Fréttir okt. 201531. okt. 2015
|
Enn einn dásemdardagurinn en ansi eru nú skuggarnir að verða langir í dalnum okkar...... |
|
.....og hér eru skuggarnir að fylla dalinn.
|
|
Í kvöld fórum við Sigrún ásamt þeim Brósa og Möggu á tónleika í Hofi, þar sem Björgvin Halldórsson og hljómsveit tróðu upp. Þetta var heilmikið fjör og Sigrún var alveg í rús, henni fannst þetta svo stórkostlegt. |
30. okt. 2015
|
Þá er nú snjórinn farinn aftur sem betur fer og alveg einstök haustblíða. Við Gestur vorum í dag að moka út taðinu í Flögu og er þá búið að taka út allan skít frá því í fyrravetur. Gott mál það. |
27. okt. 2015
|
Það var bjart og fallegt veður í dag. Við Stefán Lárus drifum okkur því í eftirleit hér fram á Hörgárdalinn. Komum tómhentir heim, sem passar við að ekki var vitað um neitt fé sem væri eftir hér. |
25. okt. 2015
|
Í dag fóru Anton og félagar til rjúpna hér fram á dalinn. Fátt segir af rjúpnaveiðinni. Hins vegar fundu þeir 5 kindur fram hjá Heimarahrauni, sem þeim tókst að reka með sér heim að Selsgirðingu, þar sem þær voru handsamaðar og settar í kassann á dráttarvélinni. Þetta voru tvær mórauðar ær önnur með tvö mórauð lömb en hin með eitt hvítt. Þessar kindur sluppu í öðrum göngum aftur upp á Grjótárdal eftir að hafa náðst þaðan við illan leik og hafa ekki sést síðan fyrr en nú. Þær reyndust allar vera eign Agnars „prestsbónda“ á Miklabæ í Akrahreppi. Þannig vildi svo til að Guttormur bóndi í Grænuhlíð í Akrahreppi var hér í dag að sækja svartan lambhrút sem hann á, sem kom hér heim að girðingu fyrir nokkrum dögum. Saga þessa hrúts er svolítið merkileg. Þannig var að þeir bændur í Akrahreppi voru fyrir um þremur vikum að handsama kindur, sem þeir höfðu náð úr afréttinni fram hjá „Kofa“ þá misstu þeir þennan svarta lambhrút og hann hvarf þeim bara út í buskann. Hann hefur svo eftir að hann slapp undan mannahöndum rásað alla Hörgárdalsheiðina, ofan í Hörgárdal, vestur yfir Hörgá og alla leið hér heim að girðingu. Þetta er örugglega um eða yfir 20 km, sem hrússi hefur skokkað aleinn, enda er hann léttur á sér og einhver styggasta kind sem ég hef kynnst. Ekki er nú öll sagan sögð enn. Þegar Guttormur kom hingað í dag var hann með í kerru sinni gráa á með tvo dilka, sem hann á. Hafði sú verið handsömuð við Auðni í Öxnadal í gær. Þegar við hér á bæ sáum þessar kindur í kerrunni bárum við kennsl á þær, höfðum séð þær áður á þessu hausti. Í öðrum göngum í haust misstum við Hákon Þór brjálaða tvílembu upp í kletta í Grjótárhnjúknum og urðum að ganga frá henni þar. En hér var hún komin í kerru Guttorms. Allt þetta fé sem hér hefur verið um getið fór svo í þessa sömu kerru. Er þá allt fé sem vitað var um að varð hér eftir í seinni göngum komið til byggða. Eins og fyrri haust er búið að vera mjög strembið að handsama hér fé bænda í Akrahreppi. Í fyrstu göngum fengu þeir hér 220 kindur. Eftir það er búið að handsama hér 47 kindur, af því voru 40 (mjög erfiðar viðfangs) úr Akrahreppi, 5 frá Ytri-Bægisá og 2 héðan frá Staðarbakka.....
|
...og hér er verið að koma kindunum hans Agnars úr kassanum yfir í kerruna hjá Guttormi. |
|
24. okt. 2015
|
Það spáði illa fyrir fyrstu vetrarnóttina, þannig að við hýstum allt féð í gærkveldi. Ekkert varð nú að veðri í nótt, féllu nokkur snjókorn í kyrru veðri. Allt féð var því látið út aftur í morgun, nema hrútarnir. Það er líka eftir næg og góð beit enn þá, svo vonadi verður hægt að hafa féð úti enn um sinn. Innistaðan verður alveg nógu löng fyrir greyin, miklu hollara að vera úti í góðu snemmvetrarveðri. |
21. okt. 2015
|
Kvöldte í tilefni dagsins. |
17. okt. 2015
|
Þegar gengnar voru aðrar göngur um 20. sept. sáust tvær kindur, grá og hvít, uppí Flögukerlingunni. Þar var svo fylgst með þeim meðan Kerlingin var auð. Þær þvældust þarna um klettana og fóru líka alveg upp á Kerlinguna. Ekki var álitlegt að ná í þær þarna í klettunum, þannig að það var ákveðið að bíða og vita hvort þær myndu ekki snjóa niður. Það hvítnaði svo eða gránaði þannig að maður missti alveg sjónar á þeim í allmarga daga. Þegar ég var svo að líta eftir fénu hér innan girðingar í morgun, rak ég augun í þessar kindur uppí Flöguselshnjúk, nokkuð hátt en þó neðan við kletta. Ég fékk þá Stefán Lárus og Hákon Þór til að ná í þær þarna upp. Þeim gekk ágætlega að ná þeim niður. Þetta reyndist vera grá veturgömul ær með hvítan hrút, sem Stefán á. Á myndinni eru þeir að koma með kindurnar niður. |
16. okt.2015
|
Þá er maður komin til að rifja upp hvernig lítur hér út...... |
|
...ég var svo voða ung og smá þegar ég kom í heimsókn í vor. |
15. okt. 2015
|
Í kvöld fór ég í Ytri-Bægisá að stiga lambhrúta fyrir Stefán Lárus, ásamt Þór í Skriðu. Það var hópur af álitlegum hrútum og þessi á myndinni stigaðist hæst 87 stig. |
12. okt. 2015
|
Þá liggur niðurstaða haustsins fyrir hvað slátrun varðar, því síðasta var slátrað hjá SAH Afurðum á Blönduósi í dag. Það er ekki annað hægt að segja en útkoman sé með besta móti þetta haustið. Dilkarnir eru þyngri en áður hefur verið og flokkun þeirra líka mjög góð. Þetta sýnir að þrátt fyrir að vorið og sumarið væri kalt, var sumarið gott fyrir vöxt lambanna og mjög gott haust gerði þar líka sitt. En þetta dugði þó víða ekki til, ef menn komust ekki skammlaust frá þeim vanda að fóðra sómasamlega í fyrravetur og vor, vegna mjög slæmra heyja frá sumrinu 2014. En útkoma haustsins hér var sú að meðalvigtin var 17,80 kg, gerðartalan 10,55 og fita 7,26. Bara nokkuð sáttur. |
11. okt. 2015
|
Beðið eftir fjárbílnum að sækja restina af sláturfénu þetta haustið. |
10. okt. 2015
Landsbjörg var með björgunarsveitaæfingu hér í dag.....
|
....í björtu en fremur svölu haustveðri.
|
|
Æft var klettaklyfur í Einhamarsklettum........
|
....og straumvatnsbjörgun hérna út og niður við Brúarfossinn. |
|
8. okt. 2015
|
Náttúran var dulúðleg, þegar við Sigrún vorum á heimleið eftir bæjarferð í dag. Súld einkum til fjalla en glytti svo í kvöldroða inn yfir miðjum Tröllaskaga. |
7. okt. 2015
|
Haugsuguvinnan kláraðist í dag, sem betur fer. Við erum óvenju tímanlega að klára þetta haustið. Þar munar mestu að við tókum út úr fjárhúsunum fyrir göngur, þannig að það var bara eftir að tæma Lambhúsið. Svo var líka verið núna með tvær haugsugur í fyrsta skipti við þetta. Önnur var notuð til að sækja vatn og hræra en hin til að sjúga út og dreifa. |
6. okt. 2015
Það var ótrúleg fegurð, sem gaf að líta ef maður lyfti augum til fjalla og himins í ljósaskiptunum í dag, hvert sem litið var.
|
Til austurs
|
Inn til fjalla
|
Til vesturs
|
|
|
3. okt. 2015
Í dag voru lífgimbrarnar valdar, þær verða hátt í eitthundrað þetta haustið á Staðarbakka. Hér eru myndir, sem smá sýnishorn af þeim.
2. okt. 2015
|
Lambhrútaskoðun var hér í dag. Eyþór Einarsson sá um stigunina og Gunnfríður Hreiðarsdóttir um ómmælinguna. Skoðaðir voru um 30 hrútar, sem stiguðust uppá tæp 85 stig að meðaltali. |
Ég ætla hér að gera grein fyrir hrútum okkar Sigrúnar, sem verða settir á:
|
Þetta er hrútur númer 622. F: Ás 09-877. M: Trölla 08-889. Þessi hrútur er einlembingur. Hann er 63 kg og leggurinn mældist 111 mm. Ómtölur hans eru: Ómv. 29mm, ómf. 4,3mm og óml. 3,5. Hann stigaðist svo: 8,0-9,0-9,0-8,5-9,0-18,5-8,0-8,0-9,0= 87 stig. |
Hér er hrútur númer 621. Hann er einnig undan Ás 09-877. M: Bylgja 12-250 og Mf: Grábotni 06-833. Hann er einlembingur og vó 60 kg og er með 111mm legg. Hann ómaðist svo: Ómv. 31mm, ómf. 4,5mm og óml. 3,5. Stigin voru svo þessi: 8,0-8,5-9,0-8,5-9,0-18,5-8,0-8,0-9,0=86,5 stig. Þennan hrút fær Stefán Lárus á Ytri-Bægisá.
|
Hér er svo grár hrútur númer 649. Hann er undan Gný 12-302 og Gráleit 12-277. Í ætt þessa hrúts má svo finna ekki svo langt undan, þekkt nöfn eins og Kveik 05-965, Þrótt 04-991 og Krók 05-803 o.fl. Þessi gráni er tvílembingur. Hann vó 52 kg og er með 110mm legg. Ómtölurnar eru: Ómv. 30mm, ómf. 2,4mm og óml. 4,0. Hann stigaðist þannig: 8,0-8,5-9,0-9,0-9,5-18,0-8,0-8,0-8,5=86,5 stig. Stefán Lárus fær þennan hrút líka.
|
|
Þá er komið að þessum tvílembingsbræðrum, sem eru númer 817 og 818. Ég tek þá hér saman, þar sem þeir eru svo líkir og fengu nánast sama dóm. F: Hrappur 12-121 . Ff: Blakkur 07-865. M: Hæg 11-154. Þeir eiga svo ekki langt að sækja ættir til þekktra hrúta eins og: Kveiks 05-965, Ats 06-806, Sokka 07-835, Garðs 05-802 og Króks 05-803. Þessir bræður vógu 47 og 48 kg og leggir þeirra mældust 106 og 104mm. Ómtölur eru: Ómv 33/32mm, ómf. 2,0/2,6mm og óml 4,5 hjá báðum. Þeir stiguðust svo: 8,0-8,0-8,5-9,0-9,0-18,5-8,5-8,0-8,5=86,0 og 85,5 stig, eini munurinn á stigun þeirra var að annar fékk 8,5 fyrir samræmi en hinn 8,0. Þess má svo að lokum geta að undan móðir þeirra Hæg 11-154 hefur verið slátrað 3 lömbum á hennar ævi, og hafa þau öll flokkast E 3 og voru að meðaltali 19,6 kg, allt tvílembingar. Það er því mikils vænst af þessum bræðrum á næstu árum.
|
Þá kemur hér hrútur númer 623. F: Guðni 09-902. M: Gefjun 11-186. Mmf: Krókur 05-803. Þessi hrútur er tvílembingur. Hann vó 46 kg og er með 110 mm legg. Hann ómaðist: Ómv. 34mm, ómf. 1,8mm og óml. 3,5. Hann stigaðist svo: 8,0-8,5-8,5-9,0-9,0-18,0-8,0-8,0-8,5=85,5 stig.
Að lokum koma svo hér tveir aðkeyptir hrútar.
|
Þessi kollur er keyptur frá Jóni í Broddanesi á Ströndum. Ætt hans er mér ekki tiltæk enn. Hann er tvílembingur og er 45 kg og er með 108mm legg. Óm hans er þannig: Ómv. 31mm, ómf. 1,7mm og óml. 3,5. Hann stigaðist: 8,0-8,5-8,5-8,5-8,5-18,0-8,0-8,0-8,5=84,5 stig
|
|
|
|
Að endingu er svo hér botnóttur frá Stefáni Lárusi á Ytri-Bægisá númer 4. Í föðurættina er hann nú ættaður frá mér þar sem Stefán kom með móður hans í vetur og hélt henni undir Salómon minn 10-203, sem var Kveiksson 05-965. M:10-025. Í ætt hans má svo finna t.d. Þrótt 04-991 og Prjón 07-812. Hann er tvílembingur og vó 54 kg og hann er með 108mm legg. Ómtölur eru: Ómv. 30mm, ómf. 4,0mm og óml 3,5. Hann stigaðaist: 8,0-8,0-8,5-8,5-9,0-18,0-8,0-8,0-8,5=84,5 stig.
Læt þetta duga um þá kostagripi sem skoðaðir voru hér í dag.
|
Það er svo gott að slappa af, eftir allt þetta brölt í mannfólkinu. |
|
Flettingar í dag: 114 Gestir í dag: 60 Flettingar í gær: 403 Gestir í gær: 132 Samtals flettingar: 108224 Samtals gestir: 24359 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:49:24
|
clockhere Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir 846 1589/615 1949 21. okt. og 6. febr. Staðarbakki Hörgársveit 462 6756 Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé. 211051-4509 1187-26-10528 Tenglar
|