Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir maí 2007

    31. maí 2007

  Þá er Sara gellan búin að yfirgefa okkur, hún fór eftir hádegið í dag. Það er búið að vera mjög gott að hafa hana, hún var á fullu með okkur frá hádegi og svo tók hún næturvaktirnar fram til klukkan fjögur. Um sjómannahelgina ætlar hún að skella sér á Ísafjörð og skoða markaðinn þar.
  Það var gríðarleg törn í sauðburðinum í dag þannig að allir matmálstímar o. fl. fóru úr skorðum, ekki var hægt að komast í kvöldmatinn fyrr en klukkan eitt eftir miðnætti.




   29. maí 2007

  Í gær kom Sara Hrönn, heimasæta í Brakanda og búfræðingur, hún ætlar að vera fram á fimmtudag við sauðburðinn. Í nótt var hún á næturvakt og þá fæddist meðal annars goltóttur hrútur og það gerðist eitthvað, sem má líkja við ást við fyrstu sýn og er golti nú henni fastnaður. Annars er hún á lausu og er ólofuðum mönnum bent á að fara að hugsa sinn gang hvað það varðar.
 
Sauðburðurinn gengur bara nokkuð vel núna enda ágætis veður hlýtt og sól annað slagið, þannig að það er hægt að setja út lambær eftir hentugleikum.

 
        Sara Hrönn með Golta sinn!

     27. maí 2007


 
  Þessi sérkennilegi hnöttur, sem festur var á filmu í dag birtist skyndilega á suðvesturhimninum upp úr hádeginu. Þetta fyrirbæri hefur ekki sést fyrr á þessum sauðburði nema þá í hyllingum á milli skýja. Það virðist vera þeirrar náttúru, að vinna aðeins gegn norðannepjunni, allavega var viðunandi hitastig í dag í skjóli sunnan undir vegg. Vonandi að framhald verði á þessu fyrirbæri og það vinni fyrir rest bug á heimsskautaloftinu og vorvindar þýðir fari að leika um kinn.

    24. maí 2007

  Lengi getur vont orðið miklu verra, til viðbótar við þann ógnar kulda sem búinn er að vera mest allan maí mánuð er nú komin mokhríð. Hér fylgja nokkrar myndir sem voru teknar núna fyrir hádegið.





   Við morgunverðarborðið.




     21. maí 2007

  Talsvert virðist vera af tófu hér á sveimi þetta vorið, það hefur allavega heyrst í henni nokkurð oft í vor, beggja vegna við Hörgána. Ég man varla eftir að hafa heyrt svona mikið í henni hér heim að bæ eins og núna í vor, þannig að annað hvort er meira af tófu núna eða það sé hart í búi hjá henni vegna kuldatíðar t.d. að fuglalíf sé minna til fjalla vegna kuldans. Vetrarveiðar eru stundaðar hér á rebba, en það náðist minna af honum í vetur sem leið en í fyrra vetur. Það verður ekki álitlegt að sleppa lambfé þegar að því kemur, ef tófan bíður við túnfótinn.



    20. maí 2007

  Það var aðeins hlýrra í dag og sól framan af degi, en undir kvöld fór að rigna. Það er nú farið að bera hér heima. Farið var með hrútana fram í hólf í dag til sumardvalar þar. Flest allar Flögu-ærnar eru nú komnar út og hafa það bærilegt. Þessi mynd hérna að neðan var tekin áður en þessi ær var látin út með undirvaninginn sinn. Sjá má fleiri myndir af sauðburðinum í Flögu inn á myndaalbúmi. Í dag komu Ásgerður, Dóra Margrét, Katrín og Haukur að aðstoða okkur við sauðburðinn og var það þegið með þökkum.




    18. maí 2007

  Hjalti kom með rútunni frá Egilsstöðum í kvöld og svo með Betu og Guðrúnu Margréti frá Akureyri, hann ætlar að hjálpa okkur við sauðburðinn í nokkra daga, það léttir verulega af okkur áhyggjum í þessari kuldatíð sem gerir allt miklu erfiðara viðfangs. Í dag var norðaustan kuldasteita og hiti frá frostmarki og upp einar 4° yfir hádaginn. Við skruppum til Akureyrar í dag að afla vista, enda hefur ekki verið keypt inn í hálfan mánuð. 

    16. maí 2007

  Í dag komu Sigurður Sigurðarson dýralæknir og Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur, til að skoða hrútinn Þrótt 04240 og taka úr honum blóðsýni til rannsóknar, er þetta gert fyrir sæðingastöðvarnar, því það á að taka hann þar inn í haust ef ekkert neikvætt kemur út úr þessum rannsóknum. Verði Þróttur tekinn inn á stöð verður hann fjórði hrúturinn sem þangað fer, sem er upprunninn hér á þessum bæ.
 
Burðurinn er nú nánast búinn í Flögu, aðeins ein ær eftir sem ber núna og svo fjórar sem hafa beitt upp.
 
Það var austan gola í dag, dumbungur og um 5° hiti þegar best lét. 

   15. maí 2007

  Í morgun fór Anna Söderström með rútunni til Reykjavíkur og ætlar hún svo heim til Svíþjóðar í fyrramálið. Það er búið að vera mjög gott að hafa hana, þægileg í umgengni, framúrskarandi dugleg og fljót að læra og tileinka sér verkin við sauðburðinn, var líka til í að prófa hlutina t.d. tók hún á móti lömbum og markaði og merkti eitt lamb. Það verða mikil viðbrigði þegar hún er farin og við eigum eftir að sakna hennar.
  Það var aðeins hlýrra í dag hiti 6 til 8°. Við byrjuðum að tína út lambær í Flögu í gær og héldum því áfram í dag þannig að það eru komnar út á milli 40 og 50 ær.

    12. maí 2007

  Í dag var kosið til alþingis, það fór nú ekki nógu vel þessi afleita hægristjórn, sem búin er að vera hér við völd í 12 ár hélt naumlega velli, þannig að það verður að bíða enn um sinn eftir viðunandi réttlæti. Ekki voru veður-guðirnir hressir með kosningarnar, því í kvöld hríðaði talsvert og varð nánast hvítt. Anton fór aftur í kvöld.

    11. maí 2007

  Það er enn sami nístings kuldinn og sauðburðurinn á fullu í Flögu, ærnar bera yfirleitt úti, en eru svo settar inn þegar þær eru bornar eða þegar sést á þeim að þær séu að fara að bera.
 
Anton Berg kom í kvöld og ætlar að gista í nótt og hjálpa okkur.

    10. maí 2007

Í dag kom Anna Kristina Regina Söderström með rútunni frá Reykjavík, hún ætlar að vera í nokkra daga og hjálpa okkur við sauðburðinn.

    









    9. maí 2007

  Í morgun bar fyrsta ærin í Flögu og átti hún tvær sperrtar gimbrar. Það er aðeins skárra veður í dag, hægviðri og hiti 6° núna rétt eftir hádegið. Undanfarna daga hefur verið norðaustan steyta og frost um nætur, en hiti hefur komist rétt yfir frostmarkið yfir hádaginn. Það hefur ekki verið teljandi úrkoma sem betur fer.

    5. maí 2007

  Það er morðkuldi í dag, hiti rétt yfir frostmarki, dumbungur en stillt. Það sem er þó verst að það spáir norðan kulda út nætu viku og slyddu eða snjókomu suma dagana. ALGJÖRT ÓGEÐ.
  Við fórum til Akureyrar í dag í innkaupaleiðangur. Við kusum líka til alþingis vegna þess að það er ekki víst, að það verði auðvelt á laugardaginn 12. þegar á að kjósa, því þá verða Flögu-ærnar að bera á fullu.

       2. maí 2007

  Nú er veðrið eitthvað að breytast, komin vestan átt og skúrir og það hefur kólnað talsvert.
 
Ég kláraði að dreifa skítnum í dag, þannig að hann er kominn á túnið sem góð næring fyrir grös sumarsins.
 
Í kvöld fórum við svo öll á bænum á deildarfund í Sölufélagi Austur-Húnvetninga (SAH), sem haldinn var í Gistiheimilinu í Engimýri. Sigurður Jóhannesson framkvæmdastjóri fór þar yfir útkomuna af rekstri félagsins á síðasta ári, þar kom fram að félagið var rekið með nokkrum hagnaði. Ég var endurkjörinn sem deildarstjóri Eyjafjarðardeildar og er því sjálfkjörinn á aðalfund félagsins, þarf nú reyndar að mæta þar hvort sem er, þar sem ég er í stjórn SAH. Þetta var ágætur fundur og kaffiveitingar húsráðendum í Engimýri til sóma.

    1. maí 2007

  Enn einn blíðviðrisdagurinn var í dag, sól og hiti fór í rúmar 18°. Í dag kom Brói með kærustuna og son hennar, þetta var í fyrsta skipti sem við sjáum þau, þannig að það var mjög gaman að þau skyldu koma í heimsókn. Ég hef  undanfarna daga verið að moka undan þeim grindum í fjárhúsunum, sem þarf að moka undan fyrir sauðburð og var ég að klára það í dag. Á reyndar eftir að dreifa skítnum á tún.
Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar