Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit |
|
Fréttir mars 200728. mars 2007 Í kvöld var hér stjórnarfundur í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps, þar átti að reyna að laga uppsetningu ársreiknings félagsins, sem gerðar voru athugasemdir við á síðasta aðalfundi. Ekki náðist að laga þetta þar sem gjaldkeri telur að ekki þurfi að setja reikninginn upp samkvæmt venjulegum reikningsskilavenjum. Þegar umræðu um þetta mál lauk taldi gjaldkeri sig ekki hafa tíma til að sitja fundinn lengur og yfirgaf staðinn. Við Guðmundur Sturluson ritari héldum fundinum áfram og ákváðum að koma á einskonar Hrútaspilsfélagsvist, sem talað var um á aðalfundinum um daginn. Hún verður haldin hér á Staðarbakka núna á sunnudagskvöldið 1. apríl og er ætluð fyrir þau heimili, sem standa að Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps.
27. mars 2007 Í nótt snjóaði ögn og var alhvít jörð í morgun, en þetta tók nú upp í dag að mestu þar sem sólar er farið að njóta það mikið ekki hvað síst þegar auð jörð var undir. Það er að mestu autt á lálendi aðeins stöku skaflar og svo í giljum og skurðum. Ég fór enn eina ferðina á Blönduós í dag, á fulltrúafund hjá SAH svf. þar sem kynntar voru nýju samþykktirnar fyrir félagið, sem stjórnin hefur verið að semja á tveimur stjórnarfundum núna nýlega og þær voru svo bornar upp til samþykktar eða synjunar fyrir fulltrúana. Það er skemmst frá því að segja að samþykktirnar fengu góðar undirtektir og voru flestar greinarnar samþykkta samhljóða eins og þær voru lagðar fram, það var eiginlega bara 8. greinin sem stóð í mönnum og það af eðlilegum ástæðum, þar sem þetta var eina greinin sem stjórnin kom ekki með sameiginlegt álit. Ég var einn með minnihluta álit. Það var fellt með jöfnum atkvæðum 8 með og 8 á móti og tillaga meirihlutans var líka feld 8 með og 7 á móti en það var ekki nóg til að samþykkja tillöguna þar sem þarf 2/3 hluta atkvæða til að samþykkja lagabreytingar. Það var því gert fundarhlé svo stjórnin gæti reynt að ná saman um eina tillögu, það gekk fljótt og vel, ég lagði til að notuð yrði þeirra tillaga, nema tekið væri inn ákvæði úr minni tillögu um að þegar menn væru búnir að sitja samfellt í stjórn í 9 ár verði þeir ekki kjörgengir í það sinn, hinir samþykktu þetta og var tillagan þannig borin aftur undir fundinn og var nú samþykkt samhljóða, enda var búið að koma rækilega fram á fundinum að menn vildu endilega hafa þessa 9 ára reglu inni. Þetta var í heild ágætur fundur og ég held þetta séu bara góðar samþykktir fyrir SAH svf., sem ná utan um helstu starfssvið félagsins og stjórnunarhætti. 25. mars 2007 Ég kláraði bókhaldið í dag. Í fyrrakvöld fékk ég uppfærsluna af dkBúbót frá Bændasamtökunum, sem var forsenda fyrir því að hægt væri að loka bókhaldinu. Ég var svo að vinna við ýmsar afstemmingar í gær og morgun, sem var svo lokið um hádegi þannig að þá sendi ég þetta allt rafrænt til skattstjóra, bókhaldið fyrir búið og skattaskýrslurnar okkar Sigrúnar. Aldeilis gott að þetta er búið og ég er alltaf jafn ánægður að komast í gegnum þetta þótt ég hafi aldrei farið á námskeið til að læra á bókhaldsforritið dkBúbót. Við flýttum okkur svo að gefa seinni gjöfina og fórum svo í bæinn að gamni okkar. Fyrst fórum við á Greyfann og fengum okkur pitsu og svo á eftir í Kringlumýri 7 að heimsækja Ásgerði og færa henni smá gjöf í tilefni að 70 ára afmæli hennar á fimmtudaginn var. Þannig að þetta var hin ágætasta ferð og veður skaplegt, þó talsverður belgingur. Í dag er systir mín Ásgerður Svandís 70 ára gömul og ber bara aldurinn vel. Hún ætlaði að halda upp á daginn með því að fara með dætrasonum sínum á frumsýningu Leikfélags Hörgdæla á leikritinu Síldin kemur síldin fer, en það hefur verið að hvessa mjög undir kvöld þannig að það er varla ferða fært, svo hún hætti við. Hér á Staðarbakka er byljótt sunnanátt og mjög hvasst í verstu hviðunum. 21. mars 2007 Fórum til Akureyrar í dag ég var að fara á stjórnarfund í FSE í Búgarði þar sem við vorum að undirbúa aðalfund félagsins, það var búið að fyrirhuga hann 15. mars, en honum var frestað vegna fráfalls séra Péturs Þórarinssonar. Núna er áætlað að halda fundinn þann 3. apríl. Vonsku veður var hér þegar við fórum í morgun að ganga ellefu, hvöss suðvestan átt og renningur, en hann náði ekki nema út undir Flögu. Eftir það var bjart veður til Akureyrar, en hvasst. En þegar við komum heim var alveg glórulaus bylur framan við Flögu, mjög hvasst og öskrandi renningur. Á eftir okkur kom Rögnvaldur Reynisson til að lesa af rafmagnsnotkunina. Hann taldi sig heppinn að hafa sloppið hingað úr þessum byl og hálku og treysti sér ekki til baka aftur, fyrr en veðrinu fór að slota upp úr kl. 21. Ég tók hann því bara með mér í fjárhúsin að gefa kindunum og frúin tók til kvöldmatinn á meðan. 17. mars 2007 Jón Birgir Tómasson keppti fyrir KA á Íslandsmeistaramóti Júdósambands Íslands, sem fram fór í Reykjavík í dag. Hann keppti í aldursflokki 11 til 12 ára, í þyngdarflokki -38 kíló. Hann stóð sig mjög vel og varð Íslandsmeistari í einstaklingsglímu í sínum flokki, þar voru 8 keppendur, hann glímdi 3 glímur og vann þær allar og þar með var gullpeningurinn í höfn. Hann keppti líka í sveitakeppni og varð hans sveit í 2. sæti þannig að þar hlaut hann silfurpening. 16. mars 2007 Fyrir þá sem langar að frétta hvernig Gríma hefur það, er það af henni að frétta að hún lifir eins og blóm í eggi og er búin að ná upp fyrri þrótt og holdafari. Hún er alsæl að hafa tvær hæðir til að valsa um og er ólöt að reka á eftir húsmóðurinni að sjóða fisk handa sér upp á hvern dag sem Guð gefur. Stundum mætti ætla af atferli hennar að hún haldi að hún sé prinsessa ef ekki bara drottningin sjálf. Annars er hún nú bara blíð og góð. 15. mars 2007 Búfjáreftirlitsmaðurinn Smári Helgason var hér á ferð í dag, hann tók út ástand búfjárins og fór yfir Gæðastýringarhandbókina, allt var í toppstandi og fékk bestu umsögn. Seinnipartinn fórum við Sigrún til Akureyrar. Ég þurfti að fara í Sparisjóðinn vegna þess að ég er að færa viðskipti mín þangað eins og áður hefur komið fram hér á síðunni. Við fórum svo í Hlíð, þar voru Guðrún og Jónas fyrir hjá tengdamömmu, þannig að við gátum kvatt þau, en þau ætluðu suður í kvöld. 14. mars 2007 Í morgun klukkan rúmlega 9 kom Gunnar í Sandfellshaga að fósturtelja, hann taldi í 430 ám og 90 gemlingum, alls fann hann 884 lömb. Í ánum var meðaltalið 1,89 nokkrar reyndust geldar og ef þær eru ekki taldar með í útreikningnum þá er meðaltalið 1,95 lömb, hæst var meðaltalið hjá Flögu-ánum 2,06. Gemlingarnir komu illa út, meðaltalið á gemling er 0,83 lömb, það reyndust alltof margir geldir. Talningunni var lokið um 13:30. Helga, Jón Birgir, Hákon Þór og Margrét komu að hjálpa okkur við þetta og svo var Gunnar með mann með sér. Veður var skaplegt vestan fræsingur og smá renningur þegar leið á daginn. 13. mars 2007 Í dag fór ég á stjórnarfund hjá SAH svf. á Blönduósi. Við vorum að fara yfir samþykktir félagsins öðru sinni. Það tókst að ganga frá breytingartillögum sem á að leggja fyrir fundi í SAH svf. nú í vor. Um flest atriði vorum við sammála hvernig þessar samþykktir eiga að líta út, fáein atriði voru afgreidd samhljóða þótt menn greindi nokkuð á um bestu leiðina. Um eitt atriði náðist ekki samstaða, er það greinin sem fjallar um stjórnarkjör, þar var ég einn á móti afgreiðslunni eins og hún var samþykkt. Það var einkum tvennt sem ég gat ekki fellt mig við. Annað varðar tæknilega framkvæmd stjórnarkjörsins eða raunar kosningu formanns, ég vil að á aðalfundi kjósi fundarmenn formann úr hópi stjórnarmanna eftir að stjórnarkjör hefur farið fram, en hinir vilja óbreytt ákvæði sem er þannig að formaður er kosinn beinni kosningu áður en stjórnarkjör fer fram. Þetta þýðir í reynd að í stjórninni sitja 4 stjórnarmenn og formaður sem er kosinn óháð stjórnakjöri og er með 3ja ára kjörtímabil sem getur skarast við hans kjörtímabil sem stjórnarmaður hafi hann verið í stjórninni þegar hann er kosinn formaður. Hitt artiðið sem ég gat ekki sætt mig við, er að lagt er til að fella út ákvæði um endurkjör stjórnarmanna sem kveður á um, að eigi megi endurkjósa mann oftar en tvisvar í röð til setu í aðalstjórn, sem þýðir að menn geta ekki setið samfellt í stjórn lengur en 9 ár. Mitt mat er að þetta ákvæði sé SAH sem og öðrum félögum hollt og tryggi vissa endurnýjun í stjórn. Sigrún fór til Akureyrar á meðan ég var fyrir vestan. Jónas og Guðrún sóttu hana að Melum og skiluðu henni þangað aftur þegar ég kom til baka. Þau komu með flugi í gærkveldi og ætla að dvelja á Akureyri fram á fimmtudag. 10. mars 2007 Biggi Ara kom að snoðrýja fyrir mig í dag, hann byrjaði rúmlega hálf tíu og var búinn upp úr klukkan fjögur. Alls tók hann af 178 ám og 11 gemlingum. Verð á kind er 150 kr.. Ég var búinn að biðja Arnar að hjálpa mér við að leggja og komu þeir Gauti seint í gærkveldi. Nokkru fyrir hádegi var Arnar búinn að fá svo slæmt tak í bakið að hann varð að hætta. Ég hringdi því í nafna minn á Þúfnavöllum á hádeginu og bað hann að hjálpa mér, hann brást skjótt við og var að leggja þar til hann þurfti að fara að sinna sínum verkum heima. Það var mikið happ að hann skyldi geta hjálpað mér því ég veit ekki hvort ég hefði haft þetta af annars því eins og sjá má eru þetta mikil afköst hjá Bigga og því verður maður að hafa sig allan við að leggja og svo þarf líka að reka á milli, bæði að sækja ærnar sem á að fara að rýja og koma þeim svo aftur á sinn stað þegar þær eru búnar. 9. mars. 2007 Í dag fórum við að jarðarför séra Péturs Þórarinssonar í Laufási. Athöfnin hófst í Akureyrarkirkju kl. 13:30, þar var gríðarlegt margmenni, ég heyrði giskað á að um 1200 manns hafi verið þarna samankomin bæði í kirkunni og safnaðarheimilinu. Eftir athöfnina í Akreyrarkirkju var haldið að Laufási þar sem séra Pétur var lagður til hinstu hvílu. Loks var svo erfidrykkja í Íþróttahúsinu á Grenivík. Pétur var sóknarprestur okkar um nokkurra ára skeið og bjó þá á prestssetrinu á Möðruvöllum og hafði þar nokkurt fjárbú. Flutti hann fé sitt hér til afréttar hvert sumar, það er að segja í Möðruvallaafrétt sem er fremsti hluti Hörgárdals. Við höfðum því ekki bara kynni af honum sem prestinum okkar, heldur líka og ekki síður í öllum göngum og réttum hvert haust, svo og öðru fjárragi svo sem hrútasýningum. Pétur hafði einstakt yndi af öllu sem viðvék sauðkindinni og hann hafði gott auga fyrir ræktun fjárins og ávannst talsvert í þeim efnum í þau ár sem hann bjó á Möðruvöllum. Pétur hafði frá ungaaldri þjáðst af sykursýki og nú um allmörg ár barist hetjulegri baráttu við ýmsa fylgikvilla hennar, sem nú því miður hafa fellt hann til moldar. Pétur fæddist þann 23. júní 1951 og hann lést þann 1. mars 2007. Hafi hann hugheila þökk fyrir allt og allt. Guði sé hann falinn og blessuð sé minning hans. Í dag fórum við til Akureyrar, ýmislegt að stússast. Það markverðasta var nú að ég ákvað að skipta um banka. Þegar ég komst á þann aldur að þurfa að velja banka, kom ekkert annað til greina en fyrir valinu yrði Búnaðarbankinn. Ástæðan er augljós þessi banki var stofnaður fyrst og fremst til að annast þjónustu við bændur, landbúnaðarstofnanir og landsbyggðina þannig að þar átti ég heima. Gegnum árin hefur nú frekar bankinn verið að fjarlægjast þetta upphaflega markmið sitt, þó ekki þannig að maður sæi ástæðu til að flytja sig í aðra bankastofnun lengi vel. En eftir að bankinn var einkavæddur hefur hlutverk hans breyst hratt og hann er búinn að skipta oft um nafn og síðasta nafnið er að ég held Kaupþing. Það hefur farið með þetta eins og aðrar einkavæðingar, að í stað þess að vera þjónustustofnun við landsbyggðina er þetta skrímsli sem hugsar aðeins um það eitt að græða nógu mikið til að auka auð stóru hluthafanna og æðstu stjórnenda bankans. Þegar þessar toppfígúrur innan bankans eru farnar að hirða úr bankanum um milljarð á ári í laun og kaupréttarsamninga o. fl. ,o. fl. þá fyllist maður slíkum viðbjóði á þessu framferði og taumlausu græðgi að maður vill ekki eiga neitt saman við slíkan óþverra að sælda. Ég flutti mig því í Sparisjóð Norðlendinga og fékk þar ágætar viðtökur og vonandi á mér eftir að líða betur þar með mín viðskipti og vonandi missa þeir sem þar stjórna aldrei sjónar af því að banki á í eðli sínu að vera þjónustustofnun bæði fyrir sparifjáreigendur og þá sem þurfa á lánafyrirgreiðslu að halda, að sjálfsögðu á að taka eðlilegt gjald fyrir þá þjónustu, en ekki að missa algjörlega stjórn á sér í einum ógeðfeldasta lösti sem til er, það er græðgin, græðgin í stærri og enn stærri hlut, en menn hafa með að gera eða hafa unnið fyrir á heiðarlegan hátt. 2. mars 2007 Þá er Gauti litli farinn frá okkur. Foreldranir og systkinin komu kl. 17.oo að sækja hann. Síðan fóru þau öll til Reykjavíkur í afmæli Jennýjar ömmu Arnars, 85 ára á morgun. Dvölin hans er búin að vera mjög skemmtileg fyrir okkur og vonandi hann líka. Mikið var ærslast og hlegið og komu mörg skrímsli í heimsókn, (Gummi afi leikarinn). 1. mars 2007 Þá er nú febrúar á enda runninn, ekki er nú hægt að segja annað en hann hafi verið þokkalega góður, nánast snjólaust og fremur stillt en nokkurt frost með köflum. Við fórum til Akureyrar í gær og þar er þó nokkur snjór ég gæti trúað að það séu alveg 20 - 30 cm. Flettingar í dag: 37 Gestir í dag: 10 Flettingar í gær: 403 Gestir í gær: 132 Samtals flettingar: 108147 Samtals gestir: 24309 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21 |
clockhere Staðarbakki Nafn: Guðmundur Skúlason & Sigrún FranzdóttirFarsími: 846 1589/615 1949Tölvupóstfang: drangi@simnet.isAfmælisdagur: 21. okt. og 6. febr.Heimilisfang: StaðarbakkiStaðsetning: HörgársveitHeimasími: 462 6756Um: Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.Bankanúmer: 1187-26-10528Tenglar
|
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is