29. nóv. 2016
|
Það er alveg ótrúlegt hvað orðið er autt aftur eins og var kominn mikill snjór. Þetta er nú mikill léttir og bót fyrir sálina, enda er maður búinn að fá nóg af bardaga við snjó í gegnum lífið. |
23. nóv. 2016
Sigrún fór í sjúkraþjálfun, eins og hún gerir að jafnan á miðvikudögum. Þegar við vorum svo búin að útrétta fórum við í skemmtilega kvöldheimsókn til Sólveigar og Tómasar. Þetta var í fyrsta skipti sem Sigrún hefur heimsótt þau síðan hún fékk heilablóðfallið 27. mars 2103. Þetta var nú ekki alveg þrauta laust þar sem íbúðin er á annarri hæð. En sem betur fer er stiginn tvískiptur, þannig að rampurinn sem til er náði yfir allar tröppurnar á hvorum helming og svo var ég með band þannig að ég var á eftir og ýtti á hjólastólinn en Sólveig var upp á skörinni og togaði í bandið sem við festum við stólinn. Allt gekk þetta nú ljómandi vel og Sigrún var alveg himinlifandi að geta komist í heimsókn til þeirra mæðgininna.
22. nóv. 2016
|
Gestur kláraði að rýja í dag. BRAVÓ! |
|
Lubbi lét fara vel um sig á ullarborðinu... |
|
... og gamli gráskeggur setti ullina í pokana. Já, allir hafa víst sitt hlutverk. |
20. nóv. 2016
|
Það er kominn ótrúlega mikill snjór á örfáum dögum. Hér var alautt fyrir hálfri viku síðan. Allt fé er komið á fulla gjöf og langt komið að rýja það sem rúið verður. |
|
Blómagarðurinn í vetrarham... |
|
...og í sumarskrúða. Miklar andstæður... |
15. nóv. 2016
|
Í dag voru þau Sólveig og Tómas Leonard að flytja í nýja íbúð, sem hún er búin að kaupa að Grenivöllum 16. Ég skrapp í bæinn í kvöld til að hjálpa þeim aðeins að setja saman og koma hlutunum fyrir í íbúðinni. Mér líst ljómandi vel á þau þarna og vona að þau eigi góða daga í þessarri íbúð. |
12. nóv. 2016
|
Í gær var Þórólfur á Myrká kvaddur og í dag var það frændi hans Haukur Steindórsson eða Haukur í Þríhyrningi eins og hann var jafnan nefndur. Útför hans var gerð á Möðruvöllum í dag að viðstöddu miklu fjölmenni. Haukur fæddist í Þríhyrningi 11. janúar 1940 og ólst þar upp á mannmörgu heimili. Hann tók svo við búskap þegar faðir hans Steindór féll frá 1966, fyrst í félagi við Helgu móður sína og síðar bjuggu þeir Doddi bróðir hans félagsbúi þar um áratuga skeið. Haukur var góður bóndi og hugsaði um búið að mikilli natni og nákvæmni. En hann var líka kvaddur til starfa utan bús t.d. var hann mjólkurbílstjóri um skeið og um tíma var hann fenginn til barnakennslu í Þelamerkurskóla, svo fátt eitt sé talið. En mestum tíma utan bús varði Haukur óefað í ýmis félagsmálastörf, sem honum voru falin bæði af sveitungunum og líka innan héraðs og á landsvísu. Allir sem til hans þekktu báru óskorað traust til hans og var hann gjarnan annað hvort formaður eða ritari í þeim stjórnum sem hann sat í. Hann hafði einkar fagra rithönd sem bar góðan vott um hans vandvirkni . Þótt við Haukur byggjum nú nánast sitt á hvorum sveitarendanum lágu leiðir okkar mikið saman bæði í bústörfum og félagsmálum. Alla tíð var Þríhyrningsféð rekið hér fram á Hörgárdal til afréttar, þannig að það urðu mikil samskipti bæði vor og haust, sem aldrei bar nokkurn skugga á og þar eins og annarsstaðar var Haukur fremur veitandi en þiggjandi. Frá þessum tíma er margs að minnast t.d. þegar við gengum tveir í eftirleit í góðu haustveðri fram Grjótárdal, vestur yfir Urðir og niður í Víkingsdal og fundum þar þrjár skagfirskar kindur, sem okkur tókst að hemja og koma alla leið til byggða niður í Staðarbakka. Þetta var löng og erfið ganga og þá var gott að hafa traustan og góðan ferðafélaga. Annað eftirminnilegt ferðalag er ein af þeim ferðum sem farnar voru ríðandi vestur á Hörgárdalsheiði til að gera við girðinguna sem þar var. Þetta er svona um þriggja til fjögurra tíma reið. Oftast vorum við fjórir sem fórum í þetta verkefni. Auk nestis og minni verkfæra þurfti að reiða með sér járnkarl, sem er ekkert sérstakt, einkum þegar reiðvegurinn er ekki góður. Haukur bauðst að þessu sinni til að taka járnkarlinn að sér og var það þegið. Það sem við hinir vissum hins vegar ekki var að Haukur var með brákað rifbein. Þeir sem hafa orðið fyrir því að laska rif geta rétt ímyndað sér hvernig það er að ríða um langan veg þannig ásig kominn hvað þá reiðandi með sér járnkarl. Þetta atvik lýsir Hauki afar vel, alltaf tilbúinn að létta undir með öðrum jafnframt því að fjargviðrast ekki yfir eigin vandamálum. Eins og áður hefur komið fram var Hauki treyst fyrir margskonar félagsstörfum. Í sumum þeirra lágu leiðir okkar saman t.d. í sveitarstjórn og í stjórnum Búnaðarfélgs Skriðuhrepps og í deildarstjórn Skriðudeildar KEA. Einnig vorum við um nokkurra ára skeið fulltrúar Eyfirðinga á aðalfundum Stéttarsambands bænda. Það var mér ómetanlegt að kynnast störfum Hauks á sviði félagsmála og eiga þess kost að læra af honum. Læra hvernig hann beitti rökhugsun og sanngirni í hverju máli og umfram allt að það sem væri bókað á fundum væri gert á skýran hátt og á góðri íslensku bæði hvað málfar og réttritun varðaði. Já, í öllu því sem Haukur tók sér fyrir hendur held ég að vandvirkni og heiðarleiki hafi verið hans æðsta leiðarljós. Það var því Hauki mikið áfall þegar heilsan fór að bila og hann fann vanmátt sinn í því að vera sverð og skjöldur á svo mörgum sviðum. Einkum var það búið í Þríhyrningi og heimilið, sem honum varð mjög þungbært að geta ekki verið sá máttarstólpi sem hann hafði verið. Já, því miður átti þessi góði og réttsýni maður marga erfið stund hin síðari ár, en þó líka góða tíma inn á milli. Nú þegar leiðir skilja um stund, þakka ég þér Haukur minn fyrir allt sem þú kenndir mér og fyrir alla þína vináttu og hlýju á okkar samferðabraut í þessum heimi og ég er þess fullviss að góður Guð hefur tekið þér fagnandi á æðra tilverustig.
|
11. nóv. 2016
|
Þeim fækkar bændunum sem voru máttarstólpar í sveitinni þegar ég var að vaxa úr grasi, eru í raun örfáir eftir hérna megin grafar. Í dag var það Þórólfur á Myrká sem borinn var til grafar. Þórólfur átti heima á Myrká lengst af sinnar ævi eða allt til ársins 2012 er þau systkinin Þórunn og hann fluttu til Akureyrar eftir að hafa brugðið búi á Myrká. Þórólfur var drengur góður og gott til hans að leita. Hann var þó ekki þeirrar manngerðar að hann væri að trana sér fram. Engu að síður fólu sveitungarnir honum ýmis trúnaðarstörf t.d. var hann um nokkurt árabil í sveitarstjórn og í stjórnum félaga í sveitinni. Þórólfur var rammur að afli og söngmaður góður, hafði mikla og djúpa bassarödd. En fyrst og fremst var hann bóndi. Hann var kannski ekki mikill brautryðjandi í búskap. En hann bjó alltaf af mikilli snyrtimennsku og þótti afar vænt um skepnurnar sínar og hugsaði um þær af einstakri natni og umhyggju. Ég þakka Þórólfi af alhug samveruna og öll samskipti í sveitinni okkar í gegnum árin. |
7 nóv. 2016
Hitastigið í kvöld kl 23........... |
|
.....og það er búið að vera um þetta bil í allan dag, sem sagt enn einn hlýi blíðviðrisdagurinn á þessu hausti. Það er nú reyndar víst kominn vetur þó lítil merki sjáist þess enn, sem betur fer...
|
....eins og sjá má á þessari mynd, aðeins snjóhrafl í hæstu fjöllum. |
4. nóv. 2016
|
Gimbrarnar voru teknar inn í gær og í dag byrjaði Hákon Þór að rýja þær. Þetta er nú hans fyrsta ár sem rúningsmaður þó hann hafi nú aðeins gripið í þetta fyrr.
|
Jón Birgir var að leggja fyrir hann.
|
Hér eru greyin orðin strípuð |
|
1. nóv. 2016
|
Vinátta...........Trölli og Svanur. |
|