Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir mars 2011

    31. mars 2011

Við Sigrún með Guðmund formann á milli okkar  Aðalfundur Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps, var haldinn hér í kvöld. Það var mjög vel mætt á fundinn, það mættu 15 félagar eða 75% félagsmanna. Það væru örugglega mörg félög alsæl með slíka mætingu á aðalfund.
  Við Sigrún hlutum farandbikar félagsins fyrir hæst stigaða lambhrút í félaginu á síðast liðnu hausti. Þetta var í sjöunda skipti sem bikarinn er veittur. Við systkinin á Staðarbakka gáfum félaginu þennan bikar á aðalfundi félagsins 2005 til minningar um foreldra okkar, sem hefðu orðið níræð það ár. Það má nú kannski segja að við höfum aldrei látið hann almennilega af hendi, því í fimm skipti höfum við Sigrún hlotið hann, en í tvö skipti þau Sigurður bróðir og Margrét mágkona. Það er nú eiginlega orðið tímabært að aðrir félagar geri atlögu að þessu einveldi og er hér með skorað á þá.
Magga, Gunnar, Doris og IngunnSjálfur fundurinn var norður í hjá Sigurði og Möggu en kaffidrykkjan í fundarlok var svo hér suður í hjá okkur. Fundurinn hófst kl. 20:30 og var öllu lokið um miðnættið. Hið ágætasta kvöld.








 

 



    29. mars 2011

Tekið af Messumel mynd Sig. Sk.


























  Þessa dulúðlegu mynd tók Sigurður bróðir, þegar hann var að koma frá skólaakstrinum þann 21. mars í renningstíðinni um daginn.

Gestur og Tómas Leonard  Hér má svo sjá þá félagana Gest og Tómas Leonard vera að leika sér í snjónum í dag og eins og sjá má er nú komið allt annað veður en á myndinni hér að ofan og ekki alveg laust við að það væri aðeins vorblik í lofti.







 

 



    25. mars 2011

Gunnar Björnsson Sandfellshaga  Í dag var hér fósturtalið í ám og gemlingum. Að venju var það Gunnar bóndi í Sandfellshaga, sem taldi með sínu sónartæki og líkt og oft hefur verið var Alex með honum til aðstoðar. Þetta er í sjötta skiptið sem Gunnar telur hjá okkur.
  Það var byrjað á að telja í Flögu-ánum rétt upp úr kl. 9 í morgun og  svo var talið hér heima og var allt búið laust fyrir kl. 13.
  Í heildina var talið í rétt um 600. Útkoman var bara nokkuð góð og raunar betri en maður átti von á vegna þess að heyin frá síðasta sumri eru nú ekki til að hrópa húrra fyrir.
  Hjá ánum reyndist vera 1,91 lamb að meðaltali í hverri á, en 1,95 ef geldar ær eru ekki taldar með. Þetta er nánast sama útkoma og 2010. Geta má þess að ekkert sérstakt fengieldi hefur verið stundað hér í áraraðir, aðeins gefið hey á fengitíma en ekkert kjarnfóður. Ég held að þessi tilhögun sé að skila sér í aukinni eðlislægri frjósemi. Sama má segja um afurðagetu ánna, ef lömbum er ekki beitt á grænfóður, eða kál á haustin fyrir slátrun mun ræktast upp meiri mjólkurlægni hjá ánum.
  En aftur að talningunni. Útkoma gemlinganna var nú miklu betri en í fyrra, þegar mikið var um fósturdauða hjá þeim. Núna töldust að meðaltali 1,03 lömb í hverjum gemlingi, en 1,32 í þeim sem reyndust með lambi. Það er alltaf ögn um að gemlingar séu algeldir hér á bæ og er ástæða þess ókunn.  
  Það var vel liðað við verkið, enda nauðsynlegt þannig að þetta geti gengið hratt og vel fyrir sig því Gunnar hefur mikið að gera við talninguna vítt og breitt um landið. Það voru 13 sem settust við hádegisverðarborðið að aflokinni fósturtalningunni.
  Á eftir fórum við Gestur í Ytri-Bægisá að hjálpa þeim Stefáni Lárusi og Elísabetu við talninguna hjá þeim, en Stefán var að hjálpa okkur í morgun. 

    24 mars 2011

Tómas Þorgrímsson  Við Sigrún skruppum til Akureyrar fyrir hádegið til að afla vista, það er búin að vera svo leiðinleg tíð undanfarið að það hefur ekki verið keypt inn í hálfan mánuð.
Við hittum Tomma á Glerártorgi og fannst honum þetta ekki langur tími á milli innkaupaferða úr sveit og minnti hann á að áður fyrr hafi nú aðeins tíðkast að fara tvær slíkar ferðir á ári, aðra þegar ullin var lögð inn á vorin og hina rétt fyrir jólin. Já, það hefur vissulega verið miklu þægilegra og ég tala nú ekki um ódýrara sveitalífið þá.
Að lokinni verslun settumst við niður með Tomma á Kaffi-Torgi, til að fá okkur kaffibolla og spjalla áður en heim var haldið.
Þegar heim var komið hýstum við Flögu-ærnar fyrir fósturtalninguna, sem á að framkvæma í fyrramálið.

 

 



  
  Í gærkveldi komu hér tæknimenn frá Símanum í Reykjavík, til að reyna að komast fyrir orsakir þess hvað netsambandið hér hefur verið stopult og ótryggt undanfarnar 7 vikur eða svo. Þeir fundu ekkert athugavert í gærkveldi, en komu svo aftur í dag og töldu sig þá hafa fundið ástæðuna, sem væri slæmur frágangur á tengingum milli kapals og loftnetsgreiðunnar. Nú er bara að bíða og vona að þessu ófremdarástandi sé lokið.    


    22. mars 2011

Hið látlausa ljós  emoticon Í dag á hún Ásgerður Svandís systir afmæli og sendum við hjónakornin henni okkar bestu afmæliskveðjur. Úr dalnum hennar þar sem hún í þennan heim kom og átti sína bernsku og allt fram á fullorðins ár og hafði yndi af að fást við kindur og hesta auk  annars sem sveitin hafði upp á að bjóða.
  Eins og sjá má logar enn ljós í dalnum og ég vona að ljósið lýsi þinn veg um ókomin ár, systir mín góð.


 

 


    21. mars 2011

Skaflinn á hlaðvarpanum  Það er að fara með geðheilsu manns veðurfarið. Dögum saman er búinn að vera vestan belgingur aðeins með blæbrigða mun frá suðvestri til norðvesturs og frá því að vera fremur hægur lágarenningur upp í stólpa með svartasta kófi. Það er varla hægt að opna hús eða gefa því fé sem er gefið úti í gjafagrindur. Meiri ósköpin þetta!





 




Moka, moka og moka snjó!....og svo er bara að moka, moka og aftur að moka snjó. Moka sömu skaflana aftur í dag sem maður mokaði í gær og fyrra dag og daginn þar áður að vísu væntanlega ekki sama snjónum því alltaf blæs hann að vestan og eys niður dalinn snjónum ofan af miðjum Tröllaskaga. En snjór er jú alltaf bara snjór hvaðan sem hann kemur, eður hvert sem hann fer og alltaf sárlega til ama og örðugleika.    
    



 

 


    18. mars 2011

Ærnar ný snyrtar (rúnar)  Þá er rúningnum lokið þennan veturinn og kindurnar flottar á belginn og vel snyrtar eftir klippinguna.
  Það verður ekki það sama sagt um veðurfarið, stöðugur vestan belgingur og renningskóf. Sem betur fer er ekki mikill snjór á jörðu, þannig að það koma ekki miklir skaflar nema rétt í kringum hús.    Það mætti nú alveg fara að hægjast um veður, allavega þegar Góa rennur á enda upp úr helginni.
  

 

    16. mars. 2011

Gestur að rýja  Í gær byrjuðum við Gestur að rýja. Það er að segja Gestur að rýja og ég að leggja og færa féð að og frá aftur þegar búið er að rýja.
  Það var hávaðarok bæði í gær og fyrra dag, fyrst með þíðviðri en í gær frysti með nokkuð dimmum éljum.




 





Dorrit  Hér er hún Dorrit alltaf jafn flott jafnvel þó hún eigi eftir að fá snyrtinguna, fær hana trúlega á morgun. 
  Annars er eins, ef grannt er skoðað að hún sé ný komin úr lagningu.








 

 


  
    10. mars 2011
Home
  Ég fór á stjórnarfund hjá SAH í dag, sem að þessu sinni var haldinn á veitingahúsinu Strikinu á Akureyri. Við vorum að fara yfir stöðuna í birgðahaldi og markaðsmál. Um birgðahald má það segja að sala á afurðum síðasta hausts hefur gengið mjög vel. Einkum hefur úflutningur gengið vel og það sem er nýlunda með hann er að hann skilar ágætum verðum. Birgðir eru því minni nú en verið hefur á þessum tíma árs um langt árabil. Útlit með markaði erlendis er gott og líkur til að þeir skili góðu verði, allavega ef gengi íslensku krónunnar helst vitlegt áfram. Við fórum líka yfir drög að ársreikningum fyrir 2010, þau benda til þess að afkoman hafi batnað verulega á milli áranna 2009 og 2010. Í batnandi afkomu vega tveir þættir þyngst. það er annars vegar veruleg lækkun á fjármagnsgjöldum og svo verulega hækkandi verð afurðanna erlendis. Hins vegar er innanlandsmarkaðurinn enn í verðfrosti.
  Áður en fundurinn hófst var okkur stjórnarmönnum og mökum boðið í skoðunarferð um starfsstöðvar Kjarnafæðis, sem eru bæði á Svalbarðseyri og Akureyri. Það var mjög fróðlegt að skoða þessar kjötvinnslur og fræðast um þær af forsvarsmönnum þeirra. Á eftir bauð svo Kjarnafæði öllum hópnum til hádegisverðar á Strikinu.

    7. mars 2011


Viðar, Guðmundur og undirritaður  Í kvöld var hér stjórnarfundur í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps. Í stjórninni eru: Guðmundur á Þúfnavöllum formaður, Viðar í Brakanda gjaldkeri og sjálfur er ég ritari.
  Við vorum einkum að undirbúa aðalfund félagsins, sem stefnt er á að halda um mánaðarmótin mars / apríl.
  Það er búið að vera rysjuveður undanfarið. Í fyrradag var sunnan hvassviðri og þítt en í gær og í dag hefur verið bálhvöss vestlæg átt með mjög dimmum éljum.  Færð er þó óspillt og nánast auður vegur.
 

 



    3. mars 2011

Guðmundur á Þúfnavöllum og Sigríður í Hólsgerði  Í kvöld fór ég á aðalfund Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð, sem haldinn var í fundarsal Búgarðs. Ég fékk far með Guðmundi á Þúfnavöllum, sem er í stjórn félagsins. Það var um 25 manns sem sóttu fundinn.
  Auk venjubundinna aðalfundarstarfa fluttu erindi: Sigurgeir Sindri formaður LS, Sigurður Jóhannesson framkvæmdastjóri SAH og Sigurður Þór ráðunautur.
  Þetta var þokkalegur fundur. En því er ekki að leyna að mér finnst ýmislegt orka tvímælis í hugsanagangi forsvarsmanna sauðfjárbænda t.d. að framleiðsla suðfjárafurða muni í framtíðinni í stór auknum mæli verða til útflutnings. 
  Á myndinni má sjá: Guðmund á Þúfnavöllum fundarstjóra og Sigríði í Hólsgerði fundarritara. 



    1. mars 2011

Gestur og Tómas Leonard  Í dag fór ég að endurskoða ársreikning Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð. Við hittumst í Búgarði, Þórsteinn á Bárðartjörn gjaldkeri félagsins og Þorkell í Höfða, sem er hinn endurskoðandinn. Þetta gekk fljótt og vel, enda reikningurinn glöggt og vel upp settur hjá gjalkeranum.
  Gestur og Tómas Leonard sáu um að gefa í Flögu og um seinni gjöfina hér heima ásamt Sigrúnu.
  En af myndinni að dæma hafa þeir Tómas og Gestur nú gert eitthvað fleira en að annast búsmalann, ekki er annað að sjá en þeir hafi tekið eina ,,bröndótta" út á snjóskafli. ,,Þetta er ungt og leikur sér"

Flettingar í dag: 124
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 61909
Samtals gestir: 16870
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 13:06:53
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar