27. nóv. 2015
|
Það tók að hríða í dag, þannig að ég fór í Flögu til að láta ærnar hafa rúllur til að nasla. Það er fyrsta gjöfin þeirra. Er þá allt féð komið á gjöf. |
26. nóv. 2015
|
Gestur kláraði að rýja í dag og er þá allt rúið, nema það sem liggur við opið í Flögu og á Berginu, 125 ær. Að vísu voru skildar eftir í ullinni hér heima 4 gimbrar (tvær forystu og tvær sumrungar) og einn fullorðinn hrútur, sem verður í Flögu til að passa upp á uppbeiðslur þar. |
25. nóv. 2015
|
Þá er kominn nýr dúkur á eldhúsgólfið. Því miður var engin mynd tekin af verkinu. Þeir lögðu dúkinn fyrir okkur, þeir félagar Stefán Lárus og Jónas Baldursson og kunnum við þeim okkar bestu þakkir fyrir. Það var alveg orðið tímabært að skipta, gamli dúkurinn var bæði orðinn gamall og slitinn. |
22. nóv. 2015
Hrútarnir voru rúnir í dag og þá er alltaf gott að virða fyrir sér sköpulag þeirra, það var reyndar frekar þröngt á þeim til að mynda.
|
Hér er Hrappur 12-121. Hann er undan Blakk 07-865 og móðir hans er undan Sokka 07-835. Eins og sjá má er hann allur mjög fylltur og lærholdin bunga vel út. |
Hér má svo sjá afturbygginguna á Gleið 13-234, þetta er gríðarlega breiður og vöðva fylltur afturpartur. Gleiður er undan Örlygi 11-721 en að honum standa höfðingjar eins og Kveikur 05-965 og Púki 06-807. Móðir Gleiðs er á Ytri Bægisá og er undan Kóng 04-829 og móður móðir var undan Brúsi 03-946. |
|
Hér önnur mynd af afturpartinum á Gleið 13-234. |
|
Þetta er svo lambhrúturinn Blær 15-254, annar samstæðra tvílembinga undan Hrapp 12-121 sem ég setti á í haust. Hreinhvítur og mjög vel byggður og vöðvaður. |
|
Hér sést afan á Blæ og framan á bróðir hans Ljóma 15-253 en á milli þeirra er Sólon 15-150, sem er gríðarlega vel gerður og eins og sjá má með frábæra læra vöðva. Sólon er undan Hæng 10-903 og móðurfaðir hans er Birkir 10-893. Auk þessara sæðingahrúta hefur fjöldi annara langfeðra þessa móra verið á sæðingastöðvum um lengri eða skemmri tíma. |
21. nóv. 2015
|
Það var kominn tími til að fylla á ísskápinn þannig að við Sigrún brugðum okkur til Akureyrar í verslunarferð í dag og svona var að líta til baka fram dalinn þegar við vorum komin niður hjá Melum. |
|
Þessi mynd er tekin frá Akureyri. Á henni sést val hvað sólin er orðin lágt á lofti, geislar hennar fljóta nánast á Möðruvallafjallinu ná aðeins að lýsa upp efstu brúnir hnjúkanna á milli skarðanna, sem vísa á móti sól. |
|
Við enduðum svo bæjarferðina á heimsókn hjá þessum góðu vinum okkar, þar sem okkur var boðið upp á ljúffenga lambasteik og ekki skemmdi að kjötið var upprunnið úr okkar ræktun. Takk fyrir okkur. |
14. nóv. 2015
|
Gestur og Hákon búnir að svipta nokkrar gimbrar ullarklæðum sínum. |
13. nóv. 2015
|
Enn er allt féð úti á beit nema hrútarnir. Það hefur nokkuð góðan haga og fer vel með sig. Það er nýlega farið að hýsa gimbrarnar á nóttunni til að kenna þeim átið. En nú eru breytingar í vænd.... |
|
...hér er verið að smala gimbrunum heim s.d....... |
|
....og setja þær inn í Lambhúsið til vetursetu þar. Það er búið að vera mjög gott fyrir þær að geta verið svona lengi úti í þessari góðu tíð, sem verið hefur nær óslitið í allt haust. Það verður nógu löng innistaðan fyrir greyin samt. Pabbi kenndi mér að engar kindur eru eins duglegar að beita sér eins og lömb. Það er því sjálfsagt að hafa gimbrarnar úti fram eftir nóvember ef vel viðrar og enn er hagi fyrir þær. Á morgun verður svo byrjað að rýja þær. |
|
Bergfoss farinn að skrýðast vetrarskrúðanum. |
12. nóv. 2015
HÚRRA, BRAVÓ, HÚRRA, já þrefalt HÚRRA!!!
|
Já, í dag kom hér maður frá Ljósgafanum og tengdi hér öll fjarskipti ljósleiðaratengingu. Ég samdi við Símann og fæ frá honum; nettengingu, sjónvarp og heimasíma í svokölluðum Heimilispakka Símans, sem kostar 12.000 kr á mánuði. Mesta breytingin við þessa nýju tengingu er örugglega hraðinn um internetið. Við höfum haft 3G tengingu frá því í desember 2009, sem var þá bylting frá ISDN tengingunni sem við höfðum þar áður um nokkurra ára skeið. En við þessa tengingu í dag fór hraðinn á netinu úr 3,5 mb/s upp í 94 mb/s, það munar um minna.
Heimasíminn er það sem breytist líklega minnst við þetta að öðruleyti en því að það verður miklu ódýrara að nota hann, þar sem öll símtöl innanlands verða gjaldfrí, hvort sem talað er í heimasíma eða GSM, óháð kerfi. Símasamband komst á við Staðarbakka þegar gamli sveitasíminn var lagður hingað sumarið 1954. Sjálfvirkt símasamband komst svo á, að mig minnir 1985.
|
|
Gæði sjónvarpsútsendinga breytast lítið þar sem við bjuggum orðið við ágæt skilyrði hvað það varðar. En við getum nú horft á miklu fleiri stöðvar og notað tímaflakkið o.fl. o.fl. Ég held að sjónvarp hafi fyrst komið hér á bæinn vorið 1970. Það var að sjálfsögðu bara í svarthvítu enda ekki sent út í lit þá og aðeins ein stöð eða rás um að velja. Sjónvarpsskilyrði voru þá nánast vonlaus t.d. var svo mikil hríð á skjánum að það var varla hægt að lesa textann. Mikil er breytingin á þessum 45 árum. |
11. nóv. 2015
|
Það var 5. sept í haust sem ljósleiðarastrengurinn kom hér inn fyrir vegg í stofunni og síðan er þessi rauða hönk búin að vara hér sem stofustáss.......... |
|
......en viti menn á þessu varð breyting í dag, þegar komu hér menn frá Tengir á Akureyri og gengu frá endanum í tengikassa í stofuhorninu. Þannig að nú fer að styttast verulega í að maður verði í góðu sambandi við umheiminn um ljósleiðara. |
10. nóv. 2015
|
Trén í blómagarðinum eru nánast fullbúin að taka á móti komandi vetri. Það er þó ein og ein grein sem ekki hafa fellt laufin. Það væri gaman að vita hver ástæðan væri fyrir þessum mun á milli greina á sama trénu. Er þetta ef til vill viðbótar vöxtur sumarsins á hverri grein? |
|
Það þarf alltaf að lagfæra og endurnýja eitthvað af fjárhúsgólfunum á hverju ári og hér er greinilega úrbóta þörf. |
|
Þá er bara að drífa sig í að laga þetta. |
|
Önnur og allt önnur ásýnd var á trjánum í garðinum að afloknu dagsverki í fjárhúsunum. |
6. nóv. 2015
|
Í dag kom Ragna Hugrún vinkona okkar í heimsókn og ætlar að gista hjá okkur í nótt, það var því tilvalið að skála í bjór í kvöld. |
1. nóv. 2015
|
Í morgun kl 6:55 fæddist Auði Maríu sonur, hann er 4,160 gr og 54 cm. Allt gekk vel og eins og sjá má er hún alsæl móðir að sínu fimmta barni. Innilega til hamingju með drenginn þinn Auður okkar. |