Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir ágúst 2013

31. ágúst 2013

Þá er óveðrið sem aldrei kom, afstaðið. Já, sem betur fer kom það ekki, en eftir stendur alvarleiki þess hvað veðurspár geta verið hrikalega vitlausar og það alveg fram á síðustu stundu. Í gærkveldi spáði Veðurstofa Íslands enn illviðri í nótt og fram eftir degi í dag, með stormi eða jafnvel roki og mikilli úrkomu, sem mundi falla sem snjór allt niður að sjó sumstaðar. Þetta veður kom aldrei, allavega ekki hér. Þetta var ósköp venjulegt haustveður, golugjálfur og lítilsháttar úrkoma, þannig að það gránaði aðeins í fjöll og í morgun var komin sól. Eftir stendur hvað veðurspár eru ófullkomnar og lítið á þær að treysta og það er beinlínis mjög hættulegt, að hrópa "ÚLFUR, ÚLFUR" þegar enginn "úlfur" er á ferðinni. Hvernig fer þá þegar raunverulegur "úlfur" læðist að? Þá gæti illa farið. Í illviðrinu sem gekk yfir 9. og 10. september í fyrra, varð veðrið mun verra en spáð var, einkum varð kaldara, þannig að það snjóaði meira og mun lengra niður en spár gerðu ráð fyrir. Það varð þá til þess að víða urðu miklir fjárskaðar. Núna ætluðu bændur ekki að láta slíkt endurtaka sig og víða var farið í göngur á met tíma og fé smalað af fjalli. Það er mjög dýrt einkum þar sem sláttur var mjög seint þetta sumarið og því víða lítil beit heima fyrir. Sem betur fer tókum við þá ákvörðun að smala fénu aðeins hér heim undir, en ekki alveg heim í girðingar. Það getur því notið frelsisins á fjalli enn um stund, í haust blíðunni sem spáð er næstu vikuna. Skildi sú spá rætast? Vonandi.

Flögukerlingin aðeins grásprengd eftir nóttina

Mynd tekin norður Hörgárdalinn í morgun.

 

30. ágúst 2013

Vegna slæmrar veðurspár var farið héðan í gær og dag að smala fé. Í gær fórum við fram í Hörgárdalsbotn og á Sandárdal og var öllu  fé  smalað niður fyrir Heimarahraun að vestanverðu. Í dag var svo farið á Flögudalinn og öllu smalað neðst á hann. Þetta gekk ágætlega báða dagana, veður var fremur hlýtt en nokkur rigning annað slagið. Vonandi sleppur féð vel frá óveðrinu, (ef það kemur) úr því búið er að smala því hér heimundir. Það sem vakti sérstaka athygli smalanna þessa daga, var hvað víða eru fannir frá síðasta vetri og það á stöðum sem ekki hafa einu sinni verið snjódílar undanfarna áratugi, eða frá því um 1980. Meðfylgjandi mynd er úr göngum 2009.

 

28. ágúst 2013

Frétt af heimasíðu  Hörgársveitar vegna óveðursspár

27. ágúst 2013

Sigrún komin heim í hlað. Hjartanlega velkomin heim elskan. Það er reyndar skrítin tilviljun að þessi dagur varð fyrir valinu, hann var valinn af starfskonum á Kristnesi. Það kom svo upp þegar þær voru komnar hingað, að í dag eru nákvæmlega 5 mánuðir síðan Sigrún var flutt héðan burtu í sjúkrabíl og í beinu framhaldi af því með sjúkraflugi til Reykjavíkur (27. mars). En það er liðið og nú er bara að líta björtum augum á framtíðina, þótt manni finnist bataskrefin vera stutt. En skref fyrir skref þokast allt í rétta átt og það er fyrir mestu. Eftir um þriggja tíma stopp keyrði ég svo Sigrúnu aftur í Kristnes. Hún var mjög sæl og glöð með þessa fyrstu heimkomu, þótt það væri ekkert auðvelt fyrir hana að þurfa að fara svona fljótt til baka aftur.

Hér eru þessar ágætu starfskonur af Kristnesi: Helga sjúkraþjálfi og Álfheiður iðjuþjálfi, með Sigrúnu við eldhúsborðið hennar að þiggja smá veitinga.

Sigrún og Tryggur að heilsast eftir langa 5 mánuði.

 

25. ágúst 2013

Ég gisti hjá Sólveigu og Tómasi Leonard í Helgamagra í nótt. Upp úr hádeginu sótti ég svo Sigrúnu í Kristnes og við fórum í heimsókn til Jónasar og Guðrúnar. Þetta er í fyrsta skipti í nærri 5 mánuði, sem Sigrún kemur inn, annars staðar en á sjúkrastofnun. Þetta gekk ljómandi vel, enda gott að komast í íbúðina í hjólastól. Við höfðum mjög gaman af þessu enda er þetta nýr sigur fyrir Sigrúnu. Ekki skemmdi heldur um innilegar móttökur og frábærar veitingar hjá þeim hjónunum.

Í kvöld var Sigrún að vonum þreytt, en alsæl eftir ferðalag dagsins og albúin að vinna nýja sigra, með hjálp góðrar endurhæfingar á Kristnesi.

 

24. ágúst 2013

Í dag komu Jónas og Guðrún með strætó að sunnan. Þau ætla að vera í nokkra daga í stéttarfélagsíbúð á Akureyri. Ég keyrði þau svo í Kristnes, þar sem varð fagnaðar fundur þegar þau komu til Sigrúnar.

 

19. ágúst 2013

Fjallskilanefnd Hörgársveitar kom saman hér á Staðarbakka í kvöld, eins og venja hefur verið um þetta leyti árs það sem af er þessarri öld, til að raða niður fjallskilum manna og annað sem þarf að vera klárt fyrir haustið. Um hvenær skuli ganga í haust var gerð eftirfarandi bókun:

"Í Hörgársveit verða 1. göngur frá miðvikudeginum 11. til sunnudagsins 15. september, nema á Barkárdal þar verða þær sunnudaginn 22. september. Aðrar göngur eru víðast hvar um viku eftir 1. göngur."

Það láðist að taka mynd af nefndarstörfunum í kvöld, þannig að við sýnumst einum þremur árum yngri en við erum í dag.

 

18. ágúst. 2013

Þessi helgi að baki. Sólveig og Tómas Leonard voru hjá mér í sveitinni yfir helgina. Í dag sóttum við svo Sigrúnu í Kristnes og fórum í fæðingarbæ hennar Dalvík. Þetta var mjög gaman og Sigrún bara hress eftir ferðina, þetta var þó lengsti bíltúrinn í sumar, um þrír klukkutímar.

 

14. ágúst 2013

Þá er fyrri slætti lokið þetta árið. Við gengum frá síðustu rúllunum í dag þannig að það eru öll tún orðin hrein. Heyfengur er með allra minnsta móti þrátt fyrir að slegin hafi verið tún, sem ekki hafa verið slegin undanfarin ár. Gæði heyanna ættu að vera nokkuð góð, enda lengst af verið góð heyskapartíð.

 

12. ágúst 2013

Í dag eru liðin 16 ár síðan þessi glæsilega unga stúlka kom í heiminn, sem frumburður sinna foreldra. Innilega til hamingju með daginn Katrín okkar og megi Guð vera með þér um alla framtíð. Myndin var tekin um daginn þegar Katrín var að gramsa í dóti, sem þau eiga í geymslu í Flögu og þarna er hún búin að finna föt og töskur sem henni leist vel á að taka með sér.

Þá er sem betur fer á enda þessar fjórar vikur sem Sigrún þurfti að vera á Sjúkrahúsinu á Akureyri, meðan lokað var á Kristnesi vegna sumarleyfa. Þetta var nú nánast eins og vera þarna í geymslu, þar sem um mjög takmarkaða endurhæfingu var að ræða. En nú fer allt aftur á fullt, vonandi með stöðugum framförum. Við Hjalti keyrðum Sigrúnu í Kristnes og á myndinni má sjá allt tilbúið til brottfarar...

 

..og svo spilaði Hjalti á fiðluna sína fyrir mömmu þegar komið var í Kristnes.

 

8. ágúst 2013

Við Sigrún fórum í bíltúr í dag. Það var iðandi mannlíf á Akureyri, þannig að við höfum aldrei séð annað eins, enda þetta risa skemmtiferðaskip við bryggju þar. Húsin í landi voru eins og smá kofar í samanburði við skipið.
Jafnvel sjálfur Kalbakur er eins og smá þúfa í bakgrunni myndarinnar.

 

6. ágúst 2013

Þá er fjölskyldan frá Slagelse horfin á braut. Þau brunuðu til Reykjavíkur í dag og ætla að vera þar í nokkra daga, áður en þau far heim til Danmerkur. Það er búið að vera fjarska gaman að hafa þau þennan tíma, ekki hvað síst fyrir Sigrúnu sem saknar þeirra mikið. Takk kærlega fyrir komuna: Auður, Arnar, Katrín, Gauti, Ívar og Ída Guðrún. (Minn Ágúst)

 

4. ágúst 2013

Nú er Auður og fjölskylda búin að vera hjá mér í tvo daga, en þau skiluðu íbúðinni hennar Rögnu af sér á fimmtudagskvöldið. Við borðuðum svo saman í dag og Sólveig og Tómas komu líka. Ekki gerði nú húsbóndinn mikið í þessari matargerð. Arnar steikti læri og þær systur sáu að mestu um meðlætið. Tómas tók myndina og því er hann ekki á henni, svo vantar því miður aðalgelluna hana Sigrúnu mína og Hjalta. En þau eiga eftir að vera með þótt síðar verði.

 

3. ágúst 2013

Þessar gellur brugðu sér á Dynheimaball í kvöld, sem er nú tæpast í frá sögur færandi. En öðru máli gegnir um ummæli Katrínar Valdísar um þetta uppátæki systranna. "Það er svo fyndið að eiga móður og móðursystur svona geðveikt gamlar sem samt fara á ball"

 

Flettingar í dag: 35
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 157
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 61321
Samtals gestir: 16736
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 06:05:16
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar