Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir apríl 2011

    29. apríl 2011

  Í kvöld fórum við Sigrún á aðalfund Ferðafélagsins Hörgs, sem haldinn var á heimili formanns að Möðruvöllum. Þetta var hin ágætasta kvöldstund, enda alltaf gaman að koma til þeirra heiðurshjónanna Bjarna og Pálínu. Það var margt rætt um starfssemi Hörgs, bæði um ferðalög og viðhald bæjarins í Baugaseli, sem félagið byggði upp á sínum fyrstu árum. Félagið var stofnað í Baugaseli á Jónsmessunótt, 23. júní 1981 og verður því 30 ára í sumar. 
  Á fundinum í kvöld var formlega opnuð heimasíða Hörgs. Á stjórnarfundi í félaginu þann 14. febrúar sl. var mér falið að setja upp heimasíðu og hef ég síðan verið að grípa í að gera hana.  Í kvöld kynnti ég hana fyrir fundarfólkinu og fékk ágæt viðbrögð við henni. En þótt síðan hafi nú verið opnuð fyrir almenning verður hún áfram í þróun.
  Hægt er að fara inn á heimasíðu Hörgs undir tenglar hér á síðunni.
Fundarfólkið: Guðm., Sigrún, Pálína, Sigurður, Erla, Gestur og Bjarni E.


    27. apríl 2011

Tómas bóndi   Tómas Leonard er búinn að gista tvær nætur í sveitinni hjá ömmu og afa. Hann er nú að verða nokkuð bóndalegur eins og glöggt má sjá á myndinni, þar sem þær Mógolta og Flekka eru að reyna að sníkja af honum kexbitann, sem hann er með í hendinni.








        

Húsbóndinn, Lipurtá og ÖðlingurOg svo er það afi bóndi!
Hér er hann að gæla við forustukindurnar sínar þau:
Lipurtá og hann Öðling sinn.















Húsbóndinn og Lipurtá
Ha, hverslags kossaflens er þetta nú í fjárhúsunum?


















    24. apríl 2011

    Gleðilega páska !

Bægisárkirkja tekið 2. nóv. 2008  Að afloknum morgungegningum stormuðum við hjónakornin í Bægisárkirkju. Fórum reyndar á okkar Ford-vélfáki, en það var stormur úti þannig að það mátti hafa sig allan við að ná kirkjudyrunum og komast þar í skjól til að hugleiða páskaboðskapinn með prestinum okkar, henni séra Solveigu Láru og öðrum kirkjugestum. Séra Gylfi sá um hljóðfæraleikinn, bæði á kirkjuorgelið og gítar. Enginn kirkjukór var, bara almennur safnaðarsöngur.
  Þetta var ágætis stund í þessu rúmlega 150 ára gamla guðshúsi. 

 



    23. apríl 2011

Auglýsing
  Við lyftum okkur upp í kvöld og fórum á frábæra skemmtun í Hofi, þar sem söngurinn var í fyrirrúmi, en inn á milli var glens og gaman. 
  Það var söngvarinn og Álftagerðisbróðirinn Óskar Pétursson, sem stóð fyrir þessari skemmtun. Hafi hann og gestir hans hjartans þökk fyrir líflega og góða kvöldstund í Hofi.
















 



     21. apríl 2011

        Gleðilegt sumar góðir heimasíðugestir !
 Brennimerking 2010

  
Það var nú lítið sumarlegt í morgun, sami suðvestan belgingurinn og búinn er að vara ríkjandi undanfarnar vikur, aðeins með mismunandi tilbrigðum. Um hádegið var hríð, en svo varð áttin heldur suðlægari og hitinn komst í einar 8 gráður og vindurinn jókst heldur. Sem sagt lítið spennandi veður.
  Það fraus naumlega saman vetur og sumar hér, þannig að sumarið ætti að geta orðið skaplegt, samkvæmt þjóðtrúnni.
  Að vanda var brennimerkt hér á sumardaginn fyrsta, þótt hann væri nú svolítið óvanalegur að þessu sinni, þar sem einnig er skírdagur. Einhvern veginn finnst mér þetta afleitt, maður fær hvorki tilfinningu fyrir sumardeginum fyrsta né páskunum.



      16. apríl 2011
                                                                                                            
Hópurinn albúinn til heimferðar frá Gullbrekku  Við fórum í skoðunarferð með félögum okkar í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps, til bænda í Sauðfjárræktarfélaginu Frey í fram Eyjafirði. Við vorum 13 í ferðinni á fjórum bílum. Við komum á sex bæi: Hríshól, Hólsgerði, Halldórsstaði, Vatnsenda, Villingadal og Gullbrekku.
Þetta var hin ágætasta ferð og gaman að skoða hjá bændum og heyra þeirra sjónarmið er varða búskapinn. Bændur buðu upp á hátíðarhádegisverð að Hólavatni, í húsakynnum KFUM og KFUK. Að sjálfsögðu var boðið upp á lambalæri ásamt með ljúfengu meðlæti. Í lok heimsóknarinnar var svo boðið upp á veislukaffi hjá formanni Freys, Birgi Arasyni og hans konu Lilju Sverrisdóttur í Gullbrekku. Á öllum bæunum var einnig boðið upp á smá kaffisopa og sumstaðar einnig upp á bauk.
  Það voru allir mjög ánægðir með þessa ferð og kunnum við þeim félögum í Frey bestu þakkir fyrir höfðinglegar móttökur. 
    Hér má sjá myndir frá ferðinni í dag


    12. apríl 2011

Tómas Leonad í Gunnu peysu  Það kom lítill vinnumaður í sveitina í dag og ætlar að vera í nokkra daga meðan mamma hans er við ritgerðasmíði fyrir skólann.
  Hér skartar hann flottri lopapeysu sem hann fékk í jólagjöf frá Guðrúnu og Jónasi í Keflavík.
  Aldeilis flottur!




















Tómas og afi    Hér eru þeir félagarnir Tómas og afi, albúnir að fara í Flögu að gefa ánum þar.















 

    11. apríl 2011

Við Gestur að sprauta í Flögu  Gestur kom í morgun, eftir afleysingahelgi í Fagraskógi.
Við fórum svo öll í Flögu að gefa ánum þar ormalyf (CYDECTIN) og sprauta þær með þrívirku bóluefni gegn (lambablóðsótt, garnapest og bráðapest). Að því loknu voru ærnar svo allar klaufsnyrtar. Allt þetta er mikið verk, þannig að við komum ekki heim fyrr en um kl. 19 í kvöld örþreytt og áttum þá eftir að gefa hér heima.
  Við vorum þó forsjálli en í fyrra við þetta verk og tókum með okkur nesti þannig að við vorum ekki orðin örmagna af hungri eins og þá.
 



Gestur og Sigrún  Gestur er hér búinn að leggja eina ána til klaufsnyrtingar og Sigrún hliðvörður fylgist með.
















Við Gestur að klaufsnyrta  Og hér erum við Gestur með klippurnar á lofti við klaufsnyrtinguna.

  Þess má svo geta að hrafnagusan gekk yfir í dag með hvössum suðvestanéljum. Svona til að herða mann fyrir sumarmálahretið um næstu helgi og svo páskaáfellið um aðra helgi.
  Þetta er nú raunar ekki mín spá, en það er alltaf gott að búa sig undir það versta en vona samt það besta.
















    10. apríl 2011
  emoticon Hvað með framtíðina ?



    9. apríl 2011

Séra Arna Ýrr og Hákon Þór  Í dag var góður dagur í mörgum skilningi, úti var hreinasta vorblíða með hitameti á þessu ári 14,6°.  
  En það sem gerir þó þennan dag fyrst og fremst eftirminnilegan fyrir okkur, er að Hákon Þór frændi minn, ásamt 18 fermingarsystkinum sínum, fermdust í Glerárkirkju á Akureyri.
  Þetta var falleg athöfn í þessu bjarta og hlýlega Guðshúsi.
  Á eftir var svo fjölmenn sameiginleg fermingarveisla í Hlíðarbæ, þeirra frænda Hákons Þórs og Arnars Þórs, þeir eru systkinasynir.
  Þar var boðið upp á lambalæri og ofnbakaðan lax sem aðalrétti og á eftir voru svo kaffi og tertur. Mjög flott veisla.
  Á myndinni er Hákon Þór ásamt prestinum sínum, séra Örnu Ýrr Sigurðardóttur.
  Innilega til hamingju Hákon minn og takk fyrir góðan dag.  
    Hér má sjá myndir frá deginum.


    6. apríl 2011

Starfsmannahús SAH  Það er nóg að gera í fundarsókn hjá mér þessa dagana, var á fundi á Akureyri langt fram á kvöld í gærkveldi og var svo mættur á stjórnarfund hjá SAH, vestur á Blönduósi kl. 10:30 í morgun. Þar vorum við í stjórninni með síðustu yfirferð ársreikninga SAH og undirritun þeirra og að undirbúa ýmislegt fleira fyrir aðalfundinn, sem hófst svo kl. 13:30. 
  Þetta var bæði aðalfundur SAH Afurða ehf. og Sölufélags Austur Húnvetninga svf. og fór hann fram í starfsmannahúsi félagsins. Fundarstörf voru samkvæmt samþykktum félaganna.
  Fram kom að velta SAH Afurða var um 1.570 m.kr. á liðnu ári. Hagnaður fyrir fjármagnsliði nam tæpum 64 m.kr. Eftir fjármagnsliði var hagnaður félagsins 27.7 m.kr. sem er umtalsverður rekstrarbati frá fyrra ári.
Baldvin Sveinsson á TjörnBaldvin Sveinsson á Tjörn, lét af störfum sem formaður stjórnar SAH svf. en hann hefur nú lokið þeim tíma sem lög félagsins leyfa að menn sitji í stjórn samfellt. Baldvini voru á fundinum þökkuð góð störf í þágu félagsins. Einnig vil ég hér þakka honum einstaklega traust og vinsamlegt samstarf þau ár, sem við erum búnir að sitja saman í stjórn SAH.  






Björn Magnússon í Hólabaki  Nýr formaður var kjörinn: Björn Magnússon frá Hólabaki, gegnir hann jafnframt stjórnarformennsku í SAH Afurðum, þar sem lög þess félags mæla svo fyrir að það skuli vera formaður SAH svf. sem gegnir því. 
Björn var á fundinum boðinn velkominn til starfa. 
Það er einnig von mín að við Björn, getum átt gott og farsælt samstarf í stjórn SAH.

Hér má sjá nokkrar fleiri myndir. 



   

 









    5. apríl 2011

Ég sjálfur (Guðm. Skúlason)  Við Sigrún fórum í útréttingaferð til Akureyrar í dag og okkur var svo boðið til kvöldverðar hjá mæðginunum í Helgamagra.
  Í kvöld var ég svo boðaður á stjórnarfund hjá Félagi sauðfjárbænda við Eyjafjörð, sem umsjónarmaður heimasíðu félagsins. Það var nú hent gaman að því á fundinum, að formaðurinn hefði boðað mig á fundinn til þess að milda það ástand er varð í stjórninni á síðasta aðalfundi félagsins, en þá náðu konur í fyrsta skipti meirihluta í stjórn félagsins.





Ásta, Sigríður, Arnfríður, Guðmundur og Birgir  Hér má sjá stjórn FSE. 
Yfir gnæfa valkyrjurnar: Ásta í Höfða, Sigríður í Hólsgerði og Arnfríður á Hálsi, en hinn undirokaða karlpening skipa þeir Guðmundur á Þúfnavöllum og Birgir í Gullbrekku. 
  Raunar er nú eins þeir séu ekkert  leiðir með lífið, undir kvenskörungunum. 











    4 apríl 2011

Bjarni E, Gestur og ég sjálfur  Í kvöld var hér stjórnarfundur í Ferðafélaginu Hörg. Við vorum að skoða heimasíðu, sem ég hef verið að búa til fyrir Hörg síðan við komum saman til stjórnarfundar í febrúar.
  Þeim leist bara vel á það sem komið er og stefnt er að því að opna heimasíðuna formlega á aðalfundi félagsins, sem áformað er 29. apríl nk.










Ær að leggja af stað til Blönduóss  Þá er nú komið að því að senda ærnar, sem reyndust geldar við fósturtalninguna um daginn til slátrunar hjá SAH á Blönduósi. Farið var með 10 ær niður í Ytri Bægisá til Stefáns Lárusar. Þar er því fé safnað saman sem á að fara og svo kemur bíll frá SAH að sækja það. Þetta er í þriðja sinn sem geldu ánum hér er slátrað á þessum tíma og alltaf finnst mér nú jafn skrítið að vera að senda fé til slártunar á útmánuðum.








    2. apríl 2011

Forsíða leikskrár  Við brugðum okkur í leikhúsið á Melum í kvöld, til að sjá hörgdælska bændur (sjá meðfylgjandi mynd) strippa í leikritinu; Með fullri reisn. Þar má nú raunar einnig sjá hinar föngulegustu frúr skarta sínu fegursta, nánast sem ungar blómarósir.
  Þetta var hin ágætasta kvöldskemmtun, enda mikið hlegið og klappað í troðfullu þessu litla leikhúsi sem Melar eru.
  Þessi uppsetning hefur á margan hátt heppnast vel. Maður veltir þó fyrir sér, hvort það hafi verið haft nóg í huga, að leikhúsgestir ættu gott með að fylgjast með öllu sem fram fer, þegar ákveðið var að hafa leikmyndina og láta leikinn fara fram nánast allt í kringum áhorfendur,   Á þetta skorti nokkuð að mínum dómi, þar sem áhorfendur sitja við hringlagaborð í þétt settnum salnum og það á sléttu gólfi. 
  Annars er leikmyndin fín og má þar sjá sniðugar lausnir, sem auðga leikinn eins og t.d. glugga sem leikarar þurfa að fara um. Ljós, hljóð og búningar kom allt vel út.
 Hvað varðar frammistöðu leikaranna er hún að vonum nokkuð misjöfn, enda er þetta áhugamannaleikhópur, sem leggur alla þessa vinnu á sig til að skemmta sjálfum sér og miðla um leið gamaninu til leikhúsgesta.
  Það er nú erfitt að taka einhverja einstaka leikara út úr,  en mig langar þó að nefna þrjá sem mér fannst takast best að skapa trúverðugar persónur og halda þeim í gegnum sýninguna. Þetta eru þau: Stefán Jónsson sem Dabbi, Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir sem Jóhanna og Sigurður Elvar Viðarsson sem Magnús. Það voru fleiri sem stóðu sig ljómandi vel og skiluðu vel og af trúverðugleika litlum hlutverkum.
  Takk fyrir ágæta kvöldstund Leikfélag Hörgdæla. En er ekki kominn tími til fyrir þetta ágæta leikfélag að huga að uppsetningu á bitastæðu leikverki???  

Flettingar í dag: 57
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 94
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 61437
Samtals gestir: 16760
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 22:50:08
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar