Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir 2014

28. febr. 2013

Mynd Leikfélags Hörgdæla, úr leikverkinu Djákninn á Myrká. .

Í kvöld fór ég ásamt Sólveigu Elínu á frumsýningu hjá Leikfélagi-Hörgdæla á Melum, þar sem leikfélagið var að sýna nýtt leikverk, sem ber hið gamalkunna nafn Djákninn á Myrká. Höfundur verksins og leikstjóri er Jón Gunnar Þórðarson, hann leikstýrði einnig síðasta verki sem félagið sett á svið: ,,Með fullri reisn". Sú sýning fékk fádæma góðar viðtökur, var sýnt 44 sinnum og um 4.000 manns sáu hana, en það samsvarar um 7 földum íbúafjölda Hörgársveitar.

Það var að sjálfsögðu mikil spenna í lofti á Melum, meðan troðfullur salurinn beið eftir að sjá hið nýja leikverk. Já, ekki bara nýtt leikverk heldur og ekki síður að sjá hvernig til hefði tekist að setja þessa alþekktu þjóð- eða draugasögu, sem á sitt sögusvið hér í Hörgárdalnum í leikbúning og gæða hana svo lífi á litla sviðinu í samkomuhúsinu á Melum. Í leikskránni kemur fram að tæp 50 verk hafa verið sviðsett á vegum Leikfélags-Hörgdæla og forverum þess, þannig að hér er rík leiklistarhefð.

En þá aftur að leiksýningu kvöldsins. Ég held ég geti mælt fyrir munn frumsýningargesta, að þetta er stórbrotin og á flestan hátt mjög flott sýning. En alls ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk. Ég ætla að byrja á helstu kostunum að mínu mati. Sviðsmyndin og reyndar öll umgjörð sviðs og salar hæfir efni verksins mjög vel, hún er fremur látlaus og laus við allan óþarfa. Þokumóða á sviðinu áður en sýningin hefst og annað slagið meðan á henni stendur, ýtir undir spennu og hæfir vel því verkefni að það er verið að kafa í fortíðina þar sem flest er undir hulinshjálmi. Lýsingin styður verkið einnig mjög vel og með henni tekst að byggja vel undir þá stemmingu sem á að ríkja á sviðinu hverju sinni. Í sýningunni leika 17 leikarar og nokkrir þeirra fleiri en eitt hlutverk. Það er skemmst frá því að segja að þeir standa sig nánast allir með afbrigðum vel og er erfitt að taka þar einhverja sérstaklega út úr. Ég verð þó að segja að mér fannst hin unga leikkona Ída Irene Oddsdóttir, sem  ekki hefur áður stigið á svið með Leikfélagi-Hörgdæla, standa sig frábærlega við að glæða Guðrúnu (Garúnu) lífi og skapa einstaklega heilsteypta og trúverðuga persónu. Þetta er þeim mun meira afrek þar sem búningur hennar var ekki alltaf að hjálpa henni við hlutverkið. Þar kem ég einmitt að einu því neikvæða við sýninguna. Búningahönnun er mjög skrítin og vinnur stundum beinlínis á móti verkinu og er þar hinn hárauði samkvæmiskjóll Guðrúnar vinnukonu á Bægisá augljósasta dæmið um smekkleysuna, þegar hún er látin ríða í þessari múnderingu með djáknanum afturgengnum að Myrká. Mjög ósannfærandi útlit á fátækri vinnukonu, auk þess sem skikkjuna sem segir frá í þjóðsögunni vantar alveg.

Kem ég þá að því að fjalla aðeins um leikverkið sem slíkt. Eins og áður segir byggir það á þjóð- eða draugasögunni um djáknann á Myrká. Þar lendir höfundur strax í nokkrum vanda, því sagan er nokkuð stutt fyrir leikrit í fullri lengd. Höfundur hefur því um tvennt að velja, annað hvort að byggja utan á söguna sjálfa eða draga aðra hluti inn í hana. Jón Gunnar notar í verkinu báðar þessar leiðir, þó einkum þá síðar nefndu. Þar má nefna að hann kallar til sögunnar Hólaskóla og Hólabiskup, auk tröllkonunnar Geiru sem lék lausum hala í Myrkárdal, en varð þar loks að steini eins og flestar hennar kynsystur. Þetta flækir verkið nokkuð og óvíst að leikhúsgestir hafi alltaf átt auðvelt með að ná samhengi hlutanna. Til þess að auðvelda áhorfendum þetta grípur höfundur til þess ráðs að hafa sögumanninn Mána og kjaftakerlingar til að skýra framvinduna og tekst það bara býsna vel. Þetta verður þó óhjákvæmilega til þess að verkið hefur ekki eins vel smurða framvindu. Það fer aðeins stirt af stað og einnig á það í nokkrum erfiðleikum í restina. Miðjan í verkinu er að mínum dómi besti hluti þess. Ég get ekki látið það alveg óátalið að höfundur víkur mjög frá draugasögunni þegar djákninn kemur með Guðrúnu að Myrká afturgenginn. Ekki það að höfundur hafi ekki haft sitt skáldaleyfi til að víkja frá sögunni, heldur hitt að myndin sem draugasagan dregur upp af þessum atburði hefur mikla yfirburði yfir útfærslu Jóns Gunnars, það er því lítt skiljanlegt að hann fylgi þar sögunni ekki nánar en hann gerir. Ég set einnig spurningamerki við útfærslu leikstjóra á persónum: Péturs biskups og Sveini djákna hans, mér finnst hún skemma heildarmynd verksins.

En þrátt fyrir þessar aðfinnslur mínar má Jón Gunnar vara stoltur af leikverki sínu um Djáknann á Myrká og ánægður með uppfærslu þess á Melum. Tónlistin í verkinu er samin af Skúla Gautasyni og fellur mjög vel að efni þess.

Hafi Leikfélag-Hörgdæla kæra þökk fyrir vandaða leiksýningu, sem er þannig úr garði gjörð að hvaða atvinnuleikhús gæti verið fullsæmt af svona frammistöðu. Takk fyrir mig.

 

24. febr. 2013 Konudagur

 Blóm hinnar ósnortnu Náttúru. Megið þið eiga góðan dag allar, ömmur, mæður, dætur, systur og síðast en alls ekki síst eiginkonur.

23. febr. 2013

 Hann Ívar Franz er átta ára í dag og ég rændi af facebook þessari fínu mynd af honum, sem tekin var í dag,  þar sem hann er með nýja símann sinn. Aldeilis orðinn flottur piltur finnst afa. Við amma þín sendum þér Ívar minn okkar innilegustu afmæliskveðjur, með ósk um að þú megir eiga skemmtilegan dag. 

 

22. febr. 2013

 

Þessi mynd var tekin rétt sunnan við Þelamerkurskóla, þegar við vorum á leið til Akureyrar í dag. Á henni má sjá að tún bænda í Auðbrekkutorfunni eru að mestu hulin gljáandi svelli og gríðarleg kalhætta yfirvofandi. Í brekkurótum Auðbrekkufjalls kúra bæirnir Auðbrekka og Þríhyrningur.

 

20. febr. 2013

 

 Í kvöld var okkur boðið í þorramatarveislu hjá vinum okkar Maju og Tomma í Eyrarveginum. Rögnu Hugrúnu var líka boðið og fékk hún að taka myndina, en ekki að vara með á henni. Þetta var frábært kvöld þar sem margt var spjallað og mikið hlegið. Gott var líka að komast í þorrastemmingu þar sem við slepptum því að fara á þorrablót þetta árið.

 

Kaldbakur skartaði sínum vetrarskrúða í þorrasólinni, þegar við vorum á leiðinni til Akureyrar í dag.

 

 Í gær var mynd af Tómasi í hlöðunni að sveifla sér. En í dag er hann svo kominn með ömmu sinni á kaffihús (BLÁU-KÖNNUNA), með fullt glas af kakói og maulandi skreyttan kleinuhring. Og svo var farið heim til mömmu í Helgamagra... glaður að sjá allt dótið sitt aftur.

 

19. febr. 2013

 

 Tómas Leonard er búinn að vera næstum viku hjá okkur í sveitinni. Hann er mjög duglegur að finna út sjálfur eitthvað til að leika sér að. Á myndinni er nýjasta uppfinningin, hann krækir krókstaf í spotta sem hangir niður úr hlöðuþakinu og sveiflar sé svo fram og aftur, eða í alls konar hringi og Tryggur fylgist spenntur með.

 

17. febr. 2013

 

 Það er margt sem hægt er að huga að í náttúrunni. Eitt er að ráða í veðrið eftir hinum ýmsu fyrirbærum. Meðal þeira er að fylgjast með snjótittlingunum hvernig þeir haga sér. Þegar þeir t.d. hópa sig og fljúga mjög hvikir um með dýfum og alls konar hringsóli þá er vont veður framundan, allavega hálfgerð stórhríð, ef ekki bara alvöru. 

En nú er illt í efni, hér hafa varla sést snjótittlingar í vetur. Hvað veldur er mér hulið. Er það veðrið sem gerði um 10. september? Eru það stórhríðar illviðrin, sem voru tíð frá því í lok október og stóðu með hléum næstu vikur? Finnst það líklegra en fyrri skýringin. Svo er það ef til vill eitthvað allt annað t.d. sjúkdómur í stofninum. Eitt er nokkurn veginn víst að stofninn hefur fallið af einhverjum ástæðum. Maður man nú margan veturinn bæði góða og aðra síður góða, en að snjótittlingurinn hafi alveg horfið er eitthvað sem ég tel að ekki hafi gerst áður, hvað sem veldur. 

Myndin er tekin 30. nóv. 2011

 

15. febr. 2013

 

 Ég fór í Akureyrarkirkju í dag að kveðja þennan aldna sveitunga. Já, sveitunga segi ég þótt hann hafi nú átt heima á Akureyri um það bil seinni helming ævi sinnar. Helgi átti þó ætíð sterkar taugar í dalinn sem fóstraði hann ungan og mótaði sem fulltíða mann. Sjö ára gamall fluttist hann að Baugaseli í Barkárdal, með foreldrum sínum og bræðrum. Á fullorðins árum gerðist hann svo ráðsmaður á Þúfnavöllum. Eftir að hann flutti til Akureyrar starfaði hann mest við smíðar og var í því sem öðru einstaklega verklaginn og duglegur. En Helgi var nú samt alltaf fyrst og fremst sveitamaður. Hann var með ólíkindum léttur á fæti og þótti það hálfgerð mannraun að þurfa að fylgja honum eftir t.d. var hann grenjaskytta um árabil og var enginn öfundsverður af að fylgja honum eftir við grenjaleit. Leiðir okkar Helga til starfa lágu saman á bernskuslóðum hans, þegar Ferðafélagið Hörgur tók að endurbyggja gamla torfbæinn í Baugaseli upp úr 1980. Þar var maður sem kunni til verka, ekki bara við smíðar heldur og ekki síður við vegghleðslu úr torfi og grjóti, þar naut hann verkkunnáttu frá uppvaxtarárunum sínum í Baugaseli. Helgi var einn af þessum mönnum, sem var ætíð kátur og hress og hann hafði ljúfa og góða nærveru.

Þakka þér Helgi fyrir samfylgd þessa heims og megir þú njóta þín á öðru tilverustigi. 

 

 Mig langar að láta fylgja hér eitt ljóð sem sungið var í kirkjunni í dag. Það hæfði Helga einstaklega vel.

 

 
Hörgárdalur út á Eyjafjörð
Ég hef alltaf gaman að skoða mismunandi útlit náttúrunnar. Hér er mynd sem tekin var hérna norður dalinn í dag, en neðan við er ársgömul mynd. Þær sýna að vísu ekki alveg sama sjónarhornið, en gefa þó góða mynd af mismunandi árferði.

 

 Mynd tekin 15. febrúar 2012 

 

9. febr. 2013

 

 Í dag birtist sólin yfir Grjótárdalsbotninum og má segja að það hafi orðið fagnaðarfundur, enda höfum við ekki séð hana síðan seint í október. Sólina getur séð hér fyrst 6. febrúar, en það hafa ekki verið skilyrði fyrr en í dag. Þetta eru rúmar 13 vikur, sem sólin er hér hulin á bak við fjöllin eða rúmlega  ¼ af árinu. Þessu til viðbótar lengist sólargangurinn mjög hægt, vegna þess hvað dalurinn er þröngur og fjöllin há.

Smá dæmi um það:

28. febrúar er sól á lofti í um 193 mínútur, eða frá kl. 14:19 til 17:32.

15. mars hefur sólargangur lengst í 288 mínútur, eða frá kl. 13:05 til 17:53.

25. mars skín svo sól í 345 mínútur, eða frá kl. 12:45 til 18:00.

10. apríl kemur sólin upp kl. 9:49 og sest kl. 18:23, þannig að þá er hún farin að skína í 8 klukkustundir og 34 mínútur. Læt þetta duga að sinni.

 

 Flögukerlingin og snævi þaktar hlíðar undir henni baðaðar sólinni í dag.

 

 Í kvöld sátum við hjónakornin af okkur annað þorrablótið hérna í sveitinni á yfirstandandi þorra. Fyrir viku var þorri blótaður af Hörgdælingum og Öxndælingum á Melum. Í kvöld er svo þorrablót Hörgársveitar haldið í Íþróttahúsinu á Þelamörk. Mér skilst að þetta muni vera lang fjölmennasta þorrablót, sem haldið hafi verið hér um sveitir. Það munu vera að minnsta kosti 440 að blóta þorra á Þelamörk í kvöld, þetta er mjög hátt hlutfall íbúa í Hörgársveit eða um 75%. Til gamans má geta þess, að ef álíka hlutfall Reykvíkinga væri saman kominn á einu þorrablóti væru það um 89.000. Meiriháttar samkoma það. Vantar líklega hús til að hýsa það þorrablót.

 

6. febr. 2013

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag, hún á afmæli hún Sigrún, hún er ???????? í dag!!! BRAVÓ!!!

 

 

 

 

 

 

Í tilefni dagsins var farið og borðað á Greifanum. Auk okkar hjóna fóru Ragna, Sólveig og Tómas Leonard. Á eftir var okkur svo boðið upp á kaffi og skúffuköku með rjóma í Helgamagra... Ánægjulegt kvöld.
 
   
 
 

1. febr. 2013

 

Moka snjó og moka meiri og moka enn meiri snjó!!! Hér er karl garmurinn að moka upp bílinn sinn og notar til þess bæði dráttarvél og handskóflu. Ef vel er rýnt í myndina má sjá góða gusu af snjó þeytast af skóflunni. Bara töggur í karli.

 

Flettingar í dag: 9
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 58522
Samtals gestir: 15969
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 02:01:43
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar