Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir okt. 2009

    31. okt. 2009

Jón K, Ólöf og María Sigrún  Í dag voru hér húnverskir höfðingjar og góðir vinir okkar á ferð, þau höfðu farið í kaupstaðarferð til Akureyrar og komu svo hér við í seinnipartskaffið á heimleiðinni. Þetta voru hjónin á Hæli, í fyrrum Torfalækjarhreppi nú Húnavatnshreppi þau Jón Kristófer og Ólöf Birna með dótturina Maríu Sigrúnu. Það var einkar gaman að fá þau í heimsókn og ræða almennt um sveitalífið, einnig gátum við Jón Kr. spjallað um gang mála hjá Sölufélagi Austur-Húnvetninga, þar sem við sitjum báðir í stjórn.

   29. okt. 2009

Haukur, Sturla, Ármann, Árni og Guðm.  Í dag er Ármann Búason frændi minn á Myrkárbakka sjötugur og fórum við öll á bænum í ljómandi skemmtilegt afmæliskaffi til hans í kvöld.
  Ármann hefur lengst af sinnar starfsævi stundað hefðbundinn og farsælan búskap á Myrkárbakka, sem er nýbýli úr landi Myrkár, stofnað af foreldrum hans árið áður en hann fæddist.
  Ármann hefur einnig verið drjúgur félagsmálamaður, komið að stjórnum ýmissa félaga og í sveitarstjórn sat hann um áratugaskeið. Fyrst í sveitarstjórn Skriðuhrepps, þar sem hann var oddviti síðustu 6 árin, áður en Skriðuhreppur sameinaðist nágrannasveitarfélögunum og til varð Hörgárbyggð, þar sem Ármann var kjörinn í  sveitarstjórnina þar til hann gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu við síðustu kosningar. Þá má geta þess að Ármann er skákmaður góður og hefur telft á fjölmörgum skákmótum bæði hér heima í héraði og á landsvísu. Þá er hann hestamaður góður og hefur beislað marga ótemjuna.
  Meðfylgjangi mynd var tekin 1998 á hreppsnefndarfundi heima á Myrkárbakka, en þar voru þeir alltaf haldnir meðan Ármann var oddviti á árunum 1994 - 2000. Maður á einstaklega ánægjulegar minningar frá þessu fundum, sem vert er að þakka fyrir. Þar voru málefnin oft rædd fram á rauða nótt og aldrei brást að Alda væri ekki með veislukaffi fyrir okkur hreppsnefndarmennina.

   28. okt. 2009

Við Leirutjörn  Fyrir réttu ári síðan tók ég og setti hér inn á heimasíðuna, mynd af styttunni af Jóni Sveinssyni (Nonna) og næsta nágrenni í vetrarbúningi. Í dag var þar dálítið öðruvísi á að líta. Svanahjón gáruðu spegilslétta Leirutjörnina og í brekkunni á bak við Minjasafnskirkjuna og Zontahúsið skörtuðu trén haustlitum.
  Myndin gæti sem best heitið "Haustkyrrð"





    26. okt. 2009

Ída Guðrún og Katrín Valdís   Það fjölgaði í fjölskyldunni í Slagelse í nótt sem leið, þegar þeim Auði Maríu og Arnari Heimi fæddist dóttir, um kl. 2 að íslenskum tima. Hinni ungu snót hefur verið gefið nafnið Ída Guðrún. Hún var 52 cm. og 3.840 gr. eða 15 og 1/2 mörk. Þeim mæðgum heilsast vel. 
  Við sendum foreldrunum og systkinum okkar innilegustu hamingjuóskir og óskum þeim Guðs blessunar.
  Á myndinni eru þær systur Katrín Valdís (frumburðurinn) og Ída Guðrún (örverpið) 






   21. okt. 2009

  20.000 gestakomur á heimasíðuna!

  Í morgun varð sá merki áfangi að tuttuguþúsundasta gestakoman varð á heimasíðuna okkar. Það er okkur bæði ljúft og skylt að þakka allar þessar heimsóknir, þótt það sé okkur alltaf nokkur ráðgáta hvað margir hafa áhuga á að fylgjast með henni, en veiti hún ykkur einhverja skemmtun og smá fróðleik er það okkur bara til ánægju. Það er svo hrein tilviljun að þetta ber upp á afmælisdag húsbóndans á heimilinu og vil ég þakka fyrir hlýjar afmæliskveðjur í gestabók heimasíðunnar.
  Það hefur litill tími fundist til að setja hér inn efni undanfarið, en það finnst kannski tími til að fylla í eyðurnar fljótlega.

    14. okt. 2009

Glæsir 08-181  Í dag fórum við Sigrún ásamt Gesti, vestur á Blönduós. Þar var verið að slátra retstinni frá okkur á þessu hausti fyrir utan fullorðna hrúta sem fara síðar. Útkoman úr þessari slátrun var nú heldur slök, enda búinn að vera hér snjór í hálfan mánuð og nú síðustu dagana hefur öllum lömbum verið gefið hey. Nú eru hinsvegar komin sunnan hlýindi og tók snjóinn að mestu upp af túnunum hérna í dag. Í haust var slátrað tæpum 800 lömbum. Meðalvigt er 16,23 kg. það er 150 gr. minna en í fyrra og má skrifa þá léttingu alla og meira til, á tíðina undanfarið. Þrátt fyrir þetta er gerðarflokkun fallanna nú nánast sú  sama og haustið 2008 eða 10,11, en fituflokkunin er eilítið hærri eða 7,24. Sá hrútur sem átti bestu lömb haustsins er Glæsir 08-181, faðir hans er Krókur 05-803. Föllin undan Glæsi vógu 17,1 kg. að meðaltali, gerðarmat þeirra var 12,5 og fita 8,0. Með þessu má segja að hann sé að skáka Krók föður sínum, þarf þó tölvert til þess. Þess má svo geta að 3 synir Króks 05-803 raða sér í næstu sæti og fleiri synir og sonarsynir hans eru að koma mjög vel út.
  Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd ber Glæsir nafn sitt með réttu.

   11. okt. 2009

Haustveturinn 2009   Enn er ekkert lát á vetrarríkinu þetta haustið. Í fyrradag gekk í austan átt með renningi og hríðarhraglanda. Í gær var hvöss austan og norðaustan átt með bleytuhríð og í nótt frysti þannig að nú er nánast jarðlaust og frosin snjóbrynja yfir öllu. Við settum inn í fyrradag vegna afleitrar veðurspár, öll lömb og hrúta og nokkuð af ám. Ekki var hægt að setja féð út aftur í gær vegna veðurs og notuðum við tímann til að velja líflömbin endanlega. Í morgun settum við svo sláturlömbin út og gáfum þeim rúllur úti, en líflömbunum gáfum við hins vegar inni. Meðfylgjandi mynd sýnir ástandið nokkuð vel. Þetta er alger viðbjóður að fást við þetta.

    9. okt. 2009

Stefán Lárus, Ólafur G og Sigurður   Í dag var lambhrútaskoðun. Byrjað var eftir hádegið hjá Stefáni Lárusi á Ytri Bægisá og skoðaðir þar 14 hrútar, síðan voru skoðaðir hér 40 hrútar, þar af tveir sem Gestur á. Það var Ólafur G Vagnsson, sem ómmældi og stigaði með aðstoð Stefáns Lárusar.  Það reyndist vera ágætt hrútaval bæði á Ytri Bægisá og hérna, þannig að ásetningshrútarnir ættu að verða kostagripir. Sá hrútur sem hæst stigaðist fékk 88,5 stig, næsti var með 87,5 og sá þriðji var með 86,5 stig.





Gestur að bófæra allt og Helga Margrét  Allt þarf að bókfæra, mikið tölusafn við hvern hrút og sá Gestur um að færa allt til bókar samviskusamlega.















Lambhrúturinn í 1. sæti   Hrútur nr. 34 í 1. sæti.
Hann er í eigu Sigurðar og Margrétar.
Hann er tvílembingur og vó 54 kg.
Ómtölur hans eru: 30mm ómv, 3mm ómf og 4,5 í óml.
Stigun hans er eftirfarandi: Haus 8,0 - h/h 9,0 - b/ú 9,5 - bak 8,5 - malir 9,5 - læri 19,0 - ull 8,5 - fætur 8 - samræmi 8,5 = 88,5 stig alls.
Faðir er Hyrnir 08-183, sem er undan Krók 05-803. Aftar í föðurætt hans má finna hrúta eins og Flotta 98-850, Prúð 94-834, Mola 00-882 o.fl.
Móðir er Gulla 05-515, í henni má finna nokkurt blóð af kollóttum stofni t.d. er Partur 99-914 f.f. hennar og Atrix 94-824 m.f.f.

Lambhrúturinn í 2. sæti   Hrútur nr. 689 í 2. sæti.
Hann er í eigu okkar Sigrúnar.
Er hann tvílembingur og vó 46 kg.
Ómtölur hans eru: 26mm ómv, 2,4mm ómf og 4,0 í óml.
Hann stigaðist þannig: Haus 8,0 - h/h 9,0 - b/ú 9,0 - bak 8,0 - malir 9,0 - læri 19,0 - ull 9,0 - fætur 8,0 - samræmi 8,5 = 87,5 stig í heildina.
Faðir hans er Kistill 08-281, sem var næst stiga hæsti lambhrúturinn hér í fyrrahaust með 88 stig. F.f. er Dvergur 07-270, sem stigaðist hæst hér haustið 2007 einnig upp á 88 stig, hann er undan Krók 05-803. Þannig að þessir tveir stiga hæstu hrútar nú í haust eru ná skyldir í föðurætt.
Móðir er Mörk 07-791, sem er undan Kveik 05-965, en m.f. hennar er Flotti 98-850, þannig að í þessari móðurætt er að finna ýmsa þekkta sæðingahrúta, sem ekki verða tíundaðir hér frekar.

Lambhr. nr. 685  Hrútur nr. 685 í 3. sæti.
Hann er einnig í eigu okkar Sigrúnar.
Er tvílembingur og vó 42 kg.
Ómtölur hans eru: 29mm ómv. 2,7mm ómf. og 4,5 óml.
Hann stigaðist svo: Haus 8,0 - h/h 9,0 - b/ú 9,0 - bak 8,5 - malir 9,5 - læri 19.0 - ull 7,5 - fætur 8,0 - samræmi 8,0 = 86,5 stig alls.
Faðir hans er Prjónn  07-812.
Móðir er Spjálk 07-764, en hún er undan Krók 05-803 og m.f hennar er Frosti 02-913

Eins og sjá má er stutt í Krók 05-803 í ætt allra þessara þriggja hrúta sem stiguðust hæst hér í haust líkt og hefur verið undanfarin haust með topphrútana.

    4. okt. 2009

Denni, Gestur   Haustverkin halda áfram þrátt fyrir vetrartíð. Í dag voru ærnar reknar út í Flögu og þar inn í hús. Þar er aðstaða til að renna þeim í gegnum smá gang, þar sem lesið er á númer þeirra og merkt við í fjárbókinni að þær séu mættar af fjalli, einnig eru skoðuð júgur þeirra holdafar og annað til að reyna að gera sér grein fyrir hvort þær hafi einhvern krankleika, þannig að þær séu ekki á vetur setjandi. Þá eru þær flokkaðar niður, veturgamlar- eldri- og sláturær teknar frá, en lunginn úr ánum var settur út í Flöguhólf, þar sem er ágæt beit þar til þær verða teknar á hús. Á myndinni er Gestur að meta júgur.
Bókararnir Beta og Sigrún

















Beta og Sigrún færðu allt til bókar.

    3. okt. 2009

Hrútar að kroppa í snjónum  Það birti til í dag eftir illviðri gærdagsins. Nú nær féð ekki í nokkurt strá nema krafsa. Hrútagreyin eru nú kannski ekkert fimir við þá iðju, en verða að láta sig hafa það.











    2. okt. 2009

Vetrarríki   Það var algjört vetrarríki í dag. Snjókoma nánast í logni fyrst í morgun, en tók að hvessa þegar á daginn leið og varð hálfgeð stórhríð. Þetta er náttúrlega alveg óásættanlegt að það skuli vera kominn grimmdarvetur og ekki nema 2. október. Við vorum í allan dag að færa féð hér heimundir til að forða því frá að lenda í skurðum og fenna þar. Undir kvöld voru skurðir, sem snúa þvert á veðrið nánast orðnir fullir af snjó og krapi. Okkur tókst að ná fénu saman þannig að því ætti ekki að vera mikil hætta búin í nótt nema veðrið versni enn til muna.
  Undanfarna daga höfum við verið að taka út skít með haugsugunni og erum langt komnir með það, en það er hætt við að veðrið setji strik í þann reikning að það klárist. Gestur hefur verið að hjálpa okkur við þessa skítavinnu.
Flettingar í dag: 41
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 58554
Samtals gestir: 15975
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 15:15:22
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar