Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir júlí 2010

    31. júlí 2010

Í sólbaði á Staðarbakka  Í dag voru haldnir "Sæludagar í sveitinni" sem er nú sveitahátíð í Hörgársveit, en var áður í Arnarneshreppi og ávallt haldin á laugardeginum um verslunarmannahelgina.
Hátíðin er sett á Möðruvöllum og svo eru ýmsar uppákomur bæði þar og víðsvegar um sveitarfélagið.
  Við tímdum ekki að fara, enda glaðasólskin hér og frábært sólbaðsveður. Neðar í sveitinni og allsstaðar við sjóinn var hins vegar þokuloft, sólarlaust og fremur svalt.






    30. júlí 2010

Sér að Kaldbak frá Sveinbjarnargerði
  Þessi mynd var tekin í kvöld af hlaðinu í Sveinbjarnargerði norður Eyjafjörðinn að Kaldbak, sem sveipar sig dulúðlegum þokublæjum.
  Við afkomendur og skyldulið frumbyggjanna á Staðarbakka (mömmu og pabba) komum saman til kvöldverðar í Sveinbjarnargerði í kvöld. Við höfum komið saman um þetta leyti árs í um 20 ár og þá oftast til að drekka saman seinnipartskaffið, en brugðum nú út af vananum. Upphaf þessarra samkomna var að mamma bauð okkur á einhvern sveitaveitingastað í tilefni af afmæli sínu, sem er 29. júlí. Við héldum þessu svo áfram í minningu hennar eftir að hún kvaddi þennan heim blessunin. 

Hópmynd í Sveinbjarnargerði
  Að loknum kvöldverðinum var þessi mynd tekin af hópnum.   

    28. júlí 2010

Síðustu rúllurnar settar í stæðuna  Þá er fyrri sláttur endanlega búinn, gengið var frá síðustu rúllunum í dag í stæðu. Meiriháttar að þessu sé lokið, en heyskapurinn tók lengri tíma en undanfarin ár, vegna stöðugra óþurrka fram undir miðjan júlí.
  Seinni partinn brunuðum við hjónakornin í bæinn og keyptum okkur nýja rúmdýnu, svo við getum hvílst almennilega eftir heyskapinn.






Gestur og Tómas Leonard  Ekki var fyrr búið að ganga frá rúllunum, en Gestur og Tómas Leonard voru farnir að huga að gangnahestunum, eða svo er að sjá. Enda ekki nema 6 vikur til gangna. 
  Já tíminn líður hratt og eitt tekur við af öðru.










 24. júlí 2010

Frændurnir Tómas og Hjalti  Hjalti kom í stutta heimsókn um helgina og að sjálfsögðu var fiðlan með í för og á myndinni má sjá Hjalta vera að spila fyrir Tómas Leonard frænda sinn. 
  Annars er Hjalti að vinna í sumar á tjaldstæðinu á Hallormsstað.
















   

 21. júlí 2010

Rúllað í Seli  Fyrir sólsetur í dag var síðasta rúllan úr fyrri slætti sumarsins komin í plast. Það voru rúllaðar 101 rúlla af sprekþurru heyi, enda rættist spá veðurfræðinganna, sem ég gat um hér í fyrra dag. Það var glaðasólskin bæði í gær og dag og hiti um og yfir 20°, sem sagt bestu dagar sumarsins, allavega það sem af er.
BRAVÓ!!!




 


    
   20. júlí 2010

Thomas, Véronique og Sigrún Inga  Í dag komu hér þrjú ungmenni: Véronique Forbes frá Quebec í Kanada, Thomas Edward  frá Englandi og Sigrún Inga Garðarsdóttir frá Reykjavík.     
  Véronoque er fornleifafræðingur og er að vinna að doktorsritgerð um þau fræði, þau hin eru að aðstoða hana við rannsóknir. Hingað komu þau í leit að gömlum taðfjárhúsum til að setja þar skordýragildrur, en  vitneskja um skordýraflóruna á að vera gagnleg í fornleifafræðunum.
  Véronique ljómaði sem sól í heiði, þegar hún var búin að skoða Berghúsin og aðstæður þar, enda eru þau byggð 1931 og enn í notkun, en það var skilyrði fyrir því að hægt væri að nota þau til þessara rannsókna. Í Berghúsunum (sem eru í baksýn á myndinni) ætla þau svo að vera í dag og á morgun við skordýraveiðar.
  Véronique lauk BA hana í fornleifafræði við Université Laval í  Kanada 2006. Til ársins 2009 hefur hún unnið  við fornleifauppgröft  m.a. á Íslandi.  Í oktober 2009 byrjaði Véronique doktorsritgerð við Háskólann í Aberdeen, undir handleiðslu Drs Karen Milek (Háskólinn í Aberdeen) og Andrew Dugmore (University of Edinburgh). 

    19. júlí 2010


Síðustu stráin falla í fyrri slætti  Þá eru síðustu stráin fallin, í fyrri slætti þetta sumarið. Óþurrkur hefur gert það að verkum að þau hafa fengið að vaxa óáreitt full lengi, en vonandi næst þetta hey með góðri verkun, því nú spá hinir vísu veðurfræðingar úrvalsþurrki næstu dagana, það ætti því ekki að þurfa að rúlla þetta hey haugblautt.





 




    17. júlí 2010

Vélfákarnir gerðir klárir  Í dag komu hér 6 félagar með vélfáka sína og fóru í árlega skemmtiferð hér fram í afréttina.
  Fyrst þarf að taka vélfákana niður af kerrunum og knaparnir að klæðast sínum skrúða...











Þeyst af stað...og svo er gefið hressilega í og þeyst af stað.


 














   16. júlí 2010

Heyskapur í Flögu  Í dag var fyrsti heili þurrkdagurinn í þessum mánuði og seinni partinn í gær var raunar ágætur heyþeir. Eins og sjá má á myndinni fjölgar rúllunum á túninu. Í gær og dag voru rúllaðar á þriðja hundrað rúllur og hefðu orðið fleiri, ef rúllusamstæðan hefði ekki bilað í kvöld, þannig að það þurfti að fara til Akureyrar til að fá nýja glussaslöngu. Á eftir fékk svo Guðmundur á Þúfnavöllum rúllusamstæðuna (sem við eigum í félagi) og rúllaði fram á rauða nótt.





    12. júlí 2010
 
  Það er einstaklega erfið heyskapartíð þessa dagana og í dag var 12. í rigningu. Það er aðeins blæbrigðamunur á úrkomunni, suma daga er úrhelli nánast allan daginn, en þess á milli eru skúrir eða súld. Það tókst að rúlla tæpar 70 rúllur í dag af hálf blautu heyi. Það gerði  hellidembur hér allt í kring, en það slapp  til hér fram undir kvöld, en þá fór að skúra hér líka.
  Meðfylgjandi mynd gefur góða sýn af ástandinu.  
  



    5. júlí 2010

Jósavin, Stefán, Guðm., Aðalsteinn og Helgi  Í kvöld kom hér saman til síns fyrsta fundar fjallskilanefnd hins nýja sveitarfélags Hörgársveitar, sem þann 12. júní sl. varð til við sameiningu: Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps.
  Ég var formaður fjallskilanefndar Hörgárbyggðar og var svo af sveitarstjórn þann 30. júní sl. kjörinn formaður fjallskilanefndar Hörgársveitar. Með mér í nefndinni eru þeir sömu og voru í þriggja manna nefnd Hörgárbyggðar þeir: Aðalsteinn H Hreinsson Auðnum og Stefán L Karlsson Ytri-Bægisá. Við sameininguna var fjölgað í nefndinni upp í fimm og inn komu: Jósavin Gunnarsson Litla-Dunhaga og Helgi B Steinsson Syðri-Bægisá. 
  Á þessum fyrsta fundi okkar vorum við að stilla saman strengi okkar hvað varðar fjallskilamál í sveitarfélaginu. Ákveðið var að álagning gangnadagsverka verði með sama hætti og verið hefur þrátt fyrir sameininguna, en hún hefur verið með aðeins ólíku sviði milli Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar. Þetta er í samræmi við þær hugmyndir sem kynntar voru fyrir kosningu um sameininguna á sl. vetri.
  Nefndin ákvað meðal annars tímasetningu gangna á hausti komandi og læt ég bókun nefndarinnar um gangnatímann fylgja hér með:
 
  "Tímasetning gangna haustið 2010 rædd. Ákveðið var að höfðu samráði við fjallskilastjóra nágrannasveitarfélaga að flýta göngum í Hörgársveit um eina viku, frá þeim tíma sem mælt er fyrir um í fjallskilasamþykkt. Fyrstu göngur verða því í Hörgársveit, frá miðvikudeginum 8. september til sunnudagsins 12. september. Aðrar göngur verði svo viku síðar." 

    4. júlí 2010

Kristín Lára 5 ára  Þann 30. júní varð Kristín Lára 5 ára. Af því tilefni bauð hún okkur í afmælið sitt í dag ásamt fleira af sínu nánasta skilduliði. Þetta var hin fínasta afmælisveisla hjá henni og á myndinni má sjá afmælis barnið vera að blása á kertin 5.










Sólveig og Anna Jónsd.  Á eftir var svo litið við í Helgamagrastræti hjá Sóveigu og Tómasi Leonard, sem komu úr höfuðborginni í vikunni.
Þar hittum við Önnu söngdívu Jónsdóttur og fjölskyldu. Þau voru í stuttri heimsókn eftir að hafa verið á ættarmóti út í Fljótum um helgina. Þau voru hress og sælleg eftir ættarmótið og var gaman að geta séð þau aðeins.







    3. júlí 2010

Ásgerðarstaðir  Í dag kom kom Helga frænka mín Halldórsdóttir í dalinn. Hún var að sýna afkomendunum og nánasta venslafólki uppeldisstað sinn Ásgerðarstaði. Á eftir komu þau í kaffi til Möggu mágkonu og það var spjallað og skoðaðar gamlar myndir, frá þeim tíma þegar Helga átti heima í dalnum. 
  Fyrir þá sem ekki eru kunnugir voru Halldór og Skúli feður okkar Helgu bræður, aldir upp á Áserðarstöðum í átta systkina hópi. Halldór bjó allan sinn búskap á Ásgerðarstöðum, hann var fæddur 1898, en hann lést 1978. Skúli faðir minn byggði hins vegar nýbýlið Staðarbakka á hálflendu Ásgerðarstaða 1939 og bjó hér þar til hann lést 1985. Þeir bræður ræktuðu því sína föðurleifð allt til hinsta dægurs.

    1. júlí 2010

Kolbrún, Sigrún og Ragna  Í dag eftir hádegið, komu þær frænkur og vinkonur okkar Ragna Hugrún og Kolbrún Bjarkey í heimsókn í rigningunni. Það var nú gaman að fá þær og margt spjallað. 











Rabarbaraskurður  Já það fór að rigna í morgun, það er nú nokkuð sem ekki hefur gerst nokkuð lengi og er því njög kærkomið fyrir gróðurinn. Á svona dögum er mjög gott og notalegt að getað stundað þægilega innivinnu. Því var það svo í morgun að ég settist við rabarbaraskurð fyrir frúna mína, svo hún geti haldið áfram við suðuna á sinni gómsætu rabarbarasultu. Það verður ekki amalegt að úða henni í sig með jólasteikinni o.fl. Namm, namm namm...!!! 
Flettingar í dag: 438
Gestir í dag: 87
Flettingar í gær: 716
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 68307
Samtals gestir: 17471
Tölur uppfærðar: 14.5.2024 18:26:52
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar