undirritaður
  Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er þetta smekklegt og vel byggt sumarhús og þeim hjónum sannarlega til sóma.














  Eftirfarandi fann ég á netinu um jörðina Gagnstöð og ábúendur þar og læt það fylgja hér með:

,,Gagnstöð:
  Jörðin er og hefur verið bændaeign. Landamörk við Heyskála eru við sjó 2 km vestur frá Selfljótsósi miðjum, liggja beint í sv, og kemur markalínan í fljót í lítilli beygju gegnt nestinu niður af Hrafnabjörgum. Að vestan er Klúkuland.
  Allt er landið lágt, sendið og víðast vott. Grjót, holt eru aðeins tvö, Stekkamelur rétt, austan við Klúkumörk, og hæsti staður í landareign,  og Vörðuás æðispöl na, af bæ.
  Afbýli var Arasel við fljótið inn af bæ og Gagnstaðahjáleiga í túninu út og austur af gamla bænum, sem stóð snertispöl vestar en núverandi íbúðarhús. Bærinn stendur á fljótsbakkanum og skammt innan við þjóðveginn.
  Vestan og innan við bæ voru slægjulönd í stórum sléttum kerjum og mýrum, en austur af bæ kerbollar og stórt tjarnastykki vaxið stör, sem nú er mikið til horfin. Í öðru tjarnastykki, sem Brunningjavötn heitir, skammt frá Stekkamel var æðarvarp, sem eyðilagðist með tilkomu vegarins. Á milli tjarna og kerja eru mógarðar mjög vaxnir bláberjalungi og fjalldrapa. Þegar nær dregur sjó verða fyrir ógrónar sandflákaöldur, síðan Gagnstaðaleira nú sandfyllt þá Lón frá Selfljóti í lægð innan við sandinn, og utan við Lón liggur sandurinn gróðurlaus, nema hvað melgrasþúfur eru þar á stangli.
  Gagnstöð var ágæt engjajörð í þurrkatíð, en engjar nýttust svo illa, er votviðrasamt var að þurrð varð að kalla á slægjum. Gamla túnið var að mestu lárétt, sendið og smáþýft. Beitarhús voru um 25 mín gang austur af bænum, þar var skást útbeit og minnst um svellalög lögð niður 1964.
  Jörðin á rekasand og reki er jafnan nýttur, einkum í girðingarstaura nú í seinni tíð. Nokkrar tekjur eru einnig af sölu sands til múrhúðunar um Hérað og næstu firði.

Ábúendur.
  1. 1889-1921.
Þorkell Stefánsson F. 10-06-1855 D. 27-03-1921 frá G og
1. Guðný Þorsteinsdóttir F. 1856 D. 19-06-1890.
Barn Guðni.
2. Guðríður Magnúsdóttir F. 28-11-1868 frá Mjóanesi.
Börn. Magnús, Óli, Eysteinn, Guðrún, Rannveig,
  2. 1900-1906.
Magnús Vilhjálmsson F. 04-06-1832 frá Mjóanesi og
1. Guðrún Jónsdóttir F. 05-06-1838 D. 11-09-1865 frá Vaði Skrd.
Börn. Vilhjálmur, Guðríður, Guðrún, Björg, Jón,
2. Steinunn Stefánsdóttir F. 1850. frá Gagnstöð.
  3. 1921-1941.
Guðríður Magnúsdóttir, sjá nr 1.
  4. 1921-1967.
Guðni Þorkelsson F. 14-06-1890 D. 13-04-1967 frá G.
Fóstursonur : Sigurður, sjá nr 5.
  5. 1945-1962.
Sigurður Guðnason F. 15-11-1909 D. 28-12-1961 frá G.
Solveig Gunnarsdóttir F. 02-06-1916 frá Hjaltastað.
Börn. Gunnar, Halldór. Karl. Sigríður. Barn B. Erla.
  6. 1962-1974.
Solveig Gunnarsdóttir, sjá nr 5.
  7. 1962-1974. í fél við nr 6.
Halldór Sigurðsson F. 08-12-1944 frá G og
Halldóra Guðmundsdóttir F. 29-05-1943 D. 19-09-1975 frá Hólshjáleigu
Börn. Kristborg F. 240563. Sigurveig F. 070466. Guðmundur. F. 090567.
  8. Í eyði frá 1974."

Hreintarfur  Þennan myndarlega hreintarf bar fyrir augu okkar í dag, á ferð okkar út að Gagnstöð.
  Fleiri myndir úr ferðinni í dag m.a. af hreindýrum má sjá hér










 
 Mynd Hjalti Þórhallsson

Sigrún, Guðrún og Hjalti  Þegar við komum úr ferðalaginu að Gagnstöð, bauð Guðrún föðuramma Hjalta okkur í kaffi. Áttum við þar hjá henni ágæta stund í Laufási 6. Hún sýndi okkur  ýmsar hannyrðir, sem hún hefur gert, enda er hún er mikil hannyrðakona, einnig sýndi hún okkur glæsileg húsgögn sem Páll heitinn maður  hennar smíðaði.
  Hér má sjá nokkrar myndir frá heimsókn okkar til Guðrúnar, sumar teknar inni, en aðrar í hennar myndarlega blómagarði.

  Í kvöld vorum við svo boðin í frábæra lambasteik hjá okkar ágætu gestgjöfum í Bláskógum 19. 

    9. apríl 2010

Sigrún og Kristbjörg  Við áttum ágæta nótt hjá okkar vinafólki, þeim Kristbjörgu og Halldóri að Bláskógum 19 á Egilsstöðum. Þær vinkonur nutu sín svo vel að afloknu morgunkaffinu, við að ræða hannyrðir og skoða handarverk Kristbjargar á því sviði, sem eru mörg og unnin af smekkvísi og natni.








Álverið við Reyðarfjörð Við Sigrún og Hjalti brugðum okkur svo í skoðunarferð þegar hann var búinn í skólanum. Það var reyndar ekki eins fallegt veður og í gær, kominn dumbungur og rigningarhraglandi. Eingu að síður fórum við að líta í Reyðar- og Eskifjörð. Á þeirri leið má sjá fyrirbærið hér á myndinni til hliðar, sem ku hafa átt að veita Austfirðingum nánast eilífa hamingju ef ekki landsmönnum öllum. En það er nú svo að flest á sínar skuggahliðar og það á líka við um þetta risamannvirki. 
  Myndir frá deginum má sjá hér



    8. apríl 2010

Dyrfjöll
  Í dag lögðum við land undir fót og ákváðum að taka okkur langt helgarfrí, Gestur ætlar að sjá um búsmalann á meðan. Á leiðinni tók Sigrún margar myndir út um bílgluggana og er hægt að slást í för með okkur með því að skoða myndirnar og rekja sig þar áfram og sjá hvar okkar leið lá og á hvaða stað við komum til næturdvalar.
    Hér má sjá myndirnar.  

    4. apríl 2010

Ósk um gleðilega páskahátíð frá okkur á Staðarbakka!


    2. apríl 2010

Möðruvallakirkja í Hörgárdal
  Í dag voru Passíusálmarnir lesnir upp í Möðruvallakirkju. Þetta er í tíunda skiptið sem það er gert. Þeir voru fyrst lesnir, þegar séra Solveig Lára kom hér til starfa í prestakallinu. 
  Algengast er að hver upplesari lesi tvo sálma og eftir fimmta hvern sálm er leikið stutt orgelstef.
  Við hjónakornin höfum tekið þátt í lestrinum undanfarin ár og gerðum það einnig núna. Það gefur manni mikið að taka þátt og þegar maður er búinn að vera með í nokkur skipti er þetta að verða ómissandi þáttur í lífi manns á föstudaginn langa.

Sigrún að lesaÉg sjálfur að lesa
  Hér má svo sjá okkur við lesturinn í dag.

Doddi, séra Solveig við gluggann og Sigrún  Myndin hér við hliðina var tekin í Leikhúsinu á Möðruvöllum eftir lesturinn. Þar var opið hús þannig að lesararnir gátu fengið sér kaffisopa þar.
  Á eftir bauð svo Doddi okkur Sigrúnu í heimsókn til sín og áttum við þar ágæta kvöldstund hjá honum í Eyrarveginum.
  Ágætis veður var í dag, en var að byrja að hríða á Akureyri, þegar við fórum frá Dodda. Hér fram í dal hafði hins vegar ekkert snjóað.





Sigrún Á Franzdóttir  Sigrún búin að hreiðra um sig í LazyBoy hjá Dodda!

Flettingar í dag: 92
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 57
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 61529
Samtals gestir: 16781
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 16:02:29
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar