Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit |
|
Fréttir apríl 2007 30 apríl 2007 Enn er sama blíðan sól og hiti, reyndar ekki alveg eins hlýtt og í gær, fór þó í 18°. Flestir farfuglarnir eru komnir og franir að fylla loftið af sínum ómfagra söng. Í kvöld komu þeir Gestur í Þríhyrningi og Bjarni á Möðruvöllum á stjórnarfund í Ferðafélaginu Hörg. Við vorum að leggja drög að atburðum félagsins í sumar, þeir verða nú að flestu leyti hefðbundnir, þar má nefna: Sólstöðuganga á Staðarhnjúk, Jónsmessunæturvaka í Baugaseli, Þorvaldsdalsskokk, pílagrímaganga, ganga um fólksvangin í Hrauni og trúlega eitthvað fleira þó það sé ekki endanlega ákveðið. 29. apríl 2007 Það var gríðarlega gott veður í dag, glaða sólskin og hiti komst í 20°. Maður sér grasið nánast gróa þannig að það er farið að grænka talsvert hér þótt það sé nú talsvert minna hér en neðar í sveitinni eins og venja er til. 26. apríl 2007 Blíðu veður var í dag hlýtt og sól. Í kvöld var hér fjallskilanefndarfundur og voru auk nefndarinnar mættir á fundinn Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri og Helgi Steinsson oddviti. Við vorum einkum að semja starfsreglur fyrir fjallskilanefndina og fara yfir erindisbréf sem á að setja fyrir fjallskilanefnd. Þetta gekk allt ágætlega hjá okkur og verða þessi plögg væntanlega staðfest af sveitarstjórn fljótlega. 25. apríl 2007 24. apríl 2007 Í dag fórum við á aðalfund BSE sem haldinn var í Hlíðarbæ. Þar var Andri Snær Magnason rithöfundur með erindi , sem bar yfirskriftina "Hugleiðingar um hlunnindi" og fórum við aðallega til að hlýða á hann. Það er skemmst frá því að segja, að þetta var ekki fýluför, því hann fór alveg á kostum. Fjallaði hann um allt frá norðurljósunum til stórvirkjana og um mörk raunveruleikans og óraunveruleikans og teygjanleika þess hvað er hagkvæmt. Gerður var mjög góður rómur að erindi Andra Snæs. 21. apríl 2007 Þá er nú sumarið komið samkvæmt hinu skráða tímatali. En ekki veðurfarslega því í gærkveldi tók að snjóa og í morgun var kominn 15 - 20 cm. djúpur snjór og það snjóar enn núna undir hádegi. Ég veit ekki hverju þetta á að sæta, því ekki vantaði nú að frysi saman vetur og sumar, það var hörkugaddur þannig að það á að fara í hönd hlýtt og gott sumar. Eitt er það sem hefur ef til vill ruglað bæði náttúruna og þjóðtrúna, þar er um að ræða, að það sauð á húsbóndanum einmitt á þessum árstíðaskiptum, hann var sem sagt með tæplega 40° hita. Og nú bíður maður bara spenntur eftir því hvað vegur þyngra í tíðarfari sumarsins, frostið úti á þessari fyrstu sumarnótt eða hitastigið í húsbóndanum. 19. apríl 2007 Í dag tókum við þátt í skoðunarferð Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps að Ytri Bægisá II. Þar búa hjónin Stefán Lárus Karlsson og Elísabet Jóhanna Zitterbrat ásamt fjórum börnum sínum. Þau búa aðallega með sauðfé, um 330 kindur, en auk þess eru þau með sýnishorn af hinum ýmsu búfjártegundum t.d. svín, kanínu, hross og nautgripi. Aðal tilefni ferðarinnar var að skoða nýja gjafatækni fyrir kindurnar, sem þau komu upp í haust sem leið, þar sem rúllunum er komið fyrir í einskonar gjafagrindum, sem léttir mjög alla vinnu við að gefa heyið. Það var mjög gaman að skoða allan búskapinn hjá þeim, allt snyrtilegt og vel um gengið og búpeningurinn vel útlítandi. Að lokinni skoðun var öllum hópnum boðið inn og þáðum við þar hinar höfðinglegustu veitingar. Alls voru 14 í þessari heimsókn og voru allir sammála um að þetta hafi verið einstaklega vel heppnaður dagur. 10. apríl 2007 Þá eru nú páskarnir á enda runnir og páskagestirnir á bak og burt. Hjalti fór í dag á sínum fjallabíl til Egilsstaða, honum gekk ágætlega enda vegurinn alauður mest alla leiðina. Veðráttan var bara þokkalega góð um páskana, snjóaði reyndar á páskanótt eina 6-8 cm. en það tók nú upp um daginn í sólbráðinni. Í gærkveldi gerði vestan hvassviðri og slydda og síðan snjó él í nótt þannig að það var aðeins snjór í morgun, en í dag lægði og létti til. Við fórum nú lítið um páskana annað en til Guðlaugar tengdamömmu í Hlíð, fórum til hennar á föstudaginn langa og á annan í páskum, hún var bara nokkuð hress miðað við aldur og að vera nánast alveg blind sem er að sjálfsögðu mjög erfitt fyrir hana. Heyrðum aðeins í Sólveigu á annan, þau eru hress og kát Tanska hjúin og bíða í ofvæni eftir frumburðinum, sem á nú reyndar ekki að líta dagsins ljós fyrr en í byrjun september, þannig að þau hafa allt sumarið til að láta sig hlakka til. Hjalti að leggja í hann, Lappi og Brussa horfa á hann saknaðaraugum. 5. apríl 2007 Í dag komu ráðunautarnir Jón Viðar Jónmundsson og Lárus Birgisson, að skoða hrúta til töku á sæðingastöð. Þeir tóku sýni úr fjórum hrútum til að kanna arfgerð þeirra gagnvart riðuveiki, því ekki má taka hrúta inn á sæðingastöð sem eru með áhættuarfgerð gagnvart henni. Hrútarnir sem þeir tóku úr eru: Þróttur 04-240, Baggalútur 04-244, Krókur 05-150 og Garður 05-254. Um þessa hrúta má fræðast annarsstaðar hér á síðunni t.d. má sjá hverjir eru foreldrar þeirra, hvernig þeir stiguðust lambshaustið og svo hvernig þeir hafa komið út úr skýrsluhaldinu.
1. apríl 2007 Í kvöld ætla félagar í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps að koma saman hér á Staðarbakka og spila Hrútaspilið, meiningin er að spila þetta með svipuðu sniði og félagsvist, það verður gaman að sjá hvernig þetta gengur. Flettingar í dag: 37 Gestir í dag: 10 Flettingar í gær: 403 Gestir í gær: 132 Samtals flettingar: 108147 Samtals gestir: 24309 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21 |
clockhere Staðarbakki Nafn: Guðmundur Skúlason & Sigrún FranzdóttirFarsími: 846 1589/615 1949Tölvupóstfang: drangi@simnet.isAfmælisdagur: 21. okt. og 6. febr.Heimilisfang: StaðarbakkiStaðsetning: HörgársveitHeimasími: 462 6756Um: Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.Bankanúmer: 1187-26-10528Tenglar
|
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is