Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir jan. 2007

31. jan. 2007

 

 

Í dag komu Sólveig og Anna sænska keyrandi frá Reykjavík með Grímu (Gímu) með í för, þannig að hún er nú loksins komin í sveitina tæpum tveimur mánuðum eftir að hún slapp úr búrinu sínu á Reykjavíkurflugvelli. Þeim gekk ferðin vel enda færðin nánast eins og á sumardegi. Gríma er nú frekar slöpp ennþá og mjög horuð, en hún er orðin dugleg að éta þannig að hún nær sé vonandi fljótt, litla skinnið.

   

Ég var í dag að undirbúa aðalfund Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps, aðallega að ákveða stað og stund. Fundurinn verður mánudaginn 5. febrúar í Brakanda kl 20:30. Þar mætir að vanda Ólafur G Vagnsson með niðurstöður úr skýrsluhaldi síðasta árs, hann mun líka fjalla um lambhrútaskoðunina í haust sem leið og afhenda farandbikar félagsins og verðlaunapening fyrir besta lambhrútinn í félaginu.

 

29. jan. 2007

 

Við Sigrún skruppum í Brakanda í kvöld og áttum þar ánægjulega kvöldstund með þeim hjónakornunum Viðari og Elínrósu.

 

27. jan. 2007

 

 

 Gíma komin í faðm "mömmu sinnar"

 

Hið árlega þorrablót er haldið á Melum í kvöld, örugglega mikið fjör!!! Við Sigrún fórum ekkert vegna þess hvað hún er búin að vera lasin, hún er þó á batavegi, en ég vildi ekki fara.

 

26. jan. 2007

 

Gíma er búin að fara í læknisskoðun. Kom þar í ljós að hún er mjög illa farin af langvarandi næringarskorti, eins og reyndar má sjá á myndunum hér að neðan sem teknar voru í morgun, vöðvar allir orðnir mjög rýrir þannig að hún er mjög máttfarin og ber líka merki um hræðslu og öryggisleysi. Henni var gefin næring í æð og sýklalyf auk einhvers meira. Hún er núna undir verndarvæng Önnu Jónsdóttur óperusöngkonu. Eigandinn Sólveig Elín er væntanleg frá Svíþjóð á morgun til að reyna að hressa hana við. Reiknað er með að hún flytji Gímu sína hér norður í Staðarbakka fljótlega, sem verður þá tæpum tveimur mánuðum seinna en upphaflega stóð til. Vonandi að allt endi þetta vel, því Gíma er mætur köttur og á skilið gott atlæti, eins og raunar öll dýr.

 

 

Aumingja Gíma ósköp eru að sjá hana!

 

 

 

 

25. jan. 2007

 

Gíma fundin!

Var fönguð af hjónum í Skerjafirðinum um kl. 22 í gærkveldi, eftir 7 vikna útivist síðan hún slapp úr búrinu sínu á Reykjavíkurflugvelli, þegar átti að flytja hana norður í Staðarbakka. (Sjá frétt 7. des. í "Eldri fréttir- des."

Gríma gömul mynd

 

 

22. jan. 2007

 

Það er búið að vera talsvert frost og stillur undanfarna daga, en í dag dró verulega úr frosti og nú í kvöld er hiti rétt um frostmark. Það hefur verið vestan belgingur og nokkurt renningsskrið í dag þótt ekki sé nú mikill snjór á jörðu.

Á laugardaginn (20.) sóttu eigendurnir graðhestana, sem eru búnir að vera hér í vörslu síðan í júní, fyrir hestamannafélagið Framfara. Þetta voru 17 veturgamlir folar. Í sumar og fram í nóvember voru þeir á Nýjabæ, en eftir það voru þeir í hólfunum norðan við Flögu og voru þeim gefnar rúllur þar, 1 rúlla annanhvern dag.

Í kvöld horfðum við á Íslendinga leggja Frakka á heimsmeistaramótinu í handbolta 32 / 24. Þetta var alveg frábær leikur, líklega einhver besti leikur sem Ísland hefur átt.

 

17. jan. 2007

 

Í gærkveldi var stjórnarfundur í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps, haldinn á Þúfnavöllum. Stjórn þessa ágæta félags skipa auk mín (Guðmundar Skúlason) sem er formaður, Guðmundur Sturluson á Þúfnavöllum ritari og Gunnar Gunnarsson í Búðarnesi gjaldkeri. Við vorum að ræða starfið framundan, einkum um aðalfund sem þarf að halda á næstunni. Ákveðið var að stefna að honum fyrrihlutann í febrúar. Fundinn enduðum við svo á því að grípa í "Hrútaspilið".

Áður en við Gunnar héldum heim á leið þáðum við hinar ágætustu veitingar hjá þeim Guðleifu og Sturlu foreldrum Guðmundar. 

 

Þessi frétt og mynd hér fyrir neðan birtist í "Fréttir og fróðleikur" fréttabréfi sem Ráðgjafaþjónusta á Norðausturlandi gefur út og var dreift hér í sveitinni í dag.

 

 

 

 

Hér eru sýnishorn af lífgimbrum undan Krók 05-150 haustið 2006.

Þær vöktu sérstaka athygli fyrir hvað þær eru gleiðgengar, bæði að framan og aftan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég fór til Akureyrar í dag, að sækja meðul fyrir Sigrúnu. Hún fékk slæmt kvef um áramótin, sem vill ekki batna og er nú farið að gramsa í ennis- og kinnaholunum.

 

16. jan. 2007

 

Jæja þá er nú kominn miður janúar og veturinn að verða hálfnaður, þannig að þetta þokast og skammdegið nokkuð farið að hopa enn einu sinni. Núna er bjart og fagurt veður og 15° frost, sem er einna mesta frost á þessum vetri.

Fengitíminn er nú að baki og hrútarnir farnir að slappa af eftir törnina. Það gekk ágætlega með þá að þessu sinni. Sumir þeirra fengu meira að gera núna en tíðkast hefur undanfarin ár.

Þeir Baggalútur 04 244, Krókur 05-150 og Garður 05-254 fengu á milli 50 og 60 ær hver. Þetta eru þeir hrútar sem komu best út í kjötmatinu í haust sem leið og því ástæða til þess að nota þá mikið og freista þess að bæta kjötmatið enn frekar.

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni var nú um jólin notað hér á Staðarbakka djúpfryst hrútasæði í fyrsta sinn.

Núna liggja fyrir bráðabirgða niðurstöður um árangur, en endanlega kemur hann ekki í ljós fyrr en á sauðburði í vor.

Þetta eru þær niðurstöður sem nú liggja fyrir:

 

Sæðingahrútur

Sæddar

Héldu

Héldu

B.upp

B.upp

númer

nafn

ær fjöldi

fjöldi

%

fjöldi

%

05966

Raftur

9

4

44%

5

56%

05965

Kveikur

8

8

100%

0

0%

05967

Blettur

5

3

60%

2

40%

01883

Hylur

2

1

50%

1

50%

04970

Loftur

1

0

0%

1

100%

01919

Erpur

2

0

0%

2

100%

03975

Máni

1

0

0%

1

100%

Heildarútkoma

28

16

57%

12

43%

 

Það er nú ekki hægt að draga mjög víðtækar ályktanir af þessu. Fanghlutfall af heildinni er ekki langt frá meðaltali þess, sem þekkt er af notkun á djúpfrystu hrútasæði. Það sem helst vekur þarna athygli er sú útkoma sem Kveikur sýnir og hvað hann sker sig í raun frá hinum hrútunum. Það er líka nokkuð merkileg tilviljun að undan þeim hrútum sem eru notaðir minnst er árangurinn lang lakastur.

Í mínum huga er ljóst að það þarf að gera til muna víðtækari og markvissari tilraunir með þessar sæðingar, t.d. hvort sé mismunur á milli hrúta hvernig sæðið þolir frystinguna og það þarf líka að prófa áhrif þess að auka sæðismagnið í hverjum skammti o.fl.

Læt þetta duga að sinni.

GTS

 

 

9. jan. 2007

 

 

Þessi unga stúlka Helga Margrét Sigurðardóttir er 40 ára í dag.

Við Sigrún fórum í afmælið hennar, sem hún hélt uppá á heimili sínu Dvergagili 7. Við áttum þar ánægjulega stund með henni og hennar nánasta fólki. 

Ég gaf henni eftirfarandi vísu:

 

Fjörutíu ára fljóðið er,

fæddist fram til fjalla.

Létt í lund og leikur sér,

ljóma glæðir alla.

 

8. jan. 2007

 

Þá er hann Hjalti okkar búinn með jólafríið sitt. Hann lagði af stað til Egilsstaða núna áðan um kl. 11:30 á Bronco sínum. Menntaskóinn (ME) byrjar á morgun. Það er búið að vera mjög gaman að hafa hann heima um jólin og hann hefur líka verið hjálparhella í hrútastússinu og að gefa kindunum. Vonandi gengur honum vel austur, þótt það sé aðeins éljaskítur.

 

 

 

 

5. jan. 2006

 

Ívar Baldvin Baldursson er 65 ára í dag. Af því tilefni gekk hann í það heilaga með henni Sigríði sinni. (Seigur hann).

 

 Innilega til hamingju Íbbi og Sirrý!

 

 

 

 

4. jan. 2007

 

Í dag fór ég með Zetorinn (7043) okkar inn á Vélatorg, en við létum hann uppí New Holland vélina sem við keyptum þar fyrir áramótin. Ég sé nú talsvert eftir Zetornum, hann reyndist mér vel og er á margan hátt mjög þægilegur t.d. með stórt og rúmgott hús, sem gat komið sér vel ef maður þurfti að vera með farþega t.d. í göngum og öðru kindastússi.

En það er ekki hægt að safna dráttarvélum, því er mjög gott að losna við eina eldri þegar keypt er ný vél og það fyrir svolítinn pening.

Það var gríðarleg hálka á leiðinni og ég var þeirri stundu fegnastur þegar ég komst á leiðarenda heilu og höldnu. Hjalti og Sigrún fóru í bæinn á bílnum og ég hitti þau svo á Glerártorgi þegar ég var búinn að skila vélinni.

 

3. jan. 2007

 

Bjart og gott veður, hiti rétt í kringum frostmark. Við Hjalti vorum að reka niður staura þar sem skriðurnar féllu um daginn, það gekk ágætlega enda ekkert frost í jörðu.

Gestur í Þríhyrningi kom í heimsókn í dag.

 

1. jan. 2007

 

Gleðilegt nýtt ár! Við á Staðarbakka 1 þökkum öllum sem við þekkjum fyrir liðna tíð.

 

Þá eru nú þessi áramót afstaðin, við byrjuðum árið með því að sprengja eina tertu sem hét í lifandalífi "Njáll á Bergþórshvoli". Það var heilmikil sýning sem stóð í tæpa mínútu; mönnum til skemmtunar en málleysingjum til ama. Brussa og Lappi voru lafhrædd en eru nú að jafna sig þegar þetta er ritað rúmlega eitt eftir miðnætti á nýársnótt.

 

Flettingar í dag: 389
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 716
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 68258
Samtals gestir: 17433
Tölur uppfærðar: 14.5.2024 12:17:10
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar