Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir ágúst 2008

    31. ágúst 2008

Stjórn Sf. Skriðuhr. á fundi Guðmundur Sturluson, Guðmundur Skúlason og Viðar Þorsteinsson  Við smöluðum að austanverðu í dag. Sömu smalar og í gær og gekk smölunin ágætlega í blíðu veðri.
  Í kvöld var hér á bæ stjórnarfundur í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps, við vorum að ræða ýmislegt er sauðfjárræktina varðar t.d. um að halda hrútasýningu fyrir verturgamla hrúta félagsmanna, hún verður trúlega um mánaðarmótin september og október, á Þúfnavöllum.


 

     30. ágúst 2008

 Brussa með hvolpana sína á fæðingardegi 
  Fjölgun varð í hundastofninum á bænum í dag, þegar Brussa okkar eignaðist 5 hvolpa. Einn dó í fæðingu, en hinir fjórir eru pattaralegir, þrír  hundar og ein tík. 
  Smalað var hérna að vestanverðu í dag, við fórum nú ekki langt, en það náðist samt talsvert af fé. Meiningin er að slátra 4. sept. og gott er, ef hægt væri að ná einum 200 lömbum í þá forslátrun. Helga og krakkarnir komu og hjálpuðu okkur við smölunina og einnig Gestur frá Þríhyrningi.

 
  
     29. ágúst 2008

  Í dag fór ég á stjórnarfund í SAH á Blönduósi. Umfjöllunarefni fundarins og afrakstur hans birtist á heimasíðu SAH í kvöld og læt ég hann birtast hér líka í sama formi.

Home
"Ljóst er orðið að eftir að SAH Afurðir ehf. birtu verðskrá sína þann 20. ágúst sl. hafa komið fram verðskrár annarra sláturleyfishafa þar sem boðið er nokkru hærra verð heldur en það verð sem stjórnir SAH Afurða ehf. og SAH svf. höfðu ákveðið.

Eins og viðskiptavinum SAH Afurða ehf. er vel kunnugt um, þá er það stefna félagsins, að greiða ætíð samkeppnisfært verð til bænda. Í ljósi þeirrar stefnu hafa stjórnir félaganna ákveðið að uppfæra verðskrá SAH Afurða ehf.

Verðhækkun SAH Afurða frá fyrra ári er nú um 18% fyrir kjöt á innalandsmarkað, útflutningsverð er 305 kr.kg og verð fyrir fullorðið er óbreytt frá fyrri verðlista. Með þessum breytingum verður að teljast að verð SAH Afurða sé fyllilega samkeppnisfært við það besta sem gerist hjá öðrum stærri sláturleyfishöfum.

Rétt er að benda á að SAH Afurðir reikna nú útflutning fyrir hvern og einn flokk og skila í hverjum og einum flokki. Einnig er rétt að benda á að verð fyrir kjöt sem hefur lífræna vottun er 20% hærra á alla flokka dilkakjöts.

Verðtafla er hér að neðan

Öll verð eru án vsk. og er þetta birt með fyrirvara um prentvillur".

     28. ágúst 2008

Þessi ær okkar hefur það náðugt og er ekki í beitarskorti  Í gærkveldi fór ég á geysifjölmennan fund, sem Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu boðaði til í Dalabúð í Búðardal. Tilefnið var að ræða þá erfiðleika sem sauðfjárbændur standa nú frammi fyrir, vegna mikilla hækkanna á öllum kostnaðarliðum búanna, sem ekki eru horfur á að fáist bættar með afurðaverði nú í haust. Framsögu höfðu: Einar K Guðfinnsson landbúnaðarráðherra, Haraldur Benediktsson formaður BÍ, Jóhannes Sigfússon formaður samtaka sauðfjárbænda og Sigurður Jóhannesson formaður samtaka sláturleyfishafa. Í máli þeirra allra kom skýrt fram að staðan er mjög alvarleg og langt frá því að vera auðveld úrlausnar og því miður engar töfralausnir í augsýn. Margir tóku til máls að loknum framsöguerindum. Flestir beindu spjótum sínum að "sofandi" stjórnvöldum og að því sem menn virtust telja höfuð óvin sauðfjárbænda í dag sláturleyfishafana. Þeir eru að sumra mati helsti ógnvaldur sauðfjárbænda um þessar mundir og töldu þá sitja á svikráðum við bændur, einn fundarmanna gekk raunar svo langt að líkja þeim við þekktasta sauðaþjóf Íslandssögunnar, sjálfan Fjalla-Eyvind. Minna mátti það nú ekki vera. 
  En ég spyr hver á sláturleyfishafana og hverjir sitja þar við stjórnvölinn? Eru það ekki sauðfjárbændur? Og er það ekki alveg dæmigert fyrir þessa stétt að fara í innbirgðis leðjuslag í stað þess að snúa bökum saman og blása samstíga til sóknar? Er nema von að ástandið sé eins og það er? Það skyldi þó ekki vera þannig að sauðfjárbændur sjálfir séu sauðfjárbændum verstir!!!!
  Eins og áður segir var fundurinn mjög vel sóttur af á 400 manns, flestum af norðvestanverðu landinu og á Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu þakkir skyldar fyrir að boða til hans. Margir sóttu fundinn um langan veg. Sjálfur fór ég um 560 km. fram og til baka og kom ekki heim fyrr en kl. að verða fimm í morgun. Var samferða forsvarsmönnum SAH frá Blönduósi, en þaðan fóru Sigurður framkvæmdastjóri, Gísli sláturhússtjóri og Baldvin formaður og sjálfur er ég varaformaður. Þarna voru því saman á ferð fjórir stjórnendur eins þessa félags, sem sumir virðast telja að hafi ógæfu manninn Fjalla-Eyvind, sem sína helstu  fyrirmynd!

     
    24. ágúst 2008
 Möðruvallakirkja í Hörgárdal
  Við fórum í kvöldmessu  og altarigöngu í Möðruvallakirkju og kaffi í Leikhúsinu þar á eftir. Ekki virðast nú sóknarbörnin finna hjá sér þörf til að koma saman í Guðshúsi til þakkar fyrir gott og gjöfult sumar. Það þurfti nú ekki mikið meira en fingur annarrar handar til að jafna tölu þeirra við þessa messugjörð. Hvernig er það, er trúin bara til að leita styrks í henni þegar á móti blæs? Er ekki ágætt líka að koma saman til lofgjörðar,  þegar allt leikur í lyndi og sól skín í heiði?


  




   23. ágúst 2008 

  Í kvöld buðum við okkar ágæta vinafólki Ingu og Sævari til kvöldverðar. Höfðum E-flokks úrvalslambalæri úr eigin ræktun. Áttum með þeim hið ágætasta sumarsíðkveldi. Því miður gleymdist að taka myndir af kvöldinu. 

  
     22. ágúst 2008

Oddvitinn og fjallskilanefndin Helgi, Stefán L, Guðmundur og Aðalsteinn H  Fjallskilanefndin kom saman til fundar hér í kvöld ásamt oddvitanum. Við vorum að leggja á gangnadagsverk fyrir komandi haust og ýmislegt annað sem þarf að ákvarða fyrir haustið. Alls þarf að leggja á 392 gangnadagsverk í Hörgárbyggð. Heildarfjöldi sauðfjár sem var á fóðrum í sveitarfélaginu á síðasta vetri var 5.216 kindur. Ekki er öllum gangnadagsverkum jafnað út á fjárfjölda, því á þeim svæðum þar sem engu  fé er sleppt, eru göngur kostaðar af sveitarfélaginu.


     20. ágúst 2008

  Ég fór á stjórnarfund í SAH á Blönduósi í dag. Þar var ákveðið svipað verð fyrir sauðfjárafurðir og Norðlenska gaf út fyrir nokkrum dögum. Ljóst er að þetta mun valda sauðfjárbændum miklum vonbrigðum og verða þeim þungt í skauti fjárhagslega, en það er alveg ljóst að SAH getur ekki greitt hærra verð en aðrir sláturleyfishafar.


     18. ágúst 2008

  Í morgun fór ég á stjórnarfund í Félgi sauðfjárbænda við Eyjafjörð. Þar urðu breytingar á stjórnarskipan. Þórarinn Pétursson í Laufási lét af formennsku að eigin ósk og tók við sem ritari félagsins, Birgir Arason í Gullbrekku tók hins vegar við formennskunni.
  Miklar umræður urðu um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna gríðarlegra verðhækkana á aðföngum sauðfjárbúa og um verðlagningu sauðfjárafurða nú á hausti komanda.
  Um þetta var gerð eftirfarandi bókun á stjórnarfundinum:

  "Á fundi stjórnar F.S.E. 18. ágúst var eftirfarandi ályktun samþykkt:
  Sú hækkun afurðaverðs sem fram er komin hjá Norðlenska, er undir þeim væntingum sem sauðfjárbændur áttu von á samkvæmt samþykkt aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda síðast liðið vor. Þessi hækkun dugar varla meira en fyrir 1/3 af þeim kostnaðarhækkunum sem nú þegar eru komnar fram hjá sauðfjárbændum frá haustinu 2007. Þessar gríðarlegu verðhækkanir á aðföngum, hafa orðið til þess að afkoma sauðfjárbænda er komin yfir þolmörk.
  Stjórn F.S.E. hefur fullan skilning á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin og telur að fara verði varlega og horfa til framtíðar fyrir bændur og afurðarstöðvar eigi þessar atvinnugreinar að lifa þær þrengingar af sem nú dynja yfir. Komast verður upp úr þeirri gryfju að verslanir ráði nær eingöngu för í verðlagningu á afurðum bænda. Samstaða allra er mjög mikilvæg um þessar mundir eigi þessi atvinnustarfssemi ekki að fara í þrot, með skelfilegum afleiðingum fyrir landsbyggðina og raunar þjóðina alla.
  Stjórn F.S.E. skorar því á stjórnvöld að legga sitt af mörkum til að koma rekstrarumhverfi atvinnugreinarinnar í viðunandi horf  t.d. með því að fjármagnskostnaði fyrirtækja og heimila verði komið í vitrænt ástand".


     17. ágúst 2008

Sigrún, Kolbrún og Ragna í berjamó  Í gær lögðum við land undir bíl og fórum á landbúnaðarsýninguna á Sauðárkróki, það var ágætt og ýmislegt að sjá.
  Blíðu veður var í dag, sól og hiti fór yfir 20 stig. Ragna og Kolbrún komu í dag og fórum við  með þeim í berjamó í skógræktargirðinguna út í Flöguhálsi. Það er fanta góð berjaspretta, nánast allt blátt þar sem berjalyng er, það er bara að koma sér fyrir á góðri berjaþúfu og tína og tína og tína.



Lerkitré í Flöguskógi  Við skoðuðum líka trén. Myndin er tekin þar sem fyrst var plantað í Flöguskóginn 1998. Þá voru þessi lerkitré 15 til 20 cm. en eru nú komin á fjórða metra. Vöxtur trjánna verður að teljast góður og eru þau núna  mjög grósku mikil og ljómandi falleg.








     15. ágúst 2008

    Heyskaparlok 2008

Síðasta rúllan í plast sumarið 2008

  Þá er heyskapnum lokið á þessu sumri. Á myndinni má sjá, þegar síðasta rúllan er að umvefjast rándýru plasti.  Það gekk einstaklega vel að ná hánni að þessu sinni, alls urðu þetta 139 rúllur af mjög vel verkaðri há. Heyforðinn fyrir komandi vetur er orðinn vel ríflegur, enda voru til í fyrningum, um 170 rúllur frá fyrra sumri. 
  Sumarsins verður nú trúlega minnst af bændum, sem sumarsins þegar gríðarlegar verðhækkanir urðu á því helsta sem þarf til að geta aflað heyja, svo sem á áburði, olíu og plasti. Því miður óttast ég að komandi hausts  verði minnst af sauðfjárbændum, sem haustsins þegar afurðaverð hækkaði bara um brot af því, sem þurfti til að mæta þeirri hækkun rekstrarliða sem urðu frá næstliðnu hausti.
  Kannski kornið sem fyllti mælinn þannig að sauðfjárbúskapur sem atvinnugrein heyri brátt sögunni til? 


    12. ágúst 2008

Katrín Valdís Arnarsdóttir  Í dag er hún Katrín Valdís 11 ára. Amma og afi senda henni innilegar afmæliskveðjur til Kaupmannahafnar, en þar er hún nú búin að eiga heima í rúmt ár. Ekki förum við í afmælisveislu til hennar að þessu sinn, enda nokkuð langt til þess að skreppa í afmæli. Í stað þess sendum við þér okkar bestu óskir, með bæn um að Guð veri alltaf með þér Katrín okkar. 
  Myndin var tekin í janúar s.l. þegar Katrín kom til Íslands til að fylgja langömmu sinni til grafar.













      11. ágúst 2008

  Háarsláttur hófst hér í dag og er sprettan ágæt. 

     10. ágúst 2008

Ragna og Sigrún í Höfðanum Mývatnssveit Ég byrjaði  daginn á því að mála tengibygginguna, aðra umferð í ágætu veðri.
  Á meðan ég var að því kom Dranga fararenn einn hópurinn til uppgöngu á Dranga, þetta voru 5 manns bæði hér að norðan og líka frá Reykjavík. 
  Um hádegi bauð okkar ágæta vinkona Ragna Kristjáns okkur í sunnudagsbíltúr, eins konar óvissuferð. Við fórum austur í sveitir. Skoðuðum Þorgeirskirkju undir leiðsögn séra Gylfa Jónssonar. Fórum þaðan í Mývatnssveit, þar fórum við í ágætan göngutúr og skoðuðum Höfðann og nutum þeirrar stórkostlegu náttúru sem þaðan má sjá. Fengum okkur svo hressingu í Gamla bænum og renndum svo eftir Kísilveginum og skruppum aðeins til Húsavíkur áður en við héldum heimleiðis. Þetta var alveg frábær óvissuferð og gaman að skoða landið okkar fagra í ágætu veðri.


     8. ágúst 2008

Krisbjörg, Sigrún og Halldór  Í gær komu til okkar ágætir vinir okkar sem búa á Egilsstöðum, þau Kristbjörg og Halldór. Gistu þau hjá okkur í nótt. Í dag fórum við svo öll á Handverkssýninguna, sem haldin er að Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit um þessa helgi. Á sýningunni var margt forvitnilegt að skoða að vanda, en þetta er í 16. skiptið sem svona sýning er haldin, þótt hún sé ögn breytileg milli ára. Nú sýndi t.d. Gásahópurinn handverk og vinnuaðferðir frá miðöldum auk tilsagnar í miðalda kjólasaum. Ekki ætla ég hér að tíunda frekar þau fjölmörgu atriði sem sjá mátti þarna. Við áttum þarna ágætan dag og við heimkomu var eldað dýrðlegt lambalæri úr eigin ræktun. Þau Kristbjörg og Halldór ætla svo að gista aftur í nótt og fara austur á morgun. Myndin var tekin við miðaldatjald Gásahópsins.

Miðalda eldsmiður








Miðalda eldsmiður að störfum
að Hrafnagili


      5. ágúst 2008

Krummi að skoða svalirnar Eins og ég gat um fyrir nokkrum dögum vorum við að fúaverja svalirnar. Þær fengu svo óvænta úttekt í dag, þegar Hrafn settist á handriðið og skoðaði þær, hann var  svo upptekinn við það að maður gat nánast komist að honum.
Krumminn á svölunum


     3. ágúst 2008

Gönguhópur albúinn til uppgöngu á Dranga  Þessi vörpulegi hópur renndi hér í hlað í morgun og eftir nokkra stund var hann albúinn til uppgöngu á Dranga.  Eins og sjá má er þetta postula talan sem leggur í ann til að komast nær almættinu eina dagstund. Leiðangurinn tók um 10 tíma. Í hópnum má sjá kunn andlit eins og Ragnar Sverrisson kaup- og fjallamann. Þetta mun vera einhver fjölmennasti hópur sem hefur klifið Dranga og annað sem er sérstætt við hann að í honum voru tvær ömmur og einn langafi (áður nefndur Ragnar Sverrisson) geri aðrir betur. Ekki fóru þau nú samt öll á toppinn í einu, því þar rúmast ekki nema 3 til 4 menn í senn.
  Drangi er í 1.075 m hæð yfir sjó, þannig að hækkunin héðan af hlaðinu þar sem allir hefja fjallgönguna er um 800 m. Hann var fyrst klifinn 5. ágúst 1956, af tveimur Íslendingum og einum Bandaríkjamanni, það eru því 52 ár síðan hann var fyrst klifinn. Á þessum árum hefur á annað hundrað manns  klifið Dranga, lang flestir þeirra á síðustu 20 árum.


     2. ágúst 2008

    Sæludagur í sveitinni:

Keppnissvæðið á Sæludegi í sveitinni  Við brugðum okkur á "Sæludag í sveitinni" sem er árleg sveitahátíð í nágrannasveitarfélagi okkar Arnarneshreppi. Þarna var ýmislegt í boði, má þar nefna t.d. dráttarvélaspyrnu, makahlaup, markað, skoðun á blómagarði, sýningar, siglingu, og allt endaði þetta með flugeldasýningu og dansleik á Hjalteyri. Dagskráin hófst á Möðruvöllum kl. 11. Grillaðar pylsur voru þar   í boði sveitarfélagsins. Síðar um daginn var það sem í boði var vítt og breytt um hreppinn.  Við fylgdumst aðeins með því sem fram fór á Möðruvöllum.

Hér eru hjónin í Skriðu og Litlu Brekku   Ein keppnisgreinin var makahlaup, sem minnti nú meira á kappreiðar en makaatlot. Á myndinni hér til hliðar hafa Sigga Stína og Þór í Skriðu og Jónína og Vignir í Litlu-Brekku, náð góðri forystu, enda þekkt hestafólk og kann því vel til verka, þegar kappreiðar eru annarsvegar. Af svipnum má ráða að keppnisskapið svíkur ekki og föxin flaxast eins og vera ber.. 




Gömlu dráttarvélarnar  Keppt var í dráttarvélaspyrnu í þremur flokkum, hér má sjá einn riðilinn í flokki minnstu og elstu vélanna. Eins og sjá má voru þær á nokkuð mismunandi aldri, elstur var Farmallinn hér næst á myndinn, vel útlítandi og í topp standi.









Vélar nútímans  Hér má svo sjá einn riðilinn í flokki stærstu vélanna. Tröllvaxin tæki  samanborið við gamla Farmalinn. Hvernig skyldu dráttarvélarnar líta út um miðja þessa öld??

  Fleiri myndir má sjá undir: Myndaalbúm > Ýmis tilefni > Sæludagur í sveitinni







     1. ágúst 2008

Gísli B Guðmundsson, Heiðar Árnason og Kristín S Guðmundsdóttir  Í kvöld komu hér hress ungmenni af höfuðborgarsvæðinu, þau eru meðlimir í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Þau voru á ferð um landið og datt í hug að líta á Dranga og huga að uppgöngu á hann. Ekki var þó farið nema að rótum hans í þetta skiptið, vegna þess að þau vantaði betri búnað til að klífa Dranga sjálfann. En þau voru staðráðin í því að koma aftur síðar með það sem til þarf til að komast á tindinn. Þegar þau komu niður aftur buðum við þeim inn upp á ís og ávexti og kaffisopa, sem þau þáðu með þökkum. Það var gaman að fá þetta heilbrigða unga fólk í heimsókn og eiga við það spjall m.a. um starfið í hjálparsveitinni.








Frúin málar hliðstaurana

Svalir fúavarðar í blíðunni

 














Enn einn blíðviðrisdagurinn var í dag þar sem hitinn fór yfir 20°, þetta er úrvalsveður til að ditta að tréverki og fúaverja, eins og sést voru penslarnir mundaðir víða.

Sigurður og Margrét að fúaverja
















Þau norður í að fúaverja kvistinn hjá sér.
 
Margrét, Hákon Þór og Guðrún Margrét 
















Veðrið var líka gott fyrir börnin að leika sér á gæðingunum.







Flettingar í dag: 191
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 716
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 68060
Samtals gestir: 17418
Tölur uppfærðar: 14.5.2024 07:17:43
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar