Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir sept. 2010

    30. sept. 2010

Í ljósaskiptum
Það fer vel á því að kveðja þennan septembermánuð, sem er búinn að vera einstaklega hlýr og veðra góður, með þessari fallegu mynd sem tekin var í ljósaskiptunum í kvöld, þegar gullroðnar skýjaslæður voru yfir fjöllum fram Hörgárdals.

    28. sept. 2010

Sandfellshagabæirnir og Sandfell í baksýn  Við Stefán Lárus fórum aftur í kaupaferð í Öxarfjörðinn í dag og eins og fyrir viku síðan fóru Gestur og Lena líka. Gestur lagði til bíl en Stefán kerru.
  Að þessu sinni keyptum við í Sandfellshaga fjóra hrúta og tvær gimbrar hjá Gunnari og Önnu og eina forustugimbur hjá Sigþóri.
Við tókum svo líka hrútana þrjá sem við keyptum í Hafrafellstungu í síðustu viku.
Þetta var ljómandi ferð, náttúran skartaði sínum fegurstu haustlitum og við fengum að sjá ljómandi fallegt fé, einkum hjá þeim Gunnari og Önnu.


Hrútarnir sem ég keypti  Hér gefur að líta hrútana sem ég keypti. Fremst á myndinni eru hrútarnir frá Sandfellshaga, en sá á bakvið er hrúturinn frá Hafrafellstungu en hann fékk góða mynd af sér hér á síðunni fyrir viku síðan.
 Hrúturinn til vinstri frá Sandfellshaga fékk í heildarstig 84,7 og BLUP spá hans er 108,3 að meðaltali. Hinn fékk 82,5 í heildarstig og meðal BLUP spá hans er 109. Þetta eru báðir mjög átökugóðir hrútar, með 18+ í lærastig.





Gimbrarnar sem ég keypti  Hér eru svo gimbrarnar sem ég keypti, annars vegar forustugimbur og hins vegar gull falleg ásetningsgimbur.













Forustugimbrin  Ég held að rétt sé að lofa forustugimbrinni að skarta einni á loka myndinni úr þessum kaupaferðum okkar Stefáns Lárusar.

Hér má svo sjá nokkrar fleiri myndir frá ferðinni í dag, sumar teknar út um bílgluggann á ferð þannig að gæðin eru í tæpara lagi.










    26. sept. 2010


Gestur og Sigurður að skoða ærnar  Í dag voru ærnar reknar inn og númera teknar til að sjá hverjar eru mættar af fjalli. Einnig var skoðað undir þær til að kanna hvort júgur þeirra eru í lagi og heilsufar þeirra almennt metið eftir útliti og holdafari.
  Heimtur reyndust vera nokkuð góðar og varla von á að fleiri ær skili sér af fjalli þetta haustið, nema Gest vantar tvílemda á sem vonandi á eftir að skila sér með lömbin sín.
  Á myndinni eru Gestur og Sigurður að skoða ærnar í sérstökum aðstöðugangi í Plasthúsinu.


Lena, Sigrún og Helga  Allt þarf að færa samviskusamlega til bókar og hér má sjá skriftur dagsins að störfum.
  Að loknu ströngu dagsverki var svo öllum mannskapnum boðið í afmæliskaffi til Sigurðar bróður.










    22. sept. 2010

Véronique og kærastinn  Eins og kom fram hér á heimasíðunni þann 20. júli sl. er Véronique Forbes frá Quebec í Kanada  að safna skordýrum í fjárhúsum á Íslandi, fyrir doktorsritgerð sína við Háskólann í Aberdeen. Í dag kom hún í loka skoðunarferð sína í Berghúsin ásamt kærastanum sínum.
















Skordýr úr fjárhúsum
Véronique kom með þennan bakka og sýndi okkur, en í honum er hluti af afrakstri sumarsins.

21. sept. 2010


Stefán Lárus, Gestur og Lena  Í dag fórum við Stefán Lárus austur í Hafrafellstungu í Öxarfirði að kaupa lambhrúta og Gestur og Lena með okkur. Það var stór hópur lambhrúta sem við gátum valið og að mörgu var að hyggja við valið, bæði að þukla hrútana og huga að tölulegum upplýsingum um þá og það er einmitt það sem þeir Stefán og Gestur eru að gera á myndinni.







Lena  En Lena passar hrútahópinn á meðan.















Þessa 3 keyptum við
  Að endingu urðu þessir þrír fyrir valinu. Ég keypti þann gleiðfætta lengst vil vinstri á myndinni en Stefán Lárus hina tvo. Ég er ánægður með minn hrút, hann er undan heimahrút í Hafrafellstungu, sem er að slá í gegn þar allavega hvað kjötmat varðar, er vel yfir 12 í gerð af því sem búið er að slátra undan honum í haust, þótt stór hluti lambanna hafi verið tekin frá til skoðunar fyrir ásetning. Hrúturinn minn stigaðist upp á 84,5 stig og meðaltal úr BLUP spá hans er 111,8. 
  Svo er bara að bíða og sjá hvernig hann reynist til kynbóta. 

    19. sept. 2010

Beta, Solla, Doddi, Anton, Gestur, Hákon, Guðm.,Lena og Mummi  Í gær og í dag voru gengnar hér aðrar göngur. Gangnaveður var ágætt, en þó var þoka í fjöllum til ama framan af degi í gær.
  Smalamennskan gekk vel en var nokkuð strembin fyrri daginn að vanda en þá fer mikið púður í að sigrast á skagfirskum fjallafálum, sem getur verið mjög erfitt að koma í skilning um að þær eigi að koma hér til réttar, enda í öfuga átt við þeirra heimkynni. Allt tókst þetta nú samt að lokum og náðust 22 kindur báða dagana þar af 10 úr Akrahreppi. Ekki er annað vitað en allt hafi náðst og afréttin sé sem dauðhreinsuð af fé.
  Á myndinni má sjá vaska sveit gangnamanna áður en lagt er til fjalla frá Háaleiti í gær.Undirritaður með hundana sína Fleiri myndir frá gangnadögunum má sjá hér
  Á myndinni er ég með hundana mína, mæðginin Brussu og Trygg á Borgum, sem eru á norður brún Hörgárdalsheiðar og sér niður í Hörgárdalinn.












Heimkoma  Þreyttir en ánægðir gangnamenn að koma heim úr göngunum í dag.













 
  
    15. sept. 2010

E-skrokkur  Við Sigrún og Gestur fórum á Blönduós til að framvísa fénu til slátrunar, sem flutt var héðan í gær og skrifa niður númerin. Frá okkur var slátrað 612 kindum, þar af var 601 lamb.
  Útkoman var ljómandi góð. Af lömbunum okkar á Staðarbakka var meðalvigtin 17 kg. talan fyrir gerðarflokkun var 10,87 og fyrir fituflokkun var hún 7,62. 
  Hjá Gesti var þetta enn betra, meðalþunginn var 17,8 kg. gerðartalan var 11,26 og fyrir fitu var talan 7,85.
  Þessi útkoma dagsins er betri en áður hefur verið, sem verður að teljast góð vísbending um að það sem maður hefur verið að basla við í fjárræktinni undanfarna áratugi sé að skila manni fallegra fé og betri vöru til neytenda.









Gestur og undirritaður  Og svo var sest niður þegar heim var komið og upplýsingar dagsins færðar í fjárbókina.














    14. sept. 2010
 
Snæbjörn, Gestur, Guðm. Sigurgeir  Flutt var fé héðan til slátrunar í dag og þá brá svo við eftir góðviðrið undanfarið að það var ausandi rigning. Eins og það er nú skemmtilegt að þurfa að fást við fé í slíku veðri.
  Á myndinni má samt sjá að menn eru fullbúnir til að takast á við veðrið.









    13. sept. 2010

Úr Þverárrétt 2008  Við Gestur fórum í Þverárrétt að hjálpa Stefáni Lárusi á Ytri-Bægisá að draga. Við höfum gjarnan vinnuskipti á haustin hann gengur fyrir mig og ég hjálpa honum svo í fjárragi í staðinn. 
  Við Gestur fórum svo aftur til hans í kvöld að vigta lömbin, sem flutt voru heim af Þverárrétt í dag. 








    11. sept. 2010

Magga og Hákon Þór 2008  Að venju rákum við allt féð inn í dag (laugardaginn eftir 1. göngur) til að vigta lömbin og taka þau lömb frá sem eiga að fara í 1. slátrun. Alls voru vegin á níundahundrað lömb og reyndist þungi þeirra í góðu meðallagi, miðað við það sem hér gerist eða 38,7 kg.










    10. sept. 2010

Rekið í réttina
  Það var réttað í Staðarbakkarétt í dag í afbragðs veðri. Réttarstörfin gengu vel og er ekki annað að sjá en dilkarnir komi fallegir af fjalli.

Helga Margrét, Margrét og Hákon Þór Hér er Hákon Þór búinn að handsama hann Botna sinn, sem er undan sæðingahrútnum Grábotna, enda ekki annað að sjá en hér sé álitlegur kynbótahrútur kominn af fjalli.











Gestur og Sigurður að hleypa út úr réttinni  Og svo er bara að hleypa fénu út að afloknum sundurdrætti beint á fagurgrænt túnið, sem er enn sem í hágróanda eftir hlýindin undanfarið.

Hér má sjá fleiri myndir frá deginum. 











    9. sept. 2010

Gauti Heimir Arnarsson  Þá eru nú liðin 10 ár síðan hann Gauti Heimir fæddist á afmælisdegi hennar Guðlaugar langömmu sinnar. Við amma og afi fengum senda þessa mynd af honum nýlega frá Slagelse í Danmörku. Í Danmörku er fjölskyldan búin að eiga heima í rúm 3 ár, eða síðan hún flutti frá Siglufirði.
  Við amma og afi í sveitinni sendum Gauta okkar innilegustu afmæliskveðjur og biðjum Guð að vera með honum um alla framtíð.









 


Háleit komin af fjalli  Í dag voru 1. göngur hér að vestan. Genginn var Hörgárdalur framan Myrkár og Flögudalur. Það var blíðu veður eins og í gær. Smalamennskan gekk vel en fremur hægt vegna hitans. Síðustu kindurnar voru komnar í réttarhólfið um kl. 19.
  Á myndinni er forustuærin mín hún Háleit með hrútana sína og eins og góðri forustuá sæmir leiðir hún safnið heim...






Síðasta féð að koma í hólfið... og hér er verið að reka það síðasta í hólfið.

Hér má sjá fleiri myndir    













    8. sept. 2010

Anton og Gulli Búi  Í dag voru 1. göngur gengnar hér austan Hörgár í blíðskaparveðri. Gengið var frá merkjum Einhamars og Nýjabæjar og allt framan úr Hörgárdalsbotni.  
  Á myndinni eru þeir Anton og Gulli Búi ferðbúnir í göngurnar í morgun.










Safnið að koma til byggða  Hér er verið að koma með safnið og farið að styttast til réttar. Það smalaðist mjög vel, en í hitanum var féð latrækt og það var ekki komið í rétt fyrr en um kl. 18 í kvöld.












Svangir gangnamenn   Og að loknum göngunum er gott að setjast niður við eldhúsborðið og gæða sér á hangikjöti, steiktu læri og alls konar meðlæti, sem blessuð frúin er búin að matbúa meðan við erum í göngunum.

Myndir frá deginu má sjá hér     










    5. sept. 2010

Tómas Leonard 3 ára  Í dag er hann Tómas Leonard þriggja ára. Hann kom í sveitina ásamt mömmu sinni í gærkveldi og hélt upp á daginn hjá ömmu og afa í dag. Hann fékk pakkana í morgun og kenndi þar ýmissa grasa, sem hann var mjög ánægður og stoltur með.
  Síðdegis hélt hann svo hina myndarlegustu afmælisveislu með dyggri aðstoð mömmu sinnar og ömmu. Á myndinni er hann hinn hróðugasti að fara að blása á kertin sín þrjú.



 

    3. sept. 2010

Hiti 20,8°  Það var ekki minni hiti í dag en undanfarna daga, heldur öllu meiri fór yfir 20° síðdegis. En það var suðaustan átt og hún nokkuð hvöss eins og venja er hér og byljótt.








Gríma í blómagarðinum  Heimiliskötturinn Gríma (sem einu sinni var Reykjavíkurköttur) naut veðurblíðunnar í dag innan um blómskrúðið í garðinum, sem allt er í fullum skrúða ennþá þótt kominn sé september.








 


     2. sept. 2010

Við Gestur við smíðar   Það er blessuð blíða þessa dagana og í dag var nánast logn og hitinn fór fast að 20°.
  Við Gestur erum að lagfæra plasthúsið fyrir göngurnar, því það er mikið notað á haustin í alls konar fjárrag t.d. eru öll lömbin vigtuð þar inni.

Flettingar í dag: 29
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 94
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 61409
Samtals gestir: 16755
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 15:19:38
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar