Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir des. 2012

31. des. 2012

Við sendum öllum gestum heimasíðunnar okkar óskir um farsælt og gjöfult ár 2013 um leið og við þökkum árið 2012. Sérstakar þakkir sendum við öllum þeim, sem veittu okkur ómetanlega aðstoð við mjög erfiðar aðstæður í september sl. 

Aðeins við tvö snæddum lambasteikina í bestu stofunni þetta gamlárskvöld

Þetta ár sem nú er að kveðja var lengi framan af svipað og allmörg undangengin ár veðurfarslega, það er fremur hagstætt. En frá 10. september er það búið að vera lengst af erfitt og hefur reynt mjög á okkur bændur á norðurlandi, bæði líkamlega og andlega. Og hvað mig varðar entist það sannarlega út árið, því þegar ég var að slást við hrút í morgun fékk ég svo heiftarlega í bakið að ég geng tvöfaldur inn í nýja árið.   

30. des. 2012

 Í gær og fyrradag gekk gríðarlegt illviðri yfir norðvestanvert landið, norðan ofsaveður með snjókomu. Við sluppum vel frá þessu veðri. Hér var norðaustan átt, nokkuð hvöss annað slagið og éljagangur, en aldrei þó svo að kallast gæti veruleg stórhríð. Það hefur ekki bætt verulega á snjóinn hér  og mér sýnist að vegurinn sé þokkalega jeppa fær. Við Gestur hýstum Flöguærnar í fyrrakvöld þar sem veðurspáin var mjög slæm. Fórum svo í Flögu í gær og gáfum þeim inni. Ég fór svo í morgun og gaf í gjafagrindurnar úti og hleypti ánum út. Núna um hádegið er komið ágætis veður.

Á myndinni eru mæðginin Brussa og Tryggur. Eins og sjá má er mamman orðin nokkuð gamalleg enda orðin 12 ára, en sonurinn er á besta aldri fæddur 30. september 2008.

 

 

26. des. 2012

 Það snjóaði dálítið á aðfangadag og á jólanóttina, þannig að það er enginn skortur á jólasnjó hér. Ég gæti alveg  með glöðu geði látið eitthvað af þessum snjó til þeirra sem kvarta sáran undan jólasnjóleysinu, en þeir verða þá líka að yfirtaka þau vandræði sem af snjónum leiða.

Nú eru jólagestirnir allir horfnir á braut. Hjalti er farinn áleiðis til Slagelse að heimsækja Auði Maríu systur sína og fjölskyldu. Hann ætlar að gista hjá Jónasi og Guðrúnu í Keflavík í nótt og fer svo með flugi til Kaupmannahafnar í fyrramálið

 

24. des. 2012

Með þessarri mynd frá Staðarbakka sendum við Sigrún okkar bestu kveðjur og óskir um gleðileg jól til allra sem heimsækja síðuna okkar. Megi friður Guðs ríkja sem víðast á komandi jólanótt. Guð blessi ykkur öll.

 

Jólagestirnir, þau Hjalti, Sólveig og Tómas Leonard komu heldur með seinna fallinu eða ekki fyrr en kl.17. Þeim gekk svolítið brösuglega síðasta spottann, þar sem það er búin að vera snjókoma í dag ofan á alveg glæra svell á veginum, en allt hafðist þetta nú. Hér má svo sjá lítinn jóladreng vera búinn að hjálpa afa sínum að raða pökkunum undir jólatréð.

 

 Hér eru svo allir sestir að jólaborðinu.

23. des. 2012

 Það eru alveg að koma jólin og hér eru mæðginin í Helgamagra greinilega komin í jólaskapið. Auk þess er mamman að fagna afmælinu sínu sem er í dag. Við hér inn í miðjum Tröllaskaganum óskum henni til lukku með það. Svo eru þau væntanleg í sveitina á morgun.     

20. des. 2012

Í dag komu nágrannar okkar og frændfólk mitt á Myrkárbakka í stutta heimsókn. Þórir og Ásta Júlía með frumburðinn sinn hann Aðalstein Ísak og eins og sjá má á myndinni eru þau að vonum sæl og glöð með hann.

Og hér erum við frændurnir.

Það voru tilhleypingar í Flögu í gær og í dag. Ærnar voru sprautaðar til að samstilla beiðslið. Það var farið með 7 fullorðna hrúta í Flögu í gærkveldi og haldið undir þá tæpum 90 ám. Restin var svo rekin heim í dag og þeim haldið undir lambhrúta. Anton og Einar Gauti komu frá Akureyri til að hjálpa okkur við þetta. Þeir gistu hérna í nótt sem leið, en fóru svo aftur í bæinn seinnipartinn í dag. Gott að þetta verkefni er frá.

17. des. 2012

Hér eru vinirnir Tómas og Gestur og Tómas búinn að setja kórónu á Gest.

16. des. 2012

Konan er alltaf eitthvað í hannyrðunum fyrir jólin og hér er ein afurðin.

Tómas Leonard í heimsókn og jólasveinki búinn að klófesta hann.

12. des. 2012

Það styttist í jólin og sá gamli farinn að setja upp útiljósaseríurnar.

14. des. 2012

Í morgun fór ég á stjórnarfund hjá SAH svf. sem haldinn var á Blönduósi. Ég hef oft gaman af að skoða þær breytingar, sem geta orðið á sköpunarverkinu og það á tiltölulega stuttum tíma. Myndin hér að ofan var tekin á leiðinni vestur rétt áður en ég kom á Blönduós og gæti sem best heitið, Dagrenning.

Þessi mynd var svo tekin á heimleiðinni nánast á sama stað og getur borið heitið, Degi hallar. Tvær myndir af náttúruverki skaparans, en bera þó gjörólíka sýn á það. Er ekki tilveran öll dálítið magnþrungin eða hvað? 

 

13. des. 2012

,,Ástarstjörnu

yfir Hraundranga

skýla næturský."

Svo hefst ljóð öxndælska skáldsins Jónasar Hallgrímssonar, Ferðalok.

Já, það voru vissulega ferðalok í dag og ekki laust við að ský trega og söknuðar, þegar Erla Margrét Halldórsdóttir á Auðnum, fór sína hinstu för fram Öxnadalinn í dag og var þar lögð til hvílu við hlið eiginmanns síns Ara Jósavinssonar í Bakkakirkjugarði, en hans ferðalok urðu í hágróandanum 2007.

Skáldið Jónas á líka orð sem geta talað inn í athöfnina í Bakkakirkjugarði í dag, í loka erindi Ferðaloka.

,,Háa skilur hnetti

himingeimur,

blað skilur bakka og egg.

En anda, sem unnast,

fær aldregi

eilífð að skilið."

Erla var fædd á Skútum í Glerárþorpi 26. desember 1929 og ólst þar upp í foreldrahúsum auk tveggja yngri systkina. Ung gekk hún að eiga móðurbróður minn, Ara á Auðnum og þar settu þau saman sitt bú. Þar var þröngt búið framan af, engar hallir eða seinni tíma þægindi fremur en annars staðar gerðist um miðja síðustu öld. En af þrautseigju og dugnaði byggðu þau íbúðar- og peningshús og ræktuðu jörð og búpening af natni og einlægum áhuga. Erla var mikil húsmóðir bæði til munns og handar. Það fór enginn svangur frá Erlu á Auðnum, hvorki til hugar né maga. Þar var fram borið af rausn fyrir gesti. Erla var músíkölsk, söngelsk og mikil hannyrðakona. Auk alls þessa bar hún takmarkalausa umhyggju fyrir fjölskyldu sinni og stuðlaði að því með öllum ráðum að vegur hennar og velferð væri ætíð sem bestur.

Það er mér ofarlega í huga nú, stjörnubjart vetrarkvöld á útmánuðum 2007 og við Sigrún vorum að koma inn úr fjárhúsunum og augu okkar hvörfluðu eins og gjarnan gerist við þessar aðstæður að stjörnunum yfir Hraundranganum, þar sem Ástarstjarnan er fremst meðal jafningja. Þetta hafði þau áhrif að ég segi við Sigrúnu, ættum við að skreppa í heimsókn til Ara og Erlu á Auðnum, sem og við gerðum. Þetta varð yndisleg kvöldstund sem við áttum með þessum góðu hjónum, er varð síðasta heimsóknin áður en Ari féll frá. Ég verð því ætíð þakklátur stjörnunum að hafa gefið mér þessa góðu hugdettu.

Við Sigrún þökkum Erlu af alhug fyrir samferðina á lífsins leið og biðjum henni blessunar á nýju tilverustigi.

Að endingu hvarflar hugurinn aftur til öxndælska skáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Því þegar maður er kominn á efri ár fara skyldmenni og vinir að kveðja einn af öðrum. Hverri komu í þennan heim fylgir óhjákvæmilega einhvern tímann kveðjustund. Hér eiga vel við eftirfarandi ljóðlínur úr kvæði Jónasar, Vísur Íslendinga.

,,Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi,
því táradöggvar falla stundum skjótt,
og vinir berast burt á tímans straumi,
og blómin fölna á einni hélunótt." -

 

11. des. 2012

Það er enn fjárans vandræði á kerfinu hjá 123.is og því hefur lítið verið sett inn undanfarið. Ég ætla að reyna að bæta úr því aðeins núna þar sem þetta virðist skrölta þessa stundina.

Stekkjarstaur

Þar sem hann Stekkjarstaur er væntanlegur í nótt eða fyrramálið ætla ég að setja hér hlekk inn á myndir, sem náðust hér af jólasveini koma til byggða fyrir nokkrum árum.

Hér eru myndirnar.

 

4. des. 2012

Það er víðar vetrarríki þessa dagana en á gamla Fróni. Þessa mynd fengum við senda frá Slagelse. Þar má sjá systkinin: Gauta Heimi, Ívar Franz og Ídu Guðrúnu vera alsæl að leika sér í snjónum, enda er þetta víst fyrsti snjór vetrarins í Danaveldi þennan veturinn og þá er nú gaman að búa til alls konar karla og kerlingar úr þessu hvíta efni sem hrynur niður úr himinhvolfinu.

3. des. 2012

Hjalti skógarhöggsmaður á Hallormsstað á afmæli í dag. Við sendum honum okkar bestu kveðjur og ósk um að allt gangi vel í jólavertíðinni við skógarhöggið.

Myndin var tekin þegar við heimsóttum Hjalta í Hallormsstað í mars sl.

 

2. des. 2012

Mæðginin í Helgamagra voru hjá okkur um helgina. Tómas að skemmta ömmu sinni og afa og Sóveig að lesa undir próf í lögfræðinni næstu daga. Af myndinni má ef til vill ráða að Tómas sé að hjálpa mömmu sinni við lærdóminn, en það er víst misskilningur allavega var hans hjálpsemi ekki vel þegin við þetta torræða nám. Svo er nú það.

 

1. des. 2012

Þá er jólamánuðurinn genginn í garð enn einu sinni og sjálf aðventan hefst á morgun. Það er ýmislegt sem tengist þessum tíma og hér í sveitinni hefst jólaundirbúningurinn varla mikið fyrr og skreytingar nokkru síðar. En eins og sjá má á myndinni, setti frúin upp jólagardínurnar og aðventuljós í eldhúsgluggann. Góð byrjun það.

 

Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar