31. júlí 2013
|
Í kvöld komum við Staðarbakkasystkinin og skyldulið saman, eins og við höfum gert um langt árabil í tilefni af afmælisdegi mömmu, en sá nítugasti og áttundi var núna 29. júlí. Að þessu sinni fórum við í veislukaffi til þeirra Eyglóar og Jósavins í Arnarnesi. Þetta var hin ágætasta kvöldstund sem við, þessi 28 sem mættum, máttum í Arnarnesi. Myndin var tekin af mömmu í blómagarðinum sínum um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar.
|
29. júlí 2013
Í dag er afmælisdagurinn hennar mömmu minnar, sá nítugasti og áttundi. Blessuð sé minning hennar, þessarar góðu og gjöfulu konu. Við Sigrún eigum líka sex ára brúðkaupsafmæli í dag, því eru líka tengdar hinar bestu minningar. Við t.d. skreyttum alla íbúðina með villtum blómum og stráum af jörðinni okkar og áttum dásamlegan dag með góðu fólki.
|
Í gær fórum við Sólveig og Tómas með Sigrúnu í bílferð, þá fyrstu í rúman mánuð. Það hefur alveg legið niðri vegna magaveiki hennar, sem er nú sem betur fer að batna. Við fórum svo aftur í dag og þá fóru Auður, Katrín og Gauti með okkur Sigrúnu. Þetta var mikil upplyfting fyrir Sigrúnu og hún var alsæl með að sleppa aðeins út úr „fangelsinu“ smá stund, eins og hún sagði. Það er ekkert auðvelt að vera á einni svipstundu kippt út úr sínu lífi og lokast inni á sjúkrahúsi, lítt sjálfbjarga, í marga mánuði. En Sigrún mín er hetja og hefur farið í gegnum þetta ferli með sinni einstaklega léttu lund og með bjartsýnina að vopni. Algjör hetja! |
|
Komin aftur úr bíltúrnum í nýja bílnum í gær. |
26. júlí 2013
|
Heyskapurinn hefur gengið vel það sem af er honum. Afraksturinn er nú eins og vænta mátti, eftir kal vetrarins, með minnsta móti. Það vegur þó ögn þar á móti að spretta er ágæt á því sem ekki var kalið. Núna þrjá síðustu dag hefur þoka veri að stríða bændum við heyskapinn, en við náðum þó að rúlla í gær það sem laust var. Það er stundum í svona þokutíð, að það er bjart hérna fremst í dalnum og þannig var það einmitt í morgun eins og sjá má á myndinni. |
|
Ég fór til Sigrúnar í kvöld, eins og flest kvöld undanfarið. Hún er bara nokkuð hress. Undanfarið hafa þó verið að angra hana innantökur og hefur hún verið í myndatökum út af því. Það hefur komið vel út, þannig að nú er helst búist við að þetta sé út af ákveðnu lyfi sem henni er gefið. Þannig að nú er búið að skipta því út og vonandi fer þetta að lagast við það. Það var fallegt að horfa út yfir Eyjafjörðinn laust fyrir miðnættið af Moldhaugnahálsinum, þegar ég var á heimleið. |
|
Það var líka fallegt að horfa inn í dalina: Hörgárdal og Öxnadal og sjá dimmrauðann himininn yfir miðjum Tröllaskaganum. Mikil er dýrð drottins! |
24. júlí 2013
|
Í dag komu Auður og fjölskylda til Akureyrar, en þau komu til landsins í gær. Það urðu fagnaðarfundir með þeim mæðgum eins og sjá má á myndinni. Ragna lánar fjölskyldunni íbúðina sína í viku, þannig að þau hafa þar aðsetur til að byrja með. |
18. júlí 2013
|
Í kvöld hafði ég bílaskipti við Bílasölu Akureyrar, eins og jafnan hefur verið þegar ég hef haft bílaviðskipti í gegnum árin. Keypti SUBARU FORESTER og lét bílinn okkar Sigrúnar, FORD EXPLORER SPORT TRAC upp í. Þetta var nú aðallega gert til að auðvelda Sigrúnu að ganga um bílinn okkar. Það er talsvert lægra upp í þann nýja, en var í þann gamla. Mér líkar ljómandi vel að keyra Subarúinn og vonandi á hann eftir að reynast okkur vel. Það var svo mikil rigning í kvöld, að Sigrún gat ekki farið út til að skoða nýja bílinn, þannig að hún varð að láta sér nægja að horfa á hann út á plani í gegnum glugga. Þess má svo geta að sá gamli er til sölu á bílasölunni, ef einhver vildi vera snöggur að festa sér hann. |
17. júlí 2013
|
Þá er sláttur hafinn þetta árið, um 1/2 mánuði seinna en verið hefur undanfarin ár, að jafnaði. Spretta er orðin nokkuð góð á þeim túnum sem voru lítið kalin í vor. Ágætis sprettutíð hefur verið undanfarið með nógri vætu, þannig að það er mikill blaðvöxtur. |
12. júlí 2013
|
Í dag var lokað á Kristnesi vegna sumarleyfa starfsfólks og verður ekki opnað þar aftur fyrr en 12. ágúst. Sigrún var því flutt í dag á sjúkrahúsið á Akureyri og mun dvelja þar þangað til endurhæfingin hefst aftur á Kristnesi. Ég smellti þessari mynd af henni þegar hún var búin að halla sér eftir ferðalagið í dag. |
7. júlí 2013
|
Eins og sjá má, var heldur hráslagalegt þegar ég kom heim í kvöld frá því að heimsækja Sigrúnu í Kristnes. |