Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir febr. 2014

26. febr. 2014

 

 

Það bætir alltaf á snjóinn, þannig að nú dugar ekkert annað fyrir Vegagerðina, annað en senda blásara til að oppna veginn hingað. 

Hér er hann farinn að blása snjónum. Ruðningarnir eru víða orðnir það háir að veghefill nær ekki að koma snjónum frá sér.

24. febr. 2014

Ofan gefur snjó á snjó. Vegurinn var ruddur enn einu sinni í dag og gekk það heldur brösuglega. Það var sendur hingað stór bíll með snjóplóg, en það tókst ekki betur til enn svo að hann festi sig hérna á heimreiðinni, þannig að það þurfti að senda veghefil á eftir honum frá Akureyri til að draga hann úr festunni. Ástandið er nú orðið þannig að ruðningstækin eiga mjög erfitt með að koma snjónum frá sér. Það er nú sjálfskaparvíti Vegagerðarinnar, vegna þess að þegar rutt er þá skilja ruðningstækin snjóinn eftir á vegarkantinum í stað þess að vera þannig tækjum búin að snjónum sé rutt alveg út af veginum. Vegagerðin á Akureyri hefur reyndar yfir að ráða hliðartönn eða væng, sem hægt er að setja á hefil í þeim tilgangi að verka snjó vel út af veginum. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er þessi útbúnaður helst ekki notaður. Það sleppur til þegar er lítill snjór, sem fyrir séð er að staldri stutt við. En það þarf ekki mikið vit til að sjá, að um hávetur í snjóatíð er ekki ráðlegt að hrúga snjónum upp á vegkantinn og svo má ekki hreyfa vind öðruvísi en snjógöngin verða meira og minna full aftur. Vonandi fer þessari austan- og norðaustanátt, sem búin er að vera nánast einráð síðan í haust að linna. Í dag þurfti ég til Akureyrar til að endurskoða ársreikning FSE og afla vista. Ég tók nokkrar myndir í dag af ástandinu hér og á leið minni hér niður dalinn og á Akureyri, sem má sjá hér http://2110.123.is/photoalbums/258093/

Í kvöld fór ég svo til Sigrúnar, sem er hér að rétta aðeins úr sér.

23. febr. 2014

Þá er nú liðin 9 ár síðan Ívar Franz fæddist á Akureyri og sendum við, amma og afi í sveitinni á Íslandi, honum okkar bestu afmæliskveðjur í tilefni dagsins. Hann er nú búinn að eiga heima í Danmörku í tæplega 7 ef þessum 9 árum, en talar þó ágæta íslensku.  Hann er góður og duglegur drengur og stundar fótbolta af miklum áhuga. En ekki veit ég nú hvað hann er að láta sig dreyma um í þessum flotta stól, kannski að verða kóngur?

Í sumar kom hann í heimsókn í sveitina og þá var þessi mynd tekin. Þarna held ég að hann sé að láta sig dreyma um að klífa Dranga gamla. Hver veit nema það rætist einhvern tímann?

 

Blóm hinnar ósnortnu Náttúru. Megið þið eiga góðan dag allar, ömmur, mæður, dætur, systur og síðast en alls ekki síst eiginkonur.

En eiginkonan mín komst ekki heim til sín þessa helgi, eins og hún er búin að gera allar helgar síðan í lok nóvember. Það var einfaldlega hálfgerð stórhríð á föstudaginn og er reyndar búin að vera meira og minn síðan um miðja vikuna. Þessu fylgir svo tilheyrandi ófærð. Það gekk t.d. mjög illa fyrir mér að komast til að gefa Flöguánum á fimmtudaginn, þótt á stórri dráttarvél væri. En það tókst með harðfylgi og ég gat sett ærnar inn og gefið þeim. Það kom reyndar hefill á föstudaginn og skóf það mesta af veginum, en þegar sumstaðar eru komnir tveggja metra ruðningar er færðin fljót að spillast aftur.

En Sigrún er boðin í afmæli til Rögnu vinkonu sinnar í dag ásamt Sólveigu og Tómasi, þannig að ég veit að hún á góðan dag þótt hún kæmist ekki heim í snjóabælið. 

18. febr. 2014

Já, það er hvítt yfir að líta og nánast slétt af öllu, meðal snjódýpt örugglega á annan metra....

....en það er ekki alls staðar svo. Þegar kemur hérna út fyrir Myrkána er þetta ekki nema smá föl og utan við Mela og til sjávar er nánast alautt á láglendi. Það er ekki óalgengt að sé einhver munur á snjóalögum, en þetta er nú með því mesta sem sést hefur.  

17. febr. 2014

Þá er nú komið að því að rúllurnar, sem settar voru inn í syðrihlöðuna í sumar eru að klárast. Gestur mokaði frá baggagatinu og við settum svo inn 9 rúllur, þegar ég kom frá því að fara með Sigrúnu í Kristnes. Eins og má sjá var þetta talsvert, sem þurfti að moka af snjó til að hægt væri að komast þarna að. 

16. febr. 2014

Það eru 10 dagar síðan sólina átti að sjá hér, en það var ekki fyrr enn í dag, sem fyrstu sólargeislar ársins 2014 náðu hér niður í dalbotninn.....

....og hér er Sigrún að njóta sólargeislanna úr stofuglugganum.


13. febr. 2014

Hér er Sigrún í iðjuþjálfun í dag. Þetta er fyrsti tíminn hennar í eldhúsinu á Kristnesi og hann fólst í því að gera vöfflur. Þær heppnuðust ljómandi vel, þannig að úr varð vöffluveisla með starfsfólkinu. Harpa iðjuþjálfinn hennar Sigrúnar tók myndina og sendi mér.  

8. febr. 2014

Sigrún á Skype að hafa myndsamtal við fjölskylduna í Danmörku, það er meiri háttar að geta haft svona samskipti þegar svona langt er á milli og ekki hægt að skjótast í heimsókn, eins og þegar þau bjuggu á Siglufirði.

Það tók að snjóa undir kvöld í gær og er búið að snjóa án afláts síðan, enda er kominn um hálfsmeters nýr snjó ofan á það sem fyrir var. Þetta er nú alveg komið nóg, enda er eins og sjá má girðingar víðast hvar alveg að hverfa, sér bara ofan á einstöku staura. Ef ég væri ekki að reyna að vera sæmilega kurteis hérna á heimasíðunni mundi ég láta fylgja þessarri snjóafrétt, flaum af blótsyrðum. Já vel á minnst það er í kvöld þorrablót Hörgársveitar í íþróttahúsinu á Þelamörk.

7. febr. 2014

 
Ég sótti Sigrúnu að vanda í Kristnes í dag og við fórum í mat til Rögnu á leiðinni heim eins og ég gat um hér í gær. Ekki brást matarboðið hjá Rögnu frekar en fyrri daginn, þannig að við áttum þar ljómandi skemmtilegt kvöld. Þar beið Sigrúnar líka þessi fallegi blómvöndur frá Jónasi og Guðrúnu, sem Ragna var búin að sækja í blómabúð þegar við komum til hennar. Takk Ragna fyrir okkur.

6. febr. 2014

Það er afmælisdagurinn hennar Sigrúnar minnar í dag. Ég fór samt ekkert til hennar í Kristnes enda ætla ég að sækja hana þangað á morgun og þá erum við boðin í mat til Rögnu Hugrúnar vinkonu okkar. En í dag sendi ég henni innilegar afmæliskveðjur með þessarri fallegu rauðu rós.
Flettingar í dag: 96
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 57
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 61533
Samtals gestir: 16782
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 17:42:26
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar