Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir febr. 2008

    26. febr. 2008

  Í dag fór ég á stjórnarfund í Félagi sauðfjárbænda við Eyjafjörð, sem haldinn var svo sem  venja er í Búgarði. Við vorum að ræða verðlagsmál í ljósi gríðarlegra hækkana bæði á rekstrarliðum til búrekstrarins og einnig hjá sláturleyfishöfum. Einnig ræddum við um nýja reglugerð um gæðastýringu í sauðfjárrækt. Og um árangur sæðinga með djúpfrystu sæði nú í vetur. Þá var nokkuð rætt um söfnun á ull og stöðu ullarvinnslu fyrirtækisins Ístex. Að lokum var ákveðið að halda aðalfund félagsins í Hlíðarbæ þann 26. mars kl 20:30.


    24. febr. 2008

Sigrún, Ragna og Eygló  Hér er smávegis viðbót við daginn í gær. Við enduðum hann með nokkrum stæl. Að afloknum gegningum, fórum við í afmæli til Rögnu sem varð raunar sambland af afmælisveislu og júróvisijón partýi. Hjá Rögnu var einnig Eygló Árnadóttir frænka hennar sem í bernsku og æsku átti heima á Hallfríðarstöðum hér í sveit. Við Eygló gengum saman í farskóla í Staðartungu hjá Einari Sigfússyni kennara og bónda þar, við höfum nánast ekki hist í þessi 45 ár frá því að við vorum í einum síðasta farskóla landsins, snemma á sjöundatug síðustu aldar. (Síðast var kennt í farskóla í Skriðuhreppi veturinn 1962 til 1963). Við áttum alveg frábært kvöld með þeim frænkum og öll fjögur fríkuðum við það svo út, með því að fara á ball á Vélsmiðjunni, þar sem hann Geiri frændi hennar Sigrúnar var að spila, svaka fjör þar. Skyldum við vera að yngjast upp aftur; ha?

    23. febr. 2008

Myndin var tekin 14. júní 2007  Þá er hann Ívar Franz orðinn 3ja ára, fæddist á þessum drottinsdegi það herrans ár 2005 á sjúkrahúsinu á Akureyri. Fjölskyldan átti þá heima í friðsælum norðlenskum bæ sem Siglufjörður heitir. En nú er hún flutt til borgarinnar við sundin, þar sem ríkir líf og fjör svo sem skólabrunar og aðrir nútíma gjörningar í fjölmenningarsamfélögum.
  Amma og afi geta því ekki heimsótt þig Ívar Franz okkar núna, en sendum þér okkar bestu afmæliskveðjur og óskum þér alls hins besta og Guðs blessunar.
  Myndin var tekin í júní síðast liðinn. Þess má geta að litli fallegi lambhrúturinn sem Ívar Franz er að skoða, var seldur í haust og er nú orðin kynbótahrútur í nýju fjárræktarbúi á Neðri-Rauðalæk á Þelamörk.

Myndin var tekin 17. júní 2007  Í dag á einnig afmæli ágæt vinkona okkar Ragna Hugrún Kristjánsdóttir. Með þessari fallegu blómamynd sendum við henni okkar bestu afmæliskveðju og vonum að hún eigi góðan dag.












    22. febr. 2008

Rúllur á Flögutúni  Það bar við í sumar sem leið, að gest bar hér að garði einn góðviðrisdag þegar unnið var við heyrúllun í Flögu. Maður þessi heitir Guðmundur Halldórsson og er þekktastur fyrir að vera einn virtasti skordýrafræðingur landsins, en auk þess er hann bróðir Möggu mágkonu. Eins og títt er til sveita þegar gesti ber að garði og heyannir standa yfir var honum fenginn starfi. Ekki segir  meira af því, þar til ég tók rúllu til gjafar og sé að á hana hafði verið ritað vísukorn. Auðséð er af efni hennar, að hún er andlegt afkvæmi áður nefnds Guðmundar, því þar er  gjörla lýst því verkefni sem honum var fengið þennan glóbjarta sumardag. Það er svo tímanna tákn að vísan er hér birt á veraldarvefnum, upp tekin af heyplastsrúllu en ekki kálfsskinni.

Ekki er slakt mitt embætti.
Á mér lyftist brúnin.
Sem aðalrúlluritari,
rölti um Flögutúnin.

   21. febr. 2008


  Það er svo að sjá, að sjálfur Himnafaðirinn heimsæki þessa síðu stöku sinnum. Allavega hefur hann nú bætt úr því umkvörtunarefni sem ég var að væla hér um í gær. Í dag strax við sólarupprás, það er að segja þegar sólin gat lyft sér yfir fjöllin há, sem var nú reyndar ekki fyrr en laust fyrir kl.15, helltist geislaflóð hennar hér ofan í dimman dal, en eins og fram kom hér í gær  hefur þeirra ekki notið hér síðan í byrjun nóvember. Eins og sjá má á myndinni hefur aðeins kastað éli síðan í gær. 
  Magga er búin að gera pönnukökur og bjóða okkur í sólarkaffi þegar við komum inn úr fjárhúsunum.
  Nokkrar fleiri myndir sem teknar voru í gær og dag má sjá hér.

    20. febr. 2008

Sér norður Hörgárdalinn
  Nokkur hlýindi hafa verið undanfarna daga og hefur hitinn komist upp undir 10°. Eins og sést á myndinni hér að ofan hefur snjó að mestu tekið upp, þótt en séu skaflar hér og hvar, enda voru þeir orðnir nokkuð stórir eftir vestan rosann um daginn. Þorri vetrarkonungur er nú ennþá við völd, en það er heldur góðs viti fyrir komandi útmánuði að hann skili ekki af sé miklum snjóalögum. 
  Þessi vetur er um margt nokkuð óvenjulegur t.d. ótrúlega vindasamur og það er nokkuð sérstakt að þótt sé liðinn hálfur mánuður síðan sól átti á sjá hér á bæ eftir skammdegis dimmuna, hefur hún enn ekki  fundið leið í gegnum skýin, vonandi að henni fari að takast það, enda biðin orðin nokkuð löng, allar götur síðan í byrjun nóvember hefur geisla hennar ekki notið hér. 

    18. febr. 2008

Birgir og Lilja
  Í kvöld fengum við ágæta gesti lengst framan úr Eyjafjarðarsveit, þar voru á ferð hjónakornin í Gullbrekku. Þetta var hið ágætasta kvöld þar sem margt orðið af tungu hraut. Við Biggi ræddum talsvert um fjallskilamál. Hann var að kynna sér framkvæmd þeirra hér í sveit, þar sem til stendur uppstokkun þeirra mála í Eyjafjarðarsveit, en hann er fjallskilastjóri þar.






    16. febr. 2008

Unnur, Sigrún, Guðm. og Bergvin  Í dag ákváðum við að hrista af okkur illviðrisdrunga undan farinna daga og bregða okkur eitthvað út á meðal manna. Við kláruðum verkin með fyrra fallinu og drifum okkur á stað, raunar í óvissuferð því hvorki var áningar eða áfngastaður ákveðinn. En við leystum vel úr þeirri óvissu og fórum í Skúta til þeirra Unnar og Bergvins og áttum þar alveg frábært kvöld við spjall og spilamennsku,  auk þess sem Unnur töfraði fram frábæran þorrakvöldverð með heimagerðum bjúgum sem aðalrétt.



    14. febr. 2008

Sigrún við snjóstálið
  Eins og fram hefur komið hér í gestabók heimasíðunnar er kvartað undan því að afmælisdags frúarinnar skyldi í engu getið og þaðan af síður birt af henni ný mynd. Úr þessu skal nú bætt og þess getið að hún náði ágætum aldri þann 6. febrúar síðastliðinn. Á myndinni sem tekin er  í dag er hún norðan undir vegg eða snjóstáli, sem er góðir 3 metrar þegar búið var að moka planið.
  Undanfarna daga er búið að vera versta illviðri, mikil hvassviðri dag eftir dag og moldviðri annað slagið,  þannig að safnast hefur  mikill snjór í kringum hús og annars staðar þar sem eitthvert skjól er, þótt heilt yfir sé alls ekki mikill snjór. Færð á vegum er t.d. nánast eins og á sumardegi.







  Hér er hún Brussa litla að spóka sig á hjarninu sunnan við bæinn og eins og sjá má er grindverkið í kringum blómagarðinn komið þar í kaf. 












  Hér er gríðarlegt snjófjall sem búið er að moka frá húsunum.

   











Sér norður Hörgárdalinn
  En eins og sjá má á þessari mynd er alls ekki mikill snjór heilt yfir í sveitinni.













 12. febr. 2008

Tómas Leonard  Hér er hann Tómas Leonard að leika sér með þessa stærðar kúlu, hann er nú aldeilis maskaralegur, ný búinn að gangast undir hefðbundnar mælistikur, sem sýndu að hann er orðinn 6.665 gr. og 63,5 cm. sem sé stór og stæltur drengur, þótt staðalímyndin segji víst að hann sé aðeins undir meðaltali, þá skal bara haft í huga hið gamla góða máltæki sem marg oft hefur sannað sig ,,Margur er knár þótt hann sé smár'' það held ég nú.





    7. febr. 2008

  Í dag má segja að geysað hafi alvöru stórhríð. Fyrst í morgun var raunar logndrífa, en svo tók að hvessa og var alveg moldviðrisbylur fram á kvöld. Ekki var maður nú mikið úti í dag, rétt hljóp á milli bæjar og fjárhúsa í moldviðrinu. Það var því ágætt að horfa út í gegnum krossinn, sem við höfum í eldhúsglugganum frá því á jólaföstu og fram yfir páska og biðja um betri tíð og blóm i haga.





  En sitt hvað er nú hægt að drepa tímann við þótt úti sé veðurofsi. Nú er sá árstími sem þarf að koma bókhaldi síðasta árs í röð og reglu og í rétt form fyrir skattmann. Fyrst þarf að fara yfir öll fylgiskjöl og raða þeim inn í ornara, þannig að þau sé þar vel aðgengileg til frekari úrvinnslu. Eins og sjá má legg ég gjarnan undir mig sjálft stofuborðið, að sjálfsögðu með ágætum velvilja minnar ektakvinnu.





  Og svo er komið að næsta skrefi sem er að færa af öllum fylgiskjölunum í ornaranum inn í hið ágæta bókhaldsforrit, dk-Búbót, sem Bændasamtökin selja. Það er sérhannað fyrir þarfir bænda hvað bókhald varðar. Allt þetta geri ég sjálfur og gengur bara ágætlega, þótt ég hafi nú aldrei sótt nein námskeið í þessum fræðum. Í dag skilaði ég svo fyrstu vinnslunni á netinu til skattsins; það voru launamiðar fyrir árið 2007. Fyrir næstu mánaðamót þarf svo að skila virðisaukaskatts uppgjöri og svo í síðari hluta mars sjálfu landbúnaðarframtalinu.





    4. febr. 2008


  Í gærkveldi helltist einhver árans pest yfir húsbóndann með miklum hita, þannig að hann þótti ekki líklegur til verka í dag. Var því haft samband við Gest frá Þríhyrningi til að annast gegningar í dag með húsmóðurinni. Hann brást okkur ekki frekar en fyrri daginn og mætti hér í dag og gaf báðar gjafirnar. Hann er reyndar núna í lausamennsku og gefur sig út í afleysingar hvort heldur er vegna veikinda, eða þá  ef bændafólk vill taka sér smá frí frá amstri dagsins. Hann t.d. var hjá okkur í 3 daga í janúar þegar við vorum að undirbúa útförina hennar mömmu og tengdamömmu. Það er einstaklega gott að vita af honum Gesti og eiga hann að ef eitthvað kemur uppá, þökk sé honum fyrir það.


    2. febr. 2008

  Þorrinn þokast áfram og það er sannkölluð þorratíð, norðanátt og éljagangur. Frostið fór niður í 14° hér í nótt sem leið. Mun meira frost var þó víða annars staðar á landinu t.d. 19° frost í höfuðborginni, en mesta frost í byggð voru 24° á Hjarðarfelli. Í kvöld á að blóta þorrann á Melum og verður það vonandi menningarsamkoma. Við hjónakornin ætlum að sitja þetta þorrablót af okkur, svona er það þegar aldurinn færist yfir.
  Læt hér fylgja þorramyndir sem teknar voru í dag.









Flettingar í dag: 384
Gestir í dag: 44
Flettingar í gær: 716
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 68253
Samtals gestir: 17428
Tölur uppfærðar: 14.5.2024 11:52:03
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar