Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir sept. 2007

    29. sept. 2007 

Sér fram Flögudal   Í dag var farið í eftirleit á Flögudal. Sigurður, Margrét og Hákon þór fóru ríðandi fram í Flögudalsbotn, en ég keyrði Anton fram á Háaleiti og þaðan fór hann gangandi gegn um Sandárdal yfir á Flögudal. Ég fór svo upp frá Seli og fyrir Kerlingarendann. Átta kindur fundust allar héðan frá Staðarbakka og gekk ágætlega að koma þeim til byggða. Veður var ágætt hlýtt og bjart. 

  





28. sept. 2007


Albúinn að vaða Grjótána Í dag fór ég í eftirleit fram á Grjótárdal ásamt henni Brussu tík, í ágætu veðri. Enga kindina fundum við, en þeir sem kynnu að vilja slást í för með okkur í haustblíðunni geta gert það með því að skoða myndir, sem teknar voru í þessari eftirleit í dag.
Þær má sjá hér.









  Í kvöld buðum við Maju og Tomma til kvöldverðar og áttum með þeim skemmtilegt kvöld.

  











     27. sept. 2007

  Í dag gekkst Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps fyrir hrútasýningu fyrir veturgamla hrúta og var hún haldin í Búðarnesi. Alls var mætt með 23 hrúta, þar af voru 11 hér frá Staðarbakka. Útkoma sýningarinnar var ágæt: 9 hrútar fengu 84 til 86 stig, 8 fengu 82,5 til 83,5 stig og 6 fengu 80 til 82 stig. Til uppröðunar á bestu hrútum sýningarinnar komu þeir hrútar, sem fengu 85 stig og þar yfir og reyndust þeir allir héðan frá Staðarbakka. Nánari grein verður gerð fyrir þeim hér neðar á síðunni. Að lokinni hrútasýningunni voru skoðaðir lambhrútar frá Þúfnavöllum og Búðarnesi. Búðarneshjónin Doris og Gunnar buðu svo öllum í veislukaffi í lokin.

Ólafur G að stiga Dreka og Helga á Staðarbakka heldur í hann.


Köggull 06163, var dæmdur besti hrútur sýningarinnar, með 86 stig. Hann er undan Mola 00882 og Eik 03342, en hún er undan Leka 00880. Köggull er að skila lömbum vel yfir meðaltali að þunga og ágætu kjötmati, þar sem hann fær 11,68 fyrir gerð og 7,41 fyrir fitu, sem hvorutveggja er nokkru betra en bús meðaltalið.


Suddi 06261, varð í öðru sæti, með 85 stig. Hann er undan Úða 01912 og Purku 02256, en hún er undan Stapa 98866. Suddi er að skila lömbum rétt undir meðaltali að þunga, en ágætu kjötmati þar sem hann er með, 11,41 fyrir gerð og 7,41 fyrir fitu.

 
Dreki 06262, var dæmdur þriðji besti hrútur sýningarinnar, með 86 stig. Hann er undan Hyl 01883 og Bjöllu 02271,en hún er undan Bessa 99851. Dreki er að skila lömbum tæpu kílói yfir bús meðaltal að þunga og góðu kjötmati, fyrir gerð fær hann 11,0 og 7,08 fyrir fitu.

  Fleiri myndir frá hrútasýningunni má sjá hér


    25. sept. 2007

Það eru enn að koma hér niður skagfirskar kindur, þótt göngur séu afstaðnar og aðeins eftirleitin eftir . Þessar myndarlegu mæðgur frá Djúpadal voru í morgun komnar hér heim að girðingu á móti Seli. Við  fórum því og handsömuðum þær og komum þeim út í réttarhólf. Það fer mikill tími hjá okkur á Staðarbakka í það á hverju hausti að ná skagfirsku fé, sem oftar en ekki er heldur baldið. Núna eru komnar út í réttarhólf 58 skagfirskar kindur, sem komið hafa síðan réttað var hér eftir 1. göngur.


   



    22. sept. 2007

 Í dag voru seinni göngur hér frammi í botni Hörgárdals. Þær gengu vel, við fengum nokkuð gott veður, bjart en fremur svalt. Það náðust 22 kindur, 17 héðan frá Staðarbakka og 5 úr Akrahreppnum.


Þórður Steindórsson hugar að fé á Hörgárdalsheiði.


    19. sept. 2007

  Í dag var slátrað frá okkur 390 lömbum hjá SAH Afurðum á Blönduósi.  Sigurður og Margrét fóru að framvísa þeim. Útkoman var ágæt meðalvigt 16,52 kg. og tölugildin fyrir kjötmatið voru 10,69 fyrir gerð og 7,66 fyrir fitu. 55 flokkuðust í E, 240 í U og 95 í R. Þetta er betri flokkun en við höfum séð áður, tölugildi úr samsvarandi slátrun 2006 voru 9,95 fyrir gerð og 7,82 fyrir fitu. Þetta verða því að teljast skýr merki um að verulegur árangur sé að verða af markvissu ræktunarstarfi um langt árabil. Þar sem auk áherslu á frjósemi og mjólkurlagni ánna, hefur verið lögð mikil áhersla á bætt byggingarlag fjárins hér á Staðarbakka. Það gildir í þessu eins og flestu, að setja sér skýr markmið og kvika ekki frá þeim, þótt  stundum kunni  manni seint sækjast og á móti að blása. 


Hér má sjá muninn á tveimur skrokkum, sá til vinstri  flokkaðist í E 3, en sá til hægri  í R 3.

  Ég sá um skólaaksturinn í dag. Á milli ferða var ég að hjálpa Stefáni Lárusi á Ytri Bægisá ll. Hann var að láta ómmæla og stiga lömb. Hann er einn af þeim sem hefur náð ágætum framförum í sauðfjárræktinni á síðustu árum með markvissu ræktunarstarfi.


    17. sept. 2007

  Í dag fór ég í Þverárrétt í Öxnadal, að hjálpa Stefáni Lárusi að draga. Myndir frá deginum má sjá hér.


Aðalsteinn Hreinsson réttarstjóri við innkeyrsluna að réttinni.


Hjónin á Syðri Bægisá Ragnheiður Margrét og Helgi oddviti Hörgárbyggðar við réttarstörfin.


    15. sept. 2007

  Í dag var allt féð, sem kom núna í göngunum rekið inn og lömbin vigtuð. Það hefur ekki unnist tími til að reikna meðalvigt, en mér sýnist að hún muni vera svipuð og á þeim lömbum sem vigtuð voru fyrir slátrunina 7. sept. Lömbin sem eiga að fara í sláturhús í næstu viku, 400 stykki  voru tekin frá (náðist reyndar ekki alveg í töluna vegna þess hvað vantar margt enn af fjalli). Það kom í ljós þegar búið var að vigta lömbin, að heimtur eru með allra versta móti, vantar um 80 lömb í vigtun, sem kemur nú ekkert á óvart þegar tillit er tekið til þess hvað veðrið var afleitt í göngunum. Undir kvöld fórum við svo á þær réttirnar sem verið var að rétta í hérna í framdalnum, en höfðum nú ekki mikið upp úr krafsinu. Í Þúfnavallarétt áttum við enga kind, tvö lömb í Myrkárbakkarétt og 10 kindur í Búðarnesrétt. Þetta er nú allt og sumt, sem við erum að fá af fé annars staðar en hér heima, af þessum rúmlega 1500 kindum sem voru á fjalli í sumar.


    14. sept. 2007 

    Réttað í Staðarbakkarétt. Frábært veður nánast heiðskírt, en fremur svalt var í morgun, áður en sólin lyfti sér upp yfir fjöllin há. Í nótt sem leið frysti, þegar birti til eftir illviðri undanfarinna daga.

Myndir af ýmsu sem fyrir augu bar á réttardaginn má sjá hér.


Búið að reka féð í réttina.


Guðmundur á Þúfnavöllum heimti þennan
veturgamla hrút útigenginn frá síðasta vetri.


Ólafur frá Flugumýrarhvammi og Sigurður á 
Staðarbakka ræða málin í réttinni.

    13. sept. 2007

  Síðari gangnadagurinn var í dag og var nú gengið vestan Hörgár og Flögudalur. Veðrið var heldur skárra en í gær, ekki eins mikil úrkoma og  þoka ekki til trafala, en það gekk þó á með dimmum éljum. Vegna veðurs og snjóa þegar hærra kemur, var hvorki farið fram í dalabotna né upp á efstu göngur. Göngurnar gengu að mestu fljótt og vel þrátt fyrir aðstæður og enginn lenti í villu þennan daginn.  Féð var komið í réttarhólfið með fyrsta móti, eða klukkan að ganga 3. Safnið var mun stærra í dag en í gær, á að giska hátt í 1000 fjár. Það var ekki réttað í dag enda sérstakur réttardagur á morgun.
 

Hér má sjá að það er orðið ansi hvítt til fjalla.


Safnið komið í réttarhólfið.


Tveir kampakátir  félagar, eftir tvo erfiða daga til fjalla.

    12. sept. 2007

  Í dag var fyrri gangnadagurinn og að venju var gengið austan Hörgár. Við hrepptum hið versta veður, mikið úrfelli í formi rigningar í byggð en slyddu og svo snjókomu eftir því sem ofar dróg og með þessu var strekkings norðaustan átt og þoka niður fyrir miðjar hlíðar. Það varð því hvítt langt niður í hlíðar þegar á daginn leið og alveg grátt niður að Hörgá heim að Grjótá. Eins og sjá má af þessari lýsingu var ekkert sérstaklega gott að smala fé við þessar aðstæður, nánast ekkert skyggni þegar komið var upp fyrir miðjar hlíðar. Smölunin gekk þó stóráfallalaust fyrir utan smá villur sem gangnamenn lentu í. Sú alvarlegasta var villa Dodda í Þríhyrningi, þegar hann villtist vestur Hörgárdalsheiði. Við Anton yfirgáfum safnið við Begguklöpp og snérum við upp á Hörgárdalsheiðina til að leita að honum, þegar hann skilaði sér ekki niður í dalinn og fundum hann nokkuð vestur á heiðinni. Í þessu tilfelli voru talstöðvarnar sem allir gangnamenn eru farnir að nota til mikils gagns, þótt erfitt geti reynst að staðsetja menn eftir samskiptum í gegnum þær í svartaþoku og hríð, þegar engin kennileiti sjást. Allt endaði þetta vel og allir komust heim heilir á húfi og vel á sig komnir þrátt fyrir veðrið, enda var það nokkuð fyrir séð í morgun, þannig að það var hægt að búa sig í samræmi við veðrið. Safnið var nú ekki stórt sem kom til réttar, röskar 300 kindur. Hátt í helmingurinn af þeim var vestan úr Akrahreppi, frá okkur á Staðarbakka tæpar 100 og svo reytingur frá Þríhyrningi og Búðarnesi.


Stefán Lárus kominn úr göngunum og farinn að gera veisluborðinu góð skil, sem Sigrún var að vanda með fyrir þreytta gangnamenn, þegar þeir koma heim eftir erfiði dagsins.

     9. sept. 2007  

Ragna, Guðlaug, Jónas, Sigrún og Guðjón
 Guðlaug Jóhanna varð 96 ára í dag og vorum við með smá afmæliskaffi í Hlíð af því tilefni. Við skemmtum okkur ágætlega og gamla konan líka, þótt það sé að sjálfsögðu ömurlegt að vera blindur og geta ekki séð sína nánustu eða neitt annað.
  Fleiri myndir má sjá hér.

  Í kvöld buðu svo Jónas og Kristinn okkur út að borða á Friðrik V og fengum við þar hinn ágætasta kvöldverð og áttum þar góða stund.



  Nú er hann Gauti Heimir okkar 7 ára í dag. Fluttur til Kaupmannahafnar og að við höfum ekkert séð hann síðan hann fór. Vonum bara að hann hafi það gott og líki vel í skólanum, þótt vafalaust séu einhverjir tungumálaerfiðleikar svona til að byrja með. Myndin var tekin í júní, þegar Gauti fór með afa sínum að líta eftir lambfé á Nýjabæ.
  Sendum þér elsku Gauti okkar bestu afmæliskveðjur og ósk um að þér líði ætíð sem best.





    8. sept. 2007

  Náðum í hrútana og fleira fé sem hefur verið fram í hólfi í sumar og vigtuðum það. Veturgömlu hrútarnir eru óvenju þroskamiklir þetta árið voru flesti um og yfir 90 kíló.


Tómas Leonard nýkominn heim til sín af fæðingardeildinni á Östra-sjukhuset í Gautaborg.


Garðar, Auður, Anna og Edda komu í heimsókn í kvöld og borðuðu með okkur lambasteik í kvöldmatinn. Þau komu frá Reykjavík til að fara á tónleikana hjá Kristjáni Jóhannssyni á Akureyri á morgun.


     7. sept. 2007


  Í dag barst okkur fyrsta myndin af litla prinsinum í Gautaborg, sem hefur verið nefndur Tómas Leonard. Eins og sjá má er þetta hinn myndarlegasti drengur. Væntanlega fara þau heim af fæðingardeildinni á morgun.


  Við fórum vestur á Blönduós í dag, sem var fyrsta sláturferð þessa hausts. Með í för var Guðmundur á Þúfnavöllum, sem var einnig að slátra. Fjöldi sláturlamba frá Staðarbakka að þessu sinni var 200. Útkoman var góð; meðalvigt var 16,55 kg. tölugildi fyrir gerð 10,48 og fyrir fitu 7,75. Í E flokk fóru 28 lömb, í U  109 og í R 63 lömb. 


Lærin á þessum E skrokk okkar eru þrútin af vöðvum. Þetta var hrútlamb nr. 505, undan Hrússu 00-089 og Krók 05-150, sem sló í gegn varðandi kjötmatið haustið 2006. Hann virðist vera á svipuðu róli hvað það varðar þetta haustið, núna var slátrað 16 lömbum undan honum. 7 flokkuðust í E, 8 flokkuðust í U og 1 flokkaðist í R. Þetta gefur honum tölugildið 12,1 fyrir flokkunina.















    5. sept. 2007

  Halló!!! Halló!!! 
  Fæddur er drengur í Gautaborg frumburður þeirra Sólveigar Elínar og Tomi Tanska. Hann fæddist kl.14 að íslenskum tíma. Myndar drengur, dökkur á brún og brá eins og pabbinn. Hæð 48 cm. og þyngd 3.195 gr. Öllum heilsast vel og við erum búin að hringja og heyra í mömmunni og þessum nýja Gautaborgarbúa. Enn hafa ekki borist myndir til að setja hér inn, en það verður vonandi mjög fljótlega.

Margrét, Sigurður, Gestur og GuðjónÍ dag rákum við allt féð inn, sem komið er heim og vigtuðum lömbin, sem reyndust vera rúmlega 300. Lömbin virðast vera nokkuð jöfn og góð. Ég er ekki búinn að reikna meðalvigt, en gæti trúað að hún væri nálægt 39 kílóum. Við fengum 3 aðstoðarmenn: Gest í Þríhyrningi og þá feðga Guðjón og Sigurgeir. Veður var ágætt léttskýjað, svolítil gola að framan og fremur hlýtt, hiti í kringum 12°. 
  Myndir frá deginum má sjá hér.
 
Nú er búið að reikna meðalvigtina og er hún 39,4 kg.



    
    4. sept. 2007

  Allhvöss sunnan og suðvestan átt og miklar rigningarhriðjur í allan dag, en í kvöld lægði heldur og stytti upp. Í gær smöluðum við hérna meðfram girðingunum að vestanverðu og náðum þó nokkru af fé.
  Í dag var hér maður frá Mílu að reyna að laga símalínuna, sem er búin að vera meira og minna úti síðan í byrjun ágúst. það er sjá að nú hafi loksins eitthvað verið gert sem hefur lagað sambandið, allavega er búið að vera samband í allt kvöld síðan hann hætti að vinna í þessu, það er miklu lengra en maður hefur átt að venjast undanfarinn mánuð. 
  Það bendir nú allt til þess, að fari að draga til tíðinda í Svíþjóð í nótt eða á morgun. Vonandi að það gangi allt vel og giftusamlega. 

    2. sept. 2007

Sólveig Lilja
Í dag hélt þessi unga dama hún Sólveig Lilja Pells upp á 4 ára afmælið sitt þótt það sé nú reyndar ekki fyrr en á morgun. Hún bauð okkur í afmælið og þessi mynd og fleiri voru teknar í því. Þær má sjá undir: Myndaalbúm - Ýmis tilefni.
Fórum eftir afmælisveisluna í Hlíð til mömmu og tengdó og var hún frekar slöpp núna.
Áður en við fórum í afmælið fórum við að smala hér að austanverðu fyrir slátrun, sem fyrirhuguð er næstkomandi föstudag.

Flettingar í dag: 4
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 184
Gestir í gær: 15
Samtals flettingar: 62114
Samtals gestir: 16894
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 03:40:18
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar