Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir sept. 2015

30. sept. 2015

Ég var að dútla smávegis í fjárhúsunum, undirbúa fyrir lambhrútaskoðun, sem verður hér eftir tvo daga.....
....það var reyndar ágætt að vera innan dyra í dag, veðurguðirnir brugðu aðeins út af vananum á þessu hausti, með því að hafa úrhellisrigningu.

28. sept. 2015

Í dag lauk þriggja vikna dvöl Sigrúnar í Hlíð. Ég tók þessa fallegu haustlitamynd af innbænum á Akureyri, þegar ég sótti hana. 

26. sept. 2015

Ég heimsótti Sigrúnu í Hlíð í dag og bauð henni í bíltúr út á Grenivík. Þetta var fín ferð í veðurblíðunni og haustlitirnir nutu sín til hins ýtrasta. Við renndum í Laufás þar sem ég tók þessa mynd. Við enduðum svo daginn á því að fá okkur að snæða á Hamborgarafabrikkunni. 

25. sept. 2015

Við sóttum lömbin okkar í Ytri Bægisá í morgun, 7 stykki (það vantar eitt á myndina en Tryggur er í staðinn fyrir það). Við keyptum 1 gimbur á Heydalsá og 4 gimbrar og 2 hrúta í Broddanesi.

24. sept. 2015

Hér eru bændur á Staðarbakka í morgunsárið, að leggja í hann vestur á Strandir til að kaupa lömb. Ætlunin er að kaupa hjá Rgnari á Heydalsá og Jóni í Broddanesi. Auk okkar fara í þessa ferð Stefán á Ytri Bægisá, Agnar í Garðshorni og Gestur Hauksson.
Um miðnættið var komið aftur í Ytri Bægisá með lömbin. Þetta var mjög skemmtileg ferð og við sáum fallegt fé á báðum bæunum. Það var fallegt að keyra þetta í haustblíðunni.

23. sept. 2015

Ásgerðarstaðasel

Hér verður ekki lengur gengið í bæinn, átti maður þó mörg sporin í þennan bæ á yngri árum, meðan mæðginin Nanna Soffía og Sigmundur Sigurgeirsson áttu hér heima allt frá árinu 1922 fram á áttunda tug síðustu aldar. Það var alltaf boðið upp á kaffisopa í Seli og spjallað. Nú er bærinn brotinn. Bæjardyrahurðin er þó heil ennþá og steinolíjufatið fyrir innan hana og dyraumgjörðin á fjósinu stendur enn og grasið grær á hlaðvarpanum. Leiftur þess liðna leitar á hugann nú í haustblíðunni þegar maður röltir hér um og er að líta eftir kindunum sínum.
Í kvöld bauð Sigrún mér svo á bjórkvöld í Hlíð, það var auk bjórsins boðið upp á dansmússík, þannig að þetta var heilmikið fjör fram eftir kvöldi. 

21. sept. 2015

 
Við rákum allt féð inn í dag til að aðskilja ær og lömb. Ærnar voru svo settar aftur fram í stóra hólf en lömbin fóru út á Flögutún. Það var algjör rjómablíða, hlýtt og kyrrt.

20. sept. 2015

Mynd tekin af Vörðumel í átt að Flögukerlingunni. Það voru gengnar aðrar göngur í Ásgerðarstaðaheiðinni og á Flögudal í dag í ágætu veðri. Ekkert fé sást í göngunum, nema grá og hvít kind hátt upp í Flögukerlingunni, þær voru ekki í færi til að ná þeim í dag.

19. sept. 2015

Það voru gengnar aðrar göngur hér fremst í Hörgárdalnum í dag. Þetta var enn einn blíðviðrisdagurinn á þessu hausti. Þrátt fyrir að það væri hreinsmalað hér í 1. göngunum um daginn var slæðingur af fé, einkum að austanverðu. Allt var þetta Skagfirskt fé sem komið hefur ofan af Hörgárdalsheiði á milli gangnanna, að undanskildum einum undanvillingi sem ég á. Að vanda var þetta fé mjög erfitt viðureignar, ljónstyggt og ófúst að fara hér niður enda er það í átt frá þess heimahögum. Á myndinn sér til Hörgárdalsbotns. Illviðrahnjúkur er lengst til vinstri, þá Afglapaskarð, Prestsfjall, Hjaltadalsheiði, Trölli og Sandárhnjúkur sem er stóri hnjúkurinn næst hægra megin. Myndin er tekin á Borgunum, sem eru nyrst á Hörgárdalsheiðinni.

16. sept. 2015

Í dag var slátrað héðan um 480 kindum hjá SAH Afurðum á Blönduósi. Útkoman var betri en hún hefur áður verið hér á bæ. Meðalvigt var 17,92, vöðvaflokkun 10.64 og fituflokkun 7,29.

15. sept. 2015

Þá er nú komið að því leiðinlega við að vera sauðfjárbóndi. Það er ekki bara leiðinlegt heldur líka sorglegt að þurfa að senda senda kindurnar sínar í sláturhús. Þessi fallegu lömb sem fæddust í vor og þurftu þá umhyggju t.d. að verja þau fyrir vorkuldanum og gefa mæðrum þeirra að éta svo þær gætu mjólkað lömbunum sínum. Svo áttu þau sína dýrðardaga með mæðrum sínum í frelsi fjallanna í nokkrar vikur. En bíða svo hér eftir að fjárbíllinn komi til að flytja þau síðasta spölinn á sinni stuttu ævi. Maður verður víst að sætta sig við, hið eilífa lögmál að fyrir öllu lífi, sem kviknar er aðeins eitt óumflýjanlegt að lífið á eftir að slokkna. Það er nú svo.

14. sept. 2015

Í dag var ég að hjálpa Stefáni Lárusi að vigta lömbin. Allt féð fer í gegnum flokkunargang og lömbin vigtuð, svo er flokkað í þrennt, ær sér og lömbin í tvennt, annars vegar þau sem eiga að fara í slátrun núna og hins vegar þau sem bíða slátrunar og líflömb. Lömbin vigtuðu ágætlega og eru mjög holdgóð.

12. sept. 2015

Eins og venja hefur verið hér um áratugaskeið var allt féð rekið inn í dag, laugardaginn eftir 1. réttir, öll lömbin vegin og þau lömb sem eiga að fara í slátrun í næstu viku tekin frá, sem er um 80% af þeim lömbum sem slátrað verður í haust. Ekki var annað að sjá og finna en lömb komi hér af fjalli þetta haustið með allra vænsta móti. Meðalvigtin var 40 kg og lömbin og raunar allt féð er mjög holdgott.
Hér erum við að reka sláturlömbin út í Flögu að afloknu góðu dagsverki í frábærri haustblíðu. Ærnar og lömbin, sem ekki fara í slátrun núna voru sett fram í stóra hólf að vanda.

11. sept. 2015

Í dag var réttað hér í Staðarbakkaréttinni í blautu en nokkuð hlýju veðri. Ekki var myndað mikið vegna veðurs. Þessa mynd tók ég nú samt. Á henni má sjá þrjár kindur, sem komu útigengnar af Flögudal í gær. Hvít tvævetla frá Þúfnavöllum með veturgamlan hrút með sér, bæði í tveimur reifunum og svo veturgamall hrútur frá Myrkárbakka, sem hefur alveg gengið úr í vor. Það er nú ekki annað að sjá á þessum kindum en að þær hafi haft það bara gott á útiganginum í fyrravetur.
Hér eru svo höfðingjarnir: Doddi frá Þrýhyrningi og Árni á Uppsölum í Blönduhlíð. Sá síðarnefndi hefur séð um að hirða fé Skagfirðinga hér á réttinni um margra ára skeið og að þessu sinni voru það um 220 kindur.

10. sept. 2015

Það voru gengnar 1. göngur hér að vestan í Hörgárdalnum og Flögudalurinn í dag í hlýju og indælu veðri. Myndin er tekin fram á Háaleiti áður en gönguliðið hélt til fjalla.....
....og hér eru svo smalarnir að reka það síðasta af safninu í réttarhólfið, eftir frábæran dag á fjöllum.
Hér er svo kokkurinn minn og frændi hann Jón Birgir, sem sá um að allir smalarnir mínir fengu hina ljúffengustu lambasteik að loknu vel unnu dagsverki. 

9. sept. 2015

Mönnum varð ekki svefnsamt hér í nótt og það ekki bara af spenningi fyrir göngunum, heldur var hér hávaðarok og það svo að í morgun lágu tvö stærðar tré í garðinum brotin við rót. Það hefur aldrei skeð hér fyrr að brotni tré hér þótt stundum hafi nú blásið hressilega hér seinnihluta vetrar, en trén taka svo gríðarlega mikið á sig á þessum árstíma, þegar þau eru alveg fulllaufguð. Það var mjög hvasst fram eftir degi en lægði þó nokkuð þegar á daginn leið.
Hér eru svo gangnamennirnir komnir fram undir Begguklöpp, albúnir að halda för sinni áfram inn í Hörgárdalsbotn til að hefja smalamennskuna þar.......
.....og hér eru kindurnar byrjaðar að renna úr botninum.....
.......hér er svo farið að styttast verulega heim.

Hér má sjá fleiri myndir frá deginum

7. sept. 2015

Í dag fór ég með Sigrúnu í hvíldarinnlögn í Hlíð, hún verður þar yfir aðalgangna og réttarstússið. Af því að hún er nú sjómannsdóttir fórum við niður á bryggju til að sjá betur þetta tignarlega skemmtiferðaskip, sem lá við bryggju á Akureyri í dag.

6. sept. 2015

Við rákum inn allt fé sem var hér innan girðinga í dag og vigtuðum það. Hér er Hákon Þór að vega fullorðnu hrútana.
Ég keyrði Sigrúnu að húsinu þar sem við vorum við að vigta, þannig að hún gæti fylgst með. Hún hafði gaman að því þótt hún geti ekki sinnt sínum gamla starfa, sem var að skrásetja vigtina inn í lambabókina.
Í gær átti Tómas Leonard 8 ára afmæli, hann kom í heimsókn í dag með foreldrum sínum.

5. sept. 2015

Áfram þokast að leggja ljósleiðara um sveitina. Í dag var verið að grafa strenginn hérna inn í gegnum garðinn og bora fyrir honum inn í stofu, þannig að nú er bara eftir innanhússtenging, það mun verða einhver bið á því að hún verði framkvæmd.
Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 157
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 61365
Samtals gestir: 16741
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 13:47:54
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar