Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir júní 2007

    30. júní 2007

          Kristín Lára Pells




    















 
  

  
   Í dag varð Kristín Lára Pells 2ja ára. Við vorum boðin í afmælið og tók ég nokkrar myndir í sem má sjá undir: Myndaalbúm - Ýmis tilefni - Kristín Lára .......


     27. júní 2007

 Klárað var að rýja og sleppa Flöguánum í dag og er þá búið að sleppa öllu fé til afréttar.




















  Fjölskyldan í Klifshaga kom í heimsókn í dag og var þessari mynd smellt af þeim. Við vorum að rýja þegar þau komu og voru þeir bræður Baldur og Daníel ánægðir með að komast í rúninginn, þeir höfðu aldrei séð svona sumarrúning framkvæmdan áður.


 Í kvöld kom Tommi með nýja Fella SM 320 sláttuvél og rúlluplast fyrir sumarið.
   
    26. júní 2007



Kveðjustundin: Solla og Tomi fóru til Reykjavíkur í dag og fara svo heim til Svíþjóðar á fimmtudaginn.



Flöguærnar voru flestar rúnar  í dag og þeim sleppt. Hér eru Guðrún Margrét, Margrét og Hákon að handsama eina þeirra, en þau sáu um þann þátt verksins, þótt ekki séu þau  nú  há í loftinu.


    23. júní 2007



Sólveig Elín (Solla) og Tomi Tanska komu í dag akandi frá Reykjavík, þau ætla að stoppa í eina 2 - 3 daga. Eins og sjá má á myndinni og áður hefur verið sagt frá hér á síðunni eiga þau von á sínu fyrsta barni í haust, nánar tiltekið í byrjun september. Þau eru eldhress, kát og hamingjusöm.
















   Í kvöld var Jónsmessunæturvaka Ferðafélagsins Hörgs í Baugaseli. Færra fólk kom að þessu sinni en oft áður, 46 skráðu sig í gestabókina. Ástæðan fyrir lélegri mætingu nú er vafalaust sú að það var stíf norðan átt í dag og fremur kalt. Það lægði í kvöld og var ágætis veður í Baugaseli en kalt, hiti var kominn niður undir frostmark þegar hátíðinni lauk laust fyrir miðnættið. Dagskráin var hefðbundin upplestur, söngur, leikir svo sem Jósep segir og svo nestisstund og spjall.
    Myndir frá hátíðinni og ferðinni upp í Baugasel má sjá á: Myndaalbúm - Ýmis verk og tilefni - Jónsmessunæturvaka.... 

  
    21. júní 2007

Í gærkveldi fór Helgi Jóhannsson refaskytta hér í sveit í grenjaleit í Hraunskálina, sem er í Háafjallinu austan Hörgár, hérna gengt bænum. Hann fann þar greni sem búið var í og kallaði þá út aðstoðarmenn sína þá Þór og Ingvar. Þeir voru svo á greninu í nótt og Helgi og Ingvar komu ekki af því fyrr en núna undir kvöld. Höfðu þeir náð læðunni og 4 hvolpum, en húsbóndann á greninu höfðu þeir hvorki heyrt né séð. Þann 18. júní leituðu þeir félagar hérna upp í Ásgerðarstaðaheiðinni og fundu þá einn hvolp á víðavangi. Trúlega hefur fullorðið dýr verið að flytja hann á nýjan stað. Þannig að það er ljóst að það hafa verið greni hér beggja megin í dalnum nánast upp af bænum. Þetta kemur vel heim og saman við það sem ég gat um í maí, að aldrei hafði heyrst eins mikið í tófu hér heim að bæ eins og í vor. Það virðist alveg ljóst að ref er að fjölga alveg gríðarlega. Það eru nú að finnast mun fleiri greni í sveitinni, en var fyrr á árum, auk þess sem nú eru stundaðar vetrarveiðar. Ljóst er að þetta hlýtur að hafa mikil áhrif á annað lífríki, sérstaklega fuglalífið. Það er t.d. mjög líklegt að fjölgun refs sé megin ástæðan fyrir bágri stöðu rjúpnastofnsins og á það örugglega við um fleiri fuglastofna, þótt það hafi ekki verið rannsakað. Vonandi að augu ráðamanna fari að opnast fyrir þessari vá, áður en óbætanlegt tjón verður.

    19. júní 2007

  Í kvöld fór ég á aðalfund Ferðafélagsins Hörgs, sem haldinn var að Möðruvöllum 3 heima hjá Bjarna E Guðleifssyni formanni félagsins. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var rætt um viðburði á vegum félagsins í sumar. Þar má nefna: Sólstöðugöngu á Staðarhnjúk 21. júní, Jónsmessunæturvöku í Baugaseli 23. júní, Þorvaldsdalsskokk 30. júní, pílagrímsgöngu frá Hálsi að Völlum í Svarfaðardal 1. júlí, og Hraunsganga 3. september, auk þessa er fyrirhuguð ein vinnuferð að sauðaborginni fyrir ofan Vindheima, til að lagfæra hleðsluna á henni. Þetta er nú það helsta í starfseminni í sumar.


    18. júní 2007

  Klárað var í dag að gróðursetja þær Lerkiplöntur, sem búið er að taka núna 1300 í dag. Alls þá með því sem gróðursett var í fyrra dag 2500 plöntur. Síðdegis fórum við svo í afmæli til Jóns Birgis og Hákons Þórs í Dvergagili 7, en þeir héldu sameiginlega upp á afmælin sín í dag. Jón Birgir er 12 ára í dag og Hákon Þór verður 10 ára þann 21. júní. Og nú eru Auður og fjölskylda flogin til Hafnar. Vonandi að þeim farnist vel þar.

  
   Jón Birgir og Stefán vinur hans (hærra á lofti)

  Í kvöld komu félagar í Framfara með graðhestana til sumardvalar. Við höfum undanfarin ár tekið graðhesta í hólf til sumardvalar, reyndar hafa þeir oftast verið hér fram um áramót. Þetta eru 20 hestar að þessu sinni.




   17. júní 2007



  Við Sigrún eyddum deginum að mestu í Ránargötu 2 . Þegar við komum á fætur var Jónas Ragnar búinn að útbúa handa okkur glæsilegt morgunverðarhlaðborð, sem við nutum með bestu list. Svo komu Auður og fjölskylda í heimsókn þangað að kveðja, því eins og áður hefur komið fram hér í fréttunum á heimasíðunni eru þau að flytja til Kaupmannahafnar í fyrramálið. Auður, Katrín og Gauti fóru reyndar með okkur upp í Hlíð til að kveðja ömmu sína þar. Við hittum Bjössa úr Vogunum líka þar þegar hann kom að heimsækja langömmu sína, en hann kom norður um helgina til að vera á Bíladögum. Þegar við komum svo aftur niður í Ránargötu var Jónas kominn úr veiðitúr bæði með lax og silung og var þessu slengt í pott og eldaður hinn þjóðlegasti matur. Að svo búnu héldum við heim í heiðardalinn eftir ágæta þjóðhátíðarhelgi.


  Morgunverðarhlaðborð Jónasar Ragnars

  Fleiri myndir frá helginni má sjá undir: Myndaalbúm - Ýmsarmyndir - 17. júní helgin 2007

  16. júní 2007

  Við vorum að gróðursetja Lerki í skógræktargirðingunni í Flögu í dag um 1200 plöntur. Nokkrar myndir sem teknar voru þar m.a. af eldri trjám, blómum og útsýninu má sjá undir: Myndaalbúm - Náttúrulífsmyndir og Skógræktin.

  Í kvöld fórum við svo í kvöldverðarboð til Maju og Tomma. Þau buðu upp á alveg frábært grillað kjöt frá Fjallalambi auk meðlætis og svo ostaterta, ís og ávextir með rjóma á eftir. Þetta var alveg frábært kvöld. Á eftir fórum við í Ránargötuna og ætlum að gista þar í nótt.



     14. júní 2007

  Í gær kom Sigló-fjölskyldan og gisti í nótt, þau voru svo að hjálpa okkur að sleppa síðustu ánum í dag fyrir utan að Flögu-ærnar eru heima ennþá, enda er eftir að rýja þær. Það eru nú reyndar síðustu horfur að kenna þau við Sigló því núna á mánudaginn kemur flytja þau til Kaupmannahafnar.




    13. júní 2007


Ræsa forustuær tók upp á því að vera geld í vor. Hún var rúin í dag eins og sjá má og síðan var henni sleppt til fjalla og var hún frelsinu fegin.


   12. júní 2007

  Við fórum í heimsókn í Gullbrekku í dag, það var skemmtileg ferð og heimsókn í veðurblíðunni.

 
Fjölskyldan í Gullbrekku ásamt tíkinn Pöndu.  Lömbin eru orðin stór hjá þeim, hér er gemlingur með lambið sitt.

                                       
  Í kvöld kom svo Jónas Ragnar með flugi og tókum við á móti honum á flugvellinum

   11. júní 2007

  Í kvöld var hér fjallskilanefndar fundur. Þetta er nú kannski ekki hefðbundinn fundartími fyrir nefndina, en þar sem einn nefndarmaðurinn Stefán L Karlsson er á förum til Þýskalands í tveggja mánaða sumarfrí með fjölskylduna, þótti okkur ástæða til að funda áður en hann færi. Við vorum meðal annars að tímasetja göngurnar. Fyrstu göngur hér á Staðarbakka verða 12. og 13. september og Staðarbakkarétt þann 14. seinni göngur verða svo 22. og 23. 


Fjallskilanefnd að störfum ásamt oddvita
f.v. Aðalsteinn, Helgi, Stefán og Guðmundur

    10. júní 2007


             Síðasta ærin borin                                                      Og komin út á tún
    

    8. júní 2007

 

  Við Sigrún fórum í dag að útför móðurbróður míns Ara Heiðmanns Jósavinssonar bónda á Auðnum í Öxnadal. Þetta var falleg athöfn og fallegur dagur sem hófst inní Akureyrarkirkju, síðan var hann fluttur sína síðustu för heim í dalinn sinn í einstakri veðurblíðu, sól og hlýjum andblæ. Bakkakirkja var hans sóknarkirkja allan hans aldur og þar í kirkjugarðinum var hann lagður til hinstu hvílu, að viðstöddu miklu fjölmenni. Frá Bakka var ekið að Engimýri til fjölmennrar erfidrykkju.
  Í mínum huga var Ari eins og sterkur stofn. Hvort heldur maður hugsar til umhyggju hans fyrir fjölskyldu sinni og heimili eða samfélagsins í kringum hann. Hann var einstaklega hlýr heimilisfaðir, eiginmaður, faðir og afi. Fjölskyldan hefur því misst mikið og hefur mikils að sakna, en hún á líka mikinn fjársjóð í öllum góðu minningunum um hann þennan sterka stofn. Sveitin hans sem hann unni svo mikið á honum líka margt að þakka, þar voru honum falin mörg trúnaðarstörf og ætíð í þeirri fullvissu, að það sem hann tók að sér væri í góðum höndum án nokkurs vafa um að þar væri allt unnið af ítrasta heiðarleika og drengskap. Ari elskaði Öxnadalinn, sem fóstraði hann frá vöggu til grafar. Hann unni náttúru dalsins, gróðurmoldinni sem ætíð er uppspretta lífs bóndans og skepnunum sínum, sem hann naut að gera vel við og umgangast hverja stund. Ég held þegar ég hugsa til Ara frænda míns að 17. júní hljóti að hafa verið hans æðsti dagur og kannski alveg sérstaklega 17. júní 1944 þegar Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Þannig var Ari, unni frelsinu, frelsi bæði þjóðar og einstaklingsins, vildi vera öðrum óháður, en ætíð þó reiðubúinn að leggja öðrum lið þegar á þurfti að halda.
  Ég kveð þig frændi minn með innilegri þökk fyrir allt og allt og minnist alveg sérstaklega hvað þétt var þitt handtak þegar þú heilsaðir og kvaddir og hlýjunnar og traustsins sem skein úr skörpu augnaráðinu.
  Guði sért þú falinn og Guð geymi minningu þína.

 Nokkrar myndir frá deginum má sjá hér á heimasíðunni undir Myndaalbúm og svo Ýmis verk og tilefni

    7. júní 2007

  Í dag fórum við Sigrún ásamt Guðmundi Sturlusyni á Þúfnavöllum, sem fulltrúar Eyfirðinga á aðalfund SAH svf sem haldinn var á Blönduósi. Ég þurfti reyndar fyrst að mæta á stjórnarfund þar til að undirrita reikning félagsins o.fl. ásamt öðrum stjórnarmönnum. Sú breyting varð á stjórninni á fundinum, að í stjórn hættu þeir Jóhannes Torfason á Torfalæk og Pétur Pétursson á Hólabæ, en inn komu í þeirra stað Anna Margrét Jónsdóttir á Sölvabakka og Jón Kristófer Sigmarsson á Hæli. Þetta var ágætur fundur. Á eftir var svo aðalfundur SAH Afurða ehf. og sátum við hann líka. Bæði félögin voru rekin réttu megin við núllið á árinu 2006 og er það ágætur viðsnúningur frá því sem oft hefur verið á undanförnum árum. 
  Myndir frá deginum má sjá hér á heimasíðunni undir Myndaalbúm og svo í Ýmis verk og tilefni


      Lagt af stað á fundinn í morgun


       Áð í Varmahlíð á heimleiðinni


    6. júní 2007

  Mikið verk er að viðhalda girðinginum enda eru þær á milli 20 og 30 km. sem umlykja tún og beitarhólf. Ég var aðeins að byrja að dytta að þeim í dag í blíðunni, hægri suðlægri átt og 14 til 18 hita °.


          Bóndinn að fást við gaddavírinn.


 Fyrstu blómin að springa út í blómagarðinum.

    5. júní 2007

  Það tekur hvert verkið við af öðru. Núna þegar fer að sjá fyrir endann á sauðburðinum þarf að fara að bera á túnin og var hafist handa við það í dag. Víða eru menn vafalaust langt komnir að bera á tún eða búnir, en hér er þetta seinna bæði vegna anna við sauðburðinn og svo þess að við erum hátt yfir sjó í rúmlega 270 metra hæð, sem gerir það að verkum að hér grær seinna. Þetta vorið hefði gjarnan mátt vera búið að byrja á dreifingunni fyrr þar sem gróður er kominn óvenjulega vel á veg, en það kemur nú ekki mikið að sök þar sem engin úrkoma hefur verið lengi, þannig að áburðurinn myndi bara liggja á jörðinni óuppleystur.


           Allt tilbúið til að ausa áburðinum.

     3. júní 2007

  Hjalti okkar fór með rútunni til Egilsstaða í morgun, þannig að nú erum við orðin bara tvö gömlu hjúin. Það er búið að vera okkur ómetanlegt að hafa Hjalta þennan rúma hálfa mánuð við sauðburðinn, hann er öllum hnútum kunnugur og veit hvernig á að ganga í verkin, hann hefur til dæmis staðið sig frábærlega í að halda öllum krónum hreinum, en það er mikið verk á sauðburði ef vel á að vera. Við munum að sjálfsögðu sakna þess að hafa hann ekki lengur, en þetta er lífsins gangur og hann á að byrja að vinna á morgun fyrir austan.


    Vinirnir Hjalti og Lappi

Flettingar í dag: 118
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 61903
Samtals gestir: 16866
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 11:14:43
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar