Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir jan. 2013

30. jan. 2013

Það var loksins komið skaplegt veður í morgun eftir þriggja daga stórhríð. Hér hefur ekki sést annar eins snjór á þessari öld. Það er margt öðruvísi útlits núna en maður á að venjast t.d. verður ekki hengdur þvottur á þennan snúrustaur í bráð.

Ég ætla  að setja hér inn svolitla myndasyrpu frá deginum í dag.

 

Það kom hefill í morgun og ruddi veginn. Hann átti bara í talsverðum erfiðleikum með skaflana sumstaðar.

 

Hérna utan í Ytrihæðinni var einna mesti skaflinn á veginum. Engir smá ruðningar þetta.

 

Það er eins og annars staðar hér, mikill snjór í Flögu. Ég setti ærnar þar inn að kvöldi 26. áður en ósköpin byrjuðu og hef gefið þeim inni þangað til í dag (vanalega liggja þær við opið). Eins og sjá má á myndinni gerði ég slóð með dráttarvélinni að dyrunum þar sem ærnar ganga vanalega um, til að koma ánum út...

 

...og hér eru þær að brjótast upp á snjófjallið við dyrnar.

 

Hér er ég kominn heim aftur. Ha, áttu ekki að vera vélgengar dyr á þessum hlöðustafni?

 

Og hér áttu að vera aðrar ef ég man rétt, að vísu ekki vélgengar.

 

Ha, þó Gestur hafi nú alltaf verið nokkuð við vöxt, á hann fjandakornið ekki að vera jafn hár og hlaðan, þótt gömul sé.

 

Já, mig minnti þetta, svona var alla vega umhorfs við gömlu hlöðuna, þegar búið var að skipta um þak á henni í sumar og klæða stafninn. Þá þurfti vel á þriðja Gest til að vera jafn hár hlöðustafninum!

 

Jæja, þetta er að hafast þannig að hægt sé að setja inn rúllur.

 

Þá er bara að sækja þær.

 

Svona er nú umhorfs í blómagarðinum sunnan við íbúðarhúsið. Ekki gott fyrir trén.

 

Nú er nóg komið enda máninn fullur á himni hátt. En hvað er þetta er hann farinn að leka???

 

28. jan. 2013

 

Enn er bylur úti og var í alla nótt. Þetta er nú að verða ágætt. Enn ein stórhríðin á þessum vetri sem stendur í marga daga.

 

27. jan. 2013

 

 Þorri lætur ekki að sér hæða, heldur sýnir allar sínar vetrarklær. Það var austan hvassviðri í gær, en úrkomu lítið þangað til seint í gærkveldi þá fór að snjóa. Ég fór út í Flögu, þegar söngvakeppnin var búin í sjónvarpinu og setti ærnar inn og lokaði. Mér leyst ekki á veðurhorfurnar, enda mátti ég ekki vera mikið seinna á ferðinni, því á meðan ég var útfrá fór að snjóa og var kominn kafaldsbylur þegar ég kom heim. Það var svo bálhvasst í nótt og í morgun voru komin há snjófjöll hér í kringum hús, þau hæstu 2 til 3 metrar. Aðeins dúraði framan af degi. Ég gaf þó ánum í Flögu inni þar sem spáð var versnandi veðri aftur þegar á daginn liði. Það fór eftir og eins og sjá má á myndinni af konunni þegar hún var að koma úr fjárhúsunum núna kl.18 var moldviðrisstórhríð. 

 

Brussa gamla öll fannbarin.

 

20. jan. 2013

 

Ég setti fyrsta skammtinn af rúllum inn í syðri-hlöðuna í dag. Þetta er nú röskum mánuði fyrr en vanalega, sem er nú engin furða þar sem ærnar komu nærri mánuði fyrr inn í haust en venja er. Ég setti inn um vesturdyrnar en ekki um suðurdyrnar eins og ég hef vanalega gert , það gekk ágætlega enda þurfti ég ekki að moka upp dyrnar eins og ég hefði þurft að gera að sunnan. Þegar skipt var um þak á hlöðunni í sumar var búið svo um þessar dyr að þægilegt væri að setja inn um þær á veturna. 

 

19. jan. 2013

 

Þessa flottu mynd tók ég í ljósaskiptunum í kvöld, þar sem hálfur máninn glottir hátt á himni. Ef til vill var hann að minna mig á afmælið hennar Grétu frænku minnar, sem á heima í dalnum hinu megin við fjallið. Til hamingju með afmælið frænka og megir þú eiga góðan dag.

 

Tómas Leonard kom í sveitina í dag til afa og ömmu með mömmu sinni. Þetta var fyrsta heimsóknin þeirra á nýja árinu. Sannarlega var tími til kominn. Það varð fagnaðarfundur með þeim vinunum Tómasi og Trygg og fjarska gaman hjá þeim í hlöðunni.

 

Það voru fleiri vinafundir og heilsast með kærleikum og kossi. Vá!

 

18. jan. 2013

Sigrún Franzdóttir við hannyrðir
Það er gott að grípa í hannyrðirnar í miðsvetrarskammdeginu, en það verður líka að hafa öll nútíma þægindi við höndina og blessaðan kaffibollann líka.

 

16. jan. 2013

Salómon 10-203 í ríki sínu. Vel ættaður kostagripur undan Kveik 05-965 og dóttursonur Þróttar 04-991.

Nú þegar fengitíminn er afstaðinn er rétt að hafa um hann nokkur orð. Hrútarnir stóðu sig ágætlega, það var aðeins einn af þeim sem sleppt var í ærnar sem þurfti aðstoð framan af en var svo orðinn þokkalega fær í restina.

Sæddar voru 33 ær á bænum, allar þann 14. desember. Þær voru allar samstilltar með veramix svömpum og sá ég sjálfur um samstillinguna og að sæða þær (átti svampa frá fyrra ári). Með samstillingu er auðvelt að velja þær ær, sem maður telur bestar til kynbóta og sæða þær svo allar sama daginn, sem þýðir mikla hagræðinu við sæðingarnar. Útkoman var svo sem viðunandi; það hélt 21 ær eða 64%. Það var mjög mikill munur eftir kynjum; þannig héldu ekki nema 33% af ánum undir kollóttu hrútana (Ljúf og Streng), en 81% af þeim sem var haldið undir þá hyrndu (Gaur, Birki, Kjark, Guffa, Grábotna og Prófast).

Það sem mistókst hins vegar herfilega við þennan fengitíma var samstilling ánna að hluta til. Ég hef sjálfur sett veramix svampana í ærnar til samstillingar á hverju ári síðan 1976. Í vor sem leið var svo sett reglugerð, sem bannar öðrum en dýralæknum að setja veramix svampa í ær og skiptir þá engu hvort þeir hafa til þess kunnáttu eður ei. En það er önnur saga, sem ekki verður ritað frekar um hér að svo stöddu. Að hluta til varð þessi reglugerðarbreyting til þess að nánast engir svampar voru til í landinu, þegar átti að fara að nota þá í síðari hluta nóvember og fram í desember. Það skapaðist óvissa um hvort það að sæðingamenn mættu ekki lengur framkvæma ísetninguna myndi draga úr notkun svampanna og því fór pöntun á þeim eitthvað í vaskinn.

Í staðinn gripu dýralæknar til þess ráðs að sprauta ærnar með lyfi sem heitir genestran og hefur hingað til nær eingöngu verið notað til að samstilla beiðsli hjá kúm, en talið var að alveg eins mætti nota það í sama tilgangi í ær. En skemmst er frá því að segja að þetta lyf er alveg ónothæft til að samstilla beiðsli áa. Hér á bæ og þar sem ég hef frétt af árangri af notkun þessa lyfs er árangurinn sá að allt frá 20% og upp undir 50% ánna festa ekki fang á tilsettum tíma. Þetta er sjálfsögðu ótækt þar sem samstillingin er einkum notuð til að hagræða á sauðburði t.d eins og hér á bæ þar sem ærnar eru á þremur jörðum yfir veturinn og því mjög gott að getað stjórnað burðinum þannig að hann sé ekki á fullu á öllum stöðunum í einu.

En veramix svamparnir komu til landsins fyrir rest, þannig að hægt var að nota þá í síðustu ærnar sem þurfti að samstilla. Það gekk ágætlega eins og verið hefur í öll þessi nærri 40 ár sem þeir hafa verið notaðir, ærnar beiddu eins og til stóð og bera þá líka á þeim tíma sem til er ætlast og best hentar.

En lyfið genestran ættu menn ekki að nota til samstillingar á beiðsli áa, hvort heldur er til að samstilla ær til sæðinga eða til hagræðingar á sauðburði.

 

11. jan. 2013

 Í kvöld var ákveðið að létta sér aðeins upp frá amstri hversdagsins í skammdeginu. Við fórum sem sé út að borða á La Vita é Bella með vinum okkar Ingibjörgu og Sævari í Mánahlíðinni á Akureyri. Þetta var hin ljúfasta kvöldstund og glatt á hjalla, þannig að öll fórum við heim aftur mettaðri bæði á sál og líkama.

 

Hér eru þær frúrnar aldeilis flottar og unglegar gellur.

 

Og hér eru svo gæjarnir býsna hressir þrátt fyrir grámann um hár og vanga.

 

 Það er meinhægt veður þessa dagana, búið að skiptast á frost og þýða frá áramótum. Skaðræðis hálka var hér á vegum, en hefur nú tekið svo af svellunum  að víðast eru kantar og miðjan orðin auð. Það sem veldur meiri áhyggjum núna eru mikil svell á túnum hér í sveit. Hérna fremst í dalnum eru enn talsverðir skaflar líka, en maður veit ekki hvort það eru komin svell undir þá. Neðar í dalnum eru víða heilu túnin ein svellgljá og eru búin að vera þannig í nokkrar vikur, svo ef ekki fer að rætast úr þessu fljótlega má búast við miklum kalskemmdum í vor. Þetta er þeim mun alvarlegra þar sem heyfengur var með lakasta móti sl. sumar og því er nokkuð víst að það verða mjög óverulegar fyrningar eftir yfirstandandi vetur. Vonandi kemur góð hláka mjög fljótlega til að afstýra þessari yfirvofandi vá.

 

1. jan. 2013 

Gleðilegt nýtt árangelyes

Friðarljósenlightened
 

 

Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108224
Samtals gestir: 24359
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:49:24
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar