Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir okt. 2011

    31. okt. 2011

Háþýstiþvottur  Þá er nú skítavinnan búin þetta haustið, það er að segja síðasta taðinu var komið út úr fjárhúsunum í dag. Þetta er búin að vera 10 daga törn, lengst af með haugsugu, en við mokuðum líka út úr 3 króm meðan frost var og ekki var hægt að vera með haugsuguna af þeim sökum. Í lokin þarf svo að þrifa bæði fjárhúsin og verkfærin með háþrýstidælu og setja niður grindurnar og koma öllu í stand aftur.


Sér niður Hörgárdal  Það snjóaði aðeins í gærkveldi þannig að það er hvít jörð hér, en eins og sjá má á  myndinni er autt upp í miðjar hlíðar þegar kemur neðar í dalinn.
  Það má segja að nú þegar október er að renna sitt skeið á enda sé haustið að kveðja. Alla vega er haustið í mínum huga september og október. Þetta haust fær ekki háa einkunn hjá mér hvað veðurfar snertir. Það er búið að vera mjög úrkomusamt, einkum seinni hlutinn og ekki státar það af mörgum ljúfum dögum. Það voru þó mjög góðir dagar um 1. göngurnar, um og upp úr miðjum september.

Sólin gægist í Grjótárdalsbotninn  Og það styttist nú í að sólin hylji sig á bak við fjöllin alveg fram í febrúar. Það sést á þessari mynd sem frúin tók í dag. 

    26. okt. 2011

Ída Guðrún  Í dag á þessi dama, hún Ída Guðrún afmæli og er orðin tveggja ára. Þessa mynd af litlu dömunni fengum við senda í haust frá Slagelse.
Amma og afi senda þér Ída Guðrún sínar innilegustu afmæliskveðjur, um leið og við biðjum Guð að passa þig. 
  

  23. okt. 2011

Við sjálf = Sigrún og Guðmundur  Í gærkveldi var haldin í Hlíðarbæ, árshátíð fimm félaga í Hörgársveit. Þetta er búin að vera árviss samkoma um nokkurra ára skeið 1. vetrardag. Við skrúbbuðum af okkur skítinn og skelltum okkur ásamt vinafólki okkar þeim Maju og Tomma. Sólveig smellti af okkur þessari mynd áður en við lögðum í hann, en þau Tómas eru hjá okkur um helgina. Árshátíðin hófst með borðhaldi kl. 20:30 og undir því voru fram borin ýmiss skemmtiatriði. Síðan var stiginn dans ögn fram eftir vetri, þar sem hljómsveit Birgis Arasonar sá um stuðið.


    21. okt. 2011

Sextugur bóndi í skítnum  Haustverkin taka við eitt af öðru og nú er það haugsuguvinnan við að taka skítinn út úr fjárhúsunum. Það mætti svo sem gjarnan vera búið að því fyrr, þar sem það er heldur óskemmtilegt að fást við þetta þegar  farið er að frysta. En það er nú svo að ekki er ofmikið af beitinni þar sem kindamunnarnir eru margir og þegar búið er að dreifa skít með haugsugu verður ekki beitt meira á þau tún það haustið. Við byrjuðum á lambhúsinu í gær og héldum áfram með það í dag. 
  Kirkjubókin segir annars að það séu 60 ár í dag síðan móðir mín blessunin ól mig í þennan heim. Blessuð sé  minning hennar.

    18. okt. 2011

 Það er lengi von á einum. Það sannaðist í morgun, þegar ég fór suður í Sel til að líta eftir lífgimbrunum. Þá rak ég augun í þennan lambhrút þar skammt framan við girðinguna. Mér tókst að handsama hann og flytja hann hingað heim í skóflunni á dráttarvélinni. Þetta er eins og sjá má hinn myndarlegasti hrútur og reyndist vera eign Eiríks í Djúpadal, fjallskilastjóra þeirra Akrahreppinga. Ef vel er rýnt í myndina má sjá að hrúturinn er moldugur á baki og mér sýnist bæði það og líka hitt að hann er orðinn mjög aflagður, að hann hafi verið einhvers staðar í sjálfheldu, trúlegt að hann hafi lent ofan í eitthverri gjótu eða jarðfalli. 


     17. okt. 2011

Bjarni, Gestur og Guðm.  Í kvöld var stjórnarfundur í Ferðafélaginu Hörg og komu þeir Bjarni og Gestur hingað af því tilefni. Aðalefni fundarins var að ræða um kvöldvöku, sem fyrirhuguð er á Melum þann 12. nóvember nk. Þessa kvöldvöku á að halda í tilefni þess að Hörgur varð 30 ára á sl. sumri. Áformað er að hafa kaffiveitingar og vera með eitt og annað til skemmtunar t.d. myndasýningar.   

    12. okt. 2011

E-skrokkur  Það var slátrað nánast því síðasta frá okkur á þessu hausti hjá SAH Afurðum á Blönduósi í dag, aðeins eru eftir nokkrar fullorðnar kindur. Útkoma haustsins er bara nokkuð góð, allavega betri en maður reiknaði með eftir harðindi síðast liðins vors.
  Meðal þungi haustsins reyndist vera 17,22 kg., sem er 260 gr. þyngra en í fyrra haust og er þetta þyngra en áður hefur verið hér á Staðarbakka. Tölugildi fyrir holdfyllingarflokkun er 10,31 á móti 10,83 haustið 2010 og fyrir fituflokkun er tölugildið 7,42 en það var 7,61 í fyrra. Ástæðan fyrir því að holdfyllingarflokkunin er nú nokkru lakari en í fyrra, er væntanlega sú að hluta til  að sumir af veturgömlu hrútunum eru að bregðast hvað þennan þátt varðar. En þetta er nú raunar næst besta útkoma sem hér hefur verið, aðeins 2010 komið betur út og því ekki ástæða til að vera að barma sér sérstaklega út af þessu.


  

  
    9. okt. 2011

  Í dag var verið að velja lífgimbrarnar endanlega. Við Gestur stiguðum þær gimbrar sem komu til greina og svo byggist loka valið á stigununni og BLUP spánni fyrir hverja gimbur. Meðal þungi og stigun þeirra gimbra sem valdar voru til lífs hjá mér var: 39,6 kg. 8,5 fyrir frampart, 8,3 fyrir bak, 8,6 fyri malir og 17,7 fyrir læri.
Meðal BLUP spáin er: 111 fyrir fitu, 115 fyrir gerð, 105 fyrir frjósemi og 108 fyrir mjólkurlagni. Eins og sjá má á þessum tölum ættu þetta að verða bærilegar ær á næstu árum.


Snæbjörn, Alexander og Kristófer með Grímu  Eins og svo oft voru þeir feðgar Snæbjörn og synirnir Kristófer Breki og Alexander Brimar að hjálpa okkur í dag. Í þakklætisskyni gaf ég þeim fallega flekkótta gimbur. Á myndinni má sjá þessa hamingjusömu nýbökuðu fjáreigendur með gimbrina sína, sem þeir gáfu nafnið Gríma.   
    5. okt. 2011

Faldur 10-205
  Þá er fyrsti snjórinn kominn og grænu grösin horfin í bili og Faldur 10-205 alveg hissa á því að sjá ekki nema einstaka strá teygja sig upp úr snjónum...
Gangnahestarnir
...og gangnahestarnir standa hnípnir og ekki laust við að megi merkja hjá þeim smá vetrarkvíða.

  Í dag fór ég með þeim Stefáni Lárusi og Gesti austur í Sangfellshaga 2 í Öxarfirði. Við vorum að kaupa nokkur lömb hjá þeim hjónum Gunnari og Önnu. Ég var nú ekki stórtækur í kaupunum að þessu sinni, keypti aðeins eina gimbur. Eins og sjá má á myndinni er þetta gullfalleg gimbur og af ágætu kyni, þannig að hún á vonandi eftir að reynast vel í fyllingu tímans.

Flettingar í dag: 28
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 55
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 780021
Samtals gestir: 157818
Tölur uppfærðar: 16.1.2019 05:00:11
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar