25. apríl 2013
Gleðilegt sumar!
Takk fyrir veturinn og alveg sérstaklega fyrir allar hlýju kveðjurnar og góðar fyrirbænir þessar síðustu vikur vetrarins, allt hefur það lagst á þá sveif sem hjálpar Sigrúnu til betri heilsu. Það er mín von og vissa að áður en þetta sumar er á enda runnið verði hún komin að fullu yfir þann hjalla sem hún nú klýfur. Vetur og sumar frusu hér svikalaust saman, enda út að líta sem um hávetur væri. Vonandi kemur fljótlega aftur vor í dal.
|
Það gerist margt skrítið í þessari veröld. Rétt þegar ég var búinn að setja inn sumarkveðjuna hér að ofan, var komið til mín hérna norðan úr húsinu með þær fréttir að þau hefðu séð útigengnar kindur hér út og yfir í Hryggjunum rétt sunnan og neðan við Hamrana. Tiltækur mannskapur var því selfluttur á tveimur vélsleðum, 8 manns og að auki fjórir hundar, til að handsama féð. Í ljós kom að þetta var ær með tvo gemlinga með sér, hrút og gimbur og þessu til viðbótar var ærin alveg nýborin, gimbur sem ekki var einu sinni komin á lappirnar. Við handsömuðum þetta allt saman og fluttum hér heim í hús á sleðunum og gekk það fljótt og vel. Ærin er orðin mjög mögur en gemlingarnir eru í góðu standi. Eigandi kindanna reyndist vera Guttormur Stefánsson, Grænumýri í Akrahreppi, Skagafirði. Þetta er nú langt frá því að vera í fyrsta skipti sem við þurfum að glíma við hans kindur hér, þótt við höfum nú aldrei komist í það á þessum árstíma. Nýjar slóðir voru eftir kindurnar norðan að og þykir mér mjög líklegt að þær hafi komið úr Öxnadalnum.
H Hér má sjá myndir sem teknar voru af þessarri smölun.
|
22. apríl 2013
|
Tíminn þokast áfram, þótt margt sé með öðrum hætti en maður hefur átt að venjast. Eftir að hafa að mestu dvalið á gjörgæsludeild Borgarspítalans frá 28. mars hjá Sigrúnu, fyrst mikið veikri eftir heilablæðingu sem hún fékk að kvöldi þess 27. mars, komum við öll norður til Akureyrar þriðjudaginn 9. apríl. Sigrún var flutt norður í sjúkraflugi, en við Sólveig, Tómas, Auður og Ída Guðrún komum akandi. Sigrún er enn á FSA og verður þar allavega fram að næstu mánaðarmótum en þá er stefnt á að hún fari í endurhæfingu á Kristnes. Bati Sigrúnar er alveg eftir björtustu vonum, hún er nú laus við nánast allar slöngur og leiðslur sem voru tengdar við hana fyrst, þær voru vel á annan tuginn þegar mest var. Þann 17. apríl var tekin slanga sem var tengd inn í barkann til að auðvelda henni öndun. Þessi útbúnaður hefur þannig áhrif á raddböndin að fólk getur ekkert talað á meðan. Sigrún getur nú talað aftur þótt það þurfi sína þjálfun eftir að hafa verið óvirkt í 3 vikur.
Myndin var tekin af okkur Sigrúnu rétt áður en ég fór frá henni í gærkveldi klukkan að ganga ellefu. Erum við ekki bara furðu hress að sjá?
|
|
Hér er uppáhalds hjúkrunarfræðingurinn hún Eva hjá Sigrúnu. Flottar! |
|
Því miður er útlit náttúrunnar ekki gott, því eins og sjá má er nánast eins og yfir jökul að sjá og ekkert útlit fyrir að þetta lagist á næstunni. |
7. apríl 2013
|
Í dag er ellefti dagurinn sem við Sólveig erum búin að vera hér sunnan heiða. Fyrst fengum við inn i í íbúð Hallórs og Sellu, en þau voru á Staðarbakka yfir páskana. Þrúða býr þar á efri hæðinni og hugsaði um okkur eins og góð mamma. Eftir páskana fluttum við okkur til Guðmundar Jónassonar sem býr í Vogum á Vatnsleysuströnd. Hann rekur þar Hótel Best og hlúir að okkur eins og við værum kóngafólk. Á þessu tímabili hafa svo bæst við Tómas Leonard, Auður María og Ída Guðrún, þannig að við erum hér öll saman núna þegar við erum ekki á Borgarspítalanum hjá Sigrúnu okkar. Hún sýnir hægan bata og er allt á réttri leið, en bataferlið tekur langan tíma. Við trúum og treystum á góðan bata og framfarir. Þar hjálpast allt að, dásamlegt starfsfólk á gjörgæsludeildinni, góðar fyrirbænir til Guðs og að hafa óbilandi trú á að allt fari þetta vel. |
Ástarkveðjur til ykkar allra, góðu vinir okkar.