Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir okt. 2014

25. okt. 2014

 Það var farið aftur í Grjótárgilið í dag. Auk okkar Stefáns fóru þeir Skriðufeðgar: Þór og Egill Már. Þór hafði með sér byssu ef ekki reyndist annar kostur en skjóta lambhrútinn niður úr sjálfheldu. Þeir þrír fóru upp nyrðri gilbarminn en ég fór inn í gilið eins og við Stefán gerðum í gær. Þegar ég var kominn inn í gilið þar sem lambhrúturinn var í gær, kom í ljós að hann var algerlega horfinn þaðan. Skömmu síðar heyrði ég í þeim félögum á nyrðri gilbrúninni í talstöðinni að þeir væru búnir að sjá hrútinn beint á móti sér í syðri brún gilsins. Var þá tekin ákvörðun um að Stefán færi inn á Grjótárdalinn, alveg inn fyrir gilið og þar yfir Grjótána, til að reyna að ná lambinu frá gilinu, en þeir feðgar biðu á meðan til að reyna að hóa svo síður væri hætta á að lambhrúturinn stingi sér aftur ofan í gilið. En allt kom þetta fyrir ekki og um leið lambhrúturinn varð Stefáns var stakk hann sér ofan í gilið, þrátt fyrir að þeir feðgar reyndu að öskra á móti honum. Þar stoppaði hann á smá klettanös, þar sem var rétt pláss fyrir hann til að standa, en undir var nokkurra tuga þverhnípt hengiflug alveg niður á botn gilsins. Nú var bara eitt í stöðunni og það var að grípa til byssunnar, gilið er þarna það mjótt að þetta var ágætis skotfæri fyrir Þór og svo er hann ágæt skytta. Þarna lauk því þessari frelsisbaráttu lambhrútsins og á mun skjótvirkari hátt heldur en hann hefði ekki náðst þarna og hans beðið að svelta í hel, þegar illviðri komandi vetrar fara að láta á sér kræla. Á myndinni eru þeir félagar Egill Már, Þór, Stefán og Tryggur að koma að dráttarvélinni eftir þessar aðgerðir. Þess má svo að endingu geta, að þetta er í fyrsta skipti í minni tíð, sem hér hefur þurft að skjóta niður kind úr sjálfheldu, þrátt fyrir margan krappan dansinn í eltingaleik við fótfráar fjallafálur. 

 Hér http://2110.123.is/photoalbums/270223/  má sjá nokkrar myndir úr Grjótárgilinu og við það í dag. Þó ekki af þeim stað þar sem hrúturinn endaði líf sitt, þar sem ég var ofan í gilinu og sá því ekki staðinn.

24. okt. 2014

 Í dag fórum við Stefán Lárus í eftirleit hér fram í afréttina. Ekki fundum við nú mikið af fé enda vel smalað hér í haust. Fundum þó á með tvö lömb í Sveignum á móti Heimarahrauninu. Þetta virtust rólyndis kindur, þangað til að átti að fara að koma þeim á stað til byggða. Þá trylltist ærin alveg og hljóp lömbin af sér. Tryggur hans Stefáns hljóp hana þó fljótt uppi og náði henni niður að Hörgánni. Á meðan tvístruðust lömbin, þannig að Tryggur varð að taka annað þeirra fyrst og við að koma því á vagninn. Á meðan á þessu stóð hafði hitt lambið náð að hlaupa það nálægt Grjótárgilinu, að því tókst að stinga sér niður í gilið áður en Tryggur náði því. Við Stefán fórum þá að einbeita okkur að ánni, sem ennþá gekk laus og tókst að ná henni með góðri aðstoð Tryggs og koma henni á vagninn, hjá áður handsömuðu lambi. Þessar kindur reyndust vera eign Guttorms Stefánssonar á Bjarnastöðum í Akrahreppi. Að þessu búnu fórum við Stefán inn í Grjótárgilið til að athuga um lambið þar, okkur fannst nú alveg eins líklegt að það hefði hrapað þar og slasast eða drepist. En það reyndist nú ekki svo, heldur var það á klettasyllu upp í miðjum hlíðum gilsins, þar sem ómögulegt er að komast að því nema fyrir menn með einhvern sér útbúnað til þess. Á myndinni hér að ofan er ég búinn að setja rauða stjörnu á sylluna þar sem lambið er. Við Stefán héldum því heim með feng okkar, en frekari aðgerðir til að ná lambinu verða að bíða morguns.

Grímu datt í hug að kanna hvernig það er að vera fötluð. Af svipnum á henni að dæma er hún hæstánægð með það, enda gott að losna við þetta eina sem hún hefur fyrir stafni, rangla um húsið og líta á dallana sína og reka upp kröfumjálm, ef ekki er þar allt að hennar skapi.   

21. okt. 2014

 Kallinn á víst afmæli í dag og er hér að kveðja frúna áður en hann skrapp til Stefáns Lárusar að líta á lambhrúta hjá honum fyrir síðustu slátrun.
 Hér er Örlygur 11-721 hans Stefáns, sem hann keypti af mér, lambhrútinn. Hann er undan Púkasyni sem ég keypti af Stefáni 2009 og Kveiksdóttir sem ég á. Örlygur er því vel ættaður og með mjög gott kynbótamat 111/114/102/120. Hann var í stórri afkvæmarannsókn nú í haust fyrir hugsanlega kandídata fyrir sæðingastöðvarnar, en hlaut ekki náð fyrir augum þeirra, sem þar ráða för. Gott fyrir Stefán, hann nýtur hans þá bara lengur.   
 Hér eru þrír synir Örlygs, sem Stefán ætlar að setja á sjálfur og svo er hann líka búinn að selja nokkra undan honum.

17. okt. 2014

 Ég brá mér til Akureyrar í gær til að hafa bílaskipti, verslaði við Brimborg. Keypti þennan hérna á myndinni, Ford Kuga árgerð 2012 ekinn 63þús. km og lét Subaruinn okkar upp í. Ég er búinn að vera að skoða bíla undanfarið og prufukeyra, en ekki verið sáttur fyrr en ég reynsluók þessum Fordara. Gersamlega kolféll fyrir honum og svo er hann mjög þægilegur fyrir Sigrúnu að ganga um hann. Svo ætti hann að reynast vel þar sem hann var keyptur á afmælisdaginn hans tengdapabba. 

15. okt. 2014

 Í dag var mikil gosmengun frá Holuhrauni. Maður fann vel fyrir menguninni við öndun, einnig var lítið skyggni einkum hér niður dalinn eins og sjá má á þessari mynd.  
Eins og sjá má var skyggnið heldur skárra fram til fjalla. Þetta er síðasta myndin sem tekin var af Subaru Forester OJ 117.

13. okt. 2014

Það er orðið smá vetrarlegt út um stofugluggann að líta.

5. okt. 2014

Í dag fórum við Gestur á hrútasýningu, vestur að Þverá í Akrahreppi. Þar voru sýndir bæði lambhrútar og veturgamlir hrútar í ýmsum flokkum. Þetta var hin ágætasta skemmtun, alltaf gaman að skoða hrúta. Á myndinni eru verðlaunahafar fyrir bestu lambhrútana með sýna kosta gripi....

og svo voru börnin með sýningu á sýnum fallegu lömbum. Hér er ráðunauturinn Eyþór Einarsson með dóttir sinni með lambið hennar.

4. okt. 2014

Í dag vorum við að velja lífgimbrarnar. Tæpar 90 verða settar á vetur þetta haustið á Staðarbakka. Það var úr mörgum föngulegum gimbrum að velja. Á myndinni er Hákon bóndi og mamma hans með 10 gimbrar sem hann fékk hjá mér. Glæsilegur hópur, sem vonandi á eftir að reynast honum vel.

 

Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar