Salómon 10-203 í ríki sínu. Vel ættaður kostagripur undan Kveik 05-965 og dóttursonur Þróttar 04-991.
Nú þegar fengitíminn er afstaðinn er rétt að hafa um hann nokkur orð. Hrútarnir stóðu sig ágætlega, það var aðeins einn af þeim sem sleppt var í ærnar sem þurfti aðstoð framan af en var svo orðinn þokkalega fær í restina.
Sæddar voru 33 ær á bænum, allar þann 14. desember. Þær voru allar samstilltar með veramix svömpum og sá ég sjálfur um samstillinguna og að sæða þær (átti svampa frá fyrra ári). Með samstillingu er auðvelt að velja þær ær, sem maður telur bestar til kynbóta og sæða þær svo allar sama daginn, sem þýðir mikla hagræðinu við sæðingarnar. Útkoman var svo sem viðunandi; það hélt 21 ær eða 64%. Það var mjög mikill munur eftir kynjum; þannig héldu ekki nema 33% af ánum undir kollóttu hrútana (Ljúf og Streng), en 81% af þeim sem var haldið undir þá hyrndu (Gaur, Birki, Kjark, Guffa, Grábotna og Prófast).
Það sem mistókst hins vegar herfilega við þennan fengitíma var samstilling ánna að hluta til. Ég hef sjálfur sett veramix svampana í ærnar til samstillingar á hverju ári síðan 1976. Í vor sem leið var svo sett reglugerð, sem bannar öðrum en dýralæknum að setja veramix svampa í ær og skiptir þá engu hvort þeir hafa til þess kunnáttu eður ei. En það er önnur saga, sem ekki verður ritað frekar um hér að svo stöddu. Að hluta til varð þessi reglugerðarbreyting til þess að nánast engir svampar voru til í landinu, þegar átti að fara að nota þá í síðari hluta nóvember og fram í desember. Það skapaðist óvissa um hvort það að sæðingamenn mættu ekki lengur framkvæma ísetninguna myndi draga úr notkun svampanna og því fór pöntun á þeim eitthvað í vaskinn.
Í staðinn gripu dýralæknar til þess ráðs að sprauta ærnar með lyfi sem heitir genestran og hefur hingað til nær eingöngu verið notað til að samstilla beiðsli hjá kúm, en talið var að alveg eins mætti nota það í sama tilgangi í ær. En skemmst er frá því að segja að þetta lyf er alveg ónothæft til að samstilla beiðsli áa. Hér á bæ og þar sem ég hef frétt af árangri af notkun þessa lyfs er árangurinn sá að allt frá 20% og upp undir 50% ánna festa ekki fang á tilsettum tíma. Þetta er sjálfsögðu ótækt þar sem samstillingin er einkum notuð til að hagræða á sauðburði t.d eins og hér á bæ þar sem ærnar eru á þremur jörðum yfir veturinn og því mjög gott að getað stjórnað burðinum þannig að hann sé ekki á fullu á öllum stöðunum í einu.
En veramix svamparnir komu til landsins fyrir rest, þannig að hægt var að nota þá í síðustu ærnar sem þurfti að samstilla. Það gekk ágætlega eins og verið hefur í öll þessi nærri 40 ár sem þeir hafa verið notaðir, ærnar beiddu eins og til stóð og bera þá líka á þeim tíma sem til er ætlast og best hentar.
En lyfið genestran ættu menn ekki að nota til samstillingar á beiðsli áa, hvort heldur er til að samstilla ær til sæðinga eða til hagræðingar á sauðburði.
|