Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir sept. 2012

    26. sept 2012

  Við Gestur fórum á Blönduós í dag ásamt Stefáni Lárusi, til að fylgja eftir sláturfénu. Aðalslátrunin var nú reyndar frá okkur þann 19. þ.m. þá var slátrað 642 lömbum og 26 ám. Í dag voru þetta bara 76 lömb (í báðum tilfellum Gests kindur meðtaldar).
Útkoman er nokkuð góð, meðalvigt 17 kg. gerðartala 10,1 og fita 7,4.


















    24. sept. 2012

  Við rákum inn í dag það fé sem kom núna í öðrum göngunum og vigtuðum lömbin. Ekki er alveg hægt að segja nákvæmlega til um heimtur, líklega vantar 20 til 25 lömb og um 10 ær. Þetta er nú heldur meira en við eigum að venjast, en verður nú að teljast vel sloppið þegar hugsað er til veðurhamfaranna þann 10. sept.


    23. sept. 2012


Síðari dagur annara gangna var í dag, þegar smöluð var Ásgerðarstaðaheiðin og Flögudalurinn. Á myndinni er ég kominn með nánast fullan gamla vagninn af gangnamönnum til að flytja þá fram á Flöguselshóla, þar sem liðinu var dreift á gangnasvæðið. Á Fögudalinn fór annar hópur ríðandi. Veður þessa gangnadaga var fremur milt þannig að það hefur tekið talsvert af snjónum. Það kom á annað hundrað fjár mest úr Ásgerðarstaðaheiðinni, enda hefur hún ekki verið smöluð áður á þessu hausti. Smalamennskan gekk vel og náðist allt það fé sem sást. Á tveimur stöðum fundust dauðar kindur þar sem dauða þeirra má rekja til þess mikla snjávar sem gerði þann 10. þ.m. Á Flögudal fannst eitt lamb fast í skafli, tófu étið og er trúlegt að hún hafi murkað lífið úr því ósjálfbjarga í fönninni. Svo fundust fjórar kindur hér út og upp í Sveignum, ofan í lækjarfarvegi, sem er þar milli gróinna bakka. Tvær af þessum kindum voru dauðar, það var ær og lamb sem Gestur átti, svo voru tvö lömb skagfirsk, annað þeirra var nokkuð hresst en hitt var orðið nokkuð þrekað, bæði gengu þau nú samt heim í rétt.  

    22. sept. 2012

Hjörvar, María, Hrafn Þór, Vignir, Jón Birgir, Gestur, Gunnar, Sunna og Denni
  Farið var í aðrar göngur hér fremst í Hörgárdalinn í dag. Á myndinni er hluti af þeim gangnamönnum sem fóru fram eftir. Þeir sem fóru lengst voru farnir á undan, það voru þeir: Anton, Mummi, Gauti og Halldór. Það fé sem fannst fremst var skagfirsk ær með þrjú lömb, nokkru framan við Illagil, sem er nú nánast fram í botni. Það náðist reytingur af fé, bæði heimafé og skagfirskt.  Það komu gangnamenn víða að til að aðstoða okkur t.d. frá: Akureyri og Reykjavík auk sveitunga okkar.
Á Sandáreyrum  Eins og sjá má á þessari mynd er enn mikill snjór fremst á dalnum og var svolítið þvælið að koma fénu um þarna.















    16. sept. 2012

Sólveig Elín og pönnukökurnar  Það var nú ekki mikið tekið af myndum þessa tvo annadaga, það er að segja í gær og í dag. En þessi var tekin af Sólveigu Elínu, þegar við komum inn frá því að vigta lömbin í dag. Þá var hún búin að gera þennan feikna stafla af pönnukökum handa vigtarliðinu, sem hún reyndar var hluti af, en var leyst af undir lokin, til að hægt væri að metta tóma maga, að loknu góðu dagsverki. 

Það var réttað hér í gær í þokkalegu veðri. Þetta var nú allt heldur með óhefðbundnu sniði. Fæst af fénu var komið í réttarhólfið. Þannig að það þurfti að smala því sunnan úr Seli og úr hólfinu hérna á móti. Allt gekk þetta nú samt fyrir sig. Það var færra fé en venja er vegna þess að enn hefur ekki tekist að smala alls staðar t.d. er Ásgerðarstaðaheiðin nánast alveg ósmöluð. Það kom þó síst færra fé hér úr Skagafirði en venja er, eða hátt í 140 kindur. Öldnu kempurnar Árni á Uppsölum og Sæmundur á Syðstu-Grund komu hér til að hirða það eins og þeir hafa gert um árabil.

  Í dag var svo heimaféð rekið inn og öll lömbin vigtuð, einnig voru þau lömb sem eiga að fara í sláturhús núna í vikunni tekin frá. Þrátt fyrir hrakninga undanfarinna daga og hálfgert svelti, vigtuðu lömbin með besta móti, enda sólríkt og gott sumar að baki. Eftir lauslega skoðun vantar um 200 lömb á bænum, en ekkert er vitað enn með heimtur á fullorðnu fé. Þótt þetta sé miklu verri heimtur en við eigum að venjast eftir fyrstu göngur, er maður nokkuð bjartsýnn um að þetta eigi eftir að skila sér að mestu. Ég er enn þeirrar skoðunar að fé hafi ekki fennt, enda ekki skafið hér í skafla nema helst fram í dalabotnum.  


    14. sept. 2012

  Í dag hefði átt að rétta hér í Staðarbakkarétt, en vegna þessarra óvenjulegu aðstæðna, sem nú ríkja var því frestað um einn dag. Þess í stað var haldið áfram að reyna að tína saman féð. Farið var á Flögudalinn og í Nýjabæjarfjallið. Til viðbótar við það harðsnúna lið gangnamanna, sem eru búnir að vera hér við þessar óvenjulegu smalanir undanfarna tvo daga, komu nú þrír vaskir sveinar frá hjálparsveitinni Súlum á Akureyri og aðstoðuðu okkur á Flögudalnum.  Öllu þessu gangnafólki síðustu þriggja daga þökkum við af heilum hug frábæra aðstoð við þessar erfiðu aðstæður.



  
    13. sept. 2012

  Í dag var farið hér fram á miðjan dal og haldið áfram við að koma fénu heim, þar sem frá var horfið í gær. Það var einnig farið upp í Grjótárdalsmynnið og sóttar þangað nokkrar kindur. Þetta gekk allt  þokkalega  
og náðist að koma því fé heim sem fannst.
En eins og sjá má á myndinni er mjög erfitt fyrir það að ná til jarðar.










  Þreyttir gangnamenn komnir heim að kveldi og sestir að snæðingi í eldhúsinu hjá frúnni.

















    12. sept. 2012


Farið var í mjög óvenjulegar göngur í dag. Það er reyndar réttur gangnadagur. Það var geysilega erfitt að ná fénu saman vegna ófærðar, en þetta var harðsnúið gangnalið þannig að það náðist þó nokkuð af fé. Það varð líka talsvert eftir vegna þess að dagurinn var búinn og við þurftum að koma því sem við náðum heim í Selsgirðingu fyrir myrkur. Við bræður fórum á tveimur dráttarvélum og gerðum slóð fyrir féð þar sem því var við komið. Ef ekki hefði verið hægt að þrælast svona á þeim hefði þetta verið margra daga verkefni.
Klukkan var farin að ganga 9 þegar við gátum sest að snæðingi hjá frúnni við heimkomuna.
 
Hér eru ær með lömbin sín, innilokaðar af snjó og nánast í svelti.  


    11. sept. 2012

Það var hætt að hríða í morgun þannig að snjódýptin endaði í 50 cm. Við vorum að huga að fénu í dag og fórum á traktor fram á vegarenda og er þar enn meiri snjór, trúlega 70 til 80 cm. Við sáum nokkuð af fé sem hafði það sæmilegt að öðru leyti en því að það nær illa til jarðar vegna snjóa. Meiningin er að fara aftur á morgun og reyna að safna því saman og koma því heim. Það var einnig náð í 80 til 100 fjár sem var hér ofan við girðingar og því komið inn fyrir. Það eru hverfandi líkur á að fé hafi fennt hér, þótt ekki sé hægt að útiloka það. 


    10. sept. 2012  Snjóadagurinn mikli!

Kl. 21:30 það hefur snjóað án afláts í allan dag en það virðist nú fyrst vera að draga úr úrkomunni núna. Ég var að mæla snjódýptina núna og er hún 48 cm. Það má held ég teljast fátítt að svona mikið snjói á um 20 klukkustundum og er þá ekki undanskilin snjókoma um hávetur. Rafmagn fór hér af kl. að ganga þrjú í dag og kom ekki aftur fyrr en laust fyrir hálf átta í kvöld. 
Það má teljast heldur ólíklegt að farið verði hér í göngur á miðvikudaginn eins og til stóð. Núna er nánast vonlaust að reka fé vegna snjódýptar og þar að auki er snjórinn blautur og þungur þannig að hann hnoðast í féð. Við létum inn hrútana og heimagangana, það var hægt með því að gera slóð með traktor frá þeim stað sem hrútarnir voru og heim að fjárhúsdyrum. Það eru ekki nema tveir dagar síðan þeir voru sóttir fram í hólf, sem betur fer, þannig að þeir voru hérna rétt suður á túninu.  

Það snjóar og snjóar og snjóar!!! Nú kl. 13:15 hefur bætt á nánast jafn mikið og komið var í morgun þannig að snjódýptin er orðin 37 cm. Það er enn logn eins og jafnan er hér í hánorðan átt og oft er þá líka úrkomulaust, en það virðist vera svo mikil úrkoma í þessu núna að hún nær hér yfir fjöllin há.  

Hundunum brá í brún þegar þeim var hleytpt út í morgun, enda sumar þegar þeir komu inn í gærkveldi en nú er eins og sé kominn Þorri með 20 cm jafnföllnum snjó og enn mokhríð.

Já það má segja með sanni að jólasnjórinn sé með fyrra fallinu þetta árið og jólahangikjötið enn á sínum fjórum jafnfljótu fram til fjalla.

Þótt ekki sé nú ófærð er trúlega nokkuð þungfært fyrir litla bíla. Það hefur ekki snjóað svona mikið á þessum árstíma síðan 1979. Þá fór að snjóa um þetta leyti og í dagbókinni minni segir svo þann 15. september ,,Í dag tók alvag steininn úr hvað veðurfar snertir. Í morgun var nokkuð bjart, en um hádegi þyngdi skyndilega í lofti og fór að hríða og er skemmst frá því að segja að vonskuveður hefur verið síðdegis. Golusperringur að norðan og slydda eða hríð  og það eru komnir hnédjúpir skaflar hér í kring"
Þessi ótíð stóð svo nánast allt haustið 1979 og þegar farið var í 1. göngur þann 20. sept. þurfti að setja keðjur á dráttarvélina til að hægt væri að komast fram á vegarenda, sem er um 8 km. hér framan við.
 
Það var mitt fyrsta verk í morgun að berja snjóinn úr trjánum, enda eins og sjá má voru þau að sligast undan snjóþunganum og sumar greinarnar  námu við jörð.
 

    9. sept. 2012

Gauti Heimir, Sigrún og Hjalti  Það eru 12 ár í dag síðan hann Gauti Heimir fæddist á áttugasta og níunda afmælisdegi hennar Guðlaugar langömmu sinnar. 
Myndin var hins vegar tekin í vor þegar Sigrún og Hjalti fóru til Slagelse í Danaveldi til að vera við fermingu Katrínar Valdísar, stóru systur hans Gauta.
Amma og afi í sveitinni senda þér Gauti okkar, bestur kveðjur á afmælisdaginn með ósk um að þú megir eiga góðan dag.





 
  
    8. sept. 2012

Stefán Lárus og ég sjálfur  Við Gestur höfum verið að stilla upp nýju vigtinni og því sem henni fylgir niður í plasthúsi. Við keyptum þetta með Stefáni Lárusi í vor og hann kom til að líta á hvernig þetta liti út hjá okkur í morgun. Eftir hádegi var svo smalað inn öllu fé, sem var innan girðingar og þessi nýja  græja prufukeyrð. Það gekk ágætlega að nota vigtina og aðstöðuganga við hana auk flokkunnar grindar. Meðalvigt af því sem kom var 39,3 kg. sem verður nú að teljast nokkuð gott þegar haft er í huga að í þessum tæplega 100 lamba hóp var bróðurparturinn af þeim þrílembingum sem gengu undir sem slíkir. 


    5. sept. 2012

Tómas Leonard 5 ára  Þá er þessi stúfur orðinn 5 ára. Hann hafði sérstakar óskir um afmælisdaginn. Ekki að hafa afmælisveislu heima og bjóða krökkum, bara að fara á Greifann og borða með mömmu, ömmu og afa. Þá vildi hann helst bara fá legó í afmælisgjafir. Að sjálfsögðu var reynt eftir bestu getu að hafa daginn eftir óskum afmælisbarnsins. Eftir ferðina á Greifann í kvöld var farið í Helgamagra og teknar upp gafir og drukkið kaffi og sneiddar niður ein mömmuterta og önnur ömmuterta. Þá komu líka Jónas, Guðrún og Ragna.
Ég gleymdi einni óskinni um afmælisgjöf, hún var sú að hann bað ömmu sína um 1/2 líter af rjóma því hann væri aldrei til heima hjá honum. Það skorti ekkert á það að amman yrði við þessari sérstæðu ósk.








 
  
   4 sept. 2012

Tómas, Sólveig, Guðrún, Jónas, Gestur og Guðm.  Í dag komu Guðrún og Jónas í bíl með Sólveigu og Tómasi í heimsókn og það var snæddur hinn ljúffengasti lambahryggur. Þetta var kærkomin tilbreyting frá önnum hversdagsins og gaman að þau Jónas og Guðrún skyldu drífa sig norður í eina viku, en þau voru búin að tala um að líklega yrði nú ekkert af því þetta sumarið.








  
  
    2. sept. 2012

Sólveig Lilja  Í dag bauð Sólveig Lilja okkur í afmælið sitt, sem að vísu er ekki fyrr en á morgun en þá verður þessi snót 9 ára gömul.





















Tómas Leonard og Jónas Ragnar  Á eftir fórum við svo í heimsókn til Jónasar og Guðrúnar, sem komu að sunnan í gærkveldi og eru í orlofsíbúð á Akureyri. 
  Á myndinni eru þeir frændurnir Tómas Leonard og Jónas Ragnar.
Flettingar í dag: 200
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 716
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 68069
Samtals gestir: 17423
Tölur uppfærðar: 14.5.2024 09:27:41
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar