24. júní 2012
Klárað var að rýja Flögu-ærnar í dag og sleppa þeim til fjalla. Við byrjuðum í fyrradag en svo var hlé í gær. Ærnar voru orðnar mjög órólegar og vildu fyrir alla muni komast í sína sumarhaga.
Þeir feðgar Snæbjörn, Kristófer Breki og Alexander Brimar komu í dag að hjálpa okkur við rúninginn. Á myndinni eru þeir bræður búnir að hreiðra um sig í ullarbingnum, áður en lagt var á stað heim að afloknum rúningnum.
23. júní 2012
Þessi gjörvulegi hópur fór í fjallgöngu héðan í dag. Þau gengu upp í skarðið norðan við Dranga og kíktu yfir í Öxnadalinn og voru þau alsæl með daginn að lokinni göngunni.
Við Sigrún fórum á árlega Jónsmessunæturhátíð Hörgs í Baugaseli í kvöld. Gestir voru með fæsta móti, aðeins á milli þrjátíu og fjörutíu. Að venju var sungið, farið með bundið mál og nesti snætt. Þá var farið í leiki, meira að segja í "Jósep segir" sem Bjarni E fyrrverandi formaður félagsins hefur stjórnað á nánast öllum Jónsmessuhátíðum fram að þessu. En nú var Bjarni fjarri góðu gamni, þar sem hann var á leiðinni til Japans. Því urðu aðrir að taka að sér að sjórna leiknum, sem að þessu sinni hét að vísu "Bjarni segir". Allt var þetta hin ánægjulegasta stund í Baugaseli, nú þegar bjartasti tími ársins er og yndisleg kvöldkyrrð í Barkárdalnum.
22. júní 2012
Í gær átti vinur okkar Bjarni á Möðruvöllum sjötugsafmæli. Hann bauð svo ættingjum og vinum til afmælisfagnaðar í Hlíðarbæ í kvöld. Við Sigrún fórum að sjálfsögðu í hann og við það tækifari var þessi mynd tekin. Á myndinni er Brynhildur elsta dóttir Bjarna ásamt barnabörnunum hans að fara með gjörning fyrir afa sinn.
15. júní 2012
Í kvöld komu vinir okkar Inga og Sævar í heimsókn og frúin bauð þeim upp á ljúffengt lambakjöt og að sjálfsögðu úr eigin ræktun, hvað annað?
9. júní 2012
Við eyddum deginum með Sólveigu og Tómasi Leonard. Sólveig var að útskrifast frá Háskólanum á Akureyri með B.A. próf í lögfræði.
Myndin var tekin heima í Helgamagrast. áður en gellan fór í útskriftina, sem hófst kl. 10:30 í Íþróttahöllinni. Kl. 14 var svo hátíðardagskrá í Háskólanum. Þar tók Katrín Jakobsdóttir fyrstu skóflustunguna fyrir byggingu 5. áfanga á Sólborg. Þar voru einnig fleiri fyrirmenni t.d. eins og forseti vor og frú. Í kvöld fórum við svo út að borða á Greifanum og enduðum þannig þennan frábæra dag, sem skartaði hinu blíðasta veðri, glampandi sól og hita.
Hér er svo útskriftarhópurinn í Lystigarðinum á Akureyri...
...og hér er Sólveig með pæjunum sem útskrifuðust með henni í dag, með B.A. próf í lögfræði.
8. júní 2012
Blessuð frúin var að klára þennan flotta dúk í dag, sem hún hefur verið að grípa í með sauðburðarönnunum.
7. júní 2012
Við fórum í bæinn í dag, en komum við á Ytri Bægisá hjá Stefáni Lárusi. Ég var að líta á nýja fjárvog og flokkunargang, sem við vorum að fá. Gunnar í Sandfellshaga flytur þetta inn og kom með þetta allt saman til Stefáns í gær.
6. júní 2012
Í kvöld fagnaði Helgi Bjarni Steinsson á Syðri Bægisá, hálfrar aldarafmæli sínu í Hlíðarbæ. Þangað fórum við Sigrún og einnig um hálft annaðhundrað sveitunga og vina Helga að gleðjast með honum í kvöld. Þetta var frábær veisla þar sem boðið var bæði uppá mat og drykk eins og hver gat í sig látið.
Meðfylgjandi mynd var tekin fyrir rúmum tveimur árum, þannig að Helgi er kannski örlítið ellilegri í dag.
4. júní 2012
Það er nú gott að hvíla sig á sínum leikskóla og gerast leikskólastjóri. Hér er Tómas Leonard leikskólastjóri á lambaleikskólanum Gimbill ábúðarfullur að fylgjast með máltíð ungviðisins.
3. júní 2012
Við fluttum í Flögu og rákum í Nýjabæ í sól og blíðu í dag. Það er nú farið að fækka verulega því lambfé sem eftir er hér heima.
Doddi er búinn að vera hjá okkur viku í sauðburðinum, það er nú alveg frábært og ómetanlegt að hafa svo vanan mann. Við kunnum honum alúðarþakkir fyrir alla hjálpina.
Hér eru lömin komin í sitt hólf á vagninum, tilbúin að bruna út á Flögutún.
1. júní 2012
Hér eru þeir Doddi og Tryggur aðeins að slappa af í sólarblíðunni eftir að hafa rekið hóp af lambám í Nýjabæ.
En Doddi fékk nú meiri þjónustu en Tryggur, áður en haldið var út í sterkt sólskinið. Sólveig makaði á hann sólarvörn númer fjörutíu!
Í dag bar hún Lipurtá mín (forystuá) sínu fyrsta lambi. Þetta er eins og sjá má ljómandi falleg gimbur. Það er bara einn galli á gjöf ,,Njarðar" hann er sá að það er afarlítið komið undir mömmuna. Það er nú svo sem ekki alveg óþekkt að forystuær mjólki frekar lítið. Vonandi rætist úr þessu hjá henni Lipurtá minni.