31. júlí 2014
|
Þá er hún Katrín okkar horfin á braut. Mikið óskaplega er búið að vera gaman og gott að hafa hana hjá okkur í þessar tæpu fjórar vikur. Innilegar þakkir fyrir allt Katrín mín og vonandi sjáumst við fljótt aftur, þannig að þið amma þín getið hlegið og skemmt ykkur saman. |
29. júlí 2014
|
Í dag komum við Staðarbakkasystkinin saman í tilefni af afmæli mömmu. Hún hefði orðið 99 ára í dag. Að auki eigum við Sigrún ullarbrúðkaup í dag. Eins og í fyrra fórum við í Arnarnes til heiðurshjónanna Eyglóar og Jósavins og nutum þar samveru og góðs viðurgjörnings. Takk fyrir okkur. |
19. júlí 2014
|
Nú er Katrín búin að vera hjá okkur í hálfan mánuð og það er búið að vera óskaplega gott að hafa hana. Hún hjálpar ömmu sinni og hugsar um inniverkin og það fer óskaplega vel á með þeim eins og sjá má. |
Það er ömurleg heyskapartíð, ýmist skúrir eða hellirigning eins og í dag. Ef ætti að þurrka hey þá væri ekki búið að ná hér heytuggu, en það hefur verið hægt að þvæla í rúllur, þegar hefur gert stundar glætur á milli.
|
Það er allt á floti alls staðar eins og sjá má. |
|
Ef til vill gott fyrir gróðurinn. En öllu má nú ofgera. |
|
Hvernig er það annars? Samkvæmt fréttum og veðurspá er alltaf sól og blíða fyrir norðan, rignir bara fyrir sunnan og vestan. Það má því ætla að sé eitthvað bogið við þessar myndir teknar á miðju norðurlandi. Samt ekki „feik“. |
7. júlí 2014
|
Sláttur hófst hér í dag. Það er komið ágætis gras og raunar hefði mátt hefja slátt fyrr en það fór bara að rigna þegar okkur fannst tímabært að byrja. Það er meiri blaðvöxtur núna en hefur verið mjög mörg undan gengin ár, enda sprettutíð mjög hagstæð bæði hlýtt og nægur raki í jörðinni, hann er reyndar núna orðinn óþarflega mikill. Nú er bara að vona að fari að birta almennilega til þannig að sé hægt að drífa heyskapinn af. |
|
Þessi stúlka, Sólveig Guðmundsdóttir Bech kom hér í dag að mæla og teikna kornkvarnarsteina sem ég á frá Ásgerðarstaðaseli. Hún er í doktorsnámi í fornleifafræði og viðfangsefnið er kvarnarsteinar, sem hún er að skoða, mæla og teikna víðsvegar um landið. |
6. júní 2014
|
Sauðburði loksins lokið og meira en mál til komið. Hér eru frændsystkinin Katrín Valdís og Tómas Leonard með þessar fallegu systur sem fæddust í morgun. |
5. júlí 2014
|
Katrín Valdís kom til Íslands í gær og svo norður með strætó í dag. Hún ætlar að vera hjá okkur í mánuð og aðstoða ömmu sína. Það verður feikna fjör hjá þeim, enda báðar mjög hláturmildar. |
|
Enn rignir og nú til viðbótar snjóar í fjöll. Meiri munurinn svo maður gleymi ekki alveg hvernig þetta hvíta sem kemur úr loftinu lítur út. Var næstum búinn að týna því niður á löngum tíma eða þannig. |
|
Grasið sprettur úr sér og lítið hægt að gera við því í þessu foraði. |
4. júlí 2014
|
Það rignir...... |
|
.....og rignir og rignir....
|
....en gott fyrir gróðurinn. |
|