Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit |
|||||||||||||||||||||
Fréttir febr. 2007
Í dag fórum við Sigrún á Siglufjörð. Það var verið að halda upp á 2ja ár afmæli Ívars Franz.Við flýttum okkur í verkunum eins og við gátum og voru búin að öllu og lögð af stað laust fyrir hálf tvö og til Sigló komum við svo rétt fyrir kl. 4, fórum Öxnadalsheiði því Lágheiðin er ófær. Ferðin gekk ágætlega smá hálka sumstaðar en víðast auður vegur. Þetta var fínasta veisla með mörgum stríðstertum. Þó nokkrir krakkar komu og nokkrar mæður og einn faðir, eldra fólk var líka aðeins í bland. Þetta var fínasta ferð og gaman að heimsækja þau á Sigló, það er nú ár síðan við fórum þangað síðast. Gauti Heimir kom svo með okkur til baka og ætlar að vera einhverja dag, það er víst vetrarfrí í skólanum. Heim komum við um kl. 23 eftir vel heppnaða ferð, bara hress þrátt fyrir nokkuð strangan dag, fyrst að gefa öllu og svo er þetta nú yfir 300 km. akstur. 21. febr. 2007
20. febr. 2007 Í dag fór ég á fund í Hlíðarbæ, yfirskrift fundarins var Á að vera landbúnaður á Íslandi frummælandi var Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands. Fór hann vítt yfir sviðið, þróun í búskaparháttum og bústærð, verðmyndun landbúnaðarafurða, samanburð á verði landbúnaðarafurða og annarar vöru á milli landa, samskipti Bændasamtakanna við stjórnvöld, verkalýðshreyfingu o.fl. aðila. Í heild var þetta mjög gott erindi, sem sýndi í raun að íslenskir bændur þurfa ekki að skammast sín fyrir neitt, þeir eru að framleiða hágæða vöru á fyllilega samkeppnishæfu verði eins og gerist í nágrannalöndunum og innlendar landbúnaðarvörur eru síst dýrari í þeim samanburði en ýmsar aðrar vörur, sem búa þó ekki við það að vera framleiddar við heldur verri veðurfarsskilyrði eins og landbúnaður hér þarf að búa við.
Í kvöld var svo Dóra (Halldóra Lísbet) með kremkynningu hérna. Á henni voru auk okkar Sigrúnar, Magga, Guðleif, Sturla, Sveinfríður, Ásgerður og Dóra Margrét auk þess komu Árni Freyr og Haukur þótt þeir væru nú ekki á kynningunni. Þetta var ágætt kvöld og glatt á hjalla að vanda. Dóra bauð upp á hvítvínsstaup í lok kynningarinnar og svo gaf Sigrún öllum kaffi og meðlæti í restina.
Myndin er gömul frá fyrri kynningu hjá Dóru!
19. febr. 2007 Við Sigrún fórum til Akureyrar í dag, við fórum bæði til Hauks tannlæknis, svona í eftirlit og gekk það ágætlega. Við vorum líka að versla nauðsynjar í Bónus og fórum þar í bollukaffi. Ég var líka aðeins eð skoða með lambamerki, fór bæði í Vélaborg og Bjarg að fá sýnishorn, líst betur á merkin á Bjargi, þau eru norsk. Í kvöld kom svo Sigló fjölskyldan óvænt í heimsókn, þau stoppuðu í eina tvo og hálfan tíma og var það gaman að fá að sjá þau aðeins.
15. febr. 2007 Smávegis slydda var í dag, annars er enginn snjór, aðeins rúmlega grá jörð. Við Sigrún erum þessa dagana að skipta um merki í þeim ærárgöngum sem ekki var skipt í í fyrra, það er ám fæddum 2002 til 2004. þetta er þó nokkuð staut við skrifum ofan í alla stafina fyrst svo lesningin sjáist betur. Ég hef líka verið að færa fangið inn í Fjárvís og er það nú allt búið. Ég er líka búinn að færa allt bókhaldið inn í dk Búbót, sem hægt er að færa en það vantar uppfærslur til að hægt sé að klára alveg.
12. febr. 2007 Í dag fór ég á stjórnarfund hjá SAH svf. á Blönduósi. Við vorum aðallega að fara yfir lög félagsins, því það stendur til að gera verulegar breytingar á þeim á aðalfundinum vor. Stærstu breytingarnar eru þær að nú er SAH ekki lengur afurðasölufyrirtæki, heldur aðallega eignavörslufyrirtæki. Félagið á verulegar húseignir á Blönduósi og það á 51 % hlut í SAH Afurðum ehf. sem er einkahlutafélag, sem annast nú alla slátrun og úrvinnslu afurðanna. Þetta kallar á breytingar á samþykktunum, svo er líka meiningin að haf SAH svf. ekki lengur deildaskipt samvinnufélag, einnig þarf að setja inní lög félagsins hvernig farið á með það atkvæðavægi sem fylgir þessu 51 % sem SAH svf. á í SAH Afurðum ehf. og hvernig á að velja þá 3 stjórnarmenn sem SAH svf. á rétt á þar. Ýmsar fleiri smávægilegar breytingar þarf einnig að gera sem ekki verða tíundaðar hér að svo stöddu. Áður en ég fór vestur í morgun keyrði ég Sigrúnu til Akureyrar þannig að hún gæti verið hjá mömmu sinni í Hlíð á meðan og stytt henni stundirnar. Við komum ekki heim fyrr en kl. að ganga 9 í kvöld.
8. febr. 2007 Allt gott að frétta af Grímu, hún braggast með hverjum deginum sem líður, étur fisk í öll mál og er farin að fá vöðva aftur. Mér finnst hún bara sæl og glöð í sveitinni.
5. febr. 2007 Í kvöld var aðalfundur Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps haldinn í Brakanda. Mæting var ágæt, vantaði aðeins frá einum bæ, Myrkárbakka. Ólafur G Vagnsson mætti að vanda á fundinn með niðurstöður úr skýrsluhaldi síðasta árs. Meðal afurðir eftir á með lambi voru 29,4 kg. Mestu afurðirnar voru hjá Viðari og Elínrósu í Brakanda 36,2 kg. og Gunnari og Doris í Búðarnesi 34,1 kg. Besta gerðarflokkun var á Staðarbakkabúinu 10,07.
Ólafur G Vagnsson afhenti verðlaunabikar félagsins fyrir hæst stigaða lambhrútinn 2006 fengu Sigurður og Margrét Staðarbakka hann fyrir hrútinn Vonar 06-164, hann stigaðist uppá 87,5 og var stigahæsti hrúturinn, ekki bara í félaginu hérna heldur líka á svæði Búnaðarsambands Eyjafjarðar.
Margrét og Sigurður með bikarinn og á milli þeirra dótturdóttirin Margrét Tómasdóttir með verðlaunapeninginn um hálsinn.
Þetta eru myndir af Vonar 06-164 F: Hylur 01-883 M: Von 03-300
Það var einnig gefið á fundinum yfirlit frá hrútasýningu á veturgömlum hrútum í haust sem leið. Gróf flokkun var þannig.
Hæst stigaði hrúturinn með 87 stig var Þrymur 05-250 F: Hylur 01-883 M: Bjalla 02-271 Eigendur Guðmundur og Sigrún Staðarbakka
Í öðru sæti með 86 stig varð Krókur 05-150 F: Tumi 04-141 M: Dröfn 03-331 Eigendur Sigurður og Margrét Staðarbakka
3. febr. 2007 Í kvöld fórum við öll á bænum + Beta og Guðrún Margrét í boð í Búðarnes, áttum við þar hina ánægjulegustu stund við spjall og hinn besta viðurgjörning. 2. febr. 2007 Í dag fórum við með Sólveigu í flug til Reykjavíkur. Við fórum svo á eftir á þorrablót í dvalarheimilinu Hlíð. Það var hin ágætasta samkoma. Byrjað var á því að borða þorramat og var svo farið á sal þar sem voru prýðileg skemmtiatriði. Guðlaug tengdamanna hafði bara nokkuð gaman af þessu þótt sjónin sé farin, en hún var orðin nokkuð þreytt eftir þetta allt saman, enda orðin 95 ára. 1. febr. 2007 Í dag fór ég á stjórnarfund í FSE, sem hófst í Búgarði kl. 11. Þar var einkum verið að fjalla um nýjan sauðfjársamning (það má sjá hann hér á heimasíðunni) í heildina voru stjórnarmenn nokkuð sáttir við samninginn. Það sem helst var talið gagnrýni vert var að fella niður útflutningsskylduna sem hefur verið í gildi í þeim samningi sem nú er að renna út. Menn óttast að þetta kunni að leiða til þess að kjötfjall fari að myndast aftur í landinu. Ákveðið var að stefna að aðalfundi FSE 15. mars í Sveinbjarnargerði.
Flettingar í dag: 10 Gestir í dag: 3 Flettingar í gær: 56 Gestir í gær: 9 Samtals flettingar: 128560 Samtals gestir: 27678 Tölur uppfærðar: 3.4.2025 06:12:58 |
clockhere Staðarbakki Nafn: Guðmundur Skúlason & Sigrún FranzdóttirFarsími: 846 1589/615 1949Tölvupóstfang: drangi@simnet.isAfmælisdagur: 21. okt. og 6. febr.Heimilisfang: StaðarbakkiStaðsetning: HörgársveitHeimasími: 462 6756Um: Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.Bankanúmer: 1187-26-10528Tenglar
|
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is