Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir febr. 2017

       24. febr. 2017  

 
 
 

Vinur minn Guðmundur Sigvaldason hefur nú orðið að lúta í gras fyrir þeim illvíga sjúkdómi, sem hrífur alltof marga frá jarðvistinni hér langt um aldur fram. Guðmundi kynntist ég fyrst þegar hann kom hér sem sveitarstjóri Hörgárbyggðar, eins og sveitarfélagið hét þá, árið 2006.

Ég var þá fjallskilastjóri og því lágu leiðir okkar fljótt saman varðandi ýmis mál. Maður þurfti ekki löng kynni af Guðmundi til að meðtaka að þar fór maður sem var bæði óvenju traustur og heiðarlegur auk þess sem hann var fljótur að setja sig inn í mál og lagði sig fram um að allt sem hann kom að væri byggt á traustum grunni. Það bar aldrei neinn skugga á samskipti okkar Guðmundar og ég verð ævarandi þakklátur honum fyrir hvað gott vara að leita til hans og alltaf var hann reiðubúinn að liðsinna eftir sinni bestu getu.

Guðmundur var mikill náttúruunnandi og beitti sér mikið í þágu hennar t.d. varðandi flokkun á sorpi, endurvinnslu þess og  moltugerð. Allt var þetta honum mikið hjartansmál.

Nokkrum sinnum fór Guðmundur í göngur fyrir mig, þar naut hann sín til hins ýtrasta, teigaði að sér ferskt og svalt fjallaloftið og naut þess að vera hluti af heild þar sem allir stefndu að sama marki, því að ná misvilltum fjallafálum af fjöllum. Glaður kom hann til byggða og fannst erfiði dagsins og ótaldir svitadropar vissulega hafa verið þess virði að njóta náttúrunnar með félögum sínum.

Nú er göngu þinni lokið í þessari veröld Guðmundur minn, en ég er þess fullviss að áfram munt þú bæta það samfélag sem þú býrð í, þannig ert þú bara.   

Ég veit að þetta eru fátækleg orð, en þau er fyrst og fremst sett hér á blað til að þakka þér vinur fyrir öll okkar samskipti. Fjölskyldu þinni votta ég innilega samúð, hún hefur misst mikið.

 

       2. febr. 2017 Kyndilmessa

Já, í dag er Kyndilmessa önnur af aðalspádómsmessunum hvað veðurfar snertir en hin er Pálsmessa þann 25. janúar. Þær hafa að ég man sjaldan verið eins sammála um góða tíð framundan. Hér er nokkur fróðleikur um Kyndilmessuna:

„Hún er 2. febrúar og heitir líka „hreinsunarhátið blessaðrar Maríu meyjar”. En samkvæmt Móselögum taldist kona óhrein í fjörutíu daga, eftir að hún hafði alið sveinbarn. Og því gekk María með Jesúbarnið til helgidómsins fjörutíu dögum eftir 25. desember til að láta hreinsast. Hreinsunarháttur Maríu sést fyrst getið í Jerúsalem snemma á 4. öld, en er þá reyndar bundin við 14. febrúar, þar sem þá var fæðingardagur Jesú enn talinn 6. janúar. Hátíðin var svo fyrirskipuð árið 524 af Jústiníanusi keisara í Miklagarði, en þar geisaði þá pestnæmur sjúkdómur, og vildu menn treysta því, að María eyddi pestinni. Henni var þá gefið heitið „Fundur Herrans og móður hans með Símoni og Önnu”, sbr. 2. kapítula Lúkasarguðspjalls. Árið 690 skipaði Sergius páfi í Róm, að á hreinsunarhátíðinni skyldi vígja öll þau kerti, sem ætluð væru til kirkjunnar á árinu. Á þessum degi var á miðöldum einnig farin mikil skrúðganga innan kirkju og utan og um kirkjugarð. Bar þá hver maður logandi kerti, bæði klerkalið og söfnuður.

Af þessi öllu fékk hátíðin nafnið missa candelarum sem þýðir kertamessa. Það orð sést oft í íslenskum fornbréfum frá 15. og 16. öld, en fyrir þann tím og eftir siðbreytingu er orðið kyndilsmessa allsráðandi. Ekki er með öllu ljóst, hvernig á því nafni stendur, en benda má á þrjú atriði: hljóðlíkinguna við engilsaxneskuna candel mæssan, en þaðan mun orðið hafa borist í íslensku einsog margt fleira í kirkjumáli, ekki er víst, að á þessum tíma hafi verið glögg skil milli merkingar orðanna kyndill og kerti. Hugsanlegt er, að í áðurnefndri skrúðgöngu utan kirkju hafi reynst ókleift að bera logandi kerti úti í norrænu þorraveðri og því verið notaðir kyndlar. Munnlegar sagnir hafa verið um þær leifar þessa katólska siðar, að leitast hafi verið við að ljóma bæinn upp með kertaljósum meir en ella á kyndilmessu. Laust fyrir aldamót telja þó fróðir menn, að þetta sé löngu útdautt. Á hinn bóginn eimdi lengi eftir af þeirri þjóðtrú, að sólskin á kyndilmessu væri illsviti svo sem segir í þessari alkunnu vísu:

Ef í heiði sólin sést á sjálfa kyndilmessu snjóa vænta máttu mest maður upp frá þessu.

Til eru vitnisburðir um nafngreint fólk, sem svo mikla trú hafði á þessari spá, að það bölvaði sólskini á kyndilmessu eða breiddi jafnvel fyrir glugga, ef sólin skein glatt á þessum degi. Varðandi atvinnulífið er þess annars að geta, að daginn eftir kyndilmessu hófst vetravertíð á Suðurlandi.“

Hér eru svo nokkrar myndir sem ég tók í dag eftir að sól var hnigin til fjalla, en þá reif hann af sér. Eins gott að það gerðist ekki á meðan sól var á lofti.

 

 
 

Hér má sjá Mánann yfir Háafjallinu og ef vel er rýnt í myndina má einnig sjá Venus.

 

Flettingar í dag: 5
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 716
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 67874
Samtals gestir: 17388
Tölur uppfærðar: 14.5.2024 01:47:09
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar