Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir ágúst 2007

    31. ágúst 2007

  Við fórum til Akureyrar í dag í ýmsar útréttingar. Á leiðinni kom ég við í Þórustaðarétt, en þar kom fjallskilanefndin saman ásamt sveitarstjóranum. Við vorum að skoða ástand réttarinnar og er hún nánast ónýt og er farið að áforma að byggja nýja.


Guðmundur sveitarstjóri, Stefán Lárus og Aðalsteinn fjallskilanefndarmenn.

  Í kvöld fór ég svo á stjórnarfund í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps, sem haldinn var í Búðarnesi. Við vorum að ræða starfið í haust. Ákveðið var að halda hrútasýningu á veturgömlum hrútum félagsmanna seint í september og verður hún líklega í Búðarnesi. Sama dag verða væntanlega skoðaðiar lambhrútar frá Búðarnesi og Þúfnavöllum. Annars staðar sjá félagsmenn sjálfir um að skipuleggja lambaskoðanir. Á fundinum lét ég af formennsku í félaginu, sem ég er búinn að sinna með stuttum hléum allt frá árinu 1971. Það var búið að ræða um að Guðmundur Sturluson tæki við formennskunni þegar hann væri orðinn tvítugur. Við nafnar handsöluðum því með okkur á fundinum að víxla embættum innan stjórnarinnar þannig að hann er orðinn formaður en ég ritari. Óska ég honum velfarnaðar í starfi formanns og vona að þetta ágæta fjárræktarfélag eigi gróskuríka daga fram undan undir hans stjórn.


    30. ágúst 2007

  Þá eru haustverkin tekin við, ég var að gera við Staðarbakkaréttina í dag, en hún er skilarétt sveitarinnar og er orðin nokkuð gömul og lúin, enda byggð 1973. Það verður réttað í henni föstudaginn 14. sept.
 



   28. ágúst 2007

  Glampandi sól og blíða í dag. Blíðan var notuð til þess að klára að rúlla og er þá heyskap lokið nema eftir er að stafla þesssum síðustu rúllum, það verður gert á morgun, enda eins gott að láta rúllurnar ekki standa lengi út á túni. Hrafninn situr alveg um þær og tætir af þeim plastið,  er hann alveg með skæðasta móti þetta sumarið.


Verið að klára heyskapinn.

    27. ágúst 2007

  Lokið var við að slá þetta sumarið í dag, það síðasta var háarsláttur í Flögu


Frúin að hefja rúgbrauðsbaksturinn, algert sælgæti.

    26. ágúst 2007

  Í kvöld fórum við niður í Þúfnavelli. Guðmundur Sturluson bauð okkur, hann var að halda upp á tvítugsafmælið sitt núna, en hann átti afmæli 14. ágúst eins og komið hefur fram hér á síðunni. Þetta var glæsileg veisla og gaman að koma saman og fagna þessum tímamótum hans.

 
Guðmundur við veisluborðið, fleiri myndir má sjá hér


    24. ágúst 2007

  Það hefur verið mikið ólag á símalínunni hingað undanfarna daga og er enn, þannig að síminn og þar með talin nettengingin hefur verið meira og minna úti. Þetta gerir það að verkum að það er erfitt að setja efni inn á heimasíðuna. Það kom viðgerðarmaður hér í fyrradag, en hann fann ekkert hvað að er  frekar en fyrridaginn. Þetta er alveg óþolandi ástand ekki hvað síst fyrir það, að þetta ástand hefur skapast svona  2 - 3 sinnum á ári undanfarin ár. Það er ljóst að það er eitthvað að línunni og ég segi að það sé eitthvað rakatengt því þetta virðist helst láta á sér kræla þegar er bleytu tíð. En það er víst ekki arðbært að endurnýja línuna til að þjóna einu heimili. Þannig virkar nú bara einkavæðingin og einkarekstur í reynd, þar eru arðsemi og gróði kjörorðin, en alls ekki  þjónustan við einhverja útnára. Vonandi rætist úr þessu, en ég verð að viðurkenna að ég er ekkert mjög bjartsýnn á það. 
  Það er búið að rigna mjög mikið hér síðustu þrjá daga, sem er mjög kærkomið fyrir gróðurinn og vonandi að hann taki við sér núna, þótt sumri sé nú farið að halla verulega.
  Í gærkveldi var hér aftur fjallskilanefndarfundur, við vorum að ganga endanlega frá  fjallskilaboðum til útsendingar ásamt fleiru sem þarf að ákveða fyrir göngurnar. 
Auk nefndarinnar sat Helgi oddviti fundinn. Hann kom reyndar færandi hendi með brúðkaupsgjöf handa okkur, frá heimilisfólkinu á Syðri Bægisá. Eins og sjá má er þetta gullfalleg skál, handmáluð af Huldu Aðalsteinsdóttur móður Helga. 

   








     20. ágúst 2007

   Í dag hófst háarsláttur, slegnir voru 13 ha. og það svo allt rúllað í kvöld 43 rúllur. Eins og sjá má af þessum tölum er sprettan mjög döpur, er þar örugglega um að kenna þurrkatíð.

    17. ágúst 2007

  Í kvöld var hér fjallskilanefndarfundur. Við vorum að jafna niður gangnadagsverkum og ákveða tímasetningu gangna og rétta í Hörgárbyggð.
 Í Glæsibæjardeild og Syðri-Bægisárdal verða fyrstu göngur laugardaginn 8. sept. Réttað verður í Þórustaðarétt síðdegis sama dag auk nokkurra heimarétta. Í Sörlatungu verða fyrstu göngur sunnudaginn 9. sept. annarsstaðar í Skriðudeild og Öxnadal verða fyrstu göngur frá miðvikudeginum 12. sept. til sunnudagsins 16. sept. Réttað verður í Staðarbakkarétt föstudaginn 14. sept. kl. 10 f.h. og Þverárrétt í Öxnadal mánudaginn 17. sept. kl. 10 f.h. Þessa gangnadaga er líka réttað í nokkrum heimaréttum. Seinni göngur verða yfirleitt viku seinna nema í Glæsibæjardeild og Syðri-Bægisárdal verður hálfur mánuður á milli gangna.

Sigurður og Margrét komu úr ferðalaginu í kvöld.

 
    16. ágúst 2007

Á bakka Blöndu

Í dag fórum við Sigrún á Blönduós. Ég var að fara á stjórnarfund í SAH Afurðum ehf. Þar sem einkum var verið að ræða um afurðaverð á dilkakjöti í komandi sláturtíð. Ítarlegar umræður urðu um afkomu í greininni, sem er mjög tæp bæði hjá bændum og sláturhúsum. Niðurstaðan varð sú að hækka meðalverð til bænda um 5,1% frá haustinu 2006. Það þýðir að SAH greiðir bændum sambærilegt verð og viðmiðunarverðið, sem Landssamtök sauðfjárbænda gáfu út í sumar, þótt nokkur tilfærsla sé þar á milli flokka, sem einkum felast í því að SAH greiðir betur fyrir best gerðu skrokkana, en minna fyrir þá feitustu. Það er öllum ljóst að í þessu verði geta ekki falist kjarabætur til sauðfjárbænda, það dugar ekki fyrir kostnaðarhækkunum milli ára. Það var kalt mat stjórnarinnar, að ekki væri innistæða fyrir frekari hækkunum á markaðinn nú. SAH mun greiða innleggið fyrr, en flestir sláturleyfishafar, eða á föstudegi eftir innleggsviku, sem á að koma sér mjög vel fyrir bændur. Einnig eru yfirborganir fyrir hefðbundna sláturtíð meiri en hjá öðrum. Í heild er það staðfastur vilji stjórnarinnar að bændur sem leggja inn hjá SAH búi ekki við lakari kjör en best gerist hjá öðrum sláturleyfishöfum.
  Á meðan ég var á fundinum skoðaði Sigrún sig um á Blönduósi. Hún eyddi reyndar mestum tímanum í Heimilsiðnaðarsafninu og fannst mjög gaman og fróðlegt að skoða það. Meðfylgjandi mynd tók hún á bakka Blöndu rétt hjá safninu. 

    14. ágúst 2007

Guðmundur Sturluson

  Í dag er þessi myndarlegi drengur og ágæti vinur okkar Guðmundur Sturluson á Þúfnavöllum tvítugur. Hann er þegar orðinn dugandi bóndi við hlið foreldra sinna og hefur allt til að bera, að verða máttarstólpi hér í sveitinni á komandi árum. Það er gott til þess að vita að enn eru til menn, sem eru tilbúnir að fara gegn straumnum og gera sauðfjárbúskap að sínu starfi. Vonandi koma þeir tímar fyrr en síðar að menn í þessari atvinnugrein búi við sambærilega lífsafkomu og gengur og gerist í þessu þjóðfélagi okkar. Og þá er ég ekki í nokkrum vafa um að Guðmundur mun blómstra sem bóndi.
  Við Sigrún sendum þér okkar bestu kveðjur á þessum tímamótum, Guðmundur minn. 


Guðm. að fúaverja gluggakarmana
Í dag var verið að fúaverja gluggana. Hér er húsbóndinn kominn hátt upp í stiga og alveg við það að missa kjarkinn af lofthræðslu.












 13. ágúst 2007

  Þá erum við orðin ein í kotinu í bili, þau í norðurendanum (Sigurður og Margrét) fóru í smá frí í morgun og ætla að vera í eina 4 til 5 daga í sumarbústöðum í Munaðarnesi og á Snæfellsnesinu. 


    12. ágúst 2007

Katrín Valdís
  Í dag er Katrín Valdís okkar 10 ára og viljum við amma og afi í sveitinni senda henni okkar bestu afmæliskveðjur. Nú þegar hún er flutt svona langt frá okkur, alla leið til Kaupmannahafnar getum við ekki verið með henni á afmælinu, nema í huganum. Myndin var tekin í júní stuttu áður en hún flutti út, en þá var hún að hjálpa okkur að reka lambær í Nýjabæ og afi tók þessa mynd á heimleiðinni. Við vonum að henni farnist vel í Kaupmannahöfn og gangi vel í skólanum, sem byrjar eftir örfáa daga. 
  Guð veri með þér Katrín okkar.


    11. ágúst 2007

  Ekki fórum við nú á Halló Akureyri. Þótt við værum á löglegum aldri (+23) til að sækja þá samkomu og að meira segja ný gift þannig að við flokkumst líka undir æskilegt fjölskyldufólk á hátíðina þá. Við verðum því að axla þá ábyrgð með ýmsum öðrum að verða þess valdandi að þeir þjónustuaðilar og verslunareigendur á Akureyri sem ætluðu að græða mikið um verslunarmannahelgina (eins og undangengnar slíkar helgar), verða að lepja dauðann úr skel að minnsta kosti næstu mánuðina, eiga sem sagt ekki einu sinni fyrir salti út á grautinn. Hvernig væri nú að stofna sjóð þessu bágstadda fólki til bjargar, hann gæti heitið Styrktarsjóður fyrir þá sem misstu af gróðanum af sauðdrukknum unglingum á Akureyri 2007 !!! Væri annars ekki rétt að lyfta þessari umræðu um Halló Akureyri á ögn hærra og vitrænna plan en hún hefur verið á undanfarið??

  Það sem helst hefur á dagana drifið hér síðan síðat var skráð hér inn, er að við fórum að heyja aftur eftir nokkurt hlé. Þetta var nú einskonar engja heyskapur. Slegin voru tún út í Flögu-hólfum, nokkurs konar vara tún, sem gripið er til þegar á þarf að halda. Sum stykkin voru slegin í fyrra eftir nokkura ára hlé, en önnur hafa ekki verið slegin áður á þessari öld. Slegið var að kvöldi þess 5. og allt rúllað síðdegis þann 7. eftir góðann þurrk. Þetta náðist því vel verkað, þótt það sé ögn sina í því sem ekki var slegið í fyrra, hún er þó minni en ætla mætti, því þessi tún er beitt mikið bæði vor og haust. Alls fengust af þessu 128 rúllur.  

             Nestisstund í teignum.  


    1. ágúst 2007
 
 Þá er nú ágúst upp runninn og það er nokkuð annað veðurfar í upphafi hans en verið hefur lengst af í sumar, það ringdi talsvert í nótt og farm eftir degi og er það kærkomin vökvun fyrir gróðurinn. Nýgifta parið hefur það nú bara nokkuð gott og eyðir hveitibrauðsdögunum bara heima við. Það fékk reyndar tvær nætur í brúðarsvítu á Mótel Best,  í Vogum á Vatnsleysuströnd í brúðargjöf, en nýtingin á þeim bíður bara betri tíma. Í dag var tíminn bara notaður á skrifstofunni, þar sem ekkert sérstakt veður var til útiveru. Klárað var að færa bókhaldið fyrir fyrstu 6 mánuði ársins og virðisaukaskattsskýrslunni fyrir það tímabil skilað á netinu. Einnig var ég að byrja undirbúning fyrir álagningu fjallskila komandi hausts. Þurfti að hanna nýtt skýrsluform vegna álagningar á landverð jarða. Læt hér fylgja með mynd af henni Grímu litlu, sem  hefur nú ekki verið mikið getið hér á síðunni í sumar, en af henni er það að frétta að hún er sæl og sátt í sveitinni og dafnar vel.

Flettingar í dag: 709
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 190
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 67862
Samtals gestir: 17379
Tölur uppfærðar: 13.5.2024 23:16:35
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar