Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir júní 2009

    30. júní 2009

Ýris, Kristín Lára og Sólveig Lilja  Í dag varð Kristín Lára fjögurra ára og bauð hún okkur í þessa fínu afmælisveislu. Á myndinni er hún með vinkonu sinni og systur og er að fara að blása á kertin fjögur.










    29. júní 2009

Sigrún, Jónas og Guðrún  Í dag var heitasti dagur sumarsins til þessa hitinn fór yfir 20° þótt sólar nyti lítið og í morgun voru smá skúrir.
  Jónas (Castró) og Guðrún komu í heimsókn í dag og borðuðu kvöldmat hjá okkur. Úrvals lambahrygg, að sjálfsögðu af okkar eigin ræktun.
  Ég var að moka út vetrarskítnum undan Flögu-ánum í dag.





    26. júní 2009

Flögu-ærnar réttaðar til rúnings Við rúðum Flögu-ærnar í dag og slepptum þeim, þær voru frelsinu fegnar og rásuðu glaðar til fjalla. Veður var þokkalegt, sólarlítið og 12 - 14° hiti.












    23. júní 2009

Yngsta kynslóðin í "Jósep segir" Ferðafélagið Hörgur var með Jónsmessunæturvöku í Baugaseli í kvöld, líkt og árleg venja hefur verið allt frá stofnum félagsins, 23. júní 1981. Nokkuð hefur verið misjöfn mæting í gegnum árin, allt frá um 40 og upp í fast að 300 manns þegar flest var. Mestu um aðsóknina ræður veðrið og svo hvort vinnandi fólk þarf að mæta til vinnu að morgni, þótt flestir dagar séu nú eins fyrir okkur bændafólkið. Í kvöld var með fæsta móti í Baugaseli, það skrifuðu aðeins 42 í gestabókina, enda fór það nú saman að veður var fremur svalt og blautt og á morgun er svo venjulegur miðvikudagur. Við Sigrún fórum ögn á undan fólkinu til að flagga auk annars smávægilegs undirbúnings. Ég hef raunar í öll þessi 29 skipti haft þann starfa að vera svona undanfari og er sá eini sem hef mætt í hvert einasta skipti í þessi 28 ár.  
  Hér má sjá fleiri myndir frá kvöldinu:  http://album.123.is/?aid=151043

    21. júní 2009

Í Staðarbakkarétt  Í kvöld kom fjallskilanefnd saman til fundar hér á Staðarbakka. Við vorum meðal annars að tímasetja göngurnar á komandi hausti og gerðu svofellda bókun um þær:
  "Tímasetning gangna haustið 2009 rædd. Ákveðið var að höfðu samráði við fjallskilastjóra nágrannasveitarfélaga að flýta göngum í Hörgárbyggð um eina viku, frá þeim tíma sem mælt er fyrir um í fjallskilasamþykkt. Fyrstu göngur verða því í Hörgárbyggð, frá miðvikudeginum 9. september til sunnudagsins 13. september. Aðrar göngur verða svo viku síðar."  
  Þetta þýðir að 1. göngur hér í fremstahluta Hörgárdals og Flögudal verða 9. og 10. september og Staðarbakkarétt þann 11. september.


    20. júní 2009

Margrét, Guðrún Margrét, Jón Birgir, Tómas Leonard og Hákon Þór  Í dag héldu þeir Dvergagilsbræður uppá afmælin sín, þó hvorugur þeirra eigi nú afmæli í dag. Jón Birgir varð 14 ára þann 18. júní, en Hákon Þór verður 12 ára á morgun. Okkur var boðið og á eftir kíktum við í Helgamagrastræti og til Jónasar og Guðrúnar, en þau eru í sjómannaíbúðinni við ráðhústorgið núna.








    18. júní 2009

Graðfolar komnir í hólfið  Í kvöld komu félagar í Framfara með graðfola sína 20 stykki til sumardvalar í hólfi hér, líkt og undanfarin sumur.
  Við Sigrún fórum í kvöld á aðalfund Ferðafélagsins Hörgs, sem haldinn var að Möðruvöllum 3. Þar var auk venjubundinna aðalfundarstarfa kynnt það, sem verður í boði hjá félaginu í sumar. Þar má nefna "giljagöngu" sem er þannig að í byrjun ágúst verða á hverjum degi í heila viku skoðuð áhugaverð gil, flest í Hörgárbyggð. Þá verða allir hefðbundnir viðburðir eins og þeir hafa tíðkast á umliðnum árum.


    15. júní 2009

Grillað í Skógarhólum í Fnjóskadal  Við fórum í bæinn í dag og tókst meðal annars að fá græna miðanum sem við fengum á bílinn okkar í síðustu viku, skipt út fyrir annan betri sem endist fram á næsta ár. Í kvöld var okkur svo boðið í grillveilu austur í Fnjóskadal, nánar tiltekið í sumarbústað í Skógarhólum. Þar er Guðdís Helga Jörgensdóttir með bústað ásamt foreldrum sínum, þeim Jörgen Þór og Hrefnu svo og bróður sínum Hrafni þóri og Maríu konu hans og börnum þeirra Tryggva og Söru. Þetta var hið ágætasta kvöld í skógivöxnum Fnjóskadalnum, þar sem snætt var grillað lambakjöt hjá góðu fólki. Þess má geta að þau systkini Guðdís og Hrafn Þór voru hér í sveit á unglingsárum, þó ekki samtímis.

    14. júní 2009

Melrakki á ferð  Í dag voru hér grenjaskyttur á ferð og leituðu þær galvaskar á öllum þekktum grenjum hér fremst í Hörgárdal. Ekki urðu þeir nokkurs varir og sáu ekki svo mikið sem skollahár í grenismunna. Það er því líklegt að maður sleppi við tjón af völdum melrakka þetta vorið, eða hvað? Þegar ein skyttan ók á brott héðan úr hlaði á sínum vélfák, tókst henni með snarræði að murka lífið úr einu lambi með því að aka yfir það. Það skyldi nú ekki vera, að það verði meira tjón af tófubönunum  en sjálfum dýrbítnum þetta vorið?


    13. júní 2009

Daníel Atli Stefánsson á fermingardaginn  Við fórum í fermingarveislu Daníels Atla Stefánssonar að Klifshaga í Öxarfirði. Jónas og Guðrún voru með okkur í för frá Akureyri, í glaðasólskini og blíðskaparveðri. Þetta var fyrirmyndar veisla, sem haldin var heima í Klifshaga. Boðið var uppá framúrskarandi lambakjöt og kjúkling í aðalrétt og á eftir kaffi með "hnallþórum".





    11. júní 2009

Sólveig Elín að bera blóm inn í nýja heimilið  Í dag var ég að hjálpa Sólveigu Elínu að leggja lokafrágang á íbúðina í Helgamagrastræti fyrir flutninginn þangað neðan úr Ránargötu 2. Í kvöld var svo flutt, það var harðsnúið lið sem kom að því. Tommi fór tvæt ferðir með sendlabílinn sinn og svo var heilmikið burðarlið, sem var auk okkar Sólveigar: Helga, Jón Birgir, Beta, Denni, Anton, Guðjón, Ingvar og Sigurgeir. Það kom sér ágætlega að þetta var vel liðað, þar sem íbúðin sem var verið að bera út úr er á tveimur hæðum og hin stendur í nokkrum bratta þannig að það eru þó nokkrar tröppur upp að henni. Búið var að koma öllu inn upp úr kl. 22 og bauð þá hinn nýi húsráðandi upp á smá hressingu áður enn hið vaska flutningslið hélt til síns heima. Við Sólveig fórum þá að koma smá skykki á búslóðina, raða húsmunum fyrir í þeim stöðum sem þeim er ætluð framtíðarvera og hagræða kössum og öðru lausa dóti, að þessu vorum við þar til klukkan að ganga tvö en létum þá staðar numið, enda  fannst okkur þá allt vera farið að taka á sig furðu góða mynd og við orðin örþreytt eftir langan og annríkan dag. Ók ég svo í sveitina í lágnættinu og hitti fyrir heima Tómas Leonard og ömmu hans sem hann hélt vöku fyrir, ekki með leiðindum heldur miklum ræðuhöldum á sínu smábarnamáli. Verst að skilja ekki það sem hann er að segja, en það fer nú að styttast í það enda pilturinn kominn hátt á annað ár. Tómas og amma hans voru sem sagt í kyrðinni í sveitinni á meðan á flutningunum stóð. Að lokum er svo ljúft að óska þeim mæðginum innilega til hamingju með nýja heimilið og óska þess að þeim megi þar vel farnast.
Fleiri myndir má sjá hér:


  10. júní 2009

Útigengin ær með veturgamlan son og lamb  Í morgun hringdi Þórarinn Magnússon fjallskilastjóri í Akrahreppi, í mig til að tilkynna mér að handsamaðar hefðu verið útigengnar kindur við afréttargirðingu þeirra í Akrahreppnum skammt fyrir framan bæinn Fremri-Kot. Reyndust þetta vera fullorðin ær héðan frá Staðarbakka með veturgamlan son og vorlamb og veturgamall hrútur frá Kúskerpi í Akrahreppi. Búið var að koma kindunum í aðhald við afréttargirðinguna.
  Við fórum svo síðdegis og náðum í kindurnar. Þessa á vantaði í fyrrahaust ásamt tveimur lambhrútum, en skilar sé nú aðeins með annann þeirra, telja verður mjög líklegt að hinn hafi drepist í vetur miðað við ásigkomulag þessarra kinda, bæði ærin og veturgamli hrúturinn eru mjög mögur þótt talsvert hornahlaup væri komið á hrútinn, en vorlambið er státið, trúlega fætt snemma í maí.
Lagt af stað heim með útigangana  Búið að koma útigöngunum á bílinn og verið að leggja af stað heim með þá.














Útigangarnir komnir heim  Hér eru þau komin heim og búið að marka og merkja lambið. Ekki varð annað séð á ánni, sem er orðin 5 vetra, en hún væri bæði fegin og hissa að vera allt  í einu komin á kunnuglegar slóðir. Hún snuðraði um réttina og leit aðeins inn í fjárhúsin eins og hún vildi segja að gott hefði nú verið að vera þarna inni í hlýjunni í vetur og fá hey á garðann kvölds og morguns, í stað þess að svelta vestur á Hörgárdalsheiði í illviðrum vetrarins. Ja, svona eru örlögin óútreiknanleg.



Í Kinnum á Öxnadalsheiði  Á heimleiðinni rákumst við á þessar kindur í Kinnum á Öxnadalsheiði, en það er landsvæðið framan Krókár. Þetta eru án nokkurs vafa einnig útigengnar kindur að okkur sýndist tvævetur ær og tvær veturgamlar. Tvævetlan er eins og sjá má á myndinni í alullu, en þær veturgömlu alveg gengnar úr, sem bendir nú til að þær hafi nú ekki búið við neitt sérstakt atlæti í vetur. Þessar kindur munu allar vera úr Akrahreppi. Þess má að lokum geta að fleira útigengið fé hefur komið þar fram í vor.



    9. júlí 2009

Sólveig Elín og ég að mála í Helgamagrastrætinu  Núna þegar sauðburðarönnunum er að mestu lokið, er hægt að fara að snúa sér að einhverju öðru.  Ég var í gær og dag að hjálpa Sólveigu að mála og laga íbúð sem hún er búin að taka á leigu í Helgamagrastræti á Akureyri. Okkur tókst að mestu að klára íbúðina, enda var hún komin vel á veg með hana áður. Þannig að nú er stefnt að flutning í hana á fimmtudaginn 11 nk.  
  Þetta var hin ágætasta tilbreyting og gott að komast aðeins í annað umhverfi eftir rúmlega mánaðar törn í sauðburði, þar sem ekki gefst tóm til að gera eða hugsa um neitt annað en hann. 
  Sigrún passaði Tómas Leonard á meðan og var einnig að stússa í ýmsu, fór meðal annars með bílinn okkar í skoðun og nældi sé þar í grænan miða.


    4. júní 2009

Upphaf áburðardeifingar 2009  Fyrir örfáum dögum bárust fréttir af því á öldum ljósvakans, að sláttur væri hafinn á suðurlandi. En hér í norðlenskum dal í 275m hæd yfir sjó var byrjað að dreifa tilbúnum áburði á tún í dag. Það var blíðviðri í dag glaðasólskin og hlýtt, þannig að maður sá nánast grasið gróa. Tún eru orðin vel græn, en úthagi er nokkuð grár enn. Aðeins vottar fyrir kali í túnum en það mun þó ekki valda teljandi uppskerubresti.




Suður og niður í Gili í dag  Hérna suður og niður í Gilinu er sá staður sem snjó tekur vanalega síðast upp á vorin í næsta nágrenni við bæinn. Ég tók meðfylgjandi mynd í kvöldsólinni, þar sem sjá má að þarna eru enn eftir smá snjóleifar frá vetrinum, aðeins í um 150m frá bænum. Þetta er þó alls ekki óvanalegt og oft sem snjór endist þarna lengra fram á sumarið. Metið frá síðari árum, frá því eftir snjóaveturinn mikla 1995 verður þó vonandi ekki slegið í bráð, þá tók snjóinn ekki upp þarna fyrr en 4. september. Ótrúlegt en satt!


Ásgerður systir að reka lambær  Við vorum að fara með lambfé í Flögu og Nýjabæ í dag til að rýmka á því hér á heimatúninu. Ásgerður systir kom og hjálpaði okkur við það. Á myndinni má sjá hana í blíðunni við rekstur lambánna.











    1. júní 2009

Félagarnir Doddi og Tómas Leonard  Þá er maí mánuður á enda runninn, sem betur fer, enda er hann lang erfiðasti mánuður sauðfjárbóndans og vinnuálagið oft á tíðum ómanneskjulegt alla vega, þegar aldurinn færist yfir mann.
  Við höfum fengið ágæta hjálp frá vinum og vandamönnum, sem í dag hurfu á braut til að sinna sínu venjubundna lífi. Þetta voru þau: Sólveig, Tómas Leonard, Doddi og Beta. En áður voru búin að hjálpa okkur þau: Jósavin H. Sara Hrönn, Anton og Ásgerður Svandís ofl. Við þökkum þeim innilega fyrir alla hjálpina.
Flettingar í dag: 676
Gestir í dag: 291
Flettingar í gær: 716
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 68545
Samtals gestir: 17675
Tölur uppfærðar: 14.5.2024 23:03:19
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar