Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir sept. 2008

   25. september 2008

Hrútar í uppröðun  Í dag var hrútasýning hjá Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps, sem haldin var á Þúfnavöllum. Við fórum með 12 veturgamla hrúta. Alls voru sýndir 26 hrútar, reyndar komu Búðarneshrútarnir 5 að tölu ekki á sýningarstað, en voru dæmdir þar heima fyrir hádegi. Aðaldómari á sýningunni var nýr ráðunautur Sigurður Þór Guðmundsson. Það var almennt mat manna á sýningunn að hann ætti ýmislegt ólært til þess að geta talist brúklegur við að finna út kosti og galla einstakra hrúta. Ólafur G Vagnson ómmældi og sá um uppröðun bestu hrútanna og fórst það vel úr hendi, enda með áratuga reynslu í hrútaþukli.

Dvergur 07-270  Best dæmdi hrútur sýningarinnar var Dvergur 07-270, sem er í eigu okkar Sigrúnar. Hann fékk 86,5 stig í heildina. Hann er undan Krók 05-150 og Biðu 04-472. Þess má geta að Dvergur var hæst dæmdi lambhrútur á svæði BSE á síðasta hausti með 88 stig.

 

 
 

Börkur 07-175

 

 

 

 

  Sá hrútur sem varð í öðru sæti er líka héðan, en í eigu Sigurðar og Margrétar. Þetta er hrúturinn Börkur 07-175 og fékk hann 85 stig. Hann er einnig undan Krók 05-150, en móðir hans er Eik 03-342.










 

 

 

 


    23. september 2008

  Í fyrstugöngum varð vart við lamb í sjálfheldu í Háafjallinu, nánar tiltekið í svonefndum Setum upp af Hraunskálinni og var lambið rétt sunnan miðgjárinnar sem skerst upp í fjallið ofan skálarinnar.  Strax varð ljóst að ekki væri á færi annarra en sérþjálfaðra björgunarveitarmanna að bjarga lambinu af klettasyllunni, sem það hafði á einhvern óskiljanlegan hátt komið sér á. Það var svo ekki fyrr en í dag að tími gafst og tækifæri til að leggja í björgunarleiðangurinn. Þá mættu hér uppúr hádeginu þrír vaskir sveinar, sem allir eru meðlimir í Súlum á Akureyri.

Björgunarsveitarmennirnir: Finnbogi, Sigurður og Anton
  Kapparnir við heimkomuna þreyttir og blautir, en sælir og sáttir með vel heppnaðan leiðangur.


  Á myndinni hér að neðan hef ég reynt að draga upp leiðina sem farin var, eftir að kemur upp í miðjar fjallshlíðar. Gula línan sýnir leið björgunarsveitarmannanna að björgunarstað. Rauða línan sýnir staðinn þar sem þurfti að síga að lambinu og svo áfram með það niður úr klettabeltunum. Þar tókum við bræður við lambinu og bárum það til bæjar og sýnir græna línan þá leið.  Það skal tekið fram að myndin er tekin fyrir nokkrum dögum þegar sól skein í heiði. Í dag var allt annað veður, þokukembingur annað slagið og talsverður rigningarsuddi. Þar sem leiðin liggur hæst er hún í uppundir 1000 m hæð. Þar var slydda framan af degi og grátt, þannig að þar var mjög hált í snarbrattri fjallshlíðinni, svo þar þurfti að fara mjög varlega enda tuga metra hengiflug undir.
Björgunarleiðangur í Háafjall


  Næsta mynd sýnir betur aðstæður á vetvangi. Blái punkturinn er þar sem þeir félagar komu fyrir tryggingunum fyrir sigið. Anton seig fyrstur niður á sylluna sem lambið var á, líklega um 10 m, náði því og batt það við sig og seig svo með það niður. Alls mun þessi sighæð vera um 60 m nánast standbratt. Vegna rigninganna undanfarið var bergið mjög laust í sér og var því talsvert grjóthrun sem hætta stafaði af og fengu þeir félagar einhverja steinhnullunga í sig, sem sköðuðu þá þó ekki svo orð væri á gerandi.

Nærmynd af staðháttum

Staðarbakkabræður komnir heim með lambið

  Eins og áður segir tókum við bræður við lambinu þegar komið var með það úr klettunum og skiptumst á að bera það til bæjar. Eins og sjá má var komið fram á kvöld og að verða aldimmt. Það var mál þeirra bjögunarsveitarpilta að þetta væru einhverjar erfiðustu aðstæður sem þeir hafi lent í, eru þeir þó ýmsu vanir. Það er gott að tókst að bjarga þessu lamb greyi, sem var orðið mjög magurt, enda nánast enginn gróður á syllunni nema smá mosatægjur. Þetta reyndist vera hrútlamb í eigu Aðalsteins á Auðnum og kom hann í kvöld og sótti hann.
   Að endingu vil ég svo þakka þeim: Antoni, Sigurði og Finnboga fyrir þennan frækilega björgunarleiðangur.
  

    21. september 2008

Lagt á gangnahestana  Minna varð nú úr göngum í dag en til stóð. Það átti að fara í aðrar göngur hérna að vestanverðu í Hörgárdalnum og Flögudal. Lagt var af stað í morgun í þolanlegu veðri, suðvestan svölum fræsingi. En þegar á morguninn leið fór að ganga á með bálhvössum og dimmum slydduhriðjum. Það var því snúið heim aftur án þess að leita mikið að fé og engin kind varð á vegi gangnamanna, þannig að þeir komu heim aftur einungis smá hertir af illviðrinu en fjárlausir.

  




   20. september 2008

Gangnamenn við brottför: Halldór, Guðm., Denni, Doddi og Gestur  Í dag voru aðrar göngur hér fram að austanverðu. Veður var þokkalegt, bjart en nokkuð hvöss suðvestan átt. Þetta var nokkuð strangur dans við skagfirskar fjallafálur, sem eru langt í frá auðveldar viðureignar að koma þeim hér til byggða í öfuga átt við heimkynni þeirra. Alls náðust 29 kindur úr Akrahreppi og héðan úr sveit heimtust 5 kindur, 3 frá Þríhyrningi og 2 frá Búðarnesi. Frá okkur sem mönnuðum þessar göngur að ölluleyti, heimtist sem sé engin einasta kind. Það verður nú að segjast eins og er, að nú er mælirinn endanlega fullur hvað það varðar að við berjumst við þetta fé úr Akrahreppi og það er alverg ljóst að bændur þar verða að fara að sjá um að koma sínu fé til réttar eða allavega að greiða fyrir smalamennsku á því. Hæfileg greiðsla gæti verið 1000 kr. á kind úr 1. göngum og 5000 kr. á kind sem síðar heimtist. Núna í haust komu um 180 kindur í 1. réttir og það munu vera búnar að koma um 50 kindur síðan úr Akrahreppi. Þess má svo geta að í Silfrastaðarrétt í Akrahreppi komu 3 kindur héðan í fyrstu rétt.

Gestur þreyttur eftir göngurnar og Sólveig og Tómas Leonard.  Gestur kominn þreyttur úr göngunum  fylgist með, þegar Sólveig matar Tómas Leonard og talar í símann.






 








Tveir gangnakappar Guðm. og Þórður Steindórsson  Þegar komið er úr göngunum og búið er að gæða sé á gómsætum mat hjá frúnni, er frábært að fá sér tár út í kaffisopann.





 









Jósavin og Kristjana  Í dag eignuðust Jósavin (Brói) og Kristjana frumburð sinn, dreng. Við sendum þeim okkar innilegustu hamingjuóskir.













    

19. september 2008

Tómas, Sólveig, Lára, Bergur og Eiríkur  Í dag komu í heimsókn vinir Sólveigar Elínar, þau Lára skipstjóri og söngkona frá Stykkishómi og maður hennar Eiríkur tölvumaður og söngvari auk frumburðar þeirra, sem heitir Bergur Davíð. Þau voru mjög hress og kát og gaman að fá þetta unga fólk í heimsókn.


 

 







Tómas Leonard og Bergur Davíð

  Tómas Leonard var mjög gestrisinn og lofaði gestinum honum Bregi Davíð, að prófa nýja bílinn sinn.














Sofa bræður




















 Þriggja vikna bræður sofa sætt og rótt.


    17. september 2008

Beta, Denni og dóttirin Guðrún Margrét  Í kvöld fórum við Sigrún í matarveislu til Betu frænku minnar. Tilefnið var að í dag fagnaði hún þeim áfanga að komast í tölu fullþroska fólks, eða eins og máltækið segir " allt er fertugum fært". Þetta var hin ánægjulegasta stund hjá þeim Betu og Denna í Vesturgilinu ásamt þeirra nánustu fjölskyldu. 
  Fyrr í dag var ég að hjálpa Stefáni Lárusi á Ytri Bægisá. Hann var að láta ómmæla og stiga lömb, þau komu ágætlega út hjá honum, einkum gimbrarnar.
  

 



 Dilkar sem urðu að lambakjöti í dag, ljótt en satt  Í dag var slátrað frá okkur 403 lömbum og 9 ám hjá SAH Afurðum á Blönduósi. Útkoman var þokkaleg. Nú þegar búið er að slátra röskum 600 lömbum, er meðalvigt 16,52 kg. Tölugildi fyrir gerð er 10,07 og fyrir fitu 7.23. Borið saman við tvö síðustu ár, er fallþunginn svipaður gerðin er nokkru lakari en 2007 en svipuð og 2006, en fituflokkunin er nú nokkru betri en tvö undangengin ár. Þess má geta að enn er Krókur 05-150 að koma best út úr holdfyllingarflokkuninni, er nú með 12 fyrir gerð þrátt fyrir að haldið væri eftir miklum fjölda af lömbum undan honum til frekari skoðunar fyrir líflambaval. Þrír veturgamlir Krókssynir komu einnig ágætlega út þótt þeir skákuðu  ekki föður sínum nú. Þeir eru þó í öðru og þriðja sæti: Börkur 07-175 með 11,83 og Dvergur 07-270 með 11,67.

    15. september 2008

Réttað í Þverárrétt í Öxnadal  Í dag fór ég í Þverárrétt, að hjálpa þeim Bægisárhjónum að draga féð, í vinnuskiptum við Stefán Lárus, en hann var í göngunum hjá mér.
Aðalsteinn Hreinsson réttarstjóri að flagga
  Aðalsteinn réttarstjóri dregur fánann að hún við Þverárréttina í dag í tilefni dagsins.
  Hér má sjá fleiri myndir:  http://album.123.is/?aid=124271


     13. september 2008

Verið að vega lömbin  Í dag voru lömbin vegin og þau lömb tekin frá sem eiga að fara  í slátrun á miðvikudaginn kemur. Það var blíðskapar veður, sólfar og hlýindi.  Varla var hægt að hugsa sé betri aðstæður á þessum aðal vigtunardegi haustsins. Ekki hefur gefist tími til að kanna meðalvigt, en mér fannst þessi lömb vera heldur vænni en þau sem vegin voru þann 2. september, enda eru þessi lömb mörg hver að koma úr háfjöllum og framan úr dalabotnum. 
  Þegar búið var að ganga frá fénu eftir vigtunina, fórum við í Myrkárbakka, Þúfnavalla og Búðarnesréttir að athuga hvort við hefðum fengið eitthvert fé þar. Skemmst er frá því að segja að við áttum enga kind í þessum réttum, enda mjög lítið um að okkar fé komi annars staðar fyrir en í heimarétt, oftast um eða undir 10 kindum. Ég hirti hins vegar 5 kindur í Myrkárbakkarétt og 4 í Búðarnesrétt, úr Akrahreppi og flutti í réttarhólfið hérna við Staðarbakkarétt, enda er það í mínum verkahring sem fjallskilastjóra.


     12. september 2008 

   Í Staðarbakkarétt
  Réttað var í dag kl. 10 í Staðarbakkarétt. Blíðskapar veður var nánast logn, sól og hlýtt. Réttarstörfin gengu fljótt og vel fyrir sig, enda er í réttinni sundurdráttargangur þannig að það þarf nánast ekki að draga nokkra kind. Fé hefur fækkað mjög hér á réttinni undanfarna áratugi eða frá því að hún var byggð 1973. Í dag var það um 1200 fjár, en þegar flest var mun það hafa losað 4000. Ekki er annað að sjá en fé komi vænt og fallegt af fjalli, en það kemur nú betur í ljós á morgun, en þá ætlum við að vigta lömbin eins og venja hefur verið hér um langt árabil að gera á laugardeginum eftir réttardaginn. 172 kindur komu hér til réttar úr Akrahreppi, sem er nokkru fleira en verið hefur síðustu árin, eða síðan farið var að ganga alla Hörgárdalsheiðina vestur. Það voru hinar öldnu kempur Árni á Uppsölum og Ólafur frá Flugumýrarhvammi, sem komu hér enn einu sinni að hirða fyrir bændur í Akrahreppi.
  Hér má sjá fleiri myndir:  http://album.123.is/?aid=124267

     11. september 2008

Komið af fjalli  Síðari gangnadagurinn var í dag. Gengið var hér að vestanverðu í Hörgárdalnum og Flögudalurinn. Smölunin gekk vel þrátt fyrir að veðrið væri sínu verra en í gær, þoka á fjöllum og úrhellisrigning þegar á daginn leið stytti reyndar upp skömmu áður en komið var með safnið í réttarhólfið kl. 17:40, en þá voru gangnamennirnir orðnir mjög blautir, en hressir og kátir eftir mjög vel unnið dagsverk og aftur biðu okkar sambærilegar kræsingar við heimkomuna og í gær.


 

 

 

10. september 2008

Lagt á stað í göngurnar  Í dag var fyrri gangnadagurinn, gengið var hér austan Hörgár. Segja má að það hafi gengið nokkuð vel enda valinn maður í hverju rúmi. Ekki er vitað annað en hafi smalast vel, það er þó ekki hægt að fullyrða vegna þess að eftir  einmuna blíðu undanfarinna daga breytti nú um veður, þannig að í dag var rigningarsuddi annað slagið og þoka til leiðinda fyrir efstu gangnamennina.

Hnakkinn á gangnaforingjanum og þaðan sólarsinnis Anton, Gestur, Davíð, Jói, Doddi og Stefán Lárus 

Hér eru þreyttir en ánægðir gangnamenn komnir heim og sestir að vel útilátnu matarborðinu hjá frúnni, þar sem boðið var upp á lambalæri og hangikjöt ásamt tilheyrandi meðlæti.











     

 

9. september 2008

Gauti Heimir með vinum sínum Lappa og Brussu  Í dag er hann Gauti Heimir 8 ára. Amma og afi senda honum innilegar afmæliskveðjur til Kaupmannahafnar, en þar er hann nú búinn að eiga heima í rúmlega ár. Myndin var tekin í fyrrasumar rétt áður en fjölskyldan flutti til Köben.
  Þess má geta að Gauti Heimir fæddist á afmælisdaginn hennar Guðlaugar langömmu sinnar  þegar hún var 89 ára. Guðlaug hefði því orðið 97 ára í dag ef henni hefði endst aldur til, en hún lést þann 11. janúar s.l. blessuð sé minning hennar.


    

 

 

 5. september 2008

  Hann á afmæli í dag, hann á afmæli í dag, hann á afmæli hann Tómas Leonard!

Tómas Leonard eins árs   Tómas Leonard á sinn fyrsta afmælisdag í dag. Hann heldur upp á hann hjá ömmu sinni og afa í sveitinni. Í morgunsárið eignaðist hann sinn fyrsta bíl sem hann getur ekið  um  sjálfur og spennan var svo mikil að það varð bara að taka fyrsta bíltúrinn á eigin bíl á náttörunum. Kl. 17 er svo amma búin að bjóða til afmælisveislu.   Hér má sjá myndir frá afmælisdeginum.  http://album.123.is/?aid=123158

     4. september 2008

Tómas, Brussa og hvolparnir  Þá er hann Tómas Leonard kominn aftur í sveitina til ömmu og afa, við sóttum hann og mömmu hans á Akureyrarflugvöll síðdegis þar sem þau voru að koma frá Reykjavík. Á meðfylgjandi mynd er hann að heilsa upp á Brussu og hvolpana hennar.









Skrokkar í flokkum E 3 og R 3 

 

Þá er fyrsta slátrun afstaðin. Í dag var slátrað frá okkur hjá SAH Afurðum á Blönduósi 200 lömbum og 9 ám. Við búendur á Staðarbakka skiptumst á að fara vestur til að framvísa og skrifa niður númerin, að þessu sinni fóru Sigurður og Margrét. Guðmundur á Þúfnavöllum fór með þeim, en það fóru rúm 50 lömb frá Þúfnavöllum með sama bíl og okkar lömb í gær.
  Útkoman var nokkuð eftir væntingum. Meðalþungi reyndist vera 16,22 kg. sem er eins og ég bjóst við heldur léttara en í fyrra, eða um 330 gr. Holdfyllingarflokkun var einnig aðeins lakari eða 10,22 á móti 10,48. Fituflokkun var hins vegar til muna betri nú eða 6,92 á móti 7,75. Allur samanburður er við sambærilega slátrun 7. september 2007. Þetta verður held ég bara að teljast ásættanlegt, minni fita ætti að vega upp lægri fallþunga hvað heildarverðmæti varðar. 


     3. september 2008

Rekið á fjárbílinn  Það var bjartur og fagur dagur í dag. En við vorum að fást við það, sem er nú einna erfiðast fyrir sauðfjárbóndann að gera. Það er ekki létt verk hvorki andlega eður líkamlega að taka frá lömb til slátrunar og reka þau upp á bíl, þangað sem þau eiga ekki afturkvæmt nema inn á sláturhús. Þetta er líka mun verra þegar úti er sól og blíða og lífið brosir við mönnum og skepnum, heldur en ef úti eru kalsa hausthriðjur. En þetta er jú gangur lífsins og það eina sem er öruggt í þessum heimi er víst að, sá sem hefur hlotið líf mun örugglega einhvern tímann glata því aftur. Svo er nú það.

Sólveig Lilja Pells 5 ára 

 

 

Eftir kindastússið í dag fórum við í afmælisveislu til hennar frænku minnar Sólveigar Lilju, sem er 5 ára í dag. Þetta var flott veisla hjá henni og ágæt tilbreyting og andleg upplyfting frá verkum dagsins.












     2. september 2008

Margrét Tómasdóttir með fjárstofninn sinn  Rekið var inn til vigtunar í dag og vegin voru 312 lömb. Fljótt á litið sýnist mér dilkarnir vera heldur í léttari kantinum, losuðu 38 kg. að meðaltali, það kemur nú betur í ljós á fimmtudaginn þegar slátrað verður. Gestur og Guðjón hjálpuðu okkur og svo komu Helga og krakkarnir eftir skólann. Sól og blíða var í dag.

Flettingar í dag: 188
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 716
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 68057
Samtals gestir: 17416
Tölur uppfærðar: 14.5.2024 06:56:33
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar