Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir mars 2013

28. mars 2013

  Kæru vinir, alúðar þakkir fyrir allar hlýjar kveðjur og góða strauma bænarinnar.

  Kveðja af Seltjarnarnesinu GTS og SEÞ.

 

25. mars 2013

 

 
  Í dag voru hér tveir smiðir við störf: Stefán Lárus og Jónas Baldursson. Þeir voru búnir að fá smíðaðar fyrir okkur tvennar útihurðir á trésmiðjunni Berki og komu svo með þær í dag til koma þeim fyrir. Það var svo sem löngu orðið tímabært að endurnýja þessar hurðir, orðnar nærri þriggja aldarfjórðunga gamlar eins og íbúðarhúsið sjálft. Á myndinni eru þeir kapparnir búnir að rífa gömlu forstofuhurðina úr og eru að slípa til svo megi koma þeirri nýju fyrir á sínum stað.

 

  Hér er svo Jónas, þegar búið var að koma nýju hurðinni fyrir í vaskahúsið. Flottur í gluggagatinu áður en glerið var sett í.

 

  Forstofuhurðin nánast frágengin og við erum ótrúlega ánægð með þetta og kunnum þeim félögum alúðarþakkir fyrir þeirra ágæta verk. Takk fyrir Stefán og Jónas.

 

23. mars. 2013

 

Það var fósturtalið hér í ám og gemlingum í dag. Þetta er áttunda árið sem Gunnar bóndi í Sandfellshaga framkvæmir þetta hjá okkur og oftast hefur Alex frændi hans verið með honum sem aðstoðarmaður og svo var einnig í dag. Byrjað var út í Flögu um kl. 9:30 og allt var svo búið kl. 13:00. Talið var í 603 ám og gemlingum, meðalútkoma úr því var 1,81 lamb á kind. Meðaltalið hjá hverri á var 1,92 lömb og hjá á með lambi var það 1,97. Hjá gemlingunum var meðaltalið 1,25 lömb, en séu bara þeir lembdu taldir var það 1,33 lömb. Þetta verður bara að teljast bærileg útkoma. Hjá ánum er þatta það næst besta í þessi 8 ár og hjá gemlingunum líka. Þetta hefur reyndar verið nokkuð jafna gott öll þessi ár. Hjá á með lambi frá 1,89 og upp í 2,00 lömb og í gemling með lambi hefur verið að teljast frá 1,20 og upp í 1,38 lömb að meðaltali.

Að vanda var mikið og gott lið við þetta verk alls 14 manns, sem settust að hádegisverðarborðinu og snæddu úrvals sauðahangikjöt af eigin framleiðslu. Upp úr kaffinu fórum við Hákon Þór að aðstoða við talninguna hjá Stefáni Lárusi á Ytri-Bægisá, en hann var hérna í morgun að hjálpa okkur. Talningin kom ágætlega út hjá honum.

 

14. mars 2013

  Þá er nú snoðrúningurinn í fullum gangi og ekki annað að sjá en kapparnir séu bara kampakátir við þetta streð.

 

10. mars 2013

 

  Afi er búinn að vera svo heppinn að hafa lítinn vinnumann alveg það sem af er mars mánuði. Á myndinni erum við fullbúnir þess að fara í Flögu til að gefa ánum þar. Lítum reyndar út eins og ekta bófar, en það á sér þær skýringar að það er mjög bjart úti í dag, algjör blíða. 

  Við höfðum með okkur myndavél til að mynda það sem fyrir augu bæri í þessarri ferð okkar í Flögu. Tómasi fannst mjög merkilegt að finna dauða mús og við kölluðum hana „Maxi-mús“.

 Myndirnar má sjá hér

 

 

8. mars 2013

Nú er mælirinn fullur. Í dag snéri „pósturinn“ við hérna um 1 km. utan við bæinn og það með vikuskammtinn af póstinum. Það var þar eitt smá snjóhaft sem jafnvel hefði nú mátt renna þessum lélega bíl, sem hann er á, í gegnum. Ég talaði við einhvern yfirmann hjá póstinum á Akureyri. Hann sagði að bílstjórunum væri uppálagt að snúa við frekar en að eiga á hættu að lenda í vandræðum og hvað bílakostinn varðar sé stefnan að vera bara á bílum, sem dygðu við bestu aðstæður. Þess má geta að það er tvisvar búið að hreinsa veginn í þessari viku um hádegisbilið, en það er víst of seint að deginum fyrir útburð á pósti hér. Ég fór með bréf í póstkassann á mánudaginn, sem þurfti nauðsynlega að komast sína leið, en það er hér enn. Djö......vesen.

 

6. mars 2013

 Það var spáð illviðri á suður- og vesturlandí dag, en ekki norðanlands, enda má heyra minna en öll þau vandræði sem eru á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU núna. Allt snýst nú um það í dag. Afgangurinn af landinu kemst varla að í fjölmiðlum, enda miklu ómerkilegra fólk sem þar býr. Það er nú svo.

  Svona er nú veðrið hérna kl. 12 á hádegi. Ekkert til að gera „veður“ út af.

 

Skjótt skipast veður í lofti.

 

  Svona leit sama sjónarhorn út um nónbilið í gær.

 

2. mars 2013

 Ég setti inn rúllur í dag og eins og sjá má eru aðstæður við það verk ansi mismunandi. Ekki er langt síðan ég setti inn mynd þar sem Gestur var orðinn hærri en hlöðustafninn. Það hefur tekið talsvert undanfarið. Enn er þó yfir drifið eftir af klaka og snjó og alltof mikið af túnunum enn undir svellum.

 

Það er komið kvöld og gott að láta líða úr sér meðan horft er á sjónvarpsfréttirnar, eða er það bara afi sem er að horfa? Tómas Leonard er nú hálf skelmislegur á svipinn og kötturinn Gríma á sínum vana stað sofandi á sófabakinu.

 

1. mars 2013

Það er ýmislegt sem íbúar blómagarðsins hafa mátt þola í vetur og raunar alveg síðan í haust. Allt frá 10. september og í þó nokkur skipti síðan hefur sest svo snjór í trén að greinar þeirra hafa alveg sveigst til jarðar og margar þeirra brotnað við það. Núna í dag er hins vegar búin að vera úrhellisrigning og talsverð leysing og eins og sjá má er það horn á garðinum sem lægst stendur nénast grindafullt. Það eru grjótharðir skaflar hér í kring, þannig að leysingarvatnið átti ekki greiða leið burtu. Eftir að myndin var tekin reyndi ég að ræsa þetta fram með traktorsskóflu og tókst það að mestu leyti.

 

Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 716
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 68280
Samtals gestir: 17451
Tölur uppfærðar: 14.5.2024 14:55:44
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar