Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir sept. 2013

22. sept. 2013

Það átti að fara í aðrar göngur á Flögudal í dag, en vegna skilyrða sem ég lýsti hér í gær var þeim frestað.

Í staðinn brunaði ég í Kristnes og sótti Sigrúnu mína. Þetta er í fyrsta skipti sem við komum saman hér heim, eftir að hún fékk heilablæðinguna 27. mars. Hún kom reyndar heim fyrr í haust, en þá með starfskonum á Kristnesi.

Hér er Sigrún komin heim í eldhúsið sitt og ræðir við Möggu svilkonu sína....
....og hér er hún í stofunni sinni. Eftir mjög vel heppnaðan dag fórum við svo aftur í Kristnes í kvöld. Það var það eina sem skyggði á þennan gleðidag fyrir okkur Sigrúnu og aðra í fjölskyldunni að þetta var bara ein dagstund, en með tímanum fjölgar heimferðunum og þær lengjast með meiri styrk Sigrúnar, sem hún öðlast smátt og smátt með endurhæfingunni á Kristnesi. En þrátt fyrir allt, mjög góður dagur að kvöldi kominn.

 

21. sept. 2013

Í dag voru aðrar göngur hér fremst í Hörgárdalnum. Það voru ekki góð skilyrði til að fara í göngur, þokuslæðingur í fjöllum og svo mjög flekkótt jörð þannig að það var mjög erfitt að sjá fé, við fórum því bara fram á Háaleiti og lítið upp. Aðeins fannst ein tvílembd ær sem Stefá Lárus á.

Eftir göngurnar fór ég til Sigrúnar minnar í Kristnes. Hún var hress og kát að vanda og sýndi mér þessa flottu slæðu sem hún er búin að mála. Frábært að hún getur nú aðeins farið að gera eitthvað fallegt, hún sem hafði svo gaman af að gera einhverja fallega hluti í handavinnu.

Að lokum fór ég svo í fimmtugsafmæli Birgis frænda míns í Gullbrekku. Það var haldið í Funaborg og voru mikil veisluföng, ekki bara í mat og drykk, heldur í skemmtiatriðum þar sem tónlistin var í aðalhlutverki eins og vænta mátti. Takk fyrir fráfært kvöld frændi minn.

19. sept. 2013

Í dag fór ég að útför Guðríðar Ármannsdóttur ljósmóður frá Myrká. Ég held að segja megi með sanni að Guðríður var síðasta sveitaljósmóðirin hér í sveit. Lengst af síns starfsaldurs vann hún nú reyndar á sjúkrahúsinu á Akureyri. Það er nú nokkuð langt síðan það lagðist af að konur fæði hér heima í sveitinni. Mér er nær að halda að ég hafi verið þátttakandi í að sækja Guðríði til einhverrar sinnar síðustu ljósmóðurstarfa hér í sveit, þegar frænka mín fæddist hér á Staðarbakka 9. janúar 1967. Þá var hún sótt til Akureyrar og það var heldur erfið vetrarfærð, ég man vel hvað Guðríði þótti ferðin sækjast seint og hún réri ákaft í bílum ef það mætti verða til þess að fljótar gengi að komast í gegnum skaflana. Guðríður elskaði sveitina sína og notaði hvert tækifæri til að komast heim í Myrká til að hjálpa þar til við bústörf og annað sem til féll, en lengst af var hún þó búsett á Akureyri. Guðríður hafði létta og káta lund, einnig var hún mjög greiðvikin og vildi öllum vel gjöra. Hún var einnig mjög virt í sínu fagi og mjög margar konur minnast hennar með hlýhug og þakklæti frá sínum barnsfæðingum og þeim fannst þær vera í einstaklega góðum höndum ef Guðríður var við fæðinguna. Hafi Guðríður þökk fyrir samfylgdina í þessum heimi og veri hún Guði falin.

 

18. sept. 2013

Þá liggja niðurstöður frá slátruninni í dag fyrir og þar kemur fram eins og mig grunaði eftir að lömbin voru vegin á fæti og ég fann hvað þau voru holdmikil að fallþunginn er talsvert meiri en lífþunginn gaf til kynna. Meðalfallþungi var 17,60 kg. sem er meira en verið hefur hér áður. Holfyllingartala var 10,17 og fitutala 7,53. Þetta eru svipaðar tölur og úr 1. slátrun í fyrra, fitutalan þó aðeins lægri einkum þegar tekið er tillit til þess að lömbin eru nú 630 gr. þyngri. Ég er bara ánægður með þessa útkomu ekki hvað síst þegar það er haft í huga, að þetta er um 80% af sláturlömbunum þetta haustið. Sjálfur fór ég ekki vestur að þessu sinni, heldur var ég að hjálpa Stefáni Lárusi að vigta lömbin, sem vigtuðu ágætlega og var meðalvigtin 40,5 kg.

 

17. sept. 2013

Það var flutt 641 kind héðan vestur á Blönduós í dag, sem slátrað verður hjá SAH Afurðum á morgun. Snæbjörn, og tilvonandi doktor Geiri komu að hjálpa okkur að reka inn og setja á bílana.

Í dag var þessi aldni höfðingi borinn til grafar. Hann var lengst af bóndi á föðurleifð sinni, Stóra-Dunhaga í Hörgárdal eða í nærfellt hálfa öld. En þegar þau Halldóra Snorradóttir kona hans brugðu búi um síðustu aldamót, fluttu þau til Akureyrar og hafa átt þar heima síðan. Arnsteinn var góður bóndi og það var einstakleg vel um allt gengið í Stóra-Dunhaga. Hann var líka kvaddur til ýmissa félagsstarfa af samferða fólki sínu á lífsins leið. Enda var hægt að treysta því að þar var öllu sinnt af trúmennsku og samviskusemi. Auk almennra samskipta sem bændur hafa sem búsettir eru í sömu sveit, áttum við Arnsteinn samleið í félagsstörfum. Í því sambandi minnist ég þess sérstaklega, með gleði í huga, þegar Arnsteinn boðaði okkur Hauk í Þríhyrningi til fundar við sig heima í Stóra-Dunhaga, allmörg haust, til að jafna niður sláturfé í Skriðudeild KEA, en saman mynduðum við stjórn deildarinnar og ekki skemmdu veitingarnar hjá Halldóru eftir fundinn. Leiðir okkar Arnsteins lágu líka saman á leiksviðinu á Melum, síðast árið 2000, þegar við báðir lékum okkar síðasta hlutverk. Á leiksviðinu sem og baksviðs var nærvera hans traust og góð. Um leið og ég vil þakka Arnsteini ljúfa samveru á þessu tilverustigi bið ég honum allrar blessunar á því næsta. Enn er þó m.a. eitt ótalið sem Arnsteinn hafði til brunns að bera, hann var mjög vel hagmæltur og oftar en ekki nutu sveitungarnir þess þegar haldnar voru skemmtanir á Melum. Í lokin læt ég hér fylgja tvær tækifærisvísur eftir Arnstein.

 

Vaknar sól og við mér hlær,

vorsins klukkur tifa,

fannir bráðna, grasið grær,

gaman er að lifa.

 

Þegar héðan fer ég frá,

feginn vildi geta þá,

útaf fallið eins og strá,

afskorið með beittum ljá.

16. sept. 2013

Í morgun var hér alhvít jörð. Það byrjaði að festa í gærkveldi og svo var einhver hraglandi í nótt og fram á dag. Ég fór eins og nokkur undangengin ár að hjálpa Stefáni Lárusi á Ytri-Bægisá að draga í Þverárrétt í Öxnadal. Það gekk ágætlega þrátt fyrir heldur kalsaveður.

 

14. sept. 2013

Allt féð var rekið inn í dag og öll lömbin vigtuð og lömbin sem á að slátra í næstu viku flokkuð frá og sett á túnið utan við merkin. Ærnar og afgangurinn af lömbunum var allt sett fram í Landshólf. Það vigtaði aðeins lakara en í fyrra, meðalvigtin núna var 39,7 kg. á móti 40,5 í fyrra. Það sem vakti sérstaka athygli mína við lömbin núna er hvað þau eru einstaklega holdmikil, ég minnist varla að hafa tekið á svona holdgóðum lömbum heilt yfir. Það kæmi því ekki óvart að reyndist af þeim betra fall en lifandi þunginn gefur til kynna. Eftir vigtun fórum við svo á nágrannaréttir, þar sem réttað var í dag. Að vanda áttum við fátt fé þar, það er sjaldnast nema um eða innan við 10 kindur sem við fáum annars staðar en hér í heimarétt á hverju hausti.

 

13. sept. 2013

Það var réttað í Staðarbakkarétt klukkan rúmlega 10 í morgun. Að vanda gengu réttarstörfin fljótt og vel fyrir sig og var allt uppdregið um kl. 12:30. Það er að vísu ekkert dregið í þessari rétt heldur er féð flokkað í dilkana úr mjóum gangi sem liggur meðfram þeim. Mest er þetta nú heimafé, en örfáar kindur af næstu bæjum og svo voru um 160 skagfirskar. Veður var alveg skaplegt, hæg vestanátt og úrkomulaust að kalla.

Hér er Ingvar albúinn að fara með barnahóp á réttina.
Gott var að gæða sér á hangikjötinu hjá Sólveigu að loknum réttarstörfunum.

 

12. sept. 2013

Eins og sjá má á myndinni hefur heldur skipt um veður frá því í gær. Fram undir hádegi var mjög hvöss vestanátt með slydduhryðjum. Það var svo vont að það var alls ekki farandi í göngur. Laust fyrir hádegið fór heldur að sljákka í veðrinu, þannig að við lögðum af stað í göngurnar upp úr kl. 12. Í dag átti að ganga Hörgárdal að vestan og Flögudal. Vegna veðurs og þess hvað við lögðum seint af stað var ekki farið í botna eða efst upp, enda varð maður að vera nokkuð viss að ná að ljúka göngunum fyrir myrkur. Þrátt fyrir allt gekk bara nokkuð vel, en það var mjög vont að sjá féð þar sem náði að festa snjó og svo var færð farin að spillast uppi, komnir skaflar í lautir og skorninga. Allt hafðist þetta fyrir myrkrið og voru síðustu kindurnar komnar í réttarhólfið um kl. 19.

 

11. sept. 2013  1. göngur

Gangnamenn tilbúnir til brottfarar á gamla heyvagninum, sem ég hef flutt gangnamenn á fram á vegarenda um langt árabil og svo kindur til baka sem gefast upp á leiðinni. Þessi ferð varð að vísu svolítið frábrugðin öllum mínum fyrri. Vegarslóðinn er orðinn mjög vondur, einkum eftir þá bleytutíð sem verið hefur undanfarið. Því lenti ég í því núna að velta vagninum á hliðina með öllum gangnamönnunum innanborðs, en sem betur fór slasaðist enginn þótt ég velti þeim úr vagninum. Heppinn karlinn þar.

Hér eru við komnir fram á vegarenda, það er að segja fram á Háaleiti, sem er um 8 km. fyrir framan Staðarbakka. Hér skipar gangnaforingi mönnum hvar þeir skuli leita. Á myndinni eru allir nema kallinn (gangnaforinginn) sem tók myndina. Í baksýn má sjá hæstu nibbu Ólafarhnjúks gnæfa yfir brún Hörgárdalsheiðar, en hægramegin er svo Begguklöpp, sem er alveg niður við Hörgá.
Safnið að verða komið heim eftir velheppnaðan gangnadag og ekki annað vitað en það hafi smalast mjög vel. Veður að mestu gott, en það gerði þó vænan skúr á okkur þegar við vorum fram í botni Hörgárdals og raunar slyddu á þá sem voru efstir.

 

10. sept. 2013

Þá eru göngurnar alveg að bresta á, það verður lagt í 1. göngur austan Hörgár og á Grjótárdal í fyrramálið. En það er fleira sem þarf að huga að en að etja kappi við sporléttar sauðkindur, sem eru ekkert á því að lúta í lægra haldi og þar með að tapa sínu unaðslega sumarfrelsi. Jú það þarf líka að fæða þreytta gangnamenn að loknu góðu dagsverki. Nú er hún Sigrún mín fjærri að þessu sinni, en hún hefur alltaf verið með veislumat fyrir gangnamennina þegar heim er komið úr göngum. En nú þurfti að finna önnur ráð. Ragna Hugrún vinkona okkar og Ásgerður systir ætla að sjá um að steikja læri á morgun og svo taka Sólveig Elín og Tómas Leonard við matseldinni frá fimmtudegi og fram á helgi. Þetta leystist því eins og annað og er í góðum höndum. Ragna kom í kvöld og á myndinni er hún búin að leggja á borðið til fyrramálsins, svo gangnamennirnir geti fengið sér hressingu áður en lagt er í göngurnar.

 

9. sept. 2013

 

Í dag er hann Gauti Heimir 13 ára, þessi góði og fallegi drengur. Amma og afi senda þér Gauti okkar innilegar afmæliskveðjur og megi góður Guð vera með þér um ókomin ár.

 

7. sept. 2013

Í dag rákum við inn það fé, sem var innan girðinga og vigtuðum lömbin. Þetta fyrsta sýnishorn af því hvernig lömbin koma til með að reynast á þessu hausti lofar heldur góðu. Þessi lömb vigtuðu frá 31 kg. og uppí 55 kg.

 

 5. sept. 2013

Í dag er hann Tómas Leonard, þessi litli snáði orðinn 6 ára. Hann var glaður og kátur með daginn, enda orðinn dálítið forframaður búinn að kveðja leikskólann Hólmasól og byrjaður í Brekkuskóla.

 

Hann bauð afa að koma með sér og Sollu mömmu að borða á Greifanum í tilefni dagsins.

Hann fékk svo þennan fína afmælisís frá Greifanum.
 
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 716
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 68280
Samtals gestir: 17451
Tölur uppfærðar: 14.5.2024 14:55:44
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar